eikfélag Hörgdæla á Melum æfir nú söngleikinn Epli og eikur sem frumsýndur verður þann 27. febrúar. Söngleikurinn er skrifaður af Þórunni Guðmundsdóttur og var það fyrst sýnt af leikfélaginu Hugleik í Reykjavík árið 2007.
Söngleikurinn Epli og Eikur er sprenghlægilegur, farsakenndur söngleikur sem gerist allur á sama stað, í almenningsgarði í kringum garðbekk. Þar fer fram ákaflega flókinn eltingarleikur þar sem fangelsispresturinn Jóhannes er að fylgjast með glæpakonunni Frú Stefaníu, Vala, kona Jóhannesar, fylgist með honum en fær síðan járnsmiðinn Baldur til starfans. Til sögunnar kemur unga stúlkan Rakel sem einnig fer að eltast við Jóhannes. Prestsdóttirin Lára fer að læra glæpamennsku hjá frú Stefaníu og þær æfa sig í gagnkvæmri eftirför, Dóra systir hennar eltist við hinn myndarlega dr. Daníel, eða ekki. Inn í allt þetta fléttast síðan ýmis örlög persónanna, meinleg eða ekki. Leikstjóri sýningarinnar er Jenný Lára Arnórsdóttir.
Leikfélag Hörgdæla er virkt áhugafélag í Hörgársveit sem hefur sett upp sýningar á Melum frá árinu 1928, en það var ekki fyrr en árið 1997 sem leikfélagið var formlega stofnað.
Frumsýning er fimmtudaginn 27. febrúar en sýnt verður föstudaga og laugardaga að Melum fram í apríl. Lokasýning er áætluð 26. apríl. Þá verður sýnt um páskana, á Skírdag fimmtudaginn 17. apríl, Föstudaginn langa 18. apríl og laugardaginn 19. apríl.
Lína Langsokkur er eitt ástsælasta leikverk allra tíma fyrir yngstu kynslóðina
Þjóðleikhúsið mun frumsýna stórsýningu um Línu Langsokk á Stóra sviðinu næsta haust. Lína Langsokkur er eitt ástsælasta leikverk allra tíma fyrir yngstu kynslóðina – og hver kynslóð þarf að kynnast sterkustu stelpu í heimi sem lætur sig ekki muna um að lyfta hestinum sínum á góðum degi eða hafa tvær löggur undir ef því er að skipta.
Forsala á Línu hefst 20 mars . Sérstakur forsöluafsláttur, 1000 kr. af hverjum miða, verður í boði fyrstu tvo daga forsölunnar! Það er því til mikils að vinna að tryggja sér miða strax.
Hlutverkaskipan tilkynnt síðar og leikprufur fyrir börn Ætíð er mikill spenningur fyrir því hver leikur Línu og vini hennar Tomma og Önnu, auk Prússúlínar, þjófanna Klængs og Hængs eða lögregulmannanna Glúms og Gláms. Leikararnir sem fara með öll þessi hlutverk og önnur verða kynntir í mars en á sama tíma hefjast prufur fyrir börn sem hafa áhuga á að taka þátt í sýningunni við hlið atvinnuleikaranna. Í fyrri uppsetningum á Línu Langsokk hafa stórleikkonurnar Sigrún Edda Björnsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir og Ágústa Eva farið með hlutverk Línu – en hver það verður nú verður opinberað í mars.
Mikið sjónarspil framundan á Stóra sviðinu Sýningin um Línu Langsokk verður heljarinnar sjónarspil sem mun henta breiðum aldurshópi. Agnes Wild er leikstjóri sýningarinnar en hún hefur vakið mikla athygli fyrir frábærar barnasýningar. Karl Olgeirsson verður tónlistarstjóri en skemmst er að minnast einstakra útsetninga hans á lögunum í Kardemommubænum fyrir skemmstu, reynsluboltinn Finnur Arnar hannar leikmynd og Eva Björg Harðardóttir er búningahöfundur. Þórarinn Eldjárn er þýðandi verksins.
Nú geta allir farið að hlakka til að kíkja inn á Sjónarhól í Þjóðleikhúsinu á næsta leikári.
Skólastarfið fer að venju fram í Reykjaskóla í Hrútafirði.
Leiklistarskóli BÍL verðu haldin í 28 sinn í sumar og verður starfstími skólans að þessu sinni 21.-29. júní að Reykjaskóla í Hrútafirði.
Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði: Ágústa Skúladóttir mun kenna Leiklist II, framhald af námskeiðinu Leiklist I sem kennt var í fyrra. Karl Ágúst Úlfsson mun kenna Leikritun II, framhald af Leikritun I, þar sem lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð fyrir leikrita- og stuttverkaskrif. Gríma Kristjánsdóttir mun kenna nýtt sérnámskeið sem nefnist Trúðanámskeið fyrir byrjendur. Þá koma einnig fjórir höfundar í heimsókn til að skerpa stíl- eða hönnunarvopnið!
