Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    Þríleiknum lokað í haust

    maí 17, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Þríleikur Marius von Mayenburg verður fullkomnaður með Ilmi Kristjáns og Birni Thors í aðalhlutverkum.

    Æfingar á þriðja hluta Mayenburg-þríleiksins hófust í vikunni. Björn Thors og Ilmur Kristjánsdóttir fara með hlutverkin og Mayenburg sjálfur sér um leikstjórn en þetta er í fyrsta skipti sem hann leikstýrir á Íslandi. 

    Ex og Ellen B. voru frumsýnd á þessu leikári og hlutu mikið lof gagnrýnenda og afragðs aðsókn. Meðal þess sem gagnrýnendur nefndu var að hér væri um heimsviðburð að ræða, sýningu þar sem allt gengi upp og að stjörnuleikur einkenndi uppsetningarnar. 

    Þriðji hlutinn heitir Ekki málið og verður heimsfrumsýning á verkefinu á fjölum Þjóðleikhússins í september. Eins og áður sagði mun höfundurinn sjálfur, Marius von Mayenburg leikstýra verkinu en það var Benedict Andrews sem leikstýrði fyrri verkunum tveimur. Öll verkin þrjú verða sýnd samhliða í nóvember.

    Í tilkynningu frá leikhúsinu segir að verkin þrjú séu merk fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna þess að hér sé á ferð heimsfrumsýning á verkum eftir eitt eftirsóttasta leikskáld samtímans og vegna þess að þríleikur af þessu tagi hafi aldrei verið sviðsettur hérlendis. 

    „Ex og Ellen B. voru frumsýnd á þessu leikári og hlutu mikið lof gagnrýnenda og afragðs aðsókn. Meðal þess sem gagnrýnendur nefndu var að hér væri um heimsviðburð að ræða, sýningu þar sem allt gengi upp og að stjörnuleikur einkenndi uppsetningarnar. Enn eru tvær sýningar eftir á EX á leikárinu en nú hefur verið ákveðið, vegna þeirra móttakna sem sýningarnar hafa fengið, að þær komi allar aftur á svið í nóvember og verði þá sýndar í takmarkaðan tíma,“ segir í tilkynningu.

    Æfingar hófust á verkinu í vikunni. Bjarni Jónsson þýddi en sem fyrr er það Nína Wetzel sem hannar leikmynd og búninga.

    Allt er fertugum fært

    maí 17, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikhópurinn Perlan býður upp á leikhúsveislu í tilefni að 40 ára afmæli sínu.

    Leikhópurinn Perlan býður upp á leikhúsveislu í tilefni að 40 ára afmæli sínu. Frumsýnd verða tvö ný verk á þessum merku tímamótum. Fyrir hlé verður fjölskylduleikritið Mjallhvít og dvergarnir sjö. Eftir hlé fáum við Slysaskot í Palestínu byggt á samnefndu ljóði. Ný leikgerð var samin upp úr æfintýrinu Mjallhvít og dvergarnir sjö. Boðorð Metoo byltingarinnar um að ekki eigi að kyssa sofandi stúlku án samþykkis eru fléttuð inní þetta klassíska ævintýri. Einnig er fjölbreytileika samfélagsins fagnað þar sem hver má vera með sínu nefi svo framarlega sem það skaðar ekki neinn. 

    Létt og skemmtilegt ævintýri fyrir alla fjölskylduna.

