Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    Árni Tryggvason látinn 99 ára að aldri

    apr 14, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Árni Tryggvason lést þann 13. apríl sl.

    Árni Tryggvason, einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, lést í gær 99 ára að aldri. Örn Árnason sonur hans greindi frá andláti föður síns á Facebook.

    Árni fæddist 19. janúar 1924 að Víkurbakka á Árskógsströnd. Hann er líklega þekktastur fyrir túlkun sína á Lilla Klifurmús í rómaðri uppsetningu Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi 1977 sem væntanlega hefur verið mikið spiluð á hverju heimili síðan. Þar lék hann á móti Bessa Bjarnasyni sem var Mikki refur en Bessi og Árni mynduðu á löngu tímabili einskonar tvíeyki og birtust í auglýsingum sem vöktu mikla athygli. Árni var að upplagi revíuleikari og vissi sannarlega hvernig átti að snerta strengi í þjóðarsálinni.

    Örn Árnason leikari, sonur Árna, greindi frá fráfalli föður síns í orðsendingu þeirra systkina til vina og ættingja:

    „Kæru ættingjar og vinir.
    Þá er tjaldið fallið í síðasta sinn hjá pabba okkar Árna Tryggvasyni leikara. Hann kvaddi þennan heim í hádeginu þann 13.apríl uppi á Eir, sem var hans dvalarstaður og foreldra okkar hin síðustu ár. Pabbi fæddist 19 janúar 1924 og náði því að verða 99 ára gamall. 
    Mamma lést í júli á síðasta ári, 94 ára og nú dansa þau loksins valsinn sinn saman. Kærar þakkir til Eirar fyrir umönnun foreldra okkar hin síðustu ár. Pabbi var alla tíð mikil aðdáandi Samuels Becketts leikritaskálds og lék tvisvar í leikriti hans „Beðið eftir Godot“ sem hann hafði miklar mætur á. Beckett fæddist 13.apríl og pabbi okkar dó 13.apríl. Godot kallar menn til sín þegar tíminn er kominn. Hann var 13.apríl fyrir pabba.“

    Undir rita Jóna Magga, Svanlaug og Örn.

    Við hjá Leikhús.is vottum ættingjum og vinum okkar dýpstu samúð um leið og við þökkum Árna Tryggvasyni fyrir þær ómetanlegu stundir sem hann færði okkur með list sinni.

    Disneysöngleikurinn Frost (Frozen) í Þjóðleikhúsinu

    apr 13, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Söngleikurinn Frost mun rata á fjalir Þjóðleikhússins á næsta leikári.

    Gísli Örn Garðarsson leikstjóri (Vesturport) mun sviðsetja nýja uppfærslu af Disneysöngleiknum Frost (Frozen) á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Sýningin er samstarfsverkefni Vesturports og Det Norske Teatret í Osló, Þjóðleikhússins á Íslandi, Borgarleikhússins í Stokkhólmi og Borgarleikhússins í Helsinki. Tilkynnt verður um danskt leikhús innan tíðar. 

    Leikhúsin munu í sameiningu sviðsetja nýja uppfærslu á söngleiknum, sem upphaflega var framleiddur af Disney Theatrical Productions. Líkt og á Broadway mun sýningin á Frosti (Frozen) vera byggð á tónlist og söngtextum eftir Óskarsverðlaunalagahöfundana Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez, og handriti eftir Óskarsverðlaunahöfundinn Jennifer Lee. Gísli Örn Garðarsson mun leikstýra þessari nýju uppfærslu og leiða listrænt teymi hönnuða, sem í eru meðal annars leikmyndahöfundurinn Börkur Jónsson og búningahöfundurinn Christina Lovery, sem munu sækja innblástur í litróf okkar eigin menningararfs. Bragi Valdimar Skúlason mun þýða söngleikinn á íslensku og þýða alla söngtexta upp á nýtt.  

    Söngleikurinn Frost (Frozen) er byggður á samnefndri teiknimynd Disney og ævintýri danska rithöfundarins Hans Christian Andersen, Snædrottningunni, frá 1844. Í sögumiðju eru tvær systur, Elsa sem býr yfir dularfullu leyndarmáli og er einangruð frá umheiminum og Anna sem leggur af stað í ferðalag til að bjarga henni. 

