Köttur á heitu blikkþaki Tímalaus klassík Tennessee Williams í leikstjórn Þorleifs Arnar.
Í þessu meistaraverki Tennessee Williams kemur fjölskylda saman til að fagna stórafmæli föðurins, en þegar líða tekur á kvöldið er fögnuðurinn fljótur að snúast upp í andhverfu sína. Erfðadeilur, sálarflækjur og kynferðisleg spenna leiða persónur verksins á tilfinningaleg jarðsprengjusvæði, þar sem baráttan fyrir tilverunni, frelsinu og sannleikanum tekur yfir. Hvað erum við tilbúin að gera til að horfast ekki í augu við raunveruleikann?
Þorleifur Örn er þekktur fyrir umfangsmiklar sýningar og listræn stórvirki, en í þetta sinn tekst hann á við sígilt verk með innilegri nálgun og mögnuðum leikhópi. Þetta magnaða verðlaunaverk hefur aðeins einu sinni áður verið sett á svið í atvinnuleikhúsi á Íslandi en um fádæma vinsældir þess þarf ekki að fjölyrða.
Sýningarréttur: Nordiska ApS, skv. sérstöku samkomulagi við The University of the South, Sewanee, Tennessee.
Séríslenskur jólasöngleikur í bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ
Sangríuþyrstir ferðalangar freista þess að sleikja sólina á sólarströnd yfir jólin en bregður í brún þegar amstur jólanna eltir þau alla leið til Spànar og ógnar jólafriðinum.
Ylur er nýr sprenghlægilegur íslenskur jólasöngleikur með þekktum jólalögum í nýjum búningi eftir Aron Martin Ásgerðarson og Ástrósu Hind Rúnarsdóttur.
Leikstjóri er Aron Martin Ásgerðarson og tónlistarstjóri Þorsteinn Jónsson.
Heimur bókanna opnast með Hallgrími Helgasyni í Borgarleikhúsinu.
Hallgrímur Helgason er margverðlaunaður metsöluhöfundur sem fangað hefur hug og hjörtu þjóðarinnar með verkum sínum um fólkið í sjávarþorpinu Segulfirði í bókum sínum Sextíu kíló af sólskini, Sextíu kíló af kjaftshöggum og þriðju bókinni, Sextíu kíló af sunnudögum sem kom út nú í haust.
Hallgrímur er kunnur sögumaður og hefur haldið gríðarlega vinsæl námskeið þar sem hann opnar bækurnar upp á gátt fyrir lesendum sínum og nú gerir hann gott betur og býður gestum til sætis á Litla sviði Borgarleikhússins. Á sviðinu rekur hann frásögnina í gegnum skáldsögurnar af alkunnri list, les upp úr bókunum. lyftir hulunni af vinnuferlinu, baksögunum og innblæstrinum og gæðir persónur sínar lífi sem aldrei fyrr.
Leikfélagið Borg sýnir hinn sprenghlægilega farsa Svörtu kómedíuna í Félagsheimilinu Borg. Svarta kómedían er sprenghlægilegur farsi um ungan mann sem þarf að kljást við þrjá elskhuga sína, tannhvassan verðandi tengdaföður, og heyrnalausan miljónamæring – og það allt í algjöru rafmagnsleysi á regnvotu sunnudagskvöldi í London ca. 1965. Ungur listamaður og mikill elskandi að nafni Brindsley býr í hrörlegri íbúð í London sem hann er búinn að laga aðeins til fyrir kvöldið. Hann er kominn með nýja unnustu og á von á stórfenglegu kvöldi með afar mikilvægum gestum. Á ögurstundu fer rafmagnið af húsinu og í einni hendingu er kvöldið komið af sporunum … og lengi getur vont versnað.
Leikfélag Hafnarfjarðar hefur lokið störfum í bili eftir 88 ár.
Starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar hefur verið lögð niður, skv. ákvörðun aðalfundar þann 29. október 2024. Leikfélagið þakkar öllum félögum sínum og áhorfendum í gegnum tíðina fyrir samstarfið, leikinn, vináttuna, stuðninginn og gleðina, og fyrir að gera LH að þeim einstaka gullmola sem það hefur verið.
Þessi ákvörðun átti sér afar langan aðdraganda og var tekin einróma af fundarmönnum, en fundinn sátu félagar sem flestir hafa starfað áratugum saman hjá leikfélaginu. Þó ákvörðunin hafi reynst félagsmönnum afar þungbær, er þakklæti þó efst í huga fyrir þann fjársjóð sem félagið skilur eftir sig.
