Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    Hvað sem þið viljið

    jan 10, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Hvað sem þið viljið, eftir Shakespeare, verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 12. janúar.
    • Margir okkar flinkustu gamanleikarar blása nýju lífi í ógleymanlegar persónur Shakespeares 
    • Karl Ágúst Úlfsson þýðir og skrifar nýja og léttleikandi leikgerð a einum skemmtilegasta gamanleik skáldsins en Ágústa Skúladóttir leikstýrir 
    • Í þriðja sinn sem verkið fer á fjalirnar en það var fyrst sýnt árið 1951 og aftur árið 1995 

    Fimmtudaginn 12. janúar frumsýnir Þjóðleikhúsið í Kassanum, Hvað sem þið viljið, eftir William Shakespeare, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Leikarar eru þau Almar Blær Sigurjónsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Kristjana Stefánsdóttir, sem semur einnig tónlist verksins, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Karl Ágúst Úlfsson þýðir verkið og skrifar leikgerðina ásamt leikstjóranum. 

    Hvað sem þið viljið, sem heitir á frummálinu, As you like it, er nú sett upp í þriðja sinn í Þjóðleikhúsinu en það rataði mjög snemma á fjalirnar, eða strax á 2. leikári leikhússins árið 1951. Þá var það í leikstjórn Lárusar Pálssonar og bar titillinn Sem yður þóknast í þýðingu Helga Hálfdánarsonar. Árið 1995 var það sýnt í leikstjórn Guðjóns Pedersen og aftur í þýðingu Helga.  

    Ný léttleikandi leikgerð í fjörugri og litríkri sýningu 
    Ágústa Skúladóttir leikstjóri er þekkt fyrir fjörugar, litríkar og heillandi sýningar, og nú hefur Karl Ágúst Úlfsson endurort texta skáldsins á léttleikandi nútímamál í nýrri leikgerð sem er full af húmor og brotin upp af stórskemmtilegri tónlist. Margir okkar flinkustu gamanleikarar blása nýju lífi í ógleymanlegar persónur Shakespeares.

    Ærslagangur, tónlist  og hjörtu barmafull af ást – í kynjaskógi Shakespeares.

    Þessi galsafulla gleðisýning færir okkur skemmtilegasta gamanleik Shakespeares í splunkunýjum búningi, þar sem möguleikar leikhússins eru nýttir á frjóan og ævintýralegan hátt og list leikarans er í forgrunni. 

    Veröldin er leiksvið! 
    Elskendurnir ungu Rósalind og Orlandó neyðast til að flýja, hvort í sínu lagi, undan ofsóknum. Þau hrekjast út í skógana miklu, þar sem þeirra bíða kostuleg ævintýri meðal annarra útlaga.

     Dulargervi, margfaldur misskilningur, ráðabrugg, fíflalæti og eldheitar ástríður.

    Leikstjórn og leikgerð 
    Ágústa Skúladóttir 
    Þýðing og leikgerð 
    Karl Ágúst Úlfsson
    Tónlist og tónlistarstjórn 
    Kristjana Stefánsdóttir 
    Leikmynd og búningar 
    Þórunn María Jónsdóttir 
    Lýsing 
    Jóhann Bjarni Pálmason 
    Hljóðhönnun 
    Brett Smith

    Ég lifi enn – sönn saga

    jan 6, 2023   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Ég lifi enn – sönn saga verður frumsýnt 7. janúar í Tjarnarbíó.

    „Ég lifi enn – sönn saga” er ljóðrænt verk sem spilar saman hreyfingu, raunverulegum texta eldri borgara um þetta síðasta æviskeið og fallegu sjónarspili. 

    Verkið er innblásið af persónulegri reynslu aðstandenda við að fylgja sínum nánustu inn í síðasta æviskeiðið og þeirra sem eru staddir í því sjálfir. Það er byggt á sögum, vinnusmiðjum og rannsóknarvinnu með eldri borgurum, með stuðningi Reykjavíkurborgar.

    Sýningin vekur hugleiðingar um aðstæður í samfélagi okkar. Átökin á milli löngunarinnar til að lifa sem lengst og óttans við að deyja ásamt þeim hindrunum sem mæta okkur í þeirri glímu.

