Frægasta leikverk sögunnar – í nýjum búningi fyrir nýjar kynslóðir!
„Að vera eða ekki vera”
Fortíð og framtíð takast á í glænýrri útfærslu Kolfinnu Nikulásdóttur á frægasta leikriti heims. Hamlet, leikrit leikritanna, er í senn saga um sannleika, stöðu, stétt og ekki síst leiklistina sjálfa.
Í þessu glænýja handriti blæs Kolfinna Nikulásdóttir lífi í forna ljóðabálka frá sautjándu öld og fær einvalalið leikara til að pumpa blóði í hjarta þessa aldagamla verks. Um er að ræða sýningu sem teygir formið eins langt og mögulegt er – á sama tíma og það stingur í samband við áhorfendur.
Hamlet, í uppsetningu Kolfinnu, rannsakar þenslumörk leikhússins og spyr: Hvernig samsvarar heimsmynd Shakespeare okkar eigin í dag? Mannkynið, líkt og persónur verksins, lifir á umbrotatímum. Síbreytilegar líftæknilegar lausnir, óstöðugleiki í efnahagsmálum, pólitískur glundroði, fake news, og blörruð framtíðarsýn – Að vera eða ekki vera?
Boðberi framtíðarinnar, Kolfinna Nikulásdóttir, og andi fortíðarinnar, William Shakespeare, í eina sæng og úr verður leikhúsupplifun sem sperrir eyru, sprengir augu og makes theatre great again – kvöldstund sem enginn vill missa af.
Leikfélag Kópavogs frumsýnir Herbergi 213 (eða Pétur mandólín) eftir Jökul Jakobsson laugardaginn 25. október. Rúm fimmtíu ár eru síðan verkið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1974. Verkið var töluvert sett upp áratuginn þar á eftir en hefur lítið verið sett upp síðan. Verkið er eitt af fyrstu verkum á íslensku leiksviði sem skrifað var fyrir konur. Verkið fjallar um arkitektinn Albert sem kemur til að ganga frá heildarskipulagi í bæ úti á landi. Hann kemur á heimili Péturs, látins skólafélaga síns. Konurnar á heimilinu taka vel á móti honum. Líf færist í húsið, en ekki er allt sem sýnist.
Hundur í óskilum heldur áfram för sinni um stórvirki listasögunnar.
Stórvirki listasögunnar dregin saman í tveggja tíma hláturskast!
Enn og aftur eru þeir mættir í Borgarleikhúsið. Hundur í óskilum ríður aldrei vafurlogann þar sem hann er lægstur. Síðast fór hann flikkflakk og heljarstökk í öllum herklæðum í gegnum Njálu á hundavaði. Nú tekst hann á hendur að færa Íslendingum í fyrsta sinn allan Niflungahring Richards Wagners – eins og hann leggur sig.
Þetta epíska stórvirki sem tónskáldið samdi upp úr íslenskum fornaldarsögum eru fjórar óperur: Rínargullið, Valkyrjan, Sigurður Fáfnisbani og Ragnarök og tekur að jafnaði jafn mörg kvöld í flutningi. En Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson ásamt Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur geisast með himinskautum í gegnum allt verkið á einni kvöldstund og má með sanni fagna því að loksins, loksins sé Niflungahringurinn allur kominn heim – á sjálfa sögueyjuna.
Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir en um leikmynd og búninga sér Þórunn María Jónsdóttir.
Viltu finna milljón er sýnt hjá Leikfélagi Hveragerðis.
Verkið segir frá hjónunum Haraldi og Ingibjörgu. Haraldur hefur unnið hjá skattinum á lúsarlaunum svo lengi sem elstu menn muna en einn daginn finnur hann fulla tösku af peningum. Þetta er vanur maður sem sér að féð er illa fengið en hann ákveður að þetta sé hans tækifæri til betra lífs og fer beint í að panta flug aðra leiðina út í heim. En málið er vitaskuld ekki svo einfalt og heilmiklar flækjur, lygar og taugaveiklun fylgja í kjölfarið.
Íbúð 10B er ögrandi og meinfyndið verk beint úr íslenskum samtíma
Einn eigenda glæsilegs fjölbýlishúss í Reykjavík hefur ákveðið að breyta lúxusíbúð sinni í gistiheimili fyrir tuttugu arabíska hælisleitendur. Aðrir íbúar í húsinu eru mjög hlynntir fjölbreytileika en sætta sig ekki við að reglur húsfélagsins séu fótumtroðnar. Nú reynir á yfirvegun og samstöðu. Og hvar liggja mörk góðmennskunnar?