    Gísli Örn Garðarsson leikstjóri (Vesturport) mun sviðsetja nýja uppfærslu af Disneysöngleiknum Frost (Frozen) á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku.

    Ævintýrið sækir innblástur í norrænan menningararf, náttúru og goðsagnir og við erum afar stolt af því að fá tækifæri til að færa áhorfendum á Norðurlöndunum nýja uppfærslu á þessum söngleikja-stórviðburði. Í sýningunni eru lagasmellir á borð við „Let it Go„, „Do You Want to Build a Snowman“ og fleiri vinsæl lög úr kvikmyndinni, en auk þess hafa Óskarsverðlaunahafarnir sem sömdu hina upprunalegu tónlist, unnið nýjan hljóðheim fyrir söngleikinn og þar er m.a. að finna tólf ný lög, sem voru sérstaklega samin fyrir söngleikinn. 

    Sýningin verður frumsýnd í Osló 14. október 2023 og síðan frumsýnd í Reykjavík í febrúar 2024. Sýningar í Stokkhólmi, Helsinki og Kaupmannahöfn verða kynntar síðar.   

    Öll norrænu leikhúsin eru full tilhlökkunar að sýna söngleikinn og taka þátt í þessu spennandi samstarfi: 

    Gísli Örn Garðarsson leikstjóri:
    “Ég er fullur eftirvæntingar yfir því að fá að gæða norrænu útgáfuna af þessum geysivinsæla söngleik lífi ásamt frábærum hópi listamanna. Þvílík veisla, segi ég bara.” 

    Leikhússtjóri Þjóðleikhússins, Magnús Geir Þórðarson:
    “Við hlökkum mikið til að sýna splunkunýja sýningu á þessu ástsæla verki, sem byggt er á norrænum sagnaarfi, í nýrri uppfærslu Gísla Arnar, eins af okkar fremstu leikstjórum, en hann er þekktur fyrir hugmyndaríkar og magnaðar sýningar bæði hérlendis og erlendis.” 

     Bragi Valdimar Skúlason, þýðandi íslensku gerðarinnar:
    „Eftir að hafa horft með athygli á þetta meistaraverk músasmiðjunnar á annað hundrað sinnum og sungið með fullum hálsi gegnum grátstafina og gleðitárin — treysti ég mér fullkomlega til að leggja Önnu, Elsu og öllum hinum samnorrænu vinum mínum íslensk orð í bæði munn og belg, svo fullur sómi sé að.“ 

    Listrænn stjórnandi Det Norske Teatret, Erik Ulfsby:
    „Leikhúsið okkar er afar spennt að takast á við verkefnið, sem felst í því að skapa þá ævintýralegu töfra sem leynast í sagnaheimi söngleiksins Frost.  Við erum hæstánægð með samstarfið sem er að fara í gang.“ 

    Listrænn stjórnandi Borgarleikhússins í Stokkhólmi, Maria Sid:
    „Það er okkur sönn ánægja að taka þátt í þessu samstarfi og þróa norræna útgáfu af hinni sígildu sögu eftir H.C. Andersen. Að fá, ásamt vinum okkar á Íslandi, í Noregi, Finnlandi og Danmörku, að færa þennan söngleik í norrænt samhengi.“  

    Listrænn stjórnandi Borgarleikhússins í Helsinki, Kari Arffman:
    „Í gegnum árin hefur leikhúsið okkar sett upp nokkra Disney-söngleiki, en þetta er í fyrsta sinn sem við munum framleiða einn slíkan í norrænu samstarfi. Það að framleiða Frost er því tvöfalt gleðiefni fyrir okkur!“ 

    Svæðisstjóri og SVP hjá The Walt Disney Company Nordic & Baltic, Hans van Rijn, hefur þessu við að bæta:
    Áhorfendur á Norðurlöndum hafa tekið ástfóstri við sögurnar og persónurnar úr Frosti allt frá því að fyrsta myndin var frumsýnd fyrir áratug síðan. Ég get ekki séð fyrir mér betri leið til að gleðja hina fjölmörgu aðdáendur verksins, en með frumuppfærslu á Norðurlöndunum á söngleiknum okkar, sem fylgir handriti og tónlist eins og hún var upphaflega þróuð hjá Disney fyrir Broadway uppsetninguna, en nú í endurgerð hins skapandi norræna teymis. Við hlökkum mikið til að vinna með Gísla Erni Garðarssyni og leikhúsunum að því að blása nýju lífi í þetta ástæla verk fyrir svið“.  

