Back to Top
Uncategorized | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Browsing "Uncategorized"

    MonoAkt vinahátíð Act alone

    júl 29, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Ariasman var framlag Kómedíuleikhússins á MonoAkt hátíðinni.

    Hin einstaka og árlega einleikja og listahátíð Act alone verður haldin hátíðleg á Suðureyri dagana 6. – 10. ágúst. Dagskráin er einstaklega fjölbreytt og vegleg með sannkölluðu listahlaðborði fyrir öll. Leiksýningar, tónleikar, dans, grímusmiðja, barnadagskrá, sirkus, myndlist, ritlist og alls  konar list. Alls verður boðið uppá nærri 30 listviðburði á Act alone í ár og að vanda er frítt inná allt. Dagskrá Act alone er á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net 

    Fyrr í sumar eignaðist Actið, einsog gárungarnir kalla Act alone, einstakan vin í austri eða MonoAkt einleikjahátíðina í Prishtina í Kosovó. Listrænn stjórnandi Act alone Elfar Logi Hannesson og leikhússtjóri Kómedíluleikhússins Marsibil G. Kristjánsdóttir voru einstakir gestir MonoAkt í júní liðnum. Auk þess sýndi hið kómíska leikhús á hátíðinni einleikinn Ariasman er fjallar um hin hrottalegu Baskamorð á Íslandi árið 1615. Tókust upp einstök kynni við stjórnanda hátíðarinnar Mentor Zymberaj því hann mætir nú sem sérstakur gestur á Actið auk þess að sýna einleik sinn The Chest. 

    Act alone og MonoAkt eiga margt sameiginlegt ekki bara að vera einleikjahátíðir heldur og að vera haldnar á smáu mál- og landsvæði. Actið er nokkrum árum eldri en MonoAkt, Actið hóf göngu sína árið 2004 en MonoAkt 5 árum síðar eða árið 2009. Báðar hátíðarnar hafa verið haldnar árlega síðan meira að segja í heimsfaraldri. 

    Einstaklega gaman er að hefja þessa einstöku vinavegverð millum Act alone og MonoAkt á hinu einstaka ári 2025 og gaman verður að sjá hvert þetta einstaka ævintýri mun leiða þessar tvær einstöku hátíðir. Actið hyggst halda áfram að tengjast fleiri einleikjahátíðum sem eru haldnar víða um heim. Enda er miklu betra að vinna saman en pukrast í horni sínu.

    Þannig var það í Kómedíuleikhúsinu

    júl 3, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Elfar Logi hlaut nýlega verðlaun sem besti leikarinn á MonoAkt einleikjahátíðinni í Kósovó.

    Kómedíuleikhúsið kynnir stolt frumflutning á Íslandi á einleiknum „Þannig var það“ eftir norska Nóbelsverðlaunahöfundinn Jon Fosse.

    Verkið fjallar á áhrifaríkan hátt um einmanaleika, einangrun og hnignun mannlegra samskipta í samtímanum. Aðalpersónan, listamaður á dánarbeði, horfist í augu við eftirsjá yfir að hafa látið starfsframa ganga fyrir fjölskyldu og vinasamböndum.
     Í gegnum einleikinn dregur Fosse fram hvernig hraðar samfélagsbreytingar og aukin tæknivæðing hafa grafið undan nánum tengslum fólks og aukið tilfinningu fyrir einmanaleika þrátt fyrir meiri tengimöguleika en nokkru sinni fyrr.

    Með þessari uppfærslu vill Kómedíuleikhúsið vekja til umhugsunar um mikilvægi mannlegra tengsla og nærveru í nútímasamfélagi.

    Athugið:
    „Þannig var það“ verður eingöngu sýnt í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal í sumar.
    Nú er tækifærið til að vippa sér vestur og upplifa einstaka leiklistarupplifun!

    Listamenn að verki:

    • Leikari: Elfar Logi Hannesson
    • Höfundur: Jon Fosse
    • Tónlist: Unnur Birna Björnsdóttir
    • Búningar: Þ. Sunnefa Elfarsdóttir
    • Ljósameistari: Siguvald Ívar Helgason
    • Leikmynd og leikstjórn: Marsibil G. Kristjánsdóttir

    Aðgengi:
    Fjöldi miða í sölu fyrir hverja sýningu er takmarkaður við 20 sæti.

    Gríman 2025

    jún 11, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Grím­an var af­hent í 23. sinn við hátíðlega at­höfn í Borg­ar­leik­hús­inu.

