Skammarþríhyrningurinn verður í Borgarleikhúsinu í vetur.
Frá þeim sem færðu okkur stórverkið Góðan daginn faggi, kynnir Stertabenda Skammarþríhyrninginn – óþægilegasta en jafnframt fyndnasta verk ársins.
„Hinsegin fólk er bara brand, ekki manneskja. Eins og Coca Cola. Við myndum aldrei segja að Coca Cola ætti að hafa tjáningarfrelsi.“
Woke er dautt og pólitískur réttrúnaður heyrir sögunni til. Skammarþríhryrningurinn, sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu 4. október, er nýtt verk eftir leikhópinn Stertabendu. Verkið gerist við opnun sögusafns í fjarlægri framtíð þar sem við fylgjumst með hópi sérfræðinga reyna að púsla saman mynd af mannréttindaparadísinni sem eitt sinn var á Íslandi. Verkefni þeirra er afar flókið því bækurnar hafa allar verið brenndar, heimildirnar eru horfnar og mannlegur fjölbreytileiki utan strangrar tvíhyggju hefur verið bannaður og ritskoðaður úr sögunni. Þau reyna þó eftir bestu getu að svara aðkallandi spurningum: Hvað í ósköpunum var Pride? Hvers konar te drukku svokallaðar dragdrottningar? Hvar fór innræting barna fram? Hver var þessi Hán?
Skammarþríhyrningurinn sýnir heiminn sem er handan bakslagsins, heim án hinseginleikans, þar sem hann er framandi hugmynd sem tilheyrir fortíðinni. Við skrif á verkinu lagðist leikhópurinn m.a. í djúpa rannsóknarvinnu á umræðum og orðræðu um mannréttindi trans fólks og hinsegins samfélagsins. Sumar senur verksins eru hreinlega orðréttar upp úr athugasemdum á samfélagsmiðlum og viðtölum síðustu mánaða. Leikhópurinn Stertabenda hefur sérhæft sig í að sviðsetja hinsegin fagurfræði þar sem húmor og leikur ráða för í vægðarlausri krufningu á samtímanum. Forsprakkar hópsins, þau Gréta Kristín Ómarsdóttir og Bjarni Snæbjörnsson, hafa sérhæft sig í listrænum verkefnum sem auka sýnileika hinsegin fólks, spyrja krefjandi spurninga og stuðla að umræðu og fræðslu um málefni hinsegin fólks. Síðasta sýning hópsins, Góðan daginn faggi, var sýnd í tvö ár og vakti mikla athygli fyrir afhjúpandi innsýn inn í hinseginleikann.
Aðstandendur:
Höfundur: Leikhópurinn Stertabenda Leikstjóri: Gréta Kristín Ómarsdóttir Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger Dramatúrg: Egill Andrason Tónlist: Axel Ingi Árnason í samstarfi við Egil Andrason Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson Dans- og sviðshreyfingar: Cameron Corbett Leikgervi: Ray Milano Leikarar: Árni Pétur Guðjónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Embla Guðrúnar-Ágústsdóttir, Fannar Arnarsson, Kristrún Kolbrúnardóttir og Sindri Sparkle. Framleiðendur: Davíð Freyr Þórunnarson og Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Ef þú gætir fengið eina ósk uppfyllta, hvers myndirðu óska þér?
Sóley kemur heim af djamminu um sumarnótt og finnur ókunnugan mann liggjandi meðvitundarlausan við útidyrnar. Hún og faðir hennar ákveða að skjóta skjólshúsi yfir manninn en ekki getur þau órað fyrir afleiðingunum.
Annar maður skýtur upp kollinum, vill þakka feðginunum fyrir hjálpsemina og býður föður Sóleyjar að óska sér einhvers. Hann lofar því að óskin muni rætast, hver sem hún er. Faðirinn eygir loksins von um að geta komið sér upp úr skuldasúpunni. En ekki er allt gull sem glóir.
Nýtt íslenskt leikrit sem var sýnt hjá Royal Shakespeare Company.
Kolbrún Björt Sigfúsdóttir hefur haslað sér völl sem leikskáld og leikstjóri á Bretlandi og víðar allt frá útskrift úr meistaranámi í leikstjórn árið 2013. Leikritið Þetta er gjöf vísar í goðsöguna um Mídas, en hún birtist okkur hér í reykvískum veruleika. Verkið var sýnt hjá hinu rómaða leikhúsi Royal Shakespeare Company 2023 í leikritaröðinni „37 Plays“ og rataði á lista Women’s Prize for Playwriting. Verkið var einnig sýnt hjá Pitlochry Festival Theatre í Skotlandi í sumar.
William Shakespeare var enskur leikari, leikskáld og ljóðskáld sem var uppi á árunum 1564- 1616.
Laugardagurinn 27. september komandi mun skarta vestfirskri list en þó með enskum uppruna. Listin enska er öll úr ranni mesta leikskálds allra tíma sjálfs William Shakespeare en vestfirska hliðin er í raun þreföld. Því alls hafa þrír Vestfirðingar snarað verkum skáldins yfir á okkar ilhýra. Af því tilefni verður því haldin í fyrsta sinni Vestfirski Shakespearedagurinn. Það eru Kómedíuleikhúsið og Hrafnseyri menningarsetur sem standa að hátíðardegi þessum sem verður einsog í upphafi var getið haldin laugardaginn 27. september. Um daginn verður boðið uppá fyrirlestra og málþing um skáldið og vestfirsku þýðarna á Hrafnseyri frá kl.13. – 17. Um kveldið verður svo boðið uppá leiklestur úr verkum skáldsins í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal Dýrafirði. Aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.
Dagskrá málþings:
Setning – Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, starðarhaldari á Hrafnseyri, og er hún jafnframt málþingsstjóri. Hamlet var ekki til á Íslensku á Bíldudal svo ég varð bara að snara því, já til að geta lesið það. – Elfar Logi fjallar um alþýðufræði- og listamanninn Ingivald Nikulásson. Hvers vegna Shakespeare – Jón Viðar Jónsson, leikhúsfræðingur, fjallar um skáldið.
Hlé þar sem boðið verður uppá hjónabandssælu og kaffi.
Tónlistaratriði Elin Sveinsdóttir og Sara Hrund Signýjardóttir flytja 3 lög er sótt eru í sagnaarf skáldsins William Shakespeare. Óþelló Matthíasar – Ingibjörg Þórisdóttir. Með kveðju, Shakespeare – Skúli Gautason.
Stutt kaffihlé
Shakespeare Pallborð – Margrét stýrir pallborði um skáldið William Shakespeare til spjalls og svara verða þau Jón Viðar Jónsson, Ingibjörg Þórisdóttir, Skúli Gautason og Elfar Logi Hannesson.
Málþingslok. Dagskráin heldur svo áfram í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal Dýrafirði um kveldið eða kl.20.00. Þar sem boðið verður uppá leiklestur úr verkum William Shakespeare í þýðingu Vestfirðinganna Ingivalds Nikulássonar og Matthíasar Jochumssonar. Flytjendur eru vestfirsku leikararnir Elfar Logi Hannesson og Elín Sveinsdóttir.
Þekkir þú hana Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendínu Krúsímundu Efraímsdóttur Langsokk? Það er hún sem er með hest á veröndinni hjá sér, apa á öxlinni og bakar pönnukökur í matinn! Hún býr ein á Sjónarhóli, á fulla tösku af sjóræningjapeningum og neitar að læra fargnöldrunartöfluna! Hún á ekki vandræðum með að leika á Glám og Glúm, dansar við frú Prússólín og tekur Adolf sterka í bóndabeygju! Já, allir elska hana Línu Langsokk! Uppátæki hennar eru engu lík!
Ariasman var framlag Kómedíuleikhússins á MonoAkt hátíðinni.
Hin einstaka og árlega einleikja og listahátíð Act alone verður haldin hátíðleg á Suðureyri dagana 6. – 10. ágúst. Dagskráin er einstaklega fjölbreytt og vegleg með sannkölluðu listahlaðborði fyrir öll. Leiksýningar, tónleikar, dans, grímusmiðja, barnadagskrá, sirkus, myndlist, ritlist og alls konar list. Alls verður boðið uppá nærri 30 listviðburði á Act alone í ár og að vanda er frítt inná allt. Dagskrá Act alone er á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net
Fyrr í sumar eignaðist Actið, einsog gárungarnir kalla Act alone, einstakan vin í austri eða MonoAkt einleikjahátíðina í Prishtina í Kosovó. Listrænn stjórnandi Act alone Elfar Logi Hannesson og leikhússtjóri Kómedíluleikhússins Marsibil G. Kristjánsdóttir voru einstakir gestir MonoAkt í júní liðnum. Auk þess sýndi hið kómíska leikhús á hátíðinni einleikinn Ariasman er fjallar um hin hrottalegu Baskamorð á Íslandi árið 1615. Tókust upp einstök kynni við stjórnanda hátíðarinnar Mentor Zymberaj því hann mætir nú sem sérstakur gestur á Actið auk þess að sýna einleik sinn The Chest.
Act alone og MonoAkt eiga margt sameiginlegt ekki bara að vera einleikjahátíðir heldur og að vera haldnar á smáu mál- og landsvæði. Actið er nokkrum árum eldri en MonoAkt, Actið hóf göngu sína árið 2004 en MonoAkt 5 árum síðar eða árið 2009. Báðar hátíðarnar hafa verið haldnar árlega síðan meira að segja í heimsfaraldri.
Einstaklega gaman er að hefja þessa einstöku vinavegverð millum Act alone og MonoAkt á hinu einstaka ári 2025 og gaman verður að sjá hvert þetta einstaka ævintýri mun leiða þessar tvær einstöku hátíðir. Actið hyggst halda áfram að tengjast fleiri einleikjahátíðum sem eru haldnar víða um heim. Enda er miklu betra að vinna saman en pukrast í horni sínu.
Elfar Logi hlaut nýlega verðlaun sem besti leikarinn á MonoAkt einleikjahátíðinni í Kósovó.
Kómedíuleikhúsið kynnir stolt frumflutning á Íslandi á einleiknum „Þannig var það“ eftir norska Nóbelsverðlaunahöfundinn Jon Fosse.
Verkið fjallar á áhrifaríkan hátt um einmanaleika, einangrun og hnignun mannlegra samskipta í samtímanum. Aðalpersónan, listamaður á dánarbeði, horfist í augu við eftirsjá yfir að hafa látið starfsframa ganga fyrir fjölskyldu og vinasamböndum. Í gegnum einleikinn dregur Fosse fram hvernig hraðar samfélagsbreytingar og aukin tæknivæðing hafa grafið undan nánum tengslum fólks og aukið tilfinningu fyrir einmanaleika þrátt fyrir meiri tengimöguleika en nokkru sinni fyrr.
Með þessari uppfærslu vill Kómedíuleikhúsið vekja til umhugsunar um mikilvægi mannlegra tengsla og nærveru í nútímasamfélagi.
Athugið: „Þannig var það“ verður eingöngu sýnt í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal í sumar. Nú er tækifærið til að vippa sér vestur og upplifa einstaka leiklistarupplifun!
Listamenn að verki:
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Höfundur: Jon Fosse
Tónlist: Unnur Birna Björnsdóttir
Búningar: Þ. Sunnefa Elfarsdóttir
Ljósameistari: Siguvald Ívar Helgason
Leikmynd og leikstjórn: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Aðgengi: Fjöldi miða í sölu fyrir hverja sýningu er takmarkaður við 20 sæti.
Gríman var afhent í 23. sinn við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu.
Hin Íslensku sviðslistaverðlaun voru afhent við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu og var öll umgjörð hin glæsilegasta að vanda.
Heiðursverðlaun Sviðslistafélags Íslands 2025 fyrir framúrskarandi og ómetanlegt framlag til íslenskrar leiklistar fóru til Kjartans Ragnarssonar.
Forseti Íslands afhenti Kjartani Ragnarsyni mjög svo verðskulduð heiðursverðlaun.
Flestar Grímuverðlaun í ár féllu á sýningarnar Ungfrú Ísland í sviðsetningu Borgarleikhússins og danssýninguna Hringir Orfeusar, ásamt öðru slúðri í sviðsetningu Íslenska dansflokksins. Báðar sýningar hlutu þrjú verðlaun hvor, þegar Íslensku sviðslistaverðlaunin, Gríman, voru afhent í 23. sinn við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í kvöld.
Alls voru tíu sýningar verðlaunaðar. Næstflestar voru sýningarnar Köttur á heitu blikkþaki og Sýslumaður dauðans, sem báðar fengu tvö verðlaun hvor, einnig í sviðsetningu Borgarleikhússins.
Hringir Orfeusar og annað slúður var valin sýning ársins, og Erna Ómarsdóttir hlaut verðlaun sem danshöfundur ársins fyrir sama verk. Pálmi Jónsson var verðlaunaður fyrir lýsingu ársins.
Birna Péturdóttir vann verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki í Ungfrú Ísland, og Cameron Corbett hlaut verðlaun fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins. Þá fékk Filíppía I. Elísdóttir verðlaun fyrir bestu búninga ársins.
Leikskáld ársins er Birnir Jón Sigurðsson fyrir verk sitt Sýslumaður dauðans, sem Borgarleikhúsið setti upp. Leikstjóri ársins er Þorleifur Örn Arnársson fyrir Kött á heitu blikkþaki, sem einnig var sett upp af Borgarleikhúsinu.
Leikhópurinn Lotta stígur á stokk nítjánda sumarið í röð og býður börnum og fjölskyldum um allt land sprúðlandi skemmtun í formi nýrrar uppfærslu á söngleiknum Hrói Höttur. Frumsýningin fer fram miðvikudaginn 28. maí klukkan 18:00 á Lottutúni í Elliðaárdalnum, þar sem áhorfendur geta notið verksins utandyra í fallegu umhverfi.
Hrói Höttur er eitt vinsælasta leikverk Lottu fyrr og síðar. Nú eru liðin ellefu ár frá því að það var frumsýnt í fyrsta sinn, og því sannarlega tilefni til að dusta af því rykið – nú er það tilbúið í ferskum og breyttum búningi fyrir bæði gamla og nýja áhorfendur. Eins og Leikhópurinn Lotta er hvað þekktastur fyrir, er hér á ferðinni ævintýrakokteill þar sem sögunni um Hróa Hött er blandað saman við annað þekkt ævintýri – að þessu sinni syfjuðu prinsessuna Þyrnirós.
Í bland við skemmtileg lög, fjöruga dansa, fullorðinsbrandara og góðan skammt af aulahúmor verður til fullkomin skemmtun fyrir alla aldurshópa.
Áhorfendur fá að kynnast Hróa Hetti og trúföstu vinum hans, Þöll og Þyrnirós, sem berjast fyrir réttlæti í Ævintýraskóginum. Persónur á borð við Jóhann prins, illgjarnan fógeta, Tomma litla og álfkonur skjóta einnig upp kollinum í þessari kraftmiklu og fjörugu sýningu og lofar Lotta góðri skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Sýningin er klukkutími að lengd og fer fram utandyra. Við hvetjum gesti til að klæða sig eftir veðri, koma með nesti, teppi og góðan ævintýraanda. Það er líka gott að hafa símann vel hlaðinn því eftir sýningu gefst áhorfendum kostur á að fá mynd af sér með sinni uppáhalds ævintýrapersónu.
Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Rósa Ásgeirsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson Leikskáld: Anna Bergljót Thorarensen Höfundar tónlistar: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Rósa Ásgeirsdóttir, Þórður Gunnar Þorvaldsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Andrea Ösp Karlsdóttir, Sumarliði V. Snæland Ingimarsson Höfundur lagatexta: Sævar Sigurgeirsson Hljóðblöndun tónlistar: Axel „Flex“ Árnason Hljóðblöndun á sýningum: Þórður Gunnar Þorvaldsson Búningahönnun: Kristína R. Berman, Rósa Ásgeirsdóttir og leikhópurinn Danshöfundur: Ágústa Skúladóttir & leikhópurinn Leikmyndahönnun: Andrea Ösp Karlsdóttir og Sigsteinn Sigurbergsson Leikmunir: Leikhópurinn
Flæktur í netinu er sýnt hjá Leikfélagi Sauðárkróks. Ljósmynd: Gunnhildur Gísladóttir
Nú standa yfir sýningar hjá Leikfélagi Sauðárkróks á farsanum Flæktur í netinu eftir Ray Cooney í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Leikstjóri er Valgeir Skagfjörð. Flæktur í Netinu (Með táning í tölvunni) er sjálfstætt framhald leikritsins Með vífið í lúkunum þar sem leigubílstjórinn John Smith barðist við að lifa tvöföldu lífi með tveimur eiginkonum, Mary og Barböru. Núna 18 árum síðar kynnast dóttir hans úr öðru hjónabandinu og sonur hans úr hinu á netinu og byrja að draga sig saman. Þessu reynir faðir þeirra að afstýra með öllum tiltækum ráðum með dyggri aðstoð vinar síns Stanleys sem hefur sest upp hjá honum og búið þar allan þennan tíma. En John Smith er ekki sá eini sem á sér leyndarmál. Leikfélag Sauðárkróks setti Með vífið í líkunum upp fyrir 19 árum eða árið 2006. Skemmtilegt er að segja frá því að þeir Guðbrandur J. Guðbrandsson og Árni Jónsson sem leika John og Staney léku þá líka fyrir 19 árum. Elva Björk Guðmundssdóttir lék einnig í sýningunni þá lék hún Barböru en leikur núna Mary.
Frumsýnt var 27. apríl og er 7 sýningum lokið. Síðustu sýningar verða: Miðvikudagur 7. maí kl. 20:00 Mánudagurinn 12. maí kl. 20:00 Þriðjudagurinn 13. maí kl. 20:00 Fimmtudaginn 15. maí kl. 20:00
Sýning Leikfélags Hólmavíkur 39 þrep var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins af dómnefnd Þjóðleikhússins. Formaður dómnefndar, Vala Fannell tilkynnti valið á hátíðarkvöldverði aðalfundar Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldinn var í Vatnsholti 3. maí. Í umsögn dómnefndar segir:
Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í þrítugasta og þriðja sinn. Að þessu sinni sóttu alls tólf leikfélög um að koma til greina við valið með þrettán sýningar. Formaður dómnefndar var Vala Fannell, en með henni í dómnefnd sátu Elín Smáradóttir sýningarstjóri og Oddur Júlíusson leikari. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2024-2025sýningu Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrep.
Ólöf Þórðardóttir formaður Bandalagsins tók við viðurkenningunni fyrir hönd þeirra Hólmvíkinga.
Umsögn dómnefndar um sýninguna: Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikfélags Hólmavíkur á 39 þrep íleikstjórn Eyvindar Karlssonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2024-2025. Sýningin er unnin af miklum metnaði og gríðarlegaskapandi hugsun Umgjörð sýningarinnar er einföld en áhrifarík og unun að fylgjst með skemmtilegum og skapandi lausnum þar sem leikhúslistin er knúin til hins ítrasta. Ljós og hljóð eru vel unnin, af hugviti og kímni. Leikgervi og búningar eru til fyrirmyndar og vel leyst úr persónufjöld og hraðaskiptingum. Leikhópurinn er smár en mjög sterkur og skemmtilegur og samband þeirra við áhorfendur feikigott. Leikkonurnar vinna vel með mikinnfjölda hlutverka og gera hverri og einni persónu skýr oggóð skil. Leik- og sköpunargleði ráða ríkjum frá upphafi til enda og úr verður heildstæð og kraftmikil sýning. Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Hólmavíkur til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna 39 Þrep í Þjóðleikhússins í lok maí.