    Við viljum eldast af virðingu og reisn en hver er forgangsröðin? Reynslan sýnir að þegar við eldumst er hver sjálfum sér næstur. Er þetta það samfélag sem við viljum? Höfum við húmor fyrir því?

    LISTRÆN STJÓRNUN: Rebekka A. Ingimundardóttir.

    LEIKSTJÓRI: Rebekka A.Ingimundardóttir og Ásdís Skúladóttir.

    HÖFUNDAR: Rebekka A. Ingimundardóttir, Þórey Sigþórsdóttir, Ásdís Skúladóttir og leikhópurinn LEIKMYNDAHÖFUNDUR: Rebekka A.Ingimundardóttir
    DANS OG HREYFIHÖNNUN: Juliette Louste
    DRAMATÚRG: Hlín Agnarsdóttir
    BÚNINGAHÖNNUN OG SAUMUR: Hulda Dröfn Atladóttir
    TÓN- OG HLJÓÐSMÍÐAR Steindór Grétar Kristinsson LAGASMÍÐAR OG KÓRSTJÓRN: Gísli Magna Sigríðarson
    LJÓSAHÖNNUN: Juliette Louste
    MYNDBANDSHÖNNUN: Stefanía Thors MÁLARI: Þorsteinn Davíðsson GRAFÍSK HÖNNUN: Aðalborg Birta Sigurðardóttir

    FRAMLEIÐSLA: Heba Eir Kjeld
    MYNDBANDSHÖNNUN: Stefanía Thors
    FRAMLEIÐSLA: Heba Eir Kjeld
    GRAFÍSK HÖNNUN: Aðalborg Birta Sigurðardóttir

    LEIKARAR:
    • Þórey Sigþórsdóttir
    • Halldóra Rósa Björnsdóttir
    • Ingibjörg Gréta Gísladóttir
    Anna Kristín Arngrímsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Ásdís Skúladóttir, Helga E. Jónsdóttir
    Jón Hjartarson, Sæmi Rokk Pálsson og Breiðfirðingakórinn.

    Hvíta tígridýrið

    des 29, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Hvíta tígrisdýrið er nýtt íslenskt ævintýraverk sem verður frumsýnt 7. janúar nk. í Borgarleikhúsinu.

    Nýtt íslenskt barna- og ævintýraverk um þrjú börn sem finna óvænt hugrekki til að mæta hættum sem leynast í skuggunum.

    Hvíta tígrisdýrið er nýtt íslenskt barnaverk eftir Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttur. Verkið fjallar um Gírastúlkuna, Klakadrenginn og Ósýnilegu stúlkuna, þrjú börn sem búa uppi á háalofti undir ógnarstjórn Konunnar með kjólfaldinn. Þeim hefur verið talin trú um að veröldin fyrir utan sé hættuleg og ekki bætir úr skák að Hvíta tígrisdýrið fylgist með hverri hreyfingu úr skuggunum. Fæstar fjölskyldur eru fullkomnar og fullorðnir þykjast stundum mega koma fram við börn eins og þeim hentar, en hvað gerist þegar börnin svara fyrir sig? Hvíta tígrisdýrið er dularfullt ævintýraverk um þrjú börn sem finna óvænt hugrekki til að mæta hættum sem leynast í skuggunum. 

    Hvíta tígrisdýrið er sett upp af leikhópnum Slembilukku í samstarfi við Borgarleikhúsið. Verkið er fantasíuverk í anda bóka á borð við Harry Potter, A Series of Unfortunate Events og Bláa hnattarins og hefur skýra vísun í þekkt ævintýraminni. Sjónheimur verksins ber einnig sterk einkenni fantasíubóka. Auk þess að skrifa verkið hannar Bryndís einnig búninga og leikmynd. Leikstjóri er Guðmundur Felixsson og leikarar í verkinu eru Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Jökull Smári Jakobsson, Laufey Haraldsdóttir og Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, sem snýr aftur á svið eftir 12 ára pásu. Eygló Höskuldsdóttir Viborg semur tónlist og hljóðmynd, Magnús Thorlacius er aðstoðarleikstjóri og Ragnheiður Maísól Sturludóttir er framkvæmdarstjóri. 

