Nemendamótsnefnd Verzlunarskóla Íslands kynnir með stolti söngleikinn ”Rocketman!”
Leikstjóri og höfundur er Júlíana Sara Gunnarsdóttir. Söngleikurinn er byggður á samnefndri bíómynd um líf Elton John og má þar heyra frábæra smelli og sjá söguna um viðburðaríkt líf þessa heimsfræga söngvara.
Sýnt verður í leikhúsi Verzlunarskólans sem nemendur hafa sett sjálfir upp. Gengið er inn um vinstri inngang beint á móti Kringlunni.
Leikfélag Fjallabyggðar sýnir um þessar mundir gamanleikritið Beint í æð eftir Ray Cooney í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Verkið er sannkallaður flækjufótur sem kallar á að áhorfandi taki ekki augun af sviðinu og fylgist með af öllum kröftum.
Leikstjóri verksins er Valgeir Skagfjörð en þetta er í fyrsta skipti sem Valgeir leikstýrir fyrir Leikfélag Fjallabyggðar. Leikarahópurinn er fjölbreyttur en alls taka 11 leikarar þátt í sýningunni á aldrinum 17 til 62 ára Þar af eru tveir sem eru að þreyta frumraun sína á leiksviðinu.
Sýnt er í Tjarnarborg í Ólafsfirði og hægt er að panta miða á sýningar í símum 863-2604 (Guðrún) og 849-5384 (Vibekka).
Póst-Jón er Gamanópera um söngfugla og skrautfjaðrir.
Póst-Jón er íslensk staðfæring Óðs á gamanóperunni Le postillon de Lonjumeau eftir franska tónskáldið Adolphe Adam sem var frumsýnd í París árið 1836 við gríðarlegan fögnuð áhorfenda. Hún hefur síðan þá ekki notið þeirra vinsælda sem hún á skilið en hún gerir grín að óperuforminu á hátt sem aðeins sönnum óperuunnanda gæti tekist. Óperan fjallar um póstmanninn Jón sem býðst skyndilega að flytjast til Danmerkur til að gerast óperusöngvari en þarf þá fyrirvaralaust að yfirgefa eiginkonu sína Ingibjörgu sem hann gekk að eiga fyrr sama dag. Tíu árum síðar hittast þau aftur í Kaupmannahöfn með ófyrirséðum afleiðingum.
Nánd við áhorfendur og potað í óskrifaðar reglur
Sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum. Þau vilja miklu frekar taka þær upp, hrista af þeim rykið og leika sér að þeim, pota í óskrifaðar reglur og skemmta sér og öðrum. Þau trúa á nálægð við áhorfendur og einlæga túlkun á tungumáli sem áhorfendur skilja. Fyrsta sýning þeirra, Ástardrykkurinn, sló rækilega í gegn og fylgdu því efir með frábærri sýningu á Don Pasquale.
Óður er Listhópur Reykjavíkur 2024 og er sýningin styrkt af Reykjavíkurborg.
Við endimörk sólkerfisins bíða fimm geimfarar eftir afleysingu. Enginn kemur. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir berast engin svör frá jörðu. Tíminn líður. Klukkan tifar á jarðartíma, þó sólarhringurinn á Plútó sé 153 tímar. Hvenær missir fólk tengsl við tímann þegar ekkert viðmið er lengur til að mæla daga, vikur, mánuði, ár? Tíminn verður afstæður og raunveruleikinn molnar í sundur þegar fimm einstaklingar eru lokaðir í rými sem engin leið er að komast út úr.
Dulmagnað og hrollvekjandi spennuleikrit eftir eitt athyglisverðasta leikskáld Bretlands síðustu ára.
Leikfélag Hornafjarðar frumsýnir söngleikinn Lísu í Undralandi, laugardaginn 9. mars. Lísa leggur af stað í ótrúlegt ferðalag þar sem á vegi hennar verða ýmsar furðuverur og og hún lendir í allskonar óvæntum uppákomum. Leikstjóri er Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir og er þetta frumraun hennar sem slíkur.
Alls taka 14 leikarar þátt í sýningunni en í hlutverki Lísu er Magndís Lóa Aðalsteinsdóttir. Birna Jódís Magnúsdóttir sér um leikmynd, búninga og útlitshönnun en lætur það ekki nægja þvi hún fer einnig með hlutverk Hjarta Drotningarinnar. Hafdís Hauksdóttir er tónlistarstjóri og fer einnig með hlutverk kálormsins. Ljósahönnuður er Þorsteinn Sigurbergsson. Leikhópurinn er afar fjölbreyttur og má m.a. nefna að aldursdreifing í hópnum er frá 17 til 64 ára.
Sýnt er Í Mánagarði og miðasala í símum 691-6750 og 892-9354 milli kl. 17.00-19.00.
Leikritið Sex í sama rúmi er sýnt í Dalvík um þessar mundir
Sex í sama rúmi fjallar um Philip og Joanna Markham sem eru hamingjusamlega gift. Philip er barnabóka útgefandi og vinnur á neðri hæð íbúðar þeirra hjóna, ásamt félaga sínum Henry Lodge sem er kvæntur en hviklyndur í hjónabandinu. Henry hefur talið Philip á að lána sér íbúðina þetta kvöld til að eiga ástarfund með nýjasta viðhaldinu. Linda, eiginkona Henry veit að hann er henni ótrúr og hún biður Joanna um að lána sér sömu íbúð til að hitta þar mann sem hún ætlar að sofa hjá til að hefna sín á Henry. Alistair Spenlow er í ástarsambandi við au-pair stúlku Markham hjónanna og þau hafa líka skipulagt ástarfund á staðnum þetta kvöld. Hvað gæti farið úrskeiðis?