Skólagjald:
Þátttökugjald á námskeið er 116.000 kr. og gjald fyrir Höfunda í heimsókn er 95.000 kr. Skólagjaldið skal vera að fullu greitt í síðasta lagi 1. júní 2025.
Staðfestingargjald er kr. 40.000. Umsókn er þá fyrst gild að búið sé að greiða staðfestingargjald! Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.
Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.
Stormur er Glænýr söngleikur sem talar til ólíkra kynslóða um fyrstu stóru tímamót lífsins.
Vinahópur sem er að útskrifast úr menntaskóla stendur á tímamótum sem eru í senn spennandi og ógnvænleg. Hver er ég og hver vil ég vera? Get ég sagt skilið við fortíðina og byrjað lífið upp á nýtt? Þori ég að taka stökkið og fylgja hjartanu, alla leið?
Þorum, lifum, elskum – núna!
Elísabet er ung tónlistarkona sem er undir mikilli pressu að reyna að ljúka við sína fyrstu plötu í kjölfar þess að lag sem hún sendi frá sér varð óvænt vinsælasta lag ársins. Hluti vinahópsins er með henni í hljómsveit, og sumarið eftir útskriftina hittast vinirnir reglulega í æfingahúsnæði bandsins til að klára plötuna, fíflast saman og ríghalda í tilfinninguna að vera ung og frjáls aðeins lengur. Elísabet áttar sig smám saman á því að hún er ástfangin af Helgu vinkonu sinni og við tekur átakamikið ferðalag þar Elísabet þarf að ákveða hvort hún eigi að þora að segja Helgu hug sinn og kannski hætta á að missa hana fyrir fullt og allt. En um leið og gleðin er í hámarki hjá vinunum er eins og jörðin byrji að gliðna undir fótum þeirra.
Fyrri leikverk Unnar Aspar í Þjóðleikhúsinu, verðlaunaverkin Vertu úlfur og Saknaðarilmur, hafa hreyft rækilega við leikhúsgestum og heillað þá, en í þeim hefur hún beint sjónum að mikilvægum málefnum í samtíma okkar. Nú vinnur hún með einni fremstu tónlistarkonu landsins af ungu kynslóðinni, Unu Torfadóttur og þær semja í sameiningu nýjan söngleik sem fjallar á beinskeyttan hátt um ungt fólk á Íslandi í dag. Stórvinsæl lög Unu Torfa hljóma í bland við ný og grípandi lög.
Una Torfadóttir kom eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir tveimur árum. Hver smellurinn á fætur öðrum hefur náð miklum vinsældum og hrifið fólk á öllum aldri. Nýjasta plata hennar, Sundurlaus samtöl, hefur fengið frábærar viðtökur.
Leikdeild Eflingar frumsýndi laugardaginn 15. febrúar rokksöngleikinn Ólafíu eftir Hörð Þór Benónýsson með tónlist eftir Jaan Alavere. Leikstjóri er Hildur Kristín Thorstensen og tónlistarstjórn er í höndum Mariku Alavere. Söngleikurinn fjallar um líf ungs fólks í dag og áreiti sem það verður fyrir, vímuefni, útlitsdýrkun, samfélagsmiðla og tvískinnungshátt fullorðna fólksins. Hressandi tónlist og fjör í bland við alvarlegri atburði í sýningu sem spannar allan tilfinningaskalann. Atriði í sýningunni geta valdið óhug hjá mjög ungum börnum.
Sýnt eru í Félagsheimilinu á Breiðumýri í Reykjadal. Kvenfélag Reykdæla verður með vöfflu- og veitingasölu fyrir sýningu og í hléi en leikhúsið er sett upp sem kaffihús þar sem áhorfendur sitja við borð og geta notið veitinga með sýningunni.
Miðasala í síma 618-0847 eða á netfangið umfefling@gmail.com. Félagar í Framsýnar geta fengið 1000 kr afslátt af almennu miðaverði gegn framvísun miða sem fæst á skrifstofu Framsýnar.
Næstu sýningar verða 15. febrúar kl. 16.00 (frumsýning), sunnudag 16.00 febrúar kl. 20.00, þriðjudag 18. febrúar kl. 20.00 og fimmtudag 20. febrúar kl. 20.00.