Úr skýrslu formanns á aðalfundi:
„Hafnarfjarðarbær eða íbúar í bænum geta hvenær sem er kosið að endurvekja starfsemi félagsins. Það er ósk okkar að svo verði, að stjórnendur bæjarins sjái mikilvægi þess að styðja við áhugaleikhúsið sem valkost í flóru lífsgæðaeflandi félagsstarfs fyrir íbúa bæjarins. Við höfum ítrekað lagt áherslu á að áhugaleikfélagið sé heilsueflandi og að það sé lýðheilsumál að fólk hafi kost á því að skapa og læra og þroskast og dafna og tjá sig í því hlýja og uppbyggjandi umhverfi sem áhugaleikfélagið er. Leikfélag Hafnarfjarðar hefur verið athvarf og andlegt heimili fyrir mörg og reynst jafnvel lífsbjörg fyrir sum. Í leikfélaginu er pláss fyrir alla en því miður er ekki alltaf pláss fyrir leikfélagið. Þannig er bara lífið. Þess vegna erum við á þessum tímamótum í dag og tilbúin til þess að leita á önnur mið þar sem okkur er tekið opnum örmum. Við erum tilbúin til þess að kveðja félagið okkar, sátt og þakklát, því við sem vorum félagið getum haldið áfram starfinu annars staðar og verðum áfram félagar í listinni um ókomna tíð.
Leikfélag Hafnarfjarðar mun lifa í frásögnum og heimildum og ekki síst í minningum okkar allra sem höfum iðkað leiklistina undir merkjum félagsins. Leikfélag Hafnarfjarðar deyr aldrei, það bara leggur sig um stund og safnar kröftum og fer svo fíleflt aftur í gang þegar aðstæður innan bæjarins eru því hagstæðari.
Leikfélag Flateyrar setur upp sígilda ævintýrið um Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason.
Villibörnin sem búa á hnettinum verða logandi hrædd þegar geimskip brotlendir. En ógurlega geimveran reynist vera hinn galsafulli Gleði-Glaumur. Hann lofar þeim endalausu fjöri og enn meira stuði í skiptum fyrir dass af æsku þeirra. En hvers virði er æskan? Og er hægt að fá hana til baka? Komið með í langhættulegasta ævintýri sem gerst hefur á Bláa hnettinum fyrr eða síðar.
Sýningartími: 90 mínútur. Stórskemmtileg sýning sem hentar allri fjölskyldunni.
Miðaverð: Forsöluverð: kr. 3.500. Miðaverð eftir 12 nóv. kr. 3.900. Nemendaverð kr. 3.000. (Leik-,grunn-,framhalds-, og -lýðskóla) Miðaverð við hurð kr. 4.500.
Ef þú gengur um með hugmynd að leikriti að þá gæti þetta verið fyrir þig.
Halaleikhópurinn skipuleggur leiklestra af ýmsu tagi í vetur. Í tilefni að því sendir hópurinn eftirfarandi skilaboð til allra sem áhuga kunna að hafa:
Ertu blundandi skúffuskáld? Áttu handrit að leikverki sem þig langar að hlusta á leiklesið ? Handritin þurfa ekki að vera fullbúin og þau mega vera drög eða hlutar – stutt eða löng – létt eða þung.Við erum ekki að leita eftir verkum eftir snillinga, það er öllu líklegra að þú verðir snillingur meðendurtekinni reynslu við að skapa eitthvað. Því ekki að gefa þér tækifæri á að fá verkið sem blundar í þér leiklesið af leikurum á öllum aldri eftir stutt æfingaferli, leikstýrt af atvinnuleikstjórum og/eða öðrum og sýnt fyrir áhorfendur. Þar færðu tækifæri til að heyra og sjá hvernig verkið virkar á þig sem og aðra.
Ertu í stuði? Hefurðu áhuga á að taka þátt í verkefni eins og þessu? Verkefni sem skuldbindur þig ekki í langan tíma, við stífar æfingar líkt og á fullbúnu leikriti heldur mun skemmri tíma sem þú getur gefið þér í að prófa að lesa leikrit fyrir framan áhorfendur, eftir stutt æfingaferli. Þú þarft samt að gefa þér tíma í nokkur kvöld og mögulega nokkrar helgar, en það fer eftir umfangi verksins. Það verður allt gert í samráði við þig og aðra þátttakendur 🙂
Er þetta fyrir þig? Svo ef þú liggur á handriti eða í þér blundar þörf til að takast á við leiklestur settu þig í samband við okkur hjá Halaleikhópnum – Leiklist fyrir alla með skilaboðum í síma.897 5007. Kíktu í kaffi til okkar á laugardagsmorgnum milli kl. 11 og 13 í Hátún 12 – inngangur nr. 3 að neðanverðu.