    Leikarar eru:
    Birgir Þórisson
    Eva Peters
    Felix Magnússon
    Garðar Samúel Hreinsson
    Gerður Jónsdóttir
    Hildur Ýr Viðarsdóttir
    Hreinn Hafliðason
    Ragnar Ragnarsson
    Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson (Fúsi)
    Sigrún Árnadóttir

    Gestaleikari er:
    Elíndís Arnalds Pálsdóttir

    Tónlist:
    Máni Svavarsson
    Una Mist Óðinsdóttir

    Leikstjórn:
    Bergljót Arnalds

    Lónið

    maí 16, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    EINUNGIS ÞRJÁR SÝNINGAR VERÐA Á LÓNINU

    Þrjár mannverur stíga út fyrir þægindarammann í leit að hugarró og vellíðan í amstri hversdagsins. Þau leggja af stað í sjálfnærandi ferðalag, hannað fyrir bæði líkama og sál, en að ná fullkominni slökun hefur aldrei verið eins mikilvægt og á tímum sem þessum. Nú þarf að sigra hugann, örva skilningarvitin og komast í tengsl við líkama og sál. Ekkert má út af bregða.

    Lónið er sviðsverk um eymd mannlegrar tilveru á fordæmalausum tímum. Stóra sal Tjarnarbíós er umbreytt í snoturt baðlón þar sem flytjendur verksins svamla um í ökkladjúpu vatninu. Við fylgjumst með þeim gera heiðarlega tilraun til að njóta alls þess sem hægt er að óska sér í manngerðu náttúruundrinu. Lónið í Tjarnarbíói er nefnilega hápunktur mannlegs samfélags; neysluvæn paradís full af fallegum söngvum, skemmtilegu afþreyingarefni, djúpum teygjuæfingum, órökstuddum rökræðum, brotnum sjálfsmyndum og algjöru tilgangsleysi nútímamanneskjunnar. Hvað gæti mögulega klikkað?

    Lengd: 60 mínútur.

    Texti og leikstjórn: Magnús Thorlacius
    Flytjendur: Jökull Smári Jakobsson, Melkorka Gunborg Briansdóttir, Rakel Ýr Stefánsdóttir
    Tónlist og hljóðmynd: Ísidór Jökull Bjarnason
    Aðstoðarleikstjórn og sviðshreyfingar: Ragnhildur Birta Ásmundsdóttir
    Myndbönd: Hákon Örn Helgason, Nikulás Tumi Hlynsson
    Leikmynd og ljósahönnun: Magnús Thorlacius
    Aðstoð við búninga: Annalísa Hermannsdóttir
    Samsköpun í leikferli: Bjartey Elín Hauksdóttir, Hákon Örn Helgason, Jökull Smári Jakobsson, Magnús Thorlacius, Melkorka Gunborg Briansdóttir, Nikulás Tumi Hlynsson, Vigdís Halla Birgisdóttir
    Leikstjórn á markaðsefni: Annalísa Hermannsdóttir
    Kvikmyndataka á markaðsefni: Annalísa Hermannsdóttir, Hákon Örn Helgason
    Litaleiðrétting á markaðsefni: Nikulás Tumi Hlynsson
    Ljósmyndir af sýningu: Owen Fiene, Brian FitzGibbon
    PR: Björk Guðmundsdóttir
    Sérstakar þakkir: Anna María Tómasdóttir, Annalísa Hermannsdóttir, Björg Steinunn Gunnarsdóttir, Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir, Egill Ingibergsson, Fjölnir Gíslason, Guðmundur Felixson, Karl Ágúst Þorbergsson, Tryggvi Gunnarsson
    Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg.

    ASPAS

    maí 6, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Aspas er leikhúsupplifun í stórmarkaði.

    Aspas er í senn bráðfyndið og sársaukaþrungið verk frá árinu 2010 eftir rúmenska leikskáldið Gianina Cărbunariu, sem vakið hefur mikla athygli. Umfjöllunarefni verksins er mismunun og fordómar, mannleg samskipti og geymsluþol grænmetis í skugga verslunar og viðskipta á öld þjóðflutninga og tækifæra, offramboðs og ójöfnuðar.

    Tveir karlmenn, eldri borgari, leikin af Eggerti Þorleifssyni og erlendur farandverkamaður, leikin af Snorra Engilbertssyni, rekast hvor á annan við grænmetisborðið í stórri lágvöruverðsverslun. Þeir gefa hvor öðrum auga. Þeir hugleiða líf sitt. Svo koma nýjustu tilboðin.

