Sýningin Þetta er Laddi er ævisöguleikrit á borð við Elly og Níulíf og í sýningunni fáum við að sjá Ladda hitta á sviðinu persónur á borð við Eirík Fjalar, Elsu Lund, Dengsa og Skrám. Laddi og helstu gamanleikarar Borgarleikhússins leika í sýningunni auk þess sem hljómsveit undir stjórn Jóns Ólafssonar mun spila í sýningunni.
Sjáðu Ladda breytast í Eirík Fjalar.
Hver er Laddi? Og hvaðan kemur húmorinn sem hefur verið samofinn húmor heillar þjóðar í bráðum hálfa öld? Í þessari sýningu verður skyggnst inn í kollinn á Ladda, uppruni gamalkunnra persóna kannaður, þróun íslensks gríns sett undir smásjá og lyklar að manninum sjálfum á bak við grínið dregnir fram – en fyrst og fremst verður hlegið – og þakkað fyrir alla gleðina. Óborganleg sýning um óborganlegan mann sem fyrir löngu er orðinn þjóðargersemi og almannaeign.
Leikstjórinn og handritshöfundurinn Ólafur Egill hefur löngum sótt í íslenskan veruleika og sett upp hverja verðlaunasýninguna á fætur annarri þar sem hann kryfur samtímann og segir sögur þjóðarinnar. Nægir þar að nefna Níu líf og Ástu sem hann skrifaði og leikstýrði, og Elly sem hann skrifaði ásamt Gísla Erni Garðarssyni. Hér fær hann leikkonuna og handritshöfundinn Völu Kristínu Eiríksdóttur til liðs við sig í handritsskrifin og býður svo Þórhall Sigurðsson, sjálfan Ladda, velkominn í sófann ásamt fremstu gamanleikurum Borgarleikhússins.
Land míns föður er söngleikur um stríðsárin í Reykjavík, hernámið og það sem því fylgdi.
Freyvangsleikhúsið frumsýnir Land míns föður föstudaginn 28. febrúar. Verkið er leikrit með söngvum um stríðsárin í Reykjavík, hernámið og það sem því fylgdi. Kjartan Ragnarsson skifaði verkið sem er með tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson. Hvaða áhrif hafði hernámið á íslendinga, einstaklinga og þjóðlífið í heild? Athyglin beinist að unga parinu Báru og Sæla og fólkinu í kringum þau. Þau eru að hefja búskap þegar stríðið skellur á. Sæli kýs að fara frekar á sjóinn en í bretavinnuna, en Bára og móðir hennar opna þvottahús sem þjónar hernum. Bára kynnist breskum liðsforingja og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Ýmislegt gengur á áður en yfir lýkur í þessu ferðalagi aftur í tímann til Íslands stríðsáranna.
Land míns föður er í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðsson og er tónlistin í höndum fagmanna undir stjórn Stefáns Boga Aðalsteinssonar.
Ódauðleg list, auðvald og nepótismi eru meðal viðfangsefna í Brím, nýrri óperu Friðriks Margrétar-Guðmundssonar samin við líbrettó Adolfs Smára Unnarssonar. Eftir útskrift úr virtum listaháskóla í Amsterdam fær Nína Brím boð um að halda einkasýningu í þekktu galleríi heima á Íslandi. Hæfileikana sækir hún stutt, enda einkadóttir Karls Brím heitins, eins þekktasta listamanns þjóðarinnar frá seinni hluta 20. aldarinnar. Strax eftir opnunina renna þó á hana tvær grímur – í hverju nákvæmlega felst hrifning samlanda hennar á listaverkunum? Hvað er til sýnis og handa hverjum? Brím er fersk, áleitin og glettin samtímaópera með mörgum okkar hæfileikaríkustu söngvurum í aðalhlutverkum og frábæru listrænu teymi. Tilvalin upplifun fyrir óperuunnendur sem og áhugasama um formið.
Friðrik Margrétar hefur fest sig í sessi sem eitt okkar efnilegasta tónskáld, handhafi bæði Grímunnar og Íslensku tónlistarverðlaunanna. Adolf Smári hefur vakið athygli fyrir sýningar á borð við Nokkur augnablik um nótt, Kannibalen og Undir. Loks liggja leiðir þeirra saman á ný, en fyrsta ópera þeirra, Ekkert er sorglegra en manneskjan, hlaut sjö tilnefningar til Grímuverðlaunanna og hreppti tvö þeirra.