Marta og Heiðar bjóða nágrönnum sínum heim til að ræða málin yfir góðum ostum og víni. Undir kurteislegu yfirborðinu tekur brátt að glitta í lögmál frumskógarins og notaleg kvöldstund snýst upp í harðvítug átök þar sem villidýrseðlið brýst fram. Við viljum vera góð – en hversu langt erum við tilbúin að ganga?
Baltasar Kormákur og Ólafur Jóhann unnu saman að hinni stórbrotnu kvikmynd Snertingu og sameina nú krafta sína að nýju á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Verk þeirra hafa heillað lesendur og áhorfendur um allan heim og sópað að sér verðlaunum.
Frábærlega vel skrifað og spennuþrungið leikrit, sem heldur þér í heljargreipum.
Væri lífið ekki auðveldara ef allt væri eins og í gamla daga? Það finnst Gunnu, sem hefur tekið þá ákvörðun ásamt Jonna eiginmanni sínum að lifa lífsstíl áranna 1950 – 1960. Hún eyðir deginum í að gera hreint á heimilinu svo allt sé í röð og reglu áður en húsbóndinn kemur heim þar sem ferskur kokteill, troðin pípa og hitaðir inniskór bíða hans í vel innréttaðri íbúðinni og hvað á maður að segja við mömmu sína sem barðist fyrir jafnrétti og er ekki par sátt við fyrirkomulagið? Þau hjónin klæðast fiftís fötum og ísskápurinn er líka frá þeim tíma, sem væri kannski allt í lagi ef hann væri ekki alltaf að bila, því þótt flest hafi verið endingarbetra í gamla daga þá duga hlutir eins og bílar og ísskápar ekki að eilífu. Það getur verið dýrt að lifa á röngum áratug vegna alls viðhaldsins – og hvar á að kaupa föt sem passa lífsstílnum nema á internetinu? Hjónin verða því að svindla til að allt gangi upp.
Laura Wade er breskt leikskáld sem hefur skrifað á annan tug leikverka og er Darling, I´m Home þeirra þekktast og fékk hún fyrir það hin virtu Olivier leiklistarverðlaun árið 2019. Hún hefur einnig skrifað nokkur útvarpsleikrit fyrir BBC og er einn handritshöfunda sjónvarpsþáttaseríunnar Rivals hjá Disney+. Þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir hana ef sett upp í íslensku leikhúsi. Ilmur Kristjánsdóttir þreytir hér frumraun sína sem leikstjóri og Akureyringurinn Vilhjálmur B. Bragason staðfærir og þýðir verkið.
Leikfélag Sauðárkróks sýnir leikritið Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur.
Leikfélag Sauðárkróks undirbýr nú af krafti sýningu á leikritinu Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur.
Verkið er einstaklega skemmtilegt og frumlegt – þar sem börn leika fullorðna og öfugt. Áhorfendur fá innsýn í hvernig börn skynja heim hinna fullorðnu og sjá oft hluti sem við sjálf tökum ekki eftir. Í gegnum söguna þróast fallegur og óvæntur vinskapur sem sprettur upp úr erfiðum aðstæðum.
„Þetta er lífleg og fjörug sýning með dýpri merkingu – sannkölluð fjölskyldusýning,“ segir leikstjórinn Eysteinn Ívar. Feykir ræddi við Eystein, sem hefur haft nóg fyrir stafni, enda styttist í frumsýningu sem er 10. október. Miðasalan er hafin og mikill áhugi – fyrstu tvær sýningarnar eru þegar uppseldar, svo það er um að gera að tryggja sér miða sem fyrst.
Söngleikurinn Moulin Rouge hefur fengið frábærar viðtökur.