Halaleikhópurinn frumsýnir bandaríska gamanleikritið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Menchell fös. 8. mars. Leikstjóri er Pétur Eggerz og þýðandi verksins er Elísabet Snorradóttir,
Kirkjugarðsklúbburinn er verk um vináttu og ástir eldra fólks. Aðstæður eru breyttar hjá Idu, Doris og Lucille sem eru búnar að missa lífsförunauta sína. Ekkjurnar takast á við sorgina með ólíkum hætti. Þær fara saman að vitja leiða eiginmannanna í kirkjugarðinum einu sinni í mánuði og allt er með kyrrum kjörum þangað til Sam kemur til sögunnar, sem kemur reglulega í kirkjugarðinn í sömu erindagjörðum og vinkonurnar. Í kjölfar þess kemur ástin til sögunnar og lífsmynstri þeirra og jafnvel vináttu er ógnað.
Vinkonurnar eru ekki sammála um hvernig ekkjur eiga að haga sér enda hafa hjónaböndin verið mis góð. Lucille sem hefur verið ekkja í skemmstan tíma, reynir að bera sig vel og er kaldhæðin og gamansöm en þegar allt kemur til alls tilfinningarík og góð manneskja.
Doris er fremur stíflynd kona en góð inn við beinið, hún vill vera trú minningu mannsins síns eins og hún var honum trú meðan hann lifði. Hún efast aldrei og gengur jafnvel skrefinu of langt þegar hún vill verja heiður og siðsemi Idu.
Ida er eðlilegust af vinkonunum og reynir oft að semja friðinn á milli hinna tveggja. Hún er umburðarlyndust af þeim og tekur dauðsfalli mannsins síns ekki með eins öfgakenndum hætti og hinar tvær. Hún sættir sig við að hann sé dáinn og vill halda áfram að Iifa lífinu eins eðlilega og henni er unnt.
Sam er kjötiðnaðarmaður, góður og óframfærinn. Hann er ekkill og á erfitt með að fara út með konum, þar sem hann ber þær alltaf saman við eiginkonuna sína sálugu. Síðan verður Sam ástfanginn og þá fara hlutirnir að gerast.
Fjórða konan, Mildred kemur við sögu í verkinu hún er hálfgerð glenna og er væntanlega ætlað að undirstrika samheldni vinkvennanna þriggja og kannski fjöllyndi Sams.
Kirkjugarðsklúbburinn fjallar í hnotskum um mannlegar tilfinningar og hvernig fólk bregst við hinum ýmsu uppákomum daglegs lífs. Kjarni málsins er sá að fólk verður að sleppa takinu, njóta þess sem liðið er í stað þess að ríghalda í það sem raunveruleika.
Vinkonumar þrjár eru leiknar af þeim Hönnu Margréti Kristleifsdóttur, Sóleyju B. Axelsdóttur og Stefaníu B. Björnsdóttur. Ekkilinn leikur Jón Gunnar Axelsson og kunningjakonu þeirra leikur Margrét Eiríksdóttir.
Frumsýning er 8. mars eins og áður sagði og sýnt er í Halanum Hátúni 12. Miðasala í síma 897 5007
Leikfélag Mosfellssveitar frumsýnir Línu Langsokk þann 3. mars 2024
Sterkust af öllum hún er! Sýningin um hina uppátækjasömu Línu langsokk eftir Astrid Lindgren verður frumsýnd hjá Leikfélagi Mosfellssveitar sunnudaginn 3. mars. Þegar ný stelpa flytur inn í Sjónarhól með apann sinn Herra Níels og hestinn Litla Kall umturnast líf Tomma og Önnu og þau lenda í hverju ævintýrinu á eftir öðru. Leikstjóri er Aron Martin Ásgerðarson. Sýningar eru í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ á sunnudögum kl. 13.
Kómedíuleikhúsið hefur gert fjórar bráðfjörugar og ævintýralegar brúðumyndir um Bakkabræður fyrir netsjónvarp. Þeir bræður á Bakka eru án efa þekktustu bræður á Íslandi og víst er að margir sjá sjálfan sig í þeim. Góður hópur listamanna kemur að myndunum. Brúðumeistari er Marsibil G. Kristjánsdóttir, brúðuleikari er Elfar Logi Hannesson, Diddú eða Sigrún Hjálmtýsdóttir er hinn syngjandi sögumaður og flytur hinar kunnu Bakkabræðravísur Jóhannesar úr Kötlum. Tónlistin er samin af Birni Thoroddsyni, gítarleikara með meiru.
Hið vestfirska fyrirtæki Haraldsson Prod. sá um framleiðslu og kvikmyndatöku. Það var Byggðastofnun sem lagði leikhúsinu lið við að koma bræðrunum á Bakka á netið.
Leikfélag Kópavogs sýnir barnaleikritið „Ferðin til Limbó“ eftir Ingibjörgu Jónsdóttur sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966.
Tónlist í verkinu er eftir Ingibjörgu Þorbergs. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama höfund sem kom út árið 1963. Leikritið var fyrsta leikritið eftir íslenska konu sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Leikritið hefur ekki verið sett upp síðan þó að það hafi hlotið mikla aðsókn á sínum tíma.
Leikritið er bráðskemmtilegt ævintýri fyrir yngri kynslóðina en skemmtilegir karakterar koma fram í verkinu sem kítla hláturtaugarnar.