    Sýningin er fyrir gesti frá sex ára aldri en hentar einnig þeim allra hugrökkustu undir sex ára. Sýningin er styrkt af Sviðslistasjóði, Launasjóði listamanna og Borgarsjóði. 

    Mátulegir

    des 22, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Þessir herramenn verða mátulegir í Borgarleikhúsinu.

    Til er kenning um að áfengismagn í líkama mannskepnunnar sé í raun hálfu prómilli undir æskilegum mörkum. Áfengi hefur fylgt manninum frá örófi alda, þótt opna hugann, liðka fyrir samræðum og kynda undir sköpunargáfunni en getur jafnframt verið hættulegt og eyðileggjandi afl. 

    Í Mátulegum ákveða fjórir menntaskólakennarar á miðjum aldri að gera tilraun til að sannreyna kenninguna um að manneskjan sé fædd með of lítið áfengismagn í blóðinu – þeir eru lífsleiðir, staðnaðir í starfi og á góðri leið með að sigla einkalífinu í strand. 

    Getur verið að áfengi sé í raun svarið við vandamálum þeirra, svarið við lífsgátunni? Mátulegir er grátbroslegt verk um leitina að lífsneistanum, lífsfyllingunni og þá refilstigu sem sú leit getur leitt mann á. Verkið er sviðsútgáfa Thomas Vinterberg af kvikmynd hans DRUK sem unnið hefur til fjölda verðlauna.

    Ellen B.

    des 16, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Ellen B. er heimsfrumsýning á fyrsta verkinu í splunkunýjum þríleik Mariusar von Mayenburg .

    Spennuþrungið, eldfimt og einstaklega vel skrifað verk sem talar beint inn í samtíma okkar

    Stórviðburður í evrópsku leikhúsi: Heimsfrumsýning á fyrsta verkinu í splunkunýjum þríleik Mariusar von Mayenburg í leikstjórn verðlaunaleikstjórans Benedicts Andrews, leikmynd og búningar eftir hina virtu Ninu Wetzel.

    Mögnuð leikaraveisla

    Unnur Ösp Stefánsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir og Benedikt Erlingsson fara með hlutverk þriggja persóna sem hittast eina kvöldstund í heimahúsi. Samskiptin snúast fljótt upp í martraðarkennda viðureign, með grimmilegum ásökunum á báða bóga, þar sem enginn er óhultur og sannleikurinn smýgur stöðugt undan. Undir liggja ágengar spurningar um valdajafnvægi og trúnaðartraust í nánum samböndum, mörkin milli atvinnu og einkalífs, lygina og sannleikann – og ásakanir, hvort sem þær eru falskar eða sannar, eða málin flóknari en svo.

    Erlent listafólk í fremstu röð gengur til liðs við Þjóðleikhúsið

    Þjóðleikhúsið stendur fyrir stórviðburði í íslensku leikhúslífi á Stóra sviðinu – heimsfrumsýningu á glænýjum þríleik eftir Marius von Mayenburg, sem talinn er eitt merkasta núlifandi leikskáld Evrópu. Hinn heimsþekkti leikstjóri Benedict Andrews leikstýrir tveimur verkanna, Ellen B. og Ex, á leikárinu 2022-23 og Marius von  Mayenburg mun sjálfur leikstýra því þriðja, Alveg sama, haustið 2023. Nina Wetzel gerir leikmynd og búninga fyrir þríleikinn. Það er mikill fengur fyrir íslenska leikhúsgesti og listafólk að fá þetta virta leikhúslistafólk til samstarfs. Leikritin eru framúrskarandi vel skrifuð og fjalla um ástina og valdið í samtímanum, nútímafólk og nándina, af nístandi hreinskilni og kolsvörtum húmor. Bitastæð hlutverkin eru öll í höndum stórleikara.