Söngleikurinn Moulin Rouge! gerist í París 1899 þar sem söngvaskáldið Christian kemur til borgarinnar í leit að innblæstri. Honum er tekið opnum örmum af bóhemum Montmartre sem vinna að söngleik sem þá dreymir um að verði settur upp í næturklúbbnum Moulin Rouge – Rauðu Myllunni. Christian slæst í lið með þeim en verður ástfanginn af stjörnu Myllunnar – hinni óviðjafnanlegu Satine, sem heillast af skáldinu unga. En gildi bóhemanna um frelsi, fegurð, sannleik og ást mega sín lítils í heimi þar sem peningar ráða og allt er falt. Klúbburinn er í fjárhagsvandræðum og eigandinn Harold Zidler sér engan annan kost en að leita til hins forríka og harðsnúna greifa af Monroth, jafnvel þó það kosti að Satine sjálf verði hluti af kaupunum.
Leikstjóri íslensku uppfærslunnar er Brynhildur Guðjónsdóttir. Tónlistarstjóri er Jón Ólafsson og þýðing er í höndum Braga Valdimars Skúlasonar. Uppsetning Borgarleikhússins á Moulin Rouge! söngleiknum verður stórbrotin upplifun fyrir augu, eyru og hjarta. Öllu verður til tjaldað hvað varðar leik- og hljóðmynd og besta sviðslistafólk landsins fengið til að flytja okkur inn í grípandi heim Rauðu Myllunnar í París 1899 í sýningu sem á sér enga líka í íslensku leikhúsi!
Hljómsveitin Eva var einu sinni up and coming framúrstefnu hljómsveit og sviðslistahópur en þarf nú að horfast í augu við raunveruleikann; andleg veikindi, dauðann, adhd greiningar, snemmbúið breytingaskeið og þá staðreynd að þær hafa ekki samið nýtt lag í fimm ár. Nú bretta þær upp ermarnar og segja fólkinu frá því sem á daga þeirra hefur drifið í þessum grátbroslega en kosmíska tónleik ennþá með þá von í hjartanu að veita áhorfendum varanlegt kaþarsis og jafnvel splunku nýju lagi. Verkið Kosmískt skítamix sem frumsýnt verður í Tjarnarbíó 17. október er ferðasaga vinkvenna og vinnufélaga í gegnum örmögnun og þá ómögulegu vinnu að skapa listaverk sem bjargar heiminum.
Þær Sigríður og Vala eru bráðskemmtilegir viðmælendur sem hafa frá mörgu að segja.
Aðstandendur: Höfundar og flytjendur: Sigríður Eir Zophoníasardóttir og Vala Höskuldsdóttir, Dramaturg: Egill Andrason, Leikmynd og búningar: Rebekka Ingimundardóttir, Ljósahönnun: Hafliði Emil Barðason, Hljóðblöndun og tækni: Brett Smith, Ljósmyndun og videogerð: Björgvin Sigurðarson, Grafísk hönnun: Rakel Tómasdóttir, Framleiðsla: Hljómsveitin Eva í samstarfi við MurMur productions/Davíð Freyr Þórunnarson
Sýningin er styrkt af Sviðslistasjóði og Listamannalaunum
Einar Áskell er ósköp venjulegur strákur sem býr með pabba sínum í úthverfi, einhvers staðar í heiminum. Hann er ekki stór. Hann er ekki sterkur. En hann er hugrakkari en þú heldur! Bækurnar 26 um Einar Áskel, eða Alfons Åberg eins og hann heitir á sænsku, eru skrifaðar og myndskreyttar af Gunillu Bergström og hafa verið gefnar út á 45 tungumálum og selst í tæplega 20 milljónum eintaka.
Nú loksins gefst íslenskum leikhúsgestum á öllum aldri, einstakt tækifæri að njóta feðganna á leiksviði í glænýrri íslenskri leikgerð byggð á tveimur af þekktustu bókunum úr bókaflokknum sívinsæla.
Það er kominn morgunn og Einar Áskell þarf að drífa sig í skólann. En fyrst ætlar hann bara að klæða dúkkuna sína, laga bílinn, kíkja í stóru dýrabókina og… Er hann ef til vill að flýta sér of mikið og gera of mikið í einu? Inni í eldhúsi fer pabbi með spakmæli um að best sé að gera einn hlut í einu. En þegar á hólminn er komið, hver er það þá sem gerir of mikið í einu?
Sýningin er um það bil 40 mínútur að lengd og án hlés. Hentar vel fyrir börn frá þriggja ára aldri.
Leiksýningin Engan asa, Einar Áskell, er byggð á bókunum Engan asa, Einar Áskell og Flýttu þér, Einar Áskell eftir Gunillu Bergström.