    Hin Íslensku sviðslistaverðlaun voru afhent við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu og var öll umgjörð hin glæsilegasta að vanda.

    Heiðursverðlaun Sviðslistafélags Íslands 2025 fyrir framúrskarandi og ómetanlegt framlag til íslenskrar leiklistar fóru til Kjartans Ragnarssonar.

    Forseti Íslands afhenti Kjartani Ragnarsyni mjög svo verðskulduð heiðursverðlaun.

    Flestar Grímuverðlaun í ár féllu á sýningarnar Ungfrú Ísland í sviðsetningu Borgarleikhússins og danssýninguna Hringir Orfeusar, ásamt öðru slúðri í sviðsetningu Íslenska dansflokksins. Báðar sýningar hlutu þrjú verðlaun hvor, þegar Íslensku sviðslistaverðlaunin, Gríman, voru afhent í 23. sinn við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í kvöld.

    Alls voru tíu sýningar verðlaunaðar. Næstflestar voru sýningarnar Köttur á heitu blikkþaki og Sýslumaður dauðans, sem báðar fengu tvö verðlaun hvor, einnig í sviðsetningu Borgarleikhússins.

    Hringir Orfeusar og annað slúður var valin sýning ársins, og Erna Ómarsdóttir hlaut verðlaun sem danshöfundur ársins fyrir sama verk. Pálmi Jónsson var verðlaunaður fyrir lýsingu ársins.

    Birna Péturdóttir vann verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki í Ungfrú Ísland, og Cameron Corbett hlaut verðlaun fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins. Þá fékk Filíppía I. Elísdóttir verðlaun fyrir bestu búninga ársins.

    Leikskáld ársins er Birnir Jón Sigurðsson fyrir verk sitt Sýslumaður dauðans, sem Borgarleikhúsið setti upp. Leikstjóri ársins er Þorleifur Örn Arnársson fyrir Kött á heitu blikkþaki, sem einnig var sett upp af Borgarleikhúsinu.

    Þessi hlutu Grímuna í ár.

    • Hvatn­ing­ar­verðlaun val­nefnd­ar 2025 Aft­urá­móti – sviðslista­hús 
    • Sýn­ing árs­ins Hring­ir Orfeus­ar og annað slúður 
    • Barna­sýn­ing árs­ins Blóm­in á þak­inu 
    • Leik­rit árs­ins Birn­ir Jón Sig­urðsson – Sýslumaður dauðans 
    • Leik­stjóri árs­ins Þor­leif­ur Örn Arn­ars­son – Kött­ur á heitu blikkþaki
    • Dans­höf­und­ur árs­ins Erna Ómars­dótt­ir – Hring­ir Orfeus­ar og annað slúður 
    • Leik­mynd árs­ins Axel Hall­kell Jó­hann­es­son – Fjalla­bak 
    • Bún­ing­ar árs­ins Fil­ipp­ía I. Elís­dótt­ir – Ung­frú Ísland 
    • Tónlist og hljóðmynd árs­ins Friðrik Mar­grét­ar-Guðmunds­son – Brím  
    • Lýs­ing árs­ins Pálmi Jóns­son – Hring­ir Orfeus­ar og annað slúður 
    • Dans- og sviðshreyf­ing­ar árs­ins Ca­meron Cor­bett – Ung­frú Ísland  
    • Leik­kona árs­ins í aðal­hlut­verki Birna Pét­urs­dótt­ir – Ung­frú Ísland  
    • Leik­kona árs­ins í auka­hlut­verki Katla Mar­grét Þor­geirs­dótt­ir – Kött­ur á heitu blikkþaki 
    • Leik­ari árs­ins í aðal­hlut­verki Sig­urður Sig­ur­jóns­son – Heim 
    • Leik­ari árs­ins í auka­hlut­verki Há­kon Jó­hann­es­son – Sýslumaður dauðans   
    • Söngv­ari árs­ins Bryn­dís Guðjóns­dótt­ir – Brúðkaup Fígarós 
    • Dans­ari árs­ins Aëla Labbé, Erna Gunn­ars­dótt­ir og Orfee Schuijt – Flökt 
    • Heiður­sverðlaun 2025 Kjart­an Ragn­ars­son

    Frumsýning á Hróa Hetti

    maí 27, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Sumarævintýri Leikhópsins Lottu hefst 28. maí.

    Leikhópurinn Lotta stígur á stokk nítjánda sumarið í röð og býður börnum og fjölskyldum um allt land sprúðlandi skemmtun í formi nýrrar uppfærslu á söngleiknum Hrói Höttur. Frumsýningin fer fram miðvikudaginn 28. maí klukkan 18:00 á Lottutúni í Elliðaárdalnum, þar sem áhorfendur geta notið verksins utandyra í fallegu umhverfi.