    Magnús Geir Þórðarson, Marius von Meyenburg, Nina Wetzel og Benedict Andrews

    Benedict Andrews hefur sett upp rómaðar og margverðlaunaðar sýningar í virtustu leikhúsum heims, meðal annars í Þýskalandi, Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum. Í leikhúsi, óperu og kvikmyndum hefur hann leikstýrt heimsfrægu listafólki og á Íslandi er hann áhorfendum að góðu kunnur fyrir Grímuverðlaunasýningarnar Lé konung og Macbeth.

    Marius von Mayenburg er eitt stórvirkasta og beittasta leikskáld Evrópu í dag. Verk hans hafa verið þýdd á fleiri en þrjátíu tungumál og sett upp í leikhúsum víða um heim, auk þess sem hann hefur leikstýrt eigin verkum og annarra. Hann starfaði lengi sem dramatúrg við hið virta leikhús Schaubühne í Berlín í heimalandi sínu, Þýskalandi og hefur sett þar upp leiksýningar. Leikrit hans Sá ljóti, Stertabenda, Bæng! Og Eldfés hafa verið leikin hér á landi.

    Nina Wetzel er einn eftirsóttasti leikmynda- og búningahöfundurinn á meginlandi Evrópu um þessar mundir. Hún hefur starfað með leikstjórum í fremstu röð og unnið fyrir virt leikhús, óperuhús og leiklistarhátíðir víða um lönd. Hún er einn af nánustu samverkamönnum Thomasar Ostermeier við Schaubühne-leikhúsið.

    Karíus og Baktus í Freyvangi

    nóv 29, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Karíus og Baktus verður frumsýnt 3. desember í Freyvangi.

    Leikritið Karíus og Baktus þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hefur þessi saga um “kallana” tvo sem búa í holunum í tönnunum fylgt börnum þjóðarinnar frá 1965. Þeir voru hinsvegar að fara á svið í fyrsta skipti hjá Freyvangsleikhúsinu.


    Þeir Ormur Guðjónsson og Eyþór Daði Eyþórsson leika þá bræður Karíus og Baktus og fara þeir á kostum sem tanntröllin sem þykja fátt skemmtilegra en að borða sætindi og höggva í tennur. Sögumaðurinn kemur líka fyrir á sviði og er hann leikinn af hinum þaulreynda Jóni Friðrik Benónýssyni (Bróa). Svo er tannburstinn, sem er leikin af Ingimar Badda, fer hann hamförum um sviðið til að hreinsa tennurnar og vippar sèr svo í tannlæknaborslíki og lagar tennurnar, rètt áður en hann kemur aftur inná sem tannbursti og tekur síðustu hreinsun í tönnunum hans Jens.  Það er mikið sungið  í leikritinu  og hljómsveitin er líka á sviði en hana skipa þeir Reynir Schiöth píanóleikari, Gunnar Möller og Eiríkur Bóasson bassaleikarar. Tanngarðinn sjálfann fèkk Freyvangsleikhúsið að láni hjá leikfèlagi Stykkishólms en önnur leikmynd/propps og búningar voru í höndum Guðrúnar Elvu Lárusdóttur.

    Leikstjórinn er formaður Freyvangsleikhússins Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir og er þetta frumraun hennar í leikstjórn, en hún hafði dygga aðstoð frá Sveindísi Maríu Sveinsdóttur.
    Verkið hefur þróast í áranna rás og svo er einnig í uppsetningu Freyvanglseikhússins en boðskapurinn er alltaf sá sami: Hugsaðu vel um tennurnar þínar! 

    „Reynsla sem mælist í árþúsundum kemur saman í Borgarleikhúsinu“

    nóv 23, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikhópurinn er hokinn af reynslu. Mynd: Þorlákur Lúðvíksson

    „Það lá spenna í loftinu og eftirvæntingin var áþreifanleg þegar á annað þúsund ár af reynslu og þekking kom saman fimmtudaginn 17. nóvember til að lesa verkið Marat Sade,“ segir í tilkynningu frá framleiðanda verksins. 

    Tilefnið var upplestur á verkinu sem er eftir þýska leikskáldið og listamanninn Peter Weiss.