Aðstandendur: Tónlist: Friðrik Margrétar-Guðmundsson. Líbrettó og leikstjórn: Adolf Smári Unnarsson Leikmynd og búningar: Auður Ösp Guðmundsdóttir. Ljósahönnuður: Magnús Thorlacius. Myndbönd og tæknilegar útfærslur: Fjölnir Gíslason Tónlistarstjóri: Sævar Helgi Jóhannsson. Framleiðandi: Kara Hergils, MurMur Productions Dramatúrg fyrir líbrettó: Júlía Gunnarsdóttir.
Söngvarar: Áslákur Ingvarsson Björk Níelsdóttir Hanna Dóra Sturludóttir Ólafur Freyr Birkisson Magrét Björk Daðadóttir Unnsteinn Árnason Þórgunnur Arna Örnólfsdóttir Vera Hjördís Matsdóttir Þórhallur Auður Helgason
Mynd á plakati: Owen Fiene Grafísk hönnun: Rakel Tómasdóttir
Sýningin er styrkt af Sviðslistasjóði og Launasjóði listamanna.
Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Sex í sveit í Samkomuhúsinu laugardaginn 1 .mars.
Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Sex í sveit í Samkomuhúsinu lau. 1 .mars næstkomandi. Verkið Sex í sveit eftir Marc Camoletti er hefðbundinn gamanleikur með alls konar misskilningi, flækjum, lygum, framhjáhaldi og almennu fjöri. Valgeir Skagfjörð leikstýrir hjá LH að þessu sinni.
Sex í sveit fjallar um hjónin Benna og Þórunni sem fara í bústaðinn sinn í Eyjafirði. Hann var búinn að skipuleggja „stráka-helgi“ með besta vini sínum og reyndar viðhaldinu sínu líka á meðan Þórunn ætlaði að vera fyrir austan hjá mömmu sinni. Þegar Þórunn hins vegar kemst að því að Ragnar besti vinur Benna er á leiðinni snýst henni hugur og ákveður að vera um kyrrt í Eyjafirðinum. Það sem Benni hins vegar veit ekki er að Þórunn á líka viðhald og hún sér fram á að geta nýtt helgina með viðhaldinu sínu. Þegar svo veisluþjónustan mætir á svæðið fer allt í háaloft og misskilningurinn og lygarnar aukast svo um munar. Svo ekki sé minnst á þegar unga viðhaldið hans Benna mætir.
Hver bauð annars hverjum í mat þessa helgina? Hver heldur við hvern? Hver er kokkurinn? Hver eldar matinn? Fara þau í alvöru í leikinn „Sex í sveit“? Hvert er markmið þess leiks?
Þetta kemur allt í ljós á fjölum Samkomuhússins á Húsavík, 1. mars en þá er einmitt frumsýningin. Önnur sýning þriðjudaginn 4. mars klukkan 20:00 og svo 7., 8. og 9. mars.
Magnús ætlaði aldrei að verða pabbi. Það bara gerðist einhvern veginn. Hann ætlaði heldur ekkert endilega að verða ofurhetjan Kafteinn Frábær, en stundum þarf maður að bulla sögur þegar börnin manns vilja ekki fara að sofa.
En á einhverjum tímapunkti gefa sögurnar sig og raunveruleikinn ryðst inn…
Kafteinn Frábær er einleikur um föðurhlutverkið, karlmennsku, sorg, missi og (auðvitað) ofurhetjur.
eikfélag Hörgdæla á Melum æfir nú söngleikinn Epli og eikur sem frumsýndur verður þann 27. febrúar. Söngleikurinn er skrifaður af Þórunni Guðmundsdóttur og var það fyrst sýnt af leikfélaginu Hugleik í Reykjavík árið 2007.