    Guðrún Gísladóttir leikstýrir hér sínu fyrsta verki.

    Aðgangur að sýningunni er ókeypis, en bóka þarf miða. Sýningar eru á opnunartíma Krónunnar, en áhorfendur fylgjast með hljóðheimi verksins í gegnum heyrnartól sem þeir fá á staðnum, gegn framvísun aðgöngumiða.

    Athugið að aðeins 20 – 25 gestir komast á hverja sýningu.

    Sýningin, sem er fyrsta leikstjórnarverkefni leikkonunnar Guðrúnar S. Gísladóttur, verður sviðsett í Krónunni á Granda. Mörkin milli flytjenda og áhorfenda, leikhúsgesta og neytenda verða óljós og útkoman er leikhús þar sem allt getur gerst!

    Ókeypis er á sýninguna en hver gestur þarf að fá heyrnatól svo það er mikilvægt að bóka sér pláss.

    Dýrið og Blíða

    apr 27, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Blönduóss hefur vaknað úr dvala sínum.

    Leikfélag Blönduóss hefur legið í dvala í hartnær áratug en nú verður aldeilis breyting þar á. Leikfélagið setur nú á svið fjölskyldusýninguna Dýrið og Blíða eftir Nicholas Stuart Gray. Ungur og ferskur leikhópur tekur þátt í sýningunni og er það hinn reyndi leikstjóri, Sigurður Líndal sem stýrir hópnum. 

    Eins og forynja félagsins, G. Eva Guðbjartsdóttir orðar það þá hefur félagið „…verið að safna á sig köngulóavef undanfarin ár enda hefur ekki verið sett upp síðan 2014 og eru þetta því stór skref að stíga að byrja upp á nýtt nánast, með nýjan leikhóp. En núna erum við heldur betur búin að ryksuga og erum búin að vera á fullu að æfa, smíða, stússa og skapa töfra! Það styttist í að við getum sýnt ykkur afraksturinn og allir eru mjög spenntir!“ 

    Dýrið og Blíða er fjölskylduleikrit frá 1951, byggt á ævintýrinu sígilda. Disney-myndin vinsæla byggir á sömu sögu en efnistökin eru nokkuð ólík. Höfundur verksins [Nicholas Stuart Gray] er eitt ástsælasta barnaleikskáld Breta og verkið er leiftrandi af breskum húmor. Ævintýrið er fallegt og aðeins sorglegt, smekkfullt af töfrum. Verkið hentar allri fjölskyldunni nema kannski allra yngstu börnunum.

    Sýnt verður í Félagsheimilinu á Blönduósi verða sýningar:
    Laugardagur 29.apríl kl: 15:00 – Frumsýning
    Sunnudagur 30.apríl kl: 15:00 – 2.sýning
    Þriðjudagur 2.maí kl: 17:00 – 3. sýning
    Miðvikudagur 3.maí kl: 17:00 – 4. sýning

    Miðasala er í gegnum skilaboð á facebooksíðu félagsins eða í eftirfarandi símum milli kl 16.00-20.00:
    Erla – 825 1133 / Kristín – 847 1852.

    Miðaverð er 3500 kr.-
    Greitt er með millifærslu:
    kt: 451078-1439 – Reikningsnr: 0307 – 13 – 300001

    Á svið

    apr 27, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikhópurinn sem tekur þátt í sýningunni

    Leikfélag Sauðárkróks æfir þessa dagana leikritið Á svið eftir Rick Abbot. Þýðandi er Guðjón Ólafsson og leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir.
    Sýnt er í Bifröst á Sauðárkróki.
    Á svið  er leikrit um leikhóp sem er að setja upp leikrit, fyrsti og annar þáttur er æfing á verkinu og þar er ýmislegt sem kemur upp á. Í þriðja þætti er svo komið að frumsýningu og þá ætti nú allt að vera löngu tilbúið en eins og við vitum getur allt gerst á frumsýningum t.d. gæti höfundunum dottið í hug að gera eitthvað.
    Frumsýnt verður í byrjum sæluviku Skagfirðinga og eru áætlaðar 10 sýningar. 