    Um Frost og upprunalegu Broadwayframleiðsluna á Frozen: 

    Söngleikurinn Frost (Frozen) var upphaflega framleiddur af Disney Theatrical Productions. Hann var frumsýndur í St. James leikhúsinu á Broadway í mars 2018. Sýningin var söluhæst allra sýninga frá upphafi í forsölu á Broadway. Frozen var einnig tekjuhæsti nýi söngleikurinn á Broadway á fyrsta ári sínu á Broadway. Söngleikurinn hefur náð alþjóðlegum vinsældum og verið sýndur á leikför um Ástralíu og Norður-Ameríku, og á West End í London, í Japan og Hamborg í Þýskalandi í upprunalegu Broadway útfærslunni. 

    Teiknimyndin Frozen var gefin út af Disney 19. nóvember 2013 og sló í gegn bæði meðal gagnrýnenda og áhorfenda. Hún hlaut yfir 1,28 milljarða Bandaríkjadala í miðasölutekjur á heimsvísu og varð tekjuhæsta teiknimyndin á þeim tíma, sem og tekjuhæsta tónlistarmyndin, þar til endurgerð á The Lion King fór fram úr henni árið 2019. Frozen II hlaut mestu aðsókn allra teiknimynda á heimsvísu á fyrstu sýningum og hlaut yfir 1,45 milljarða Bandaríkjadala í miðasölutekjur.   

    Fyrsta myndin vann til tveggja Óskarsverðlauna, fyrir Best Animated Feature og Best Original Song („Let It Go“) og tveggja Grammy-verðlauna fyrir Best Compilation Soundtrack for Visual Media og Best Song Written for Visual Media („Let It Go“).

    Húsfélagið

    apr 13, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Leikfélagið Hugleikur setur upp leikritið Húsfélagið sem kemur úr höfundasmiðju félagsins. Áratugum saman hafa húsfélög stigaganga A og B í Fögruhlíð 84 unnið hlið við hlið í sátt og samlyndi en aðskilin þó. Nú er kominn tími til að sameina þau í eitt og þá er friðurinn úti. Erjur, forboðnar ástir, gönguhópar, silfurskottur, brask, slúður og, já, Brennu-Njálssaga, ásamt öllum þeim vandamálum sem við mætum í samneyti við nágranna fléttast hér saman í sprenghlægilega satíru sem þú vilt ekki missa af. Gunnar Björn Guðmundsson leikstýrir verkinu en hann á farsælan feril að baki og hefur meðal annars leikstýrt Ástrópíu, Ömmu Hófí og Áramótaskaupinu. Hátt í 30 manns taka þátt í leiksýningunni, þar af 11 leikarar.

    Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson

    Höfundar: Ásta Gísladóttir
    Elín Jónína Bergljótardóttir
    Elísabet Katrín Friðriksdóttir
    Eyjólfur Kristjánsson
    Loftur S. Loftsson
    Sigríður Bára Steinþórsdóttir
    Þórarinn Stefánsson

    Tónlist: Loftur S. Loftsson
    Söngtextar: Loftur S. Loftsson
    Sævar Sigurgeirsson
    Elísabet Katrín Friðriksdóttir

    Leikritið er sett upp í Leikhúsi Leikfélags Kópavogs í Funalind 2, 201 Kópavogi.

    Don Pasquale

    apr 13, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Ljúffengar laglínur og leiftrandi fjör

    Don Pasquale, gamall forríkur piparsveinn á biðilsbuxunum. Ernesto, ungur og myndarlegur frændi hans og einkaerfingi. Hin glæsilega Norina, ung og efnalítil ekkja. Læknirinn og bragðarefurinn Malatesta setur af stað óborganlega atburðarás í þessari ærslafullu gamanóperu sem er full af ljúffengum laglínum og leiftrandi fjöri.

