Líkaminn er skál
Allt sem við finnum, hugsum og segjum upplifum við í líkamanum. Líkaminn man allt. Hann er skálin sem heldur utanum allt það sem við erum og skynjum.
Rauði þráður sýningarinnar Líkaminn er skál er endurtekningin og kerfin sem eru allt í kringum okkur og inni í okkur. Hjartslátturinn, öndunin, frumurnar, takturinn í deginum, takturinn í náttúrunni, að við vöknum, burstum tennurnar og fáum okkur kaffi. Sýninginbyggir á tilfinningunni sem kemur í kjölfar þess að takturinn í þessum kerfum fer úr jafnvægi. Þetta getur verið þegar við missum ástvin, heilsuna eða eldgos brýst upp í bakgarðinum. Eitthvað gerist sem kippir jörðinni undan fótum okkar og breytir öllu sem á eftir kemur. Allt sem okkur hefur fundist gefið er ekki eins og það var. Sumarið kemur ekki lengur á eftir vorinu. Frumur líkamans missa taktinn og fara á yfirsnúning. Að vera á lífi er skyndilega ekki sjálfgefið. Allt í einu er áþreifanlegt hvernig eitt andartak getur breytt öllu. En mitt í þessari óvissu og óreiðu fæðist eitthvað alveg nýtt.
Leikhópurinn 10 fingur hefur um árabil sérhæft sig í listsköpun á mörkum leikhúss og myndlistar. Hópurinn hefur unnið með mismunandi efni í fyrri sýningum sínum, eins og pappír, plast eða mold og rannsakað ólíka eiginleika þeirra og eðli og hvernig megi gefa þeim líf með hreyfingu og líkamstjáningu. Í sýningunni Líkaminn er skál tekst hópurinn á við leir en blandar nú aðferðum sínum saman við aðferðafræði sviðslistmannsins Matteo Fargion, sem er annar aðal höfundur sýningarinnar. Aðferðafræði hans byggir á ákveðnum formúlum úr tónsmíðum sem eru yfirfærðar á hreyfingu og líkamstjáningu og á því mjög vel við vinnuaðferðir leikhópsins 10 fingur. Líkaminn er skál er fyrir fullorðna ólíkt fyrri verkum hópsins.