Söngleikurinn Epli og Eikur er sprenghlægilegur, farsakenndur söngleikur sem gerist allur á sama stað, í almenningsgarði í kringum garðbekk. Þar fer fram ákaflega flókinn eltingarleikur þar sem fangelsispresturinn Jóhannes er að fylgjast með glæpakonunni Frú Stefaníu, Vala, kona Jóhannesar, fylgist með honum en fær síðan járnsmiðinn Baldur til starfans. Til sögunnar kemur unga stúlkan Rakel sem einnig fer að eltast við Jóhannes. Prestsdóttirin Lára fer að læra glæpamennsku hjá frú Stefaníu og þær æfa sig í gagnkvæmri eftirför, Dóra systir hennar eltist við hinn myndarlega dr. Daníel, eða ekki. Inn í allt þetta fléttast síðan ýmis örlög persónanna, meinleg eða ekki. Leikstjóri sýningarinnar er Jenný Lára Arnórsdóttir.
Leikfélag Hörgdæla er virkt áhugafélag í Hörgársveit sem hefur sett upp sýningar á Melum frá árinu 1928, en það var ekki fyrr en árið 1997 sem leikfélagið var formlega stofnað.
Frumsýning er fimmtudaginn 27. febrúar en sýnt verður föstudaga og laugardaga að Melum fram í apríl. Lokasýning er áætluð 26. apríl. Þá verður sýnt um páskana, á Skírdag fimmtudaginn 17. apríl, Föstudaginn langa 18. apríl og laugardaginn 19. apríl.
Lína Langsokkur er eitt ástsælasta leikverk allra tíma fyrir yngstu kynslóðina
Þjóðleikhúsið mun frumsýna stórsýningu um Línu Langsokk á Stóra sviðinu næsta haust. Lína Langsokkur er eitt ástsælasta leikverk allra tíma fyrir yngstu kynslóðina – og hver kynslóð þarf að kynnast sterkustu stelpu í heimi sem lætur sig ekki muna um að lyfta hestinum sínum á góðum degi eða hafa tvær löggur undir ef því er að skipta.
Forsala á Línu hefst 20 mars . Sérstakur forsöluafsláttur, 1000 kr. af hverjum miða, verður í boði fyrstu tvo daga forsölunnar! Það er því til mikils að vinna að tryggja sér miða strax.
Hlutverkaskipan tilkynnt síðar og leikprufur fyrir börn Ætíð er mikill spenningur fyrir því hver leikur Línu og vini hennar Tomma og Önnu, auk Prússúlínar, þjófanna Klængs og Hængs eða lögregulmannanna Glúms og Gláms. Leikararnir sem fara með öll þessi hlutverk og önnur verða kynntir í mars en á sama tíma hefjast prufur fyrir börn sem hafa áhuga á að taka þátt í sýningunni við hlið atvinnuleikaranna. Í fyrri uppsetningum á Línu Langsokk hafa stórleikkonurnar Sigrún Edda Björnsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir og Ágústa Eva farið með hlutverk Línu – en hver það verður nú verður opinberað í mars.
Mikið sjónarspil framundan á Stóra sviðinu Sýningin um Línu Langsokk verður heljarinnar sjónarspil sem mun henta breiðum aldurshópi. Agnes Wild er leikstjóri sýningarinnar en hún hefur vakið mikla athygli fyrir frábærar barnasýningar. Karl Olgeirsson verður tónlistarstjóri en skemmst er að minnast einstakra útsetninga hans á lögunum í Kardemommubænum fyrir skemmstu, reynsluboltinn Finnur Arnar hannar leikmynd og Eva Björg Harðardóttir er búningahöfundur. Þórarinn Eldjárn er þýðandi verksins.
Nú geta allir farið að hlakka til að kíkja inn á Sjónarhól í Þjóðleikhúsinu á næsta leikári.
Skólastarfið fer að venju fram í Reykjaskóla í Hrútafirði.
Leiklistarskóli BÍL verðu haldin í 28 sinn í sumar og verður starfstími skólans að þessu sinni 21.-29. júní að Reykjaskóla í Hrútafirði.
Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði: Ágústa Skúladóttir mun kenna Leiklist II, framhald af námskeiðinu Leiklist I sem kennt var í fyrra. Karl Ágúst Úlfsson mun kenna Leikritun II, framhald af Leikritun I, þar sem lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð fyrir leikrita- og stuttverkaskrif. Gríma Kristjánsdóttir mun kenna nýtt sérnámskeið sem nefnist Trúðanámskeið fyrir byrjendur. Þá koma einnig fjórir höfundar í heimsókn til að skerpa stíl- eða hönnunarvopnið!