    Nánd við áhorfendur og potað í óskrifaðar reglur

    Sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum. Þau vilja miklu frekar taka þær upp, hrista af þeim rykið og leika sér að þeim, pota í óskrifaðar reglur og skemmta sér og öðrum. Þau trúa á nálægð við áhorfendur og einlæga túlkun á tungumáli sem áhorfendur skilja. Fyrsta sýning þeirra, Ástardrykkurinn, sló rækilega í gegn á síðasta leikári.

    Úr gagnrýni um Ástardrykkinn:

    “Þetta er vægast sagt frábærlega heppnað hjá Óði. Það má ekki á milli sjá hvert þeirra nýtur sín best. […] Það er afslöppuð en orkurík leikgleði í öllum framgangi flytjendanna.” ÞT – MBL

    “Þetta unga fólk syngur svo vel að ekki þarf að kvíða óperuflutningi á Íslandi í framtíðinni. […] [Ö]ll fjögur eru fínir leikarar sem tjá allar þessar ruglingslegu tilfinningar eins og þau skilji þær djúpum skilningi.” SA – TMM

    “Fjörug og full af lífi, og góð skemmtun líka fyrir fólk sem ekki þekkir vel til óperumenningar.”
    SB – RÚV

    Don Pasquale er samstarfsverkefni Óðs og Þjóðleikhússins, og er styrkt af Sviðslistasjóði og Launasjóði sviðslistafólks.

    Hassið hennar mömmu

    apr 2, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Hassið hennar mömmu eftir Dario Fo verður sýnt á Flateyri um páskana.

    Leikfélag Flateyrar setur á svið gamanleikinn Hassið hennar mömmu, eitt allra vinsælasta leikrit ítalska leikskáldsins Dario Fo. Hér er á ferðinni skopleikur af bestu gerð sem bætir hressir og kætir, tilvalinn til að kitla hláturtaugarnar yfir páskana. Sýningin er fyrsta uppfærsla Leikfélags Flateyrar síðan 2013 og er leikhópurinn er skipaður ungum og efnilegum íbúum á Flateyri. Leikstjóri er Elfar Logi Hannesson.

    Fo á Vestfjörðum

    Það var Leikfélag Reykjavíkur sem varð fyrst til að kynna meistara Dario Fo fyrir Íslendingum. Það var árið 1965 þegar félagið sýndi Þjófar, lík og falar konur. Svo mikil var kátínan með stykkið að það var sýnt í þrjú leikár. Sama leikfélag kynnti okkur einnig fyrir leiknum Hassið hennar mömmu. Sem var frumsýnt 4. apríl 1982 og sýnt við fádæma vinsældir í Austurbæjarbíói. 

    Dario Fo hefur einnig notið mikilla vinsælda leikfélaga á Vestfjörðum. Líklega var Leikfélagið Baldur á Bíldudal fyrst til setja verk eftir skopleikjaskáldið ítalska á senu hér vestra. Það var einmitt áður nefndur leikur Þjófar, lík og falar konur sem félagið sýndi 1969. Sama félag sýndi einnig annan Fo leik Við borgum ekki! Við borgum ekki! 1991 og Litli leikklúbburinn Ísafirði sýndi sama leik 2009. Áður hafði Litli sýnt Fo leikinn Sá sem stelur fæti, verður heppinn í ástum árið 1978. Nágranni þeirra Leikfélag Bolungarvíkur sýndi sama leik 1993 og árið 2013 sýndu þau hinn bráðfjöruga Fo leik Félegt fés. Aðrir nágrannar vestfirskir sýndu Fo stykkið Markolfa með stuttu millibili Leikfélag Patreksfjarðar árið 1994 og Leiklistardeild UMFT á Tálknafirði tveimur árum síðar. Enn fjórum árum síðar var sami leikur settur á senu hjá Leikfélagi Hólmavíkur. Samkvæmt lauslegum heimildum ritara þá hafa tveir aðrir Fo leikir verið sýndir hjá vestfirskum leikfélögum. Fyrst skal nefna Betri er þjófur í húsi en snurðra á þræði sem Leikfélagið Hallvarður Súgandi sýndi árið 2001. Að lokum er það Hassið hennar mömmu, sem Leikklúbbur Menntaskólans á Ísafirði setti á svið 1987 í leikstjórn Odds Björnssonar. Sýndu Menntskælingar meira að segja í leikhúsinu á Flateyri og því má segja að Hassið sé aftur komið heim.