Spennuþrungið og launfyndið nýtt verk eftir eitt af okkar fremstu leikskáldum
Móðirin er nýkomin heim eftir dvöl á heilsuhæli erlendis. Glæsileg veisla er haldin til að fagna heimkomunni. Faðirinn hefur alla þræði fjölskyldunnar í hendi sér – eftir því sem hann best veit – og dóttirin og sonurinn stíga dans á hárfínni línu sem þeim er ætlað að feta sig eftir. En eitthvað er ekki eins og það á að vera. Og ástandið er eldfimt. Voveiflegur atburður varpar skugga yfir fjölskylduna og teygir anga sína langt aftur. Þegar nágrannahjónin Elsa og Ellert banka upp á með öll sín vandamál kárnar gamanið og framundan er löng nótt.
Gráglettið fjölskyldudrama beint úr íslenskum samtíma um það sem kraumar undir niðri, það sem ekki er sagt, en einnig það sem hefði betur verið látið ósagt. Hrafnhildur Hagalín er eitt okkar virtasta leikskáld, en meðal fyrri verka hennar eru Ég er meistarinn, Hægan Elektra og Sek.
Leikverkið Átta konur er eftir franska leikskáldið Robert Thomas (1927-1989). Verkið var frumflutt í París árið 1961.
Leikfélag Selfoss vinnur nú hörðum höndum að 88. uppsetningu félagsins. Æfingar hófust í desember sl. og stefnt er á frumsýningu þann 14.febrúar. Rakel Ýr Stefánsdóttir leikstýrir verkinu sem heitir Átta konur og er „glæpsamlegur gamanleikur“ eftir franska leikskáldið Robert Thomas. Þýðing og aðlögun var í höndum Sævars Sigurgeirssonar. Við kynnumst glæsilegri eiginkonu, tveimur ungum og uppreisnargjörnum dætrum hennar, örvæntingarfullri mágkonu, gráðugri tengdamóður, ráðsettri ráðskonu með duldar hliðar og þjónustustúlku með ómótstæðilegan sjarma. Húsbúndinn virðist sofandi í rúmi sínu, en er það svo? Þegar sjö óstýrilátar konur koma saman og sú áttunda bætist við, getur allt gerst.
„Það hefur verið ansi líflegt hjá okkur í leikhúsinu síðustu daga, mikil leikgleði, söngur og dans! Ég er gífurlega þakklát fyrir þann frábæran leikhóp sem ég fæ að vinna með og ekki síst fyrir allt hæfileikaríka fólkið sem vinnur á bakvið tjöldin. Hér rennur saman mismunandi reynsla og þekking fólks, meira að segja frá mismunandi landshlutum og öll vinna saman!“ segir Rakel Ýr Stefánsdóttir leikstjóri. Leikverkið gerist í sumarbústað á Þingvöllum árið 1963. Átta leikkonur draga áhorfendur inn í litríkan kvennaheim, þar sem óvæntir atburðir, spennandi uppákomur og fjörug kímni fara hönd í hönd. Áhorfendur geta átt von á óvæntum dans- og söngatriðum, þegar leikkonurnar fara á flug. Átta óstýrilátar konur og einn húsbóndi tryggja sannkallaðar hamfarir á fjölum leikhússins með hækkandi sól. Þessi glæpsamlegi gamanleikur, kryddaður söng og dansi, lofar ógleymanlegri kvöldstund hjá Leikfélagi Selfoss.
Leikverkið Átta konur var frumflutt í París árið 1961 og hlaut það leiklistarverðlaun Prix du Quai des Orfèvres og naut mikilla vinsælda á sínum tíma. Franski leikstjórinn François Ozon vann kvikmynd upp úr verkinu árið 2002, þar sem margar af fremstu leikkonum Frakklands fóru á kostum og naut hún ekki síðri vinsælda en leikverkið sjálft.
Skeljar er ljúfsárt leikrit eftir Magnús Thorlacius sem fjallar um par sem kynnist hvort öðru upp á nýtt við að skipuleggja brúðkaupið sitt.
Í febrúar verður leiksýningin Skeljar sýnd í Ásmundarsal. Hún fjallar um par sem stendur frammi fyrir einhverri stærstu spurningu sem hægt er að spyrja aðra manneskju; hvort hún vilji eyða restinni af lífi sínu með sér. Hvers vegna giftum við okkur í dag? Er hjónaband í raun bara praktískt ,,næsta skref” fyrir tvær turtildúfur sem vilja styrkja stöðu sína gagnvart sköttum og bótum? Að bjóða bjúrókrasíunni upp í hjónarúmið? Svo ekki sé minnst á brúðkaupsdaginn sjálfan; á hvaða hefðum byggjum við fallegasta dag lífs okkar? Hvaðan koma þessar hefðir og hvers vegna höldum við í þær? Annarri hæðinni í Ásmundarsal verður umbreytt í drauma brúðkaupssal persónanna þar sem þau sjá fyrir sér stóra daginn sem og breytingarnar sem hann mun hafa í för með sér á líf þeirra.