    Frumsýning sunnudaginn 30. apríl kl; 20:00
    2. sýning þriðjudaginn 2. maí kl; 20:00
    3. sýning miðvikudaginn 3. maí kl; 20:00
    4. sýning föstudaginn 5. maí kl; 20:00
    5. sýning laugardaginn 6. maí kl; 16:00
    6. sýning sunnudaginn 7. maí kl; 17:00
    7. sýning þriðjudaginn 9. maí kl; 20:00
    8. sýning miðvikudaginn 10. maí kl; 20:00
    9.sýning föstudaginn 12. maí kl; 20:00
    Lokasýning sunnudaginn 14. maí kl;20:00

    Miðapantanir eru í síma: 849 9434

    Skógarbrúðkaup á Sólheimum

    apr 25, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikhópurinn á Sólheimum.

    Leikfélag Sólheima frumsýndi að venju á Sumardaginn fyrsta. Í ævintýraskóginum hittum áhorfendur hinar ýmsu ævintýrapersónur eins og Mikka ref, Öskubusku, Rauðhettu, Karíus, Baktus og Kaktus og fleiri. Margvíslegar breytingar hafa átt sér stað í lífi þeirra og umhverfi sem þau reyna að takast á við. Þegar konungurinn býður öllum í brúðkaupsveislu Prinsins, með ákveðnum skilyrðum, er þeim vandi á höndum!
    Það er mikill heiður fyrir leikfélagið að endurnýja kynnin við leikstjórann og höfundinn, Magnús J. Magnússon en hann starfaði á Sólheimum öll sumur frá 1980–1988 og stjórnaði þar slátturhóp. Á þessum árum setti hann upp þrjár sýningar með Leikfélagi Sólheima. 1983 setti hann upp Hópinn og 1984 leikverkið Lífmyndir. Farið var með þá sýningu í 6 vikna leikferð um Ísland og og víða um Norðurlönd.
    Tónlist er í umsjón Hallbjörns V. Rúnarssonar (Halla Valla). Leikmynd var unnin og sett upp af smíðastofu og búningar voru í umsjón vefstofu. Yfir fjörutíu einstaklingar koma að sýningunni, þar af 32 leikarar. Það má því með sanni segja að þetta sé stór og kraftmikil sýning þar sem allir fá hlutverk við hæfi.
    Sýningar fara vel af stað og var uppselt á frumsýningu á fimmtudaginn 20. Apríl. Þá var þétt setið á sýningum um helgina og eru næstu sýningar laugardag 29. apríl, sunnudag 30. apríl og 1. maí, alltaf kl. 14:00. Miðasala er  í síma 847-5323. 

    Leikhópurinn vonast til að sjá sem flesta um helgina og minnir á að það er alltaf sól á Sólheimum. 

    Svartþröstur

    apr 21, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Átakanlegt og áleitið verk sem sýnt er í Borgarleikhúsinu.

    Skrifstofumaður á miðjum aldri fær heimsókn frá ungri konu, sem leitar eftir uppgjöri vegna sambands þeirra mörgum árum áður. Hann á að baki fangelsisdóm, hefur hafið nýtt líf undir nýju nafni og tilviljun ein gerir það að verkum að konan hefur uppi á honum. Bæði eru þau þjökuð af fortíðinni sem hefur markað djúp spor í lífi þeirra. Hún hefur setið föst í sömu sporum í fimmtán ár á meðan hann hefur reynt að byrja upp á nýtt, en þegar hún birtist er ljóst að hið liðna verður ekki flúið.

    Átakanlegt og áleitið verk eftir eitt fremsta leikskáld Skota síðustu áratuga.

    Til hamingju með að vera mannleg

    apr 20, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Til hamingju með að vera mannleg var frumsýnt 19. apríl í Þjóðleikhúsinu.