    Elfar Logi Hannesson

    Gaflaraleikhúsið kynnir Guðrúnarkviðu

    mar 25, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Guðrúnarkvið verður frumsýnd 31. mars í Gaflaraleikhúsinu.

    Guðrún vaknar í kistu í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla athöfnina. Kolsvartur tragískur gamanleikur um meðvirkni.
    Guðrúnarkviða er klukkutíma einleikur eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur sem einnig leikur öll hlutverk í sýningunni. Allir sem eiga eftir að deyja ættu að geta fundið eitthvað til að tengja við í Gaflaraleikhúsinu 31. mars og 1. apríl kl. 20.00. Verkið var upphaflega leikstýrt af Hildi Kristínu Thorstensen og er enduruppsett með aðstoð Bjarkar Jakobsdóttur.

    Saumastofan

    mar 24, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Hofsóss setur upp Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson.

    Leikfélag Hofsóss frumsýnir Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson í Höfðaborg á Hofsósi laugardaginn 25. mars kl. 20:30. Leikstjóri er María Sigurðardóttir.

    Saumastofan er leikrit með söngvum sem frumsýnt var árið 1975, í tilefni kvennaársins. Leikritið er skrifað sem ádeila á þjóðfélagið á sínum tíma og er staða konunnar miðpunktur ádeilunnar. Verkið segir frá degi í lífi starfsfólks á saumastofu en ein kvennanna á afmæli og slá þær upp veislu í tilefni þess. Velt er upp ýmsum spurningum um stöðu konunnar, svo sem launamismun kynjanna, feðraveldið, þriðju vaktina og annað sem enn er í brennidepli.  Þannig á verkið, þrátt fyrir að það sé ekki alveg nýtt af nálinni, vel við enn í dag og hefur það ratað reglulega á fjalirnar hjá áhugaleikfélögum landsins. En þrátt fyrir að undirtónninn sé alvarlegur er ávallt stutt í gamanið svo heimsókn í Höfðaborg ætti að geta orðið hin besta skemmtun.

    Hlutverkin í leikritinu eru níu talsins en auk þess koma um 20 manns að sýningunni á einn eða annan hátt.

    Sýningar verða sem hér segir:
    Frumsýning – laugardag 25. mars kl. 20:30
    2. sýning – sunnudag 26. mars kl. 20:30
    3. sýning – þriðjudag 28. mars kl. 20:30
    4. sýning – laugardag 1. aprílkl. 20:30
    5. sýning – mánudag 3. apríl kl. 20:30
    6. sýning  – fimmtudag 6. apríl, skírdag kl. 15:00
    7. sýning – fimmtudag 6. apríl, skírdag kl. 22:00
    8. sýning – laugardag 8. apríl kl. 20:30
    Lokasýning – föstudag 14. apríl kl. 20:30

    Miðaverð:
    Fullorðnir 3.500 kr.
    Ellilífeyrisþegar 3.000 kr.
    Börn 6-14 ára 2.500 kr.
    Miðapantanir eru í síma 834-6153

    Rómantík í Borgarleikhúsinu

    mar 24, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Anna Margrét Ólafsdóttir

    Ólafsdóttir er þekkt sem myndlistar- og gjörningalistakona en hér stígur hún skref á ská í sýningu um rómantík. Rómantík er alls konar, hún getur verið milli elskhuga, vina, með sjálfum manni, innan fjölskyldu eða með ókunnugum.

    Rómantík sem tilfinning er sannkölluð joie de vivre, hún gerir lífið safaríkt og hjálpar okkur að njóta augnabliksins. Eða hvað? Neyslusamfélagið og dægurmenning hafa í áraraðir sagt okkur hvað við eigum að gera til að vera rómantísk, en hvað er rómantík í raun og veru? Í þessari sýningu verður gerð tilraun til að leiða áhorfendur í svokallað rómantískt skap á ferðalagi sínu um rýmið. Rómantík er partur af Umbúðalausu verkefni Borgarleikhússins þar sem markmiðið er að styrkja grasrótarstarf í íslensku sviðslistalífi og efla tengsl nýrra sviðshöfunda við áhorfendur .

