Kómedíuleikhúsið hefur gert nýjan tveggja ára samning við ísafjarðarbæ
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar staðfesti á fundi sínum sl. fimmtudaginn tveggja ára samning við Kómedíuleikhúsið sem gildir fyrir árin 2021 og 2022.
Markmið samningsins mun vera að efla og glæða áhuga bæjarbúa á leiklist og auðga menningarlíf í Ísafjarðarbæ, auk þess að styrkja eina atvinnuleikhús Vestfjarða.
Ísafjarðarbær greiðir styrk til Kómedíuleikhússins að upphæð kr. 1.750.000 fyrir hvort ár.
Kómedíuleikhúsið er á móti skylt að setja upp og sýna leikverk, samkvæmt eftirgreindri dagskrá, í Ísafjarðarbæ:
Kómedíuleikhúsið kemur að hátíðarhöldum 17. júní á gildistíma samningsins, með leikatriði sem skipulagt skal í samráði við upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar.
Kómedíuleikhúsið tekur þátt í jólasveinadagskrá Safnahússins á Ísafirði – sem flutt verður tvívegis fyrir hvor jól, á gildistíma samningsins.
Kómedíuleikhúsið sér til þess að grunn- og leikskólabörn í Ísafjarðarbæ fái eina leiksýningu eða menningardagskrá á hvoru ári, árin 2021 og 2022. Sýnt verður í skólunum sjálfum, alls eru þetta 9 viðburðir árlega. Heimilt er að samsýna/samkeyra sýningar í þeim bæjarkjörnum þar sem grunn- og leikskóli eru starfræktir í sama húsnæði, í samráði við
forstöðumenn skólanna.
Kómedíuleikhúsið býður eldri borgurum Ísafjarðarbæjar uppá menningardagskrá á Hlíf og/eða Eyri, eigi sjaldnar en tvær sýningar á hvoru ári, árin 2021 og 2022.
Sýningar á Kardemommubænum hefjast aftur í Þjóðleikhúsinu um helgina. Alls eiga um 20 þúsund gestir miða og á næstu dögum og vikum munu þeir fá boð um nýja sýningardaga. Miðað við núverandi samkomutakmarkanir er aðeins gert ráð fyrir 150 fullorðnum í sóttvarnarhólf og ljóst er að dreifa verður gestum á mun fleiri sýningar en seldar voru í upphafi. Sérstakur þjónustuvefur, kardemommubaerinn.is, hefur verið settur í loftið til að einfalda miðaeigendum að tryggja sér nýja sýningardaga. Mikill áhugi fullorðinna gesta setur strik í reikninginn því gæta þarf meiri fjarlægðar á milli þeirra en barna.
20 þúsund manns bíða eftir því að komast á Kardemommubæinn
Samkomubann og fjöldatakmarkanir settu stórt strik í sýningaáætlun Þjóðleikhússins eins og gefur að skilja. Tugþúsundir gesta sem áttu miða á sýningar hafa beðið þess með óþreyju að komast aftur í leikhúsið og nú er loksins komið að því að þeir sem náðu ekki að sjá Kardemommubæinn vegna samkomubanns býðst að festa sér nýja sýningardaga. Áætlanir leikhússins miða við að hægt verði að bjóða öllum hópnum upp á sýningar í síðasta lagi í september. Verði frekari tilslakanir á fjöldatakmörkunum eru líkur á því að hægt verði að bjóða öllum sem nú eiga miða að komast fyrr í leikhúsið.
Sýnt verður eins oft og hægt er
Sýnt verður þétt, allt að 12 – 15 sýningar á mánuði. Verði frekari tilslakanir á næstunni er mögulegt að fjölga gestum í sal og þá er hugsanlegt að nýir sýningardagar verði settir í sölu fyrir vorið. Opnuð hefur verið sérstök upplýsingasíða: kardemommubaerinn.is, þar sem miðaeigendum er boðið að finna sér nýja sýningardaga. Allir miðaeigendur eiga von á tölvupósti með nýju bókunarnúmeri til að geta valið sér nýja sýningardaga, en póstarnir verða sendir út smám saman, og þannig komast þeir sem fyrst keyptu miða að fyrst og svo koll af kolli.