    „Þetta eru merkileg tímamót í leikhússögunni og verður gríðarlega gaman að fylgjast með þessu stórbrotna listafólki takast á við þetta margslungna verk sem frumsýnt verður 20. janúar 2023 á Nýja sviði Borgarleikhússins,“ segir í tilkynningunni. Verkið er í þýðingu Árna Björnssonar og leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson.

    Það er einstaklega skemmtilegt að meðalaldur leikara sýningarinnar er mun hærri en gengur og gerist í svona stórum uppsetningum.  „Reynsla sem mælist í árþúsundum kemur saman í Borgarleikhúsinu,“ segja aðstandendur sýningarinnar stoltir. 

    Með reynslumestu leikurum þjóðarinnar taka þátt í sýningunni en með hlutverk fara Arnar Jónsson, Árni Pétur Guðjónsson, Eggert Þorleifsson, Guðmundur Ólafsson, Hanna María Karlsdóttir, Harald G. Haraldsson, Helga Elínborg Jónsdóttir, Jón Hjartarson, Jórunn Sigurðardóttir, Júlía Hannam, Kristbjörg Kjeld, Margrét Guðmundsdóttir, Sigurður Skúlason, Viðar Eggertsson, Þórhallur Sigurðsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Reynir Jónasson og Reynir Sigurðsson.

    „Bæling og losti, kúgun og uppreisn, hinir jaðarsettu gegn valdinu! Marat/Sade, öðru nafni Ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn De Sade markgreifa, er eitt af öndvegisverkum 20. aldarinnar – marglaga og margslungið í efni og formi. Verkið, sem er eftir þýska leikskáldið Peter Weiss, var fyrst frumsýnt árið 1963 og hefur frá upphafi verið umdeilt og vakið sterk viðbrögð. Hér er leikrit inni í leikriti – vistmenn geðveikrahælisins í Charenton setja á svið verk undir stjórn hins alræmda markgreifa De Sade,“ segir um verkið.

    „De Sade er einnig höfundur leikritsins og sjálfur vistmaður á hælinu. Verkið hverfist um frönsku byltinguna og er þrungið átökum og andstæðum sem endurspeglast í hinum týndu sálum hælisins. Í uppfærslu Lab Loka og Borgarleikhússins á þessu kraftmikla leikriti verður til mögnuð sýning þar sem Nýja sviðið fyllist af mörgum dáðustu en jafnframt elstu listamönnum íslensku þjóðarinnar en þau yngstu eru um sjötugt og þau elstu fast að níræðu. Hér er óhætt að lofa einstakri upplifun og sjónarspili sem seint gleymist.“ Verkefnið er stutt af menningarráðuneytinu, bæði úr sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks.

    Pussy Riot í Þjóðleikhúsinu

    nóv 19, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Gjörninglistahópurinn Pussy Riot verður í Þjóðleikhúsinu 25. nóvember.

    Þessi sýning Pussy Riot er sambland af tónleikum, gjörningalist og pólitískum viðburði. Hún hefur í sumar verið sýnd víðs vegar um Evrópu og hlotið mikla athygli og lof. Sýningin var að hluta til æfð og þróuð í Þjóðleikhúsinu nú á vordögum, rétt eftir að Masha Alyokhina forsprakki hópsins kom sér hingað undan klóm rússnesks óréttlætis.
    Sýningin er skipulögð í samhengi við fyrstu yfirlitssýningu Pussy Riot sem opnar í Kling & Bang í lok nóvember.

    Gjörningar Pussy Roiot er án efa einhverjir mikilvæguastu pólitísku listaverk 21. aldarinnar. Ef einhverjir listamenn hafa gefið allt fyrir listina þá eru það þessir töffarar. Þungamiðjan í sýningunni er saga Möshu og lýsing hennar á helvtítinu sem Rússland Pútíns er. Glerhörð kvöldstund sem kýlir beint í magann og á sér í alvöru talað engan sinn líka


    Kjartan Ragnarsson
    Skoðist á eigin ábyrgð!