Sýning Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar var valin Athyglisverðasta Áhugaleiksýning ársins árið 2008 og flutt í Þjóðleikhúsinu það ár. Halaleikhópurinn er einnig handhafi Kærleikskúlunnar árið 2008. Stjórn er svo með ýmislegt fleira í bígerð sem kemur í ljós seinna.
Stórskemmtileg sýning sem gleður og yljar á aðventunni
Jólaboðið hefur heillað áhorfendur Þjóðleikhússins á aðventunni á fyrri leikárum. Nú býðst okkur enn á ný að fylgjast með sögu íslenskrar fjölskyldu með því að gægjast inn í stofu á aðfangadagskvöld, reglulega, á einnar aldar tímabili.
Við fylgjumst með fjölskyldunni koma saman á jólunum, á ólíkum tímum, og upplifum með henni umrót heillar aldar; seinni heimsstyrjöldina, breytingar í sjávarútvegi, hippatímabilið, tæknivæðingu þjóðfélagsins og um leið vandræði fjölskyldunnar við að laga sig að breyttum háttum og innbyrðis venjum. Fjölskyldan reynir að halda í hefðirnar en hin óhjákvæmilega framrás tímans setur hlutina úr skorðum og vekur sífellt nýjar spurningar og ný átök.
Sprellfjörug og frumleg en um leið hjartnæm sýning þar sem leikararnir leika ólíkar persónur á ýmsum aldursskeiðum – og leikhópurinn breytist ár frá ári.
Hinn óborganlegi Laddi er mættur í Borgarleikhúsið
Sýningin Þetta er Laddi er ævisöguleikrit á borð við Elly og Níulíf og í sýningunni fáum við að sjá Ladda hitta á sviðinu persónur á borð við Eirík Fjalar, Elsu Lund, Dengsa og Skrám. Laddi og helstu gamanleikarar Borgarleikhússins leika í sýningunni auk þess sem hljómsveit undir stjórn Jóns Ólafssonar mun spila í sýningunni.
Hver er Laddi? Og hvaðan kemur húmorinn sem hefur verið samofinn húmor heillar þjóðar í bráðum hálfa öld? Í þessari sýningu verður skyggnst inn í kollinn á Ladda, uppruni gamalkunnra persóna kannaður, þróun íslensks gríns sett undir smásjá og lyklar að manninum sjálfum á bak við grínið dregnir fram – en fyrst og fremst verður hlegið – og þakkað fyrir alla gleðina. Óborganleg sýning um óborganlegan mann sem fyrir löngu er orðinn þjóðargersemi og almannaeign.
Leikstjórinn og handritshöfundurinn Ólafur Egill hefur löngum sótt í íslenskan veruleika og sett upp hverja verðlaunasýninguna á fætur annarri þar sem hann kryfur samtímann og segir sögur þjóðarinnar. Nægir þar að nefna Níu líf og Ástu sem hann skrifaði og leikstýrði, og Elly sem hann skrifaði ásamt Gísla Erni Garðarssyni. Hér fær hann leikkonuna og handritshöfundinn Völu Kristínu Eiríksdóttur til liðs við sig í handritsskrifin og býður svo Þórhall Sigurðsson, sjálfan Ladda, velkominn í sófann ásamt fremstu gamanleikurum Borgarleikhússins.
Leikfélag Vestmannaeyja sýnir nú hina sívinsælu og klassísku barna- og fjölskyldusýningu um dýrin í Hálsaskógi. Verkið fjallar um það einfalda hugtak að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir og að ekkert dýr má borða annað dýr. Ekki eru þó allir sammála þessari speki og þarf Lilli Klifurmús og önnur skógardýr að hafa sig öll við ef þeim á að nást að sannfæra Mikka ref um að taka þátt í þessu með þeim.
Margir muna eflaust eftir plötunni með þeim Árna Tryggvasyni og Bessa Bjarnasyni í aðalhlutverkum. en aftan á henni stendur:
Marteinn er minnsta dýrið í Hálsaskógi, en þó hann sé lítill þá er hann bæði hygginn og gætinn. Hann safnar hnetum og könglum og hugsar fyrir morgundeginum. En bezti vinur Marteins, Lilli klifurmús er allt öðruvísi. Hann lifir fyrir líðandi stund, semur lög og syngur og spilar á gítarinn sinn: „Er hnetum aðrir safna í holur sínar inn, — ég labba út um hagann og leik á gítarinn — dúddilían dæ“, syngur Lilli klifurmús um sjálfan sig. Í Hálsaskógi eiga Bangsapabbi og Bangsamamma líka heima og einnig Bangsi litli. Þar má einnig finna Hérastubb bakara og Bakaradrenginn. Og einnig Ömmu skógarmús, sem er amma Marteins, og þar á Patti broddgöltur líka heima og mörg fleiri dýr.