Fullorðnir ekki síður spenntir fyrir Kardemommubænum
Starfsfólks miðasölu bíður mikil áskorun, því handraða þarf gestum í salinn til að tryggja fjarlægðarmörk á meðan aðeins er leyfi fyrir 100 fullorðnum gestum í sóttvarnarhólfi. Nauðsynlegt er að kalla eftir samsetningu gestahópsins og sjá fjölda fullorðinna og barna í hverri bókun svo hægt sé að raða í sal.
Sérstök upplýsingasíða hefur verið opnuð fyrir miðaeigendur þar sem þeir geta séð hvenær þeir eiga von á því að fá nýtt bókunarnúmer sent.
Hvað gerir taugaskurðlæknir þegar gömul hjásvæfa hans mætir, óumbeðin, rétt áður en hann á að flytja mikilvægasta fyrirlestur ferilsins og tilkynnir honum það að hann eigi fullvaxta son? Af hverju er löggan komin í málið? Af hverju grettir Grettir Sig sig? Hvað ætli Súsanna, konan hans, segi? Hvað er Páll Óskar að gera þarna? Hver er Loftur? Hvað er málið með Mannfreð og Gróu? Hvar er yfirdeildarhjúkrunarfræðingurinn?
Leikfélag Keflavíkur setur upp sprenghlægilega gamanleikinn Beint í æð í leikstjórn Jóels Sæmundssonar í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Frumsýning er föstudagskvöldið 5. febrúar í Frumleikhúsinu við Vesturbraut.
Vegna aðstæðna og sóttvarnarreglna í samfélaginu eru aðeins 100 miðar í boði á hverja sýningu og þurfa gestir að sitja í númeruðum sætum. Leikfélagið mun sjá til þess að tveir metrar séu á milli allra hópa og því vill leikfélagið hvetja hópa til að panta miða saman svo hægt sé að tryggja að allir fái sæti saman.
Æfingar á farsanum hófust í haust og hafa æfingar gengið vel þrátt fyrir allt. Um tíma var æft í gegnum netið en um leið og slakað var á tíu manna samkomubanni og fólki í sviðslistum gefið tækifæri á æfingum fór verkefnið á fullt að nýju.
Beint í æð er önnur uppfærsla leikstjórans Jóels Sæmundssonar fyrir Leikfélag Keflavíkur. Síðasta verk var Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson sem fór alla leið á fjalir Þjóðleikhússins sem áhugaleiksýning ársins 2017–2018.
Öllum gestum, sem og starfsfólki, er skylt að vera með andlitsgrímu. Gestir mæta með eigin grímu ef kostur gefst en ef ekki þá verða grímur útvegaðar á staðnum. Engin veitingasala er á staðnum.
Hilmir Snær og Vala Kristín í hlutverkum sínum í Oleanna í Borgarleikhúsinu
Leikritið Oleanna snýr aftur á svið Borgarleikhússins eftir að sýningum var hætt vegna Covid faraldursins.
Ung námskona kemur í viðtalstíma til háskólakennara síns. Kennarinn nýtur mikillar velgengni í starfi og einkalífi, er að kaupa sér hús og á von á fastráðningu.
Það sem byrjar sem sjálfsögð hjálp við námið breytist í miskunnarlausa baráttu og óvænta atburðarás sem kollvarpar valdajafnvæginu á milli kennara og nemanda, karls og konu og lífi þeirra beggja í leiðinni.
Beitt og meistaralega vel skrifað leikrit sem slær okkur út af laginu og spyr óvæginna spurninga. Á tímum þegar umræður og deilur um skilgreiningarvald og ólíkar orðræður hafa magnast er þetta leikrit Mamets um vald og sannleika ofureldfimt.
Unnur Ösp Stefánsdóttir, Emilíana Torrini og Héðinn Unnsteinsson. Ljósmynd: Jorri
Tónlist eftir Emilíönu Torrini, Markéta Irglová, Valgeir Sigurðsson og Prins Póló.
Platan verður aðeins framleidd í 39 eintökum og hvert eintak selt á 39.000 krónur, með vísan í átakið 39.is
Verður einstakur safngripur og merkileg heimild um sýningu sem á fáa sína líka
Sýningin Vertu úlfur sem frumsýnd var fyrir skemmstu í Þjóðleikhúsinu hefur fengið frábærar viðtökur. Í tengslum við hana var gefin út vínylplata í takmörkuðu upplagi með tónlist úr sýningunni. Platan er til sölu í Þjóðleikhúsinu og ágóðinn mun renna óskiptur til Geðhjálpar.