    Saga andófs og uppreisnar gegn kúgun og ritskoðun

     Pussy Riot er upphaflega feminísk pönkhljómsveit sem einsetti sér að vekja athygli á réttindabaráttu minnihlutahópa og berjast gegn Pútín og stefnu hans. Pussy Riot vakti heimsathygli þegar fimm meðlimir fluttu gjörninginn „pönkbæn“ í dómkirkju í Moskvu og birtu síðar myndband af atburðinum á netinu. Í kjölfarið voru þrjár þeirra dæmdar til tveggja ára refsivistar í vinnubúðum. Rússnesk yfirvöld sættu mikilli gagnrýni af alþjóðasamfélaginu og þótti dómurinn aðför að málfrelsi. Konurnar voru þó ekki látnar lausar fyrr en 21. mánuði síðar eftir kröftug mótmæli mannréttindasamtaka víða um heim.

    Kvöldvaka með Jóni Gnarr

    nóv 19, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Jón Gnarr er engum líkur þegar kemur að góðri sögustund.

    Jón Gnarr snýr aftur á svið Borgarleikhússins með Kvöldvökur sínar þar sem hann segir áhorfendum sannar en lygilegar sögur frá viðburðarríkum ferli sínum. Jón hefur komið víða við með Tvíhöfða, Fóstbræðrum, sem grínisti, rithöfundur og auðvitað sem borgarstjóri Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt og fá hafa aðrar eins sögur að segja og hann.

    Á Kvöldvökunni mun sagnamaðurinn Jón, líkt og áður, segja sögur úr sínu lífi og má með sanni segja að sumt af því sem hann hefur upplifað er alveg hreint lygilegt.

    Jón mun rifja upp gamlar sögur en líka nokkrar nýjar og óheyrðar. Hann mun deila með áhorfendum sögunni af því þegar honum var boðið til Kiev til að hitta Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu, en Jón og Besti flokkur hans voru Zelensky innblástur til að yfirgefa grín og glens en hella sér út í forsetakosningar. Jón mun líka trúa okkur fyrir sögum sem hann hefur þagað yfir hingað til um ýmislegt sem gekk á í Ráðhúsi Reykjavíkur á meðan hann var þar borgarstjóri.

    Hver Kvöldvaka er einstök upplifun og algjörlega á valdi örlaganornanna. Ekki vinnst tími til að segja frá öllu og því eru sögurnar, sem sagðar eru, dregnar blindandi uppúr pípuhatti töframannsins og hvert kvöld verður einstök upplifun þar sem sagnahefðin og frásagnargleðin mun ráða ríkjum.

    Aladin og töfralampinn

    nóv 11, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélagið Borg frumsýnir Aladin og töfralampann 12. nóvember

    Leikfélagið Borg í Grímsnesi frumsýnir nýja leikgerð á sögunni um Aladdín og töfralampann lau. 12 nóvember. Leikritið er skrifað af Sindra Mjölni og leikstýrt af Hafþóri Agnari Unnarssyni. Sagan um Aladdín er ein sú þekktasta úr hinum heimsfræga sagnabálki sem flestir þekkja sem Þúsund og ein nótt og Antoine Galland þýddi úr arabísku og gaf út snemma 18. öld. Þúsund og ein nótt. Í þessu sérsaumaða leikriti um Aladdín og töfralampann, þurfa vinirnir Aladdín og Badrúlbadúr að bjarga ríkinu og bestu vinkonu prinsessunnar frá illum galdramanni. Þau fá óvænta hjálp frá andanum í töfralampanum, apa, kexrugluðum soldáni og fleiri óvæntum karakterum. Sýnt er í leikhúsinu á Borg í Grímsnesi og Grafningshreppi en það gengur jafnan undir nafninu Borgarleikhús hjá heimamönnum af augljósum ástæðum,. Að sögn leikfélaga er óhætt  að lofa skemmtilegu ævintýri, góðri kvöldstund og jafnvel einni eða fleiri andateppum.

    Sýningar verða sem hér segir: 

    12. nóvember kl 20:00
    17. nóvember kl 20:00
    18. nóvember kl 20:00
    26. nóvember kl 16:00
    2. desember kl 20:00
    3. desember kl 16:00
    4. desember kl 16:00

    Síður:«1...10111213141516...92»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!