Skólagjald:
Þátttökugjald á námskeið er 116.000 kr. og gjald fyrir Höfunda í heimsókn er 95.000 kr. Skólagjaldið skal vera að fullu greitt í síðasta lagi 1. júní 2025.
Staðfestingargjald er kr. 40.000. Umsókn er þá fyrst gild að búið sé að greiða staðfestingargjald! Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.
Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.
Stormur er Glænýr söngleikur sem talar til ólíkra kynslóða um fyrstu stóru tímamót lífsins.
Vinahópur sem er að útskrifast úr menntaskóla stendur á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg. Hver er ég og hver vil ég vera? Get ég sagt skilið við fortíðina og byrjað lífið upp á nýtt? Þori ég að taka stökkið og fylgja hjartanu, alla leið?
Þorum, lifum, elskum – núna!
Elísabet er ung tónlistarkona sem er undir mikilli pressu að reyna að ljúka við sína fyrstu plötu í kjölfar þess að lag sem hún sendi frá sér varð óvænt vinsælasta lag ársins. Hluti vinahópsins er með henni í hljómsveit, og sumarið eftir útskriftina hittast vinirnir reglulega í æfingahúsnæði bandsins til að klára plötuna, fíflast saman og ríghalda í tilfinninguna að vera ung og frjáls aðeins lengur. Elísabet áttar sig smám saman á því að hún er ástfangin af Helgu vinkonu sinni og við tekur átakamikið ferðalag þar Elísabet þarf að ákveða hvort hún eigi að þora að segja Helgu hug sinn og kannski hætta á að missa hana fyrir fullt og allt. En um leið og gleðin er í hámarki hjá vinunum er eins og jörðin byrji að gliðna undir fótum þeirra.
Fyrri leikverk Unnar Aspar í Þjóðleikhúsinu, verðlaunaverkin Vertu úlfur og Saknaðarilmur, hafa hreyft rækilega við leikhúsgestum og heillað þá, en í þeim hefur hún beint sjónum að mikilvægum málefnum í samtíma okkar. Nú vinnur hún með einni fremstu tónlistarkonu landsins af ungu kynslóðinni, Unu Torfadóttur og þær semja í sameiningu nýjan söngleik sem fjallar á beinskeyttan hátt um ungt fólk á Íslandi í dag. Stórvinsæl lög Unu Torfa hljóma í bland við ný og grípandi lög.
Una Torfadóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum. Hver smellurinn á fætur öðrum hefur náð miklum vinsældum og hrifið fólk á öllum aldri. Nýjasta plata hennar, Sundurlaus samtöl, hefur fengið frábærar viðtökur.
Leikdeild Eflingar frumsýndi laugardaginn 15. febrúar rokksöngleikinn Ólafíu eftir Hörð Þór Benónýsson með tónlist eftir Jaan Alavere. Leikstjóri er Hildur Kristín Thorstensen og tónlistarstjórn er í höndum Mariku Alavere. Söngleikurinn fjallar um líf ungs fólks í dag og áreiti sem það verður fyrir, vímuefni, útlitsdýrkun, samfélagsmiðla og tvískinnungshátt fullorðna fólksins. Hressandi tónlist og fjör í bland við alvarlegri atburði í sýningu sem spannar allan tilfinningaskalann. Atriði í sýningunni geta valdið óhug hjá mjög ungum börnum.
Sýnt eru í Félagsheimilinu á Breiðumýri í Reykjadal. Kvenfélag Reykdæla verður með vöfflu- og veitingasölu fyrir sýningu og í hléi en leikhúsið er sett upp sem kaffihús þar sem áhorfendur sitja við borð og geta notið veitinga með sýningunni.
Miðasala í síma 618-0847 eða á netfangið umfefling@gmail.com. Félagar í Framsýnar geta fengið 1000 kr afslátt af almennu miðaverði gegn framvísun miða sem fæst á skrifstofu Framsýnar.
Næstu sýningar verða 15. febrúar kl. 16.00 (frumsýning), sunnudag 16.00 febrúar kl. 20.00, þriðjudag 18. febrúar kl. 20.00 og fimmtudag 20. febrúar kl. 20.00.