Þjóðleikhúsið hóf sýningar á Stóra sviðinu að nýju eftir nær fjögurra mánaða samfellt hlé vegna samkomubanns með frumsýningu á einleiknum Vertu úlfur. Verkið er eftir Unni Ösp Stefánsdóttur sem einnig leikstýrir, og er byggt á bók Héðins Unnsteinssonar sem vakti verðskuldaða athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Fjallað er hispurslaust um baráttuna við geðsjúkdóma út frá sjónarhóli manns sem í senn glímir við geðraskanir og starfar innan stjórnsýslunnar á sviði geðheilbrigðismála.
Í tengslum við sýninguna er nú hægt að kaupa plötu með tónlist Valgeirs Sigurðssonar úr sýningunni, og titillögum eftir annars vegar Emilíönu Torrini og Markétu Irglová, og hins vegar Prins Póló. Einnig les Héðinn Unnsteinsson Lífsorðin 14 inn á plötuna. Platan er einungis framleidd í 39 eintökum og er seld á 39 þúsund krónur, með vísan í átakið 39.is.
Segja má að titillög sýningarinnar endurspegli ólíkar hliðar geðhvarfa. Lag Emilíönu og Markétu fangar hinar dekkri og viðkvæmari hliðar á meðan lag Prinsins endurspeglar oflætið. Þetta er í fyrsta sinn sem Emilíana Torrini semur lag á íslensku og texti hennar er einnig notaður í lagi Prins Póló.
Árið 1970 fannst kvenmannslík í Ísdal rétt fyrir utan Bergen í Noregi. Konan var alls ekki búin til útvistar og í farangri hennar fundust meðal annars hárkollur og ýmis dulargervi. Við eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að hún hafði ferðast vítt og breytt um Evrópu á fölsuðum skilríkjum, en hvorki tókst að upplýsa hver hún var, hvaðan hún kom né hvað í ósköpunum hún var að gera í Bergen.
Í gegnum tíðina hefur líkfundurinn vakið bæði forvitni og umtal í Noregi og um heim allan, en þrátt fyrir ótal kenningar hefur engum tekist að leiða til lykta hvað gerðist djúpt inni í Ísdal og hvað dró þessa útlensku konu til dauða. En það gæti breyst þegar annar útlendingur fer að grafast fyrir um málið.
Þegar íslenskur sviðslistamaður, Friðgeir Einarsson, flytur til Bergen, lætur hann heillast af ráðgátunni og gerir sitt besta til að upplýsa hana. En kannski ekki á þann hátt sem búast hefði mátt við. Friðgeir er hvorki lögreglumaður, né með reynslu af rannsóknarstörfum, en telur sig hafa ákveðna innsýn inn í hugsunarhátt konunnar. Hann er jú aðkomumaður, rétt eins og hún var.
Útlendingurinn er skandinavískt raunsæisglæpadrama þar sem mál „Ísdalskonunnar“ er nálgast á frumlegan hátt og nýjar kenningar dregnar fram í dagsljósið. Annað verkið frá sama listræna teymi og setti upp verðlaunasýninguna Club Romantica, en það var fyrsti hluti þessa ráðgátuþríleiks. Tónlist verksins er samin af Snorra Helgasyni og flutt á sviðinu af honum sjálfum.
Sigga Dögg og Dominique vilja fara á trúnó með ungu fólki og heyra þeirra sögur
Þjóðleikhúsið hvetur um þessar mundir einstaklinga á aldrinum 15-20 ára að senda inn tillögur að umfjöllunarefni fyrir nýtt og spennandi verkefni undir nafninu TRÚNÓ. Verkefnið er nýr liður í stefnu Þjóðleikhússins að auka framboð á efni sérstaklega ætlað ungu fólki á framhaldsskóla aldri. Markmið TRÚNÓ er að ungt fólk fái tækfæri til að móta verk sem snertir á málefnum þess, á þeirra eigin forsendum.
Sigga Dögg og Dominique
Dominique Sigrúnardóttir, leikkona og leikstjóri ásamt Siggu Dögg, kynfræðingi eru höfundar TRÚNÓ og hafa umsjón með verkefninu í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Þær hafa báðar víðtæka reynslu af því að vinna með ungu fólki, en Dominique hefur meðal annars leikstýrt tveimur leiksýningum fyrir Listafélag Verslunarskóla Íslands og Sigga Dögg hefur ferðast vítt og breytt um landið við að kenna kynfræðslu. Þær munu þróa valdar tillögur áfram og stefnt er á að sýna afraksturinn, þar sem ungir áhugaleikarar fá að spreyta sig á glænýjusviði Þjóðleikhússins, Loftinu.
Loftið er nýtt leikrými Þjóðleikhússins þar sem áhersla er lögð á að rannsaka og þróa nýtt efni og nýjar frásagnarleiðir fyrir yngri áhorfendur. Þar verður til rými til að hlusta á óheyrðar raddir, segja ósagðar sögur og deila leyndri þekkingu. Þar er staður fyrir sviðslistafólk til að stunda formtilraunir og nýsköpun í hráu rými. Listrænn stjórnandi Loftsins er Gréta Kristín Ómarsdóttir.
Haldnar verða opnar prufur fyrir leikhóp Trúnó þegar fram líða stundir. Ungir áhugaleikarar eru hvattir til að nýta þetta einstaka tækifæri til að hafa áhrif á framvindu verkefnisins með því að senda inn sínar hugmyndir inn á heimasíðu leikhússins
Leikfélag Fljótsdalshéraðs tefldi djarft í haust og hóf æfingar á Fullkomnu brúðkaupi eftir Robin Hawdon. Því miður náðist ekki að frumsýna vegna veirunnar en nú er loks komið að stóru stundinni. Frumsýnt verður laugardaginn 23. janúar kl. 20.00 að Iðavöllum. Það er hinn margreyndi Guðjón Sigvaldason sem leikstýrir verkinu. Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inn í atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni og herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað… Fullkomið brúðkaup er frábærlega skrifaður gamanleikur, hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást.
Aðeins er hægt að panta miða í tölvupósti, ekki er hægt að kaupa á staðnum.
Markmið leikhússins er að auka fjölbreytni í leikhópnum
Leikarar af öllum kynjum og mismunandi uppruna hvattir til að sækja um
Þjóðleikhúsið vinnur nú að undirbúningi næsta leikárs og í þeim tilgangi er kallað eftir umsóknum um stöður leikara við húsið. Nú í fyrsta sinn er kallað eftir rafrænum umsóknum og prufum fyrir menntaða leikara. Í fyrsta sinn geta leikarar sent stuttar upptökur af sér auk almennra umsóknargagna. Er þetta gert til að auka aðgengi nýrra leikara að húsinu en jafnframt lagar leikhúsið með þessum hætti sig að ríkjandi aðstæðum. Í framhaldinu, eftir að listrænir stjórnendur í nýju listrænu teymi leikhússins hafa farið yfir umsóknir, verður hluta hópsins boðið í ítarlegri prufur með sambærilegum hætti og gert var síðastliðið vor þegar 11 leikurum var boðið til ítarlegra prufa fyrir hlutverk Rómeós. Þá er unnið með leikstjóra við húsið.
Markmið leikhússins er að stuðla að því að markviss og vönduð endurnýjun verði í leikhópnum og auka fjölbreytni. Leikarar af öllum kynjum og mismunandi uppruna eru hvattir til að senda inn prufur.
Skráning á umsóknum og innsending á prufugögnum fer fram í gegnum skráningarform á vefsíðu leikhússins, leikhusid.is. Senda skal inn gögn skv. nánari leiðbeiningum á vefnum, þ.e. upplýsingar um feril, ljósmynd og stutt myndband. Öllum umsóknum verður svarað, en ekki verða allir boðaðir í framhaldsprufur.
Tekið hefur verið við umsóknum síðan í desember en skilafrestur er til og með 1. febrúar 2021.
Fuglabjargið er áferðarfagurt tónleikhúsverk fyrir börn þar sem hljóðfæraleikarar og söngvarar verksins bregða sér í allra fugla líki. Í verkinu fylgjumst við með einu ári í eyjunni þar sem árstíðir koma og fara, hver á eftir annarri, og svo hring eftir hring eftir hring.
Fuglabjargið er nýtt, íslenskt barnaverk en textinn er eftir Birni Jón Sigurðsson, en hann hlaut Grímutilnefningu sem leikrit ársins 2020 ásamt leikhópnum CGFC fyrir verkið Kartöflur. Tónlist verksins er í höndum Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur sem nýlega var kosin bjartasta von íslensks tónlistarlífs í samtíma- og klassískri tónlist.
Verkefnið er styrkt af Sviðslistaráði, Starfslaunasjóði listamanna, Átaksverkefni atvinnuleikhópa, Barnamenningarsjóði, Tónlistarsjóði og Nordic Culture Point.