    Til hamingju með að vera mannleg er nýtt íslenskt verk byggt á ljóðabók Siggu Soffíu sem hún skrifaði þegar hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. Verkið fjallar um þrautseigju, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri. Einnig um mikilvægi þess að treysta á aðra til að lifa af, um andlegt og líkamlegt þol og klisjurnar sem sanna sig aftur og aftur, eins og: „Það sem drepur þig ekki styrkir“. Og ekki síst um hvernig hægt er að sjá það fallega í erfiðustu aðstæðum.

    Ég bjó í 5fm rými í huga mínum,
    með hverri hugleiðslu stækkaði rýmið,
    með hverri stund í lyfjamóki flúði ég inn í
    mjúkan hugann og byggði þar hús og hallir.
    Síðar gat ég brotið heiminn niður og
    endurraðað púslunum.
    Hugur minn er ekki lengur skilgreint rými,
    hann er ósnortin náttúra, engi,
    syngjandi hrossagaukur,
    dramatísk fjöll og fljót,
    brimandi sjór og lygnar lindir.

    Hvað ef sósan klikkar?

    apr 17, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Gunnella Hólmarsdóttir sýnir leikverkið Hvað ef sósan klikkar? 
    í Tjarnarbíó í apríl og maí.

    Kæri áhorfandi, fáðu þér sæti á fremsta bekk og vertu vitni að hinum stórkostlega matreiðsluþætti, Hvað ef sósan klikkar? þar sem hin stórglæsilega Gunnella Hólmarsdóttir ætlar að matreiða fyrir okkur í beinni útsendingu og allt getur gerst! 

    En hvernig er þessi matreiðsluþáttur frábrugðin öðrum? Í þessum þætti þarf Gunnella að stýra upptöku, skemmta áhorfendum, sjá um auglýsingar og elda allan matinn frá grunni og það með klukkuna tifandi yfir sér. Nær hún að höndla hitann? Eða þarf hún að fara úr eldhúsinu?

    Jiii ég hefði nú bakað ef ég hefði vitað að þið væruð að koma!
    Matreiðslubækur eru áhugaverðar heimildir um líf fólks. Yfirleitt hafa slíkar bækur verið nýttar í matarfræðilegar rannsóknir, en nú eru þær í vaxandi mæli notaðar til að rannsaka hlutverk húsmæðra og hvernig það hefur breyst í tíma og rúmi. Þess vegna er spennandi að skoða hvað þessar bækur sögðu lesendahópi sínum um hvernig hin „rétta“ húsmóðir átti að fara að og skoða hvaða áhrif bækurnar hafa haft á konur tuttugustu aldar.

    Afsakið útgangin á mér!
    Er pressan um að vera hin góða húsmóðir búin að lúta lægra haldi fyrir framakonunni eða þarf hin nútíma kona mögulega að vera bæði framakona, góð húsmóðir, falleg og í góðu líkamlegu formi? Þarf hún mögulega að fylgjast enn betur með „tísku“ eldamennskunnar en áður þurfti? Þarf hún að kunna að elda Ketó – LKL – Vegan – glútenfrítt og sykurlaust? Hugsa um börnin og súrinn? Sinna hundinum, makanum, vinkonunum, tengdó og mæta í Kokteilaklúbbinn? Hafa tíma fyrir ræktina, þvottinn, veikindadaga barnanna og allt það sem Þriðja vaktin inniber! Passa svo að deila rétta efninu á samfélagsmiðlunum svo hún nái að skemmta „fylgjendum“ sínum þar. 

    Mikið ertu dugleg!
    Hvað er það sem hafði þessi áhrif á Gunnellu og fjölda annara kvenna? Eru þær með gallað DNA eða er eitthvað úr þeirra umhverfi sem hefur haft áhrif á taugaáföll kvenna yfir höfuð? 
    Eru matreiðslubækur hluti af þeim áhrifum?

    Síður:«1...567891011...91»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!