    Maður í mislitum sokkum

    mar 23, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Maður í mislitum sokkum verður sett upp hjá Leikfélagi Hólmavíkur.

    Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir á sunnudaginn gamanleikinn Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backman. Leikstjóri er Skúli Gautason. 

    Fullorðin kona sest upp í Skódann sinn eftir að hafa farið í búið til að kaupa í matinn. Þá situr eldri maður í framsætinu sem er orðinn kaldur og aumur, veit ekki hvar hann er eða hver hann er. Konan tekur hann með sér heim og hlúir að honum, en brátt taka málin að flækjast. Konan, sem er ekkja og ósköp einmana, finnst ágætt að hafa einhvern til að hugsa um – en má þetta? Má hirða mann sem maður finnur úti á götu og láta engan vita?

    Leikfélag Hólmavíkur er eitt öflugasta leikfélag landsins og hefur sett upp 1-2 sýningar árlega undanfarin 40 ár. 

    Sýnt verður í félagsheimilinu Sævangi. Hægt er að panta súpu fyrir sýningar. Miðasölusíminn er 693 3474. Sýningardagar eru sunnudagurinn 26. mars kl.16, laugardaginn 1.apríl kl 20, sunnudaginn 2. apríl kl 20, skírdag kl 20 og lokasýning 8.apríl kl 20.

    Leiklistarskóli BÍL 2023

    mar 19, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Starfstími skólans á þessu ári er frá 17. til 25. júní.

    Kæru leiklistarvinir!

    Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og sjötta sinn. Skólinn blómstar sem aldrei fyrr og við sjáum fram á mikla sköpun, metnað og gleði í sumar.

    Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði. Árni Pétur Guðjónsson mun endurnýja kynni sín við skólann og kenna Leiklist II sem er framhald af Leiklist I sem Ólafur Ásgeirsson kenndi í fyrra. Einnig mætir Jenný Lára Arnórsdóttir til okkar aftur og kennir Leikstjórn III sem er þriðji áfangi í framhaldsseríu hennar og systur hennar Völu Fannell í leikstjórn sem hófst 2021. Við bjóðum svo velkominn í kennarahópinn í fyrsta sinn, Björn Inga Hilmarsson. Hann mun kenna sérnámskeið fyrir leikara undir heitinu Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri (Ex Uno Pluris).
    Þá bjóðum við höfundum í heimsókn til að skerpa stílvopnið! Við vonum að sem flestir eigi þess kost að koma, nema og njóta.

    Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju, Elli, Jónheiður, Hrefna, Dýrleif og Gísli Björn.

    LEIKLIST II
    Kennari er Árni Pétur Guðjónsson
    Þátttökugjald: 109.000 kr.

    Forkröfur: Leiklist I.
    Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu.

    Námskeiðslýsing:
    Leiklist II er grunnnámskeið fyrir leikara, ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I eða eiga að baki sambærilegt nám eða reynslu.

    LEIKSTJÓRN III – Framhald af Leikstjórn II

    Kennari: Jenný Lára Arnórsdóttir
    Þátttökugjald: 109.000 kr.

    Forkröfur: Leikstjórn I og II.
    Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu. Námskeiðið er framhald af Leikstjórn II sem Jenný Lára kenndi 2022. Þeir ganga fyrir sem sóttu það námskeið eða hafa sótt önnur sambærileg námskeið í leikstjórn

    SÉRNÁMSKEIÐ FYRIR LEIKARA – Ex Uno Plures – Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri

    Kennari: Björn Ingi Hilmarsson
    Þátttökugjald: 109.000 kr.

    Forkröfur: Leiklist I og II eða sambærileg menntun og umtalsverð leikreynsla.
    Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu.

    Sérnámskeið fyrir leikara – Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri (Ex Uno Plures)

    Höfundur í heimsókn

    Þátttökugjald: 87.000 kr.

    Blundar í þér skáld? Ertu að burðast með hugmynd? Áttu hálfskrifað handrit? Vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?
    Skólinn býður höfundum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif eins og svo oft áður. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.
    Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.
    Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!

    Síður:«1...6789101112...91»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!