    Hrói Höttur er eitt vinsælasta leikverk Lottu fyrr og síðar. Nú eru liðin ellefu ár frá því að það var frumsýnt í fyrsta sinn, og því sannarlega tilefni til að dusta af því rykið – nú er það tilbúið í ferskum og breyttum búningi fyrir bæði gamla og nýja áhorfendur. Eins og Leikhópurinn Lotta er hvað þekktastur fyrir, er hér á ferðinni ævintýrakokteill þar sem sögunni um Hróa Hött er blandað saman við annað þekkt ævintýri – að þessu sinni syfjuðu prinsessuna Þyrnirós.

    Í bland við skemmtileg lög, fjöruga dansa, fullorðinsbrandara og góðan skammt af aulahúmor verður til fullkomin skemmtun fyrir alla aldurshópa.

    Áhorfendur fá að kynnast Hróa Hetti og trúföstu vinum hans, Þöll og Þyrnirós, sem berjast fyrir réttlæti í Ævintýraskóginum. Persónur á borð við Jóhann prins, illgjarnan fógeta, Tomma litla og álfkonur skjóta einnig upp kollinum í þessari kraftmiklu og fjörugu sýningu og lofar Lotta góðri skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

    Sýningin er klukkutími að lengd og fer fram utandyra. Við hvetjum gesti til að klæða sig eftir veðri, koma með nesti, teppi og góðan ævintýraanda. Það er líka gott að hafa símann vel hlaðinn því eftir sýningu gefst áhorfendum kostur á að fá mynd af sér með sinni uppáhalds ævintýrapersónu.

    Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir
    Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Rósa Ásgeirsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson
    Leikskáld: Anna Bergljót Thorarensen
    Höfundar tónlistar: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Rósa Ásgeirsdóttir, Þórður Gunnar Þorvaldsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Andrea Ösp Karlsdóttir, Sumarliði V. Snæland Ingimarsson
    Höfundur lagatexta: Sævar Sigurgeirsson
    Hljóðblöndun tónlistar: Axel „Flex“ Árnason
    Hljóðblöndun á sýningum: Þórður Gunnar Þorvaldsson
    Búningahönnun: Kristína R. Berman, Rósa Ásgeirsdóttir og leikhópurinn
    Danshöfundur: Ágústa Skúladóttir & leikhópurinn
    Leikmyndahönnun: Andrea Ösp Karlsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson
    Leikmunir: Leikhópurinn

    Flæktur í netinu

    maí 7, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Flæktur í netinu er sýnt hjá Leikfélagi Sauðárkróks. Ljósmynd: Gunnhildur Gísladóttir

    Nú standa yfir sýningar hjá Leikfélagi Sauðárkróks á farsanum Flæktur í netinu  eftir Ray Cooney í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Leikstjóri er Valgeir Skagfjörð.
    Flæktur í Netinu (Með táning í tölvunni) er sjálfstætt framhald leikritsins Með vífið í lúkunum þar sem leigubílstjórinn John Smith barðist við að lifa tvöföldu lífi með tveimur eiginkonum, Mary og Barböru.
    Núna 18 árum síðar kynnast dóttir hans úr öðru hjónabandinu og sonur hans úr hinu á netinu og byrja að draga sig saman. Þessu reynir faðir þeirra að afstýra með öllum tiltækum ráðum með dyggri aðstoð vinar síns Stanleys sem hefur sest upp hjá honum og búið þar allan þennan tíma. En John Smith er ekki sá eini sem á sér leyndarmál.
    Leikfélag Sauðárkróks setti Með vífið í líkunum upp fyrir 19 árum eða árið 2006. Skemmtilegt er að segja frá því að þeir Guðbrandur J. Guðbrandsson og Árni Jónsson sem leika John og Staney léku þá líka fyrir 19 árum. Elva Björk Guðmundssdóttir lék einnig í sýningunni þá lék hún Barböru en leikur núna Mary.

    Frumsýnt var 27. apríl og er 7 sýningum lokið. Síðustu sýningar verða:
    Miðvikudagur 7. maí kl. 20:00
    Mánudagurinn 12. maí kl. 20:00
    Þriðjudagurinn 13. maí kl. 20:00
    Fimmtudaginn 15. maí kl. 20:00

    39 þrep er athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins

    maí 6, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Sýning Leikfélags Hólmavíkur 39 þrep var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins af dómnefnd Þjóðleikhússins. Formaður dómnefndar, Vala Fannell tilkynnti valið á hátíðarkvöldverði  aðalfundar Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldinn var í Vatnsholti 3. maí.
    Í umsögn dómnefndar segir:

    Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í þrítugasta og þriðja sinn. Að þessu sinni sóttu alls tólf leikfélög um að koma til greina við valið með þrettán sýningar. Formaður dómnefndar var Vala Fannell, en með henni í dómnefnd sátu Elín Smáradóttir sýningarstjóri og Oddur Júlíusson leikari. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2024-2025sýningu Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrep.

    Ólöf Þórðardóttir formaður Bandalagsins  tók við viðurkenningunni fyrir hönd þeirra Hólmvíkinga.

    Umsögn dómnefndar um sýninguna:
    Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrep íleikstjórn Eyvindar Karlssonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2024-2025. Sýningin er unnin af miklum metnaði og gríðarlegaskapandi hugsun Umgjörð sýningarinnar er einföld en áhrifarík og unun að fylgjst með skemmtilegum og skapandi lausnum þar sem leikhúslistin er knúin til hins ítrasta. Ljós og hljóð eru vel unnin, af hugviti og kímni. Leikgervi og búningar eru til fyrirmyndar og vel leyst úr persónufjöld og hraðaskiptingum. Leikhópurinn er smár en mjög sterkur og skemmtilegur og samband þeirra við áhorfendur feikigott. Leikkonurnar vinna vel með mikinnfjölda hlutverka og gera hverri og einni persónu skýr oggóð skil. Leik- og sköpunargleði ráða ríkjum frá upphafi til enda og úr verður heildstæð og kraftmikil sýning.
    Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Hólmavíkur til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna 39 Þrep í Þjóðleikhússins í lok maí.

    Blómin á þakinu

    apr 21, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Blómin á þakinu er byggt á bók Ingibjargar Sigurðardóttur og Brians Pilkington. Leikstjórn Agnes Wild.

    Undurfalleg og heillandi ný leiksýning fyrir yngstu börnin, byggð á bók sem hefur notið mikilla vinsælda allt frá því að hún kom fyrst út árið 1985. Barnabókin Blómin á þakinu hefur unnið sér sess sem sígild perla innan íslenskra barnabókmennta.

    Þegar Gunnjóna þarf á gamals aldri að flytja úr sveitinni sinni í borg stendur hún frammi fyrir ýmsum áskorunum sem fylgja því að aðlagast nýjum heimkynnum. Í fjölbýlishúsinu sem hún flytur í býr forvitið barn sem fylgist með óvenjulegum aðferðum gömlu konunnar við að búa sér nýtt heimili, enda er engu líkara en Gunnjóna ætli að flytja sveitina með sér til borgarinnar.

    „Bara ömmur mega fara upp á þak“

    Listrænir aðstandendur sýningarinnar, þær Agnes, Eva Björg og Sigrún, hafa getið sér gott orð fyrir hrífandi barnasýningar á vegum leikhópsins Miðnættis og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir framlag sitt til barnamenningar. Þjóðleikhúsið hefur nú fengið þessar þrjár listakonur til að skapa nýja barnasýningu þar sem hugmyndaflugið og leikgleðinni er gefinn laus taumur.

    Aldursviðmið: 2 – 8 ára.

    Leikhúspáskar í Kómedíuleikhúsinu

    apr 16, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Ariasman hefur hlotið góðar viðtökur frá frumsýningu.

    Kómedíuleikhúsið í Haukadal Dýrafirði, dalnum þar sem engin býr, tekur að vanda þátt í páskahátiðinni fyrir vestan. Á fjölunum verða tvær leiksýningar úr smiðju leikhússins. Fjölskylduleikritið ástsæla og alvestfirska Dimmalimm eftir Bílddælinginn Mugg hefur notið gífurlegra vinsælda frá því það var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2019. Dimmalimm verður sýnt á Skírdag fimmtudaginn 17. apríl kl.14.00 og einnig á laugardag 19. apríl kl.14.00.

    Kynningarmyndband um Dimmalimm.

    Sýning sumarsins liðna í Kómedíuleikhúsinu Haukadal var Ariasman. Um er að ræða sögulegt og blóðugt leikverk er fjallar um hin hrottalegu Baskamorð fyrir vestan. Ariasman hefur hlotið afbragðs góðar viðtökur og var nú síðast sýnt tvívegis fyrir uppseldu Tjarnarbíó í Reykjavík.

    Miðasala á sýningar leikhúspáska Kómedíuleikhússins stendur yfir í síma 891 7025. Einnig er hægt að kaupa miða á miðasöluvefnum midix.is

    Rokksöngleikurinn Hárið

    apr 1, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Hornafjarðar sýnir nú rokksöngleikinn Hárið.

    Leikfélag Hornafjarðar, í samstarfi við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, sýnir söngleikinn Hárið,.
    Leikstjóri sýningarinnar er Svandís Dóra Einarsdóttir, hreyfihönnuður er Sigga Soffía Níelsdóttir, tónlistarstjóri er Hörður Alexander Eggertsson, kórstjóri er Hrafnkell Karlsson, ljósahönnuður er Þorsteinn Sigurbergsson og búningahönnuður er Ágústa Margrét Arnardóttir.
    Að sýningunni koma 16 leikarar, sjö manna kór, fjögurra manna hljómsveit, aðstoðarleikstjóri, sýningarstjóri og þrír tæknimenn, auk fjölmargra velunnara leikfélagsins sem hafa lagt hönd á plóginn við leikmyndagerð, smíðavinnu, hár og förðun.
    Sýningarnar fara fram í Mánagarði, félagsheimili rétt utan bæjarmarka, sem hefur verið aðalsýningarsalur Leikfélags Hornafjarðar í fjölda ára.

    Eins og segir í fréttatilkynningu frá leikfélaginu:
    „Rokksöngleikurinn Hárið eftir Gerome Ragni, James Rado og Galt MacDermot er þekktur fyrir framsækna nálgun sína á samfélagslegum málefnum. Verkið, sem endurspeglar hippamenningu og kynlífsbyltingu sjöunda áratugarins, setur á svið sögu hóps ungmenna í New York sem tekst á við stórar spurningar um stríð, frið og persónulegt frelsi.
    Verkið tekur á umdeildum málefnum eins og fíkniefnanotkun, kynhneigð og virðingarleysi fyrir þjóðartáknum, sem gerir það enn í dag að öflugum spegli samfélagslegra átaka.
    Söngleikurinn markaði tímamót í sögu tónlistarleikhúss með því að skilgreina nýja tegund rokksöngleiks. Þrátt fyrir að vera rúmlega hálfrar aldar gamalt, heldur verkið áfram að vekja spurningar um stríð, frið og persónulegt frelsi sem eru jafn mikilvægar í dag og þegar það var fyrst sett á svið.“

    „Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að leggja land undir fót og kíkja hingað til Hafnar í Hornafirði. Hér getur þú notið stórbrotinnar náttúru undir Vatnajökli, gist á hóteli, farið út að borða og skellt þér í leikhús.“

    Miðaverð er 5.5000 kr og hægt er að panta miða í gegnum Facebook Messenger hjá leikfélaginu og í síma 898 6701 og 892 9354. 

    Ferðin á heimsenda

    apr 1, 2025   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikfélag Blönduóss sýnir Ferðin á heimsenda.

    Leikfélagið Blönduóss hefur unnið markvisst að endurreisn félagins undanfarin ár og má segja að félagið sé að komast á frábært skrið núna. Leikfélagið setur nú á svið barnasýninguna Ferðina á Heimsenda eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur. Stór og flottur leikhópur á öllum aldri tekur þátt í sýningunni og er það hinn reyndi leikstjóri, Sigurður Líndal sem stýrir hópnum.

    Ferðin á heimsenda er barnaleikrit sem fjallar um ferðalagið á Heimsenda með verndargripinn geislaglóð sem þarf að fylla af sólarorku svo ekki fari illa fyrir álfaheiminum. Leikritið er fullt af ævintýralegum persónum, álfum, galdrakall, ömmu og hetjum. Verkið er sérstaklega skapað fyrir börn og til að börn geti notið þess að vera í leikhúsi og hentar allri fjölskyldunni.

    Leikfélagið lofar skemmtilegri sýningu og vonast til að sjá sem flesta!

    Sýnt verður í Félagsheimilinu á Blönduósi sem hér segir:
    Fimmtudagur 3.apríl kl: 19:00 – frumsýning
    Föstudagur 4.apríl kl: 20:00 – 2. sýning
    Sunnudagur 6.apríl kl: 14:00 – 3. sýning
    Þriðjudagur 8.apríl kl: 17:00 – 4.sýning

    Einnig er hægt að hringja milli kl: 16:00-20:00:
    Erla – 825 1133
    Eva – 695 9168

    Síður:1234567...98»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!