Að gifta sig er í raun ekkert annað en að setja upp leikrit á stærsta degi lífs síns. En er það að vera í hjónabandi leikrit líka?
Verkið er um 70 mínútur að lengd.
Höfundur og leikstjóri: Magnús Thorlacius Leikarar: Hólmfríður Hafliðadóttir og Vilberg Pálsson Tónlist og hljóðmynd: Katrín Helga Ólafsdóttir Aðstoðarleikstjóri: Ástrós Hind Rúnarsdóttir Leikmynd og ljós: Magnús Thorlacius Ljósmyndir: Annalísa Hermannsdóttir Grafísk hönnun: Guðrún Sara Örnólfsdóttir
Sérstakar þakkir: Annalísa Hermannsdóttir, Franz Valgarðsson, Kristín Lára Ólafsdóttir, Ljósadeild Borgarleikhússins, Pálmi Jónsson, Tóma Rýmið, Tómas Óli K. M., ÞA Kranar
Kómedíuleikhúsið frá Dýrafirði mætir til borgarinnar með blóðuga en sögulega leikstykkið Ariasman eftir Tapio Koivukari. Árið 2011 kom út samnefnd bók eftir Tapio sem vakti mikla athygli. Enda er hér á ferð sönn saga um Baskamorðin hrottalegu á Vestfjörðum árið 1615. Leikritið Ariasman verður sýnt í Tjarnarbíó í Reykjavík og verða aðeins þrjár sýningar í boði. Fyrsta sýning er fimmtudaginn 30. janúar kl.20.00. Næstu sýningar verða viku síðar eða miðvikudaginn 5. febrúar og daginn eftir fimmtudaginn 6. febrúar.
Ariasman er áhrifa- og átakamikið leikverk um eitt mesta óhæfuverk Íslandssögunnar, Baskavígin. Að haustlagi 1615 var 31 baskneskur skipsbrotsmaður veginn af vestfirskum bændum. Ariasman er leikgerð sem er byggð á samnefndri sögulegri skáldsögu Tapio Koivukari, um Baskavígin sem eru í raun fyrstu og vonandi einu fjöldamorð Íslandssögunnar. Þessir hrottalegu atburðir gerðust fyrir vestan haustið 1615 þegar 31 baskneskur skipbrotsmaður var veginn á miskunarlausan hátt af vestfirskum bændum undir forystu Ara Magnússonar, sýslumanns í Ögri, en Baskarnir þekktu hann undir nafninu Ariasman.
Áhöfnin á Arisaman er þannig skipuð. Höfundur Tapio Koivukari. Leikari Elfar Logi Hannesson. Ljós Sigurvald Ívar Helgason. Búningahönnuður Þ. Sunnefa Elfarsdóttir. Tónlist Björn Thoroddsen. Leikmynd og leikstjórn Marsibil G. Kristjánsdóttir
Bréfið er komið! Þrjár prinsessur fá loksins ósk sína uppfyllta og halda af stað á prinsabiðstofuna þar sem ástin bíður þeirra. Nornin leggur á þær álög og prinsarnir koma ekki. Þær fara í ævintýraferðalag til að finna hinn eina sanna því þær get ómögulega lifað hamingjusamlega til æviloka nema að þær finni prinsinn sinn… eða hvað?
Þrátt fyrir að vera ólíkar verður til falleg vinátta og saman komast þær að því hvað skiptir mestu máli. Þær eru sterkar, hæfileikaríkar og klárar stelpur sem geta allt!
,,Hver vill vera prinsessa?“ er nýr söngleikur eftir Raddbandið, Söru Martí og Stefán Örn Gunnlaugsson, í anda Disney ævintýranna sem allir þekkja og elska.
Gjafabréf á söngleikinn „Hver vill vera prinsessa?“ er frábær Jólagjöf. Á Tix er ofureinfalt að kaupa gjafabréfið; þú einfaldlega velur fjölda miða, greiðir fyrir og færð gjafabréfið sent í tölvupósti. Einfaldara getur það ekki verið. Smelltu hér til að kaupa gjafabréf á söngleikinn og sláðu í gegn þessi Jólin með ávísun á góðar stundir í pakka.
Raddbandið skipa söng- og leikkonurnar Auður Finnbogadóttir, Rakel Björk Björnsdóttir og Viktoría Sigurðardóttir. Þær fara með hlutverk prinsessanna í söngleiknum og Sara Martí leikstýrir, en hún hefur leikstýrt ótal barnaleiksýningum á borð við Karíus og Baktus í Hörpu, Jólaævintýri Þorra og Þuru og síðast Umskiptingnum í Þjóðleikhúsinu.