Verkið gerist á aðventunni og jólasveinarnir eru farnir að tínast til byggða og gefa börnum í skóinn. En eina nóttina hverfur Ljónsi, uppáhalds mjúkdýrið hennar Láru sem, eins og flestir vita, er enginn venjulegur bangsi. Hvað getur hafa orðið af Ljónsa? Getur verið að hvarf hans tengist jólasveinunum á einhvern hátt?
Bækur Birgittu Haukdal um Láru og Ljónsa njóta ómældra vinsælda hjá íslenskum börnum, og nú birtast þessar ástsælu persónur í fyrsta sinn á leiksviði. Leikverkið hentar vel yngstu áhorfendunum og er tilvalin skemmtun í aðdraganda jólanna. Birgitta Haukdal hefur samið ný lög fyrir leiksýninguna.
Jólaævintýri eftir Birgittu Haukdal og Góa
Fyrstu Láru-bækurnar komu út árið 2015, Lára lærir að hjóla og Lára fer í flugvél, og slógu eftirminnilega í gegn. Síðan þá hafa komið tvær nýjar sögubækur um þau Láru og Ljónsa á hverju ári, auk bendibókanna Lára og Ljónsi sem henta allra minnstu lesendunum. Krakkar eiga að geta samsamað sig við Láru, vini hennar og fjölskyldu. Enginn er fullkominn og Lára getur sannarlega verið óþekk eða gert ýmis mistök. Í Lárubókunum er gjarnan að finna sögur úr raunveruleikanum, eitthvað sem þeim fullorðnu finnst hversdagslegt en börnum finnst vera stórkostlegt ævintýri.
Lárubækurnar og jólasöngbók Birgittu eru til sölu í leikhúsinu.
Alþjóðlega brúðulistahátíðin Hvammstangi International Puppetry Festival 8.-10. október 2021 .
Alþjóðlega brúðulistahátíðin Hvammstangi International Puppetry Festival – HIP Fest – fer fram í annað sinn dagana 8-10. október 2021. Á hátíðina koma á þriðja tug erlendra listamanna frá 8 löndum sem bjóða upp á fjölda sýninga og vinnusmiðja, auk fyrirlestra og kvikmyndasýninga með umræðum við listamennina á eftir, á meðan á hátíðinni stendur.
HIP Fest er einstök viðbót í menningarlíf landsmanna, enda eina brúðulistahátíð landsins. HIP Fest var valinn menningarviðburður ársins á Norðurlandi vestra árið 2020 og skipuleggjandi hátíðarinnar, Handbendi – Brúðuleikhús, er núverandi Eyrarrósarhafi, en Eyrarrósin eru verðlaun sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.
Þrátt fyrir verulegar samkomutakmarkanir á hátíðinni í fyrra tókst hún einstaklega vel við mikla ánægju þátttakenda og áhorfenda.
Brúðulistin er fjölbreytt og fornt listform sem stöðugt haslar sér meiri völl í menningarlífi landsins. Á hátíðinni má líta fjölbreyttar sýningar fyrir alla aldurshópa, sem nýta sér öll blæbrigði listformsins.
Miðasala fer fram á tix og dagskrá hátíðarinnar má gaumgæfa á heimasíðu hennar, thehipfest.com.
Leikhópurinn Miðnætti er barnafjölskyldum að góðu kunnur enda hefur hann á síðustu árum sett upp fjölmargar metnaðarfullar og stórskemmtilegar sýningar fyrir börn á öllum aldri. Hér má t.d. nefna Geim-mér-ei, Á eigin fótum og sýningar og sjónvarpsþætti um álfana dásamlegu Þorra og Þuru. Nú er Miðnætti mætt í Borgarleikhúsið með undurfallega sýningu fyrir allra yngstu leikhúsgestina.
Tjaldið er upplifunarleikhús fyrir börn frá þriggja mánaða til þriggja ára – sem og foreldra þeirra og forráðamenn. Hér verður boðið upp á litla veislu fyrir skynfærin þar sem börnin fá að skyggnast undir leikhústjaldið og upplifa tóna, liti og snertingu sem bæði örvar, þroskar og gleður andann. Athugið að ekki er stuðst við móðurmál í sýningunni svo hún er ætluð öllum börnum óháð tungumáli. Eftir sýningu verður í boði að setjast fram í forsal leikhússins og njóta veitinga og notalegrar stundar með börnunum.
Í samstarfi við leikhópinn Miðnætti. Verkefnið er styrkt af mennta- og
menningarmálaráðuneyti — Sviðslistaráði.
Leikfélag Kópavogs frumsýndi barnaleikritið Rúa og Stúa síðastliðinn vetur í Leikhúsinu í Kópavogi. Vegna Covid þurfti að hætta sýningum í miðju kafi en nú tekur leikfélagið upp þráðinn að nýju og fyrsta sýning verður 2. okt. næstkomandi. Rúi og Stúi hafa smíðað vél sem getur allt. Hún getur búið til hluti, gert við hluti, gert afrit af hlutum og jafnvel gert nákvæma styttu af bæjarstjóranum. Eða hvað? Vélin bilar, bæjarstjórinn hverfur og dularfull kráka og enn dularfyllri stórþjófur koma öllu í uppnám. Hvað er til ráða annað en að baka sjálfur jólaköku? Fær Bergsteinn aðstoðarmaður sinn ástkæra bæjarstjóra aftur? Tekst Rúa og Stúa að gera við vélina? Hér má sjá sýningartíma og kaupa miða. Leikritið er eftir þá Skúla Rúnar Hilmarsson og Örn Alexandersson en leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson. Átta leikarar taka þátt í Rúa og Stúa og þar af eru tveir nýir leikarar í þessari útgáfu sýningarinnar, þau Gísli Björn Heimisson og Birgitta Björk Bergsdóttir. Auk þess koma fjölmargir aðrir að uppsetningunni. Leikmynd er í höndum Norðanbáls, María Björt Ármannsdóttir sér um búninga, Vilborg Árný Valgaðrsdóttir um förðun, ljósameistari er Skúli Rúnar Hilmarsson og Hörður Sigurðarson sér um hljóð. Leikfélag Kópavogs er opið öllum áhugamönnum um leiklist. Nánari upplýsingar er hægt að fá á vef félagsins kopleik.is.
Rúnar Júlíusson var frábær tónlistarmaður og meðlimur í vinsælustu hljómsveitum landsins á sínum tíma.
Leikfélag Keflavíkur fagnar 60 ára afmæli með 100. leiksýningu félagsins. Í ár fagnar leikfélagið 60 ára afmæli og af því tilefni verður söngleikurinn „Fyrsti kossinn“ frumsýndur í Frumleikhúsinu þann 22. október nk. Sýningin er jafnframt sú 100. í sögu félagsins ef rétt er talið og því ber að fagna eins og segir í fre´ttatilkynningu frá félaginu.
Fyrsti kossinn er söngleikur saminn af Brynju Ýr Júlíusdóttur og Guðlaugi Ómari Guðmundssyni sem bæði hafa leikið og setið í stjórn LK í mörg ár. Verkið er að sögn höfundanna samið og sett upp til að heiðra minningu Rúnars heitins Júlíussonar en eins og flestir vita var Rúnar frábær tónlistarmaður og meðlimur í vinsælustu hljómsveitum landsins á sínum tíma, samdi og gaf út óteljandi lög og rak útgáfufyrirtækið Geimstein sem enn er starfandi.
Verkið hefur að geyma lög og texta eftir Rúnar Júlíusson, Gunnar Þórðarson, Bubba Morthens og fleiri snillinga og fjallar í stuttu máli um líf og ástir hljómsveitarmeðlima í hljómsveitinni Gripum sem reyna að meika það. Lögin eru þekktar perlur sem allir kunna og textinn sem tengir lögin snilldin ein hjá þessu unga fólki. Tónlistarstjórn er höndum þeirra Smára Guðmundssonar og Björgvins Ívars Baldurssonar sem sjá um allar upptökur en það verður einnig lifandi tónlist í sýningunni. Leikaravalið var leikstjóranum Karli Ágústi Úlfssyni og danshöfundinum, dóttur Karls, Brynhildi Karlsdóttur afar erfitt en margir frábærir, hæfileikaríkir einstaklingar mættu í prufur sem fram fóru í ágúst. Lifandi tónlist, söngur og dans einkenna sýninguna sem eins og áður sagði verður frumsýnd 22.október.
Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var ekki bara einn merkasti málari sem Íslendingar hafa átt, heldur má segja að hann hafi átt stóran þátt í að kenna þjóð sinni að meta stórbrotna náttúru landsins, náttúrunnar vegna. En hver var þessi sérkennilegi maður – og hvaðan kom hann? Í leikandi léttri fjölskyldusýningu sem byggir að hluta til á verðlaunabók Margrétar Tryggvadóttur um listamanninn, er leitast við að draga upp mynd af Kjarval; drengnum, manninum og málaranum.
Listin sjálf er sömuleiðis í brennidepli; hvernig hún er allt í kringum okkur og hefur áhrif á lífið alla daga, við horfum á listina og ef við erum heppin þá horfir hún til baka. Jóhannes Kjarval batt bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn en kenndi okkur að líta umhverfið nýjum augum og sjá listina í hinu stórbrotna jafnt sem hinu hversdagslega – í hrikalegu hrauni en líka í mygluðum flatkökum.
Fræðsludeild Þjóðleikhússins mun standa fyrir tækninámskeiðum dagana 1. – 3. okt
Fræðsludeild Þjóðleikhússins mun standa fyrir tækninámskeiðum dagana 1. – 3. okt. þar sem farið verður yfir helstu atriði er varða ljósatækni og hljóðtækni.Námskeiðíð er ætlað ljósa og hljóðmönnum áhugaleikhúsa, félagsmiðstöðva og þeirra sem vinna með ljós og hljóð á öðrum vettvangi.
Þáttakendur þurfa að hafa náð 16-17 ára aldri og hafa eitthvað fengist við ljósa og hljóðvinnu áður. (Ekki byrjendanámskeið). Námskeiðið verður kennt í Þjóðleikhúsinu og leiðbeinendur er tæknimenn Þjóðleikhússins.
Námskeiðið stendur dagana 1-3 okt. og er ca. 5 klst. Námskeiðið kostar kr. 20.000 per. þáttakanda fyrir hvort námskeið. Fjöldi þátttakanda miðast við 16 pers. Fyrstur kemur – fyrstur fær!
Kennt verður föstud. 18.00 – 19.30 (hljóð) og 20.00 – 21.30. (ljós). – Laugard. 11.30 – 13.00 (hljóð) og 13.30–15.00 (ljós)
Sunnud. 11.30 –13.00 (hljóð) og 13.30-15.00 (ljós)
Allar nánari upplýsingar veitir forstöðumaður barna og fræðsludeildar Björn Ingi Hilmarsson bjorn.ingi@leikhusid.is.
Nýtt Hádegisleikhús hefur nú tekið til starfa í endurnýjuðum Leikhúskjallara. Þar sjá gestir sýningu á nýju íslensku leikriti um leið og þeir snæða léttan hádegisverð. Í Hádegisleikhúsinu verða frumsýnd fjögur ný íslensk verk sem valin voru úr innsendu efni í handritasamkeppni sem Þjóðleikhúsið hélt í samstarfi við RÚV. Húsið opnar kl. 11.30 og matur er borinn fram á bilinu 11.45-12.10. Leiksýningin hefst kl. 12.20 og tekur tæpan hálftíma. Gestum er sannarlega velkomið að sitja áfram eftir sýningu!
Höfundar verkanna í Hádegisleikhúsinu eru Bjarni Jónsson, Hildur Selma
Sigurbjörnsdóttir, Jón Gnarr og Sólveig Eir Stewart.
Þjóðleikhúsið auglýsti árið 2020 eftir handritum og hugmyndum að
styttri verkum fyrir hádegisleikhús og alls bárust 254 verk.
Á meðfylgjandi mynd eru Hrafnhildur Hagalín dramatúrg, Sólveig Eir Stewart höfundur, Hildur Selma Sigbertsdóttir höfundur, Jón Gnarr höfundur og Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.
Þátttaka íslenskra leikskálda var gríðarleg en alls bárust 254
verk frá 194 höfundum. Fjögur verkefni hafa nú verið valin til sýninga. Verkin
verða frumsýnd í hinu nýja Hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins í
Þjóðleikhúskjallaranum leikárið 2020-21 og í framhaldinu í Sunnudagsleikhúsi
RÚV. Verkin sem voru valin eru eftir fjögur íslensk leikskáld, þau Bjarna
Jónsson, Sólveigu Eir Stewart, Jón Gnarr og Hildi Selmu Sigbertsdóttur. Í
dómnefndinni sátu þau Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir, Ólafur Egill
Egilsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Þorgerður E.
Sigurðardóttir og Skarphéðinn Guðmundsson.
Hádegisleikhúsið er tilvalið fyrir starfsmannahópa, pör eða bara
hvern sem er að eiga stefnumót í hádeginu í Kjallaranum okkar, snæða léttan
hádegisverð og horfa á splunkunýtt íslenskt stuttverk.
Leiksýning byggð á ögrandi list og litríku lífshlaupi Ástu Sigurðardóttur
Hin dulúðuga listakona Ásta Sigurðardóttir (1930-1971) var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndlist hennar og ritverk vöktu aðdáun en líka hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs þessarar hæfileikaríku en breysku konu og höfundarverks hennar óljós.
Saga um
vonir, langanir og drauma sem enn geta ræst
Ásta hikaði ekki við að ögra ríkjandi viðhorfum og fylgja kalli hjarta
síns, en brenndi kertið í báða enda og féll frá langt fyrir aldur fram. Hún
varð táknmynd hinnar frjálsu konu, kynfrelsis nýrra tíma og framúrstefnulistar
en mætti fordómum og útskúfun og kynntist hinu dýpsta myrkri sorgar og
örvæntingar. En saga Ástu er líka saga um vonir, langanir og drauma sem enn
geta ræst.
Í þessu nýja verki er svipmyndum af Ástu og skáldskap hennar fléttað
saman. Matthildur Hafliðadóttir söngkona og hljómsveit Guðmundar Óskars
Guðmundssonar flytja ljóð Ástu og endurskapa tíðarandann í tónum.
Leikhópurinn Umskptingar frumsýnir tvíleikinn Í myrkri eru allir kettir gráir 18. september næstkomandi í Hlöðunni, Litla-Garði á Akureyri.
Í myrkri eru allir kettir gráir er svokallaður tvíleikur, eða tveir einleikir sýndir sama kvöldið. Verkin eru að mörgu leyti ólík en fjalla þó bæði í grunninn um mennskuna og hvernig fólk glímir á ólíkan hátt við áföll.
Næstu sýningar verða í Hlöðunni, Litla-Garði á Akureyri 25. sept. 26. sept. 30. sept. og 1. okt. Í hverri viku rennur hluti andvirðis seldra miða til góðgerðarmála. Fyrstu vikuna renna 15% af miðasölu til Rauða krossins.
Fyrra verk tvíleiksins heitir Heimþrá og fjallar um Öldu, sem vinnur að
lokaritgerð sinni til meistaragráðu í HA og tekur viðtöl við flóttamenn. Einn
þeirra lánar henni stílabók með frásögnum samlanda sinna úr flóttamannabúðunum
og smám saman vekja þær hjá Öldu viljann til að vinna sig út úr eigin missi.
Seinna verkið heitir Líf og
fjallar um Sissu, sem er tónlistarkona af lífi og sál. Hún hefur óbilandi trú á
eigin ágæti en finnst hún ekki alltaf njóta sannmælis í listaheiminum, þar sem
klíkuskapurinn ræður ríkjum. Eftir eins sumars frægð á unglingsárunum og
vinsælan einsmellung dreymir hana um meira. Svo miklu meira. En lífið þvælist
fyrir henni og áframhaldandi frægð lætur bíða lengi eftir sér. En Sissa gefst
ekki upp fyrr en í fulla hnefana og loksins, einn góðan veðurdag, springur allt
út.
Hugmyndin að tvíleiknum fæddist á fundi hjá leikhópnum
Umskiptingum árið 2018. Þá voru bæði Margrét og Sesselía komnar með hugmyndir
að einleikjum sem þær langaði að skrifa. Þær ræddu innihald beggja einleikjanna
og ákváðu að sýna þá saman og fá Jennýju Láru til þess að leikstýra þeim.
Margrét hellti sér svo í að skrifa einleikinn Líf og á meðan samdi Sesselía
Heimþrá. Áformað var að sýna tvíleikinn haustið 2020, en önnur bylgja Covid kom
í veg fyrir það. Báðir einleikirnir nutu þó góðs af biðinni og höfundar þeirra
fóru í gegnum nokkrar útgáfur handritanna sem nú eru fullkomnuð.
Atvinnuleikhópinn Umskiptinga skipa þau Birna Pétursdóttir, Jenný
Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B.
Bragason. Árið 2017, þegar leikhópurinn var stofnaður markaði það tímamót. Það
var í fyrsta skipti í 4 ár sem atvinnuleikhópur var starfandi á Akureyri. Það
sama ár sýndu þau sitt fyrsta verk, „Framhjá rauða húsinu og niður stigann“.
Það vakti mikla eftirtekt og fékk góða dóma og var sýnt bæði í Hlöðunni, rétt
utan Akureyrar, og í Tjarnarbíói og árið eftir var leikhópurinn tilnefndur til
Grímunnar sem sproti ársins. Árið 2019 settum þau svo upp frumsamda
fjölskylduleikritið
„Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist“, með frumsamdri tónlist og aðkomu
fjölmargra listamanna víðsvegar að af landinu. Hún fékk frábærar viðtökur og
fjórar stjörnur í Morgunblaðinu og árið eftir var sýningin tilnefnd til
Grímunnar sem barnasýning ársins.
Leikstjóri og framleiðandi beggja einleikja er Jenný Lára
Arnórsdóttir, en hún útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London
árið 2012. Hún hefur einbeitt sér meira að leikstjórn en að leika frá útskrift
en meðal hlutverka sem hún hefur farið með eru Sophie í Blik í uppsetningu
Leikhópsins Artik í Gamla Bíói, Þórey í Hrútum eftir Grím Hákonarson, Söndru í
Djúpum sporum í Tjarnarbíói og kvenhlutverkið í Elsku – ástarsögur Norðlendinga
sem var gestasýning hjá LA veturinn 2016-2017. Meðal
leikstjórnarverkefna og handritsskrifa eru heimildarverkið Skjaldmeyjar hafsins
með hjá leikhópnum Artik, gamanóperan Piparjúnkan og þjófurinn með Óperuhópnum,
Einki orð með InTime Theatre og Tjóðpalli Føroya og Heima er þar sem ég halla
mér – upplifunarferð um Melrakkasléttu. Hún er meðlimur í leikhópnum
Umskiptingar en hún sá um framleiðslu, markaðssetningu og verkstjórn á fyrsta
verki þeirra Framhjá rauða húsinu og niður stigann. Jenný skrifaði og tilheyrði
höfundateymi leikritsins Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist ásamt því að
leika í fjölmörg hlutverk í verkinu en það var sýnt hjá Leikfélagi Akureyrar
haustið 2019, en það verk var tilnefnt til Grímuverðlaunanna árið 2020 sem
Barnasýning ársins.
Verkið Heimþrá er samið og leikið af Sesselíu Ólafs, en hún lærði leiklist og leikstjórn í leiklistarskólanum KADA í London. Hún útskrifaðist árið 2012 og hefur frá útskrift leikið bæði hérlendis og erlendis, í kvikmyndum og á sviði. Þar ber helst að nefna Melody í kvikmyndinni The Circle, Ylfu í þáttaröðinni Föngum, Sessý í Sjeikspír eins og hann leggur sig og Dimmbjörgu og Móra í Galdragáttinni. Skrif hafa alltaf heillað hana og hún hefur samið handrit fyrir og leikstýrt tveimur stuttmyndum sem báðar hafa unnið til verðlauna, á Íslandi og erlendis.
Sesselía er einn af stofnendum bæði gríndúettsins Vandræðaskálda og leikhópsins Umskiptinga, en undir þeirra formerkjum hefur hún verið í höfundateymi revíu og tveggja leikrita, nýlega Galdragáttinni og þjóðsögunni sem gleymdist, en hún samdi líka helming söngtexta og tónlistar verksins. Verkið Líf er samið og leikið af Margréti Sverrisdóttur, en hún útskrifaðist úr BA námi í leiklist frá Arts Ed London 2003. Frá útskrift hefur hún skrifað, leikið og leikstýrt bæði í sjónvarpi og leikhúsi. Margrét er Umskiptingur og lék m.a í barnaleiksýningunni Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist sem fékk tilnefningu til Grímunnar sama ár. Verk sem hún hefur leikið í eru m.a. Gallsteinar afa Gissa, Halla, Þöggun og Bólu-Hjálmar sem fékk Grímuverðlaunin 2009. Hún var umsjónarkona Stundarinnar okkar hjá Rúv í tvö ár og skrifaði og lék í barnaþáttunum Himinlifandi í samstarfi við Biskupsstofu og N4.