febrúar | 2021 | Leikhus.is

Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

Nafn:

Netfang:

Fæðingarár:

Símanúmer:

Kyn: KarlKona
 
Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

Svar:

 
Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015.

Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.
 

Archive from febrúar, 2021

Stúlkan sem stöðvaði heiminn

feb 20, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Allt er úr sama efninu. Ég og þú, hundaskítur og geimryk.

Getur orðið til töfrandi ævintýraheimur úr ruslinu sem við hendum? Endurvinnsla, undirvitund, umbreyting. 

Hvað gerir stúlka sem þarf að finna sig á nýjum stað? Til að takast á við stórar áskoranir þarf oft hugrekki til að kafa niður á órætt dýpi. Stúlkan sem stöðvaði heiminn er hrífandi myndræn upplifun fyrir stóra og smáa. Stórkostlegur sköpunarkraftur helst í hendur við kraumandi ímyndunarafl! Áhorfendur eru leiddir úr einni veröld í aðra sem eru hver annarri forvitnilegri, furðulegri og fallegri. Saga stúlkunnar er ófyrirsjáanleg og spennandi en á sama tíma notalega kunnugleg. Töfrandi saga og ævintýraleg upplifun! 

Leikhópurinn 10 fingur hefur um árabil lagt áherslu á að gera sýningar sem börn og fullorðnir geta notið saman. Þau hafa sérhæft sig í listsköpun á mörkum leikhúss og myndlistar og má þar meðal annars nefna sýningarnar „Skrímslið litla systir mín“ og „LÍFIÐ – stórskemmtilegt drullumall” sem mörgum eru minnistæðar fyrir óvænta leikhústöfra og ljóðrænt sjónarspil sem snertir um leið við áhorfendum.

Sölumaður deyr

feb 19, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir fara með aðalhlutverkin í Sölumaður deyr í Borgarleikhúsinu

„Hvað verður til þess að maður tekur ákvörðun um að svipta sig lífi?“

Willy Loman hefur aldrei malað gull. Nafn hans hefur aldrei verið í blöðunum. Hann er ekki mesta göfugmenni sem uppi hefur verið. En hann er manneskja og núna á hann mjög bágt. Og þess vegna þurfum við að sýna honum nærgætni. Ég ætla ekki að horfa upp á hann fara í gröfina eins og hann væri gamall, umkomulaus hundur. Manneskju í hans aðstæðum þarf að sýna nærgætni, mikla nærgætni.

Sölumaðurinn hefur tekist á við hlutverk sitt, nánast af fullkomnun, allt sitt líf. Hann elur með sér þann draum að verða númer eitt. Draum um hamingjuríkt líf, velgengni og frægð. Draum um viðurkenningu.

Þegar komið er að leiðarlokum í annasömu lífi Willy Lomans er ljóst að draumar hans hafa ekki ræst. Hann ferðaðist um sem sölumaður í fjölda ára en er nú að þrotum kominn. Tryggustu viðskiptavinir hans eru látnir eða hafa flutt á brott, yngri samstarfsmenn vinna skilvirkara. Sölumennskan er orðin að martröð. Þegar nýr og ungur yfirmaður segir Willy upp störfum, hefst erfið sjálfsskoðun þar sem hann lítur til baka og reynir að skilja hvað fór úrskeiðis. Lífslygin er allsráðandi og gæfuleysi barnanna, sem geta ekki sigrast á falskri hugmyndafræði eldri kynslóðarinnar, verður honum um megn. Hann sér aðeins eina útgönguleið: Sjálfsvíg, dulbúið sem bílslys, svo að fjölskylda hans fái líftrygginguna og geti lifað af henni.

Sölumaður deyr er harmræn saga um hrun sjálfsmyndar. Saga fórnarlambs hins vægðarlausa Ameríska draums um árangur og fjárhagslega velmegun, um glæst og áhyggjulaust líf. Sölumaður deyr er þekktasta leikrit Arthurs Millers og löngum talið eitt mesta meistaraverk 20. aldar í leikritun. Það var frumsýnt árið 1949 og hlaut hin virtu Pulitzerverðlaun sama ár.

Co za poroniony pomysl! (Úff, hvað þetta er slæm hugmynd!)

feb 11, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Verkið er sýnt á pólsku með enskum texta

POLSKI
Pewnego dnia Oli, islandzki aktor, wybrał się do kina gdzie wyświetlano polskie filmy. Zaskoczyły go tłumy polskich widzów. W tamtej chwili poczuł jak podejmuje przedziwną decyzję. „Nauczę się polskiego i wystawię sztukę w języku polskim.” Co za poroniony pomysł… Do współpracy zaprosił Kubę, szefa kuchni lokalnej restauracji Skál oraz Olę improwizatorkę z Warszawy, która przyjechała na Islandię odnaleźć siebie. Wspólnie zapraszają na komedię o pragnieniu łączenia się z nieznanym, z Islandią, ze sobą samym i ze sobą nawzajem. Zawsze przy dobrym jedzeniu! „Co za poroniony pomysł” będzie wystawiany całkowicie w języku polskim z angielskimi napisami.

ÍSLENSKA
„Þau hafa ekki hugmynd um hversu slæm þessi hugmynd er!“
Kuba er kokkur á veitingastaðnum Skál en dreymir um að verða sjónvarpskokkur. Ola er spunaleikkona frá Varsjá sem þráir að finna ástina á Íslandi. Óli er íslenskur leikari sem er að læra pólsku á duolingo. Þegar Óli tekur eftir hvað pólskar kvikmyndir laða að sér marga í bíó dettur honum í hug að reyna að búa til vinsæla leiksýningu á pólsku og fær Kuba og Olu með. Saman leiða þau áhorfendur í gegnum þessa einlægu gamansýningu þar sem fjallað er um löngun okkar til að tengjast: Að tengjast ókunnu landi, tengjast okkar á milli, tengjast á netinu eða tengjast í gegnum góðan mat. Úff, hvað þetta er slæm hugmynd!

Sýningin er á pólsku með enskum texta.

Aktorzy/leikarar: Jakub Ziemann, Aleksandra Skolozynska, Ólafur Ásgeirsson
Rezyser/Leikstjórn: Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
Dramaturg/Dramatúrg: Birnir Jón Sigurðsson
Scenografia & Kostiumy/Leikmynd og búningar: Þórdís Erla Zoëga
Dzwiek/Tónlist: Kristinn Smári Kristinsson
Oswietlenie sceniczne/Ljósahönnun: Kjartan Darri Kristjánsson
Projekt graficzny/Grafísk hönnun: Gréta Þorkelsdóttir
Pomoc przy tlumaczeniu/Aðstoð við þýðingu: Nina Slowinska

Fullorðin

feb 10, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Gamanleikurinn Fullorðin er sýnt hjá Menningarfélagi Akureyrar

Sprenghlægilegur gamanleikur um það skelfilega hlutskipti okkar allra að verða fullorðin og misheppnaðar tilraunir okkar til að sannfæra aðra um að við séum það.

Fullorðið fólk á að vita hvað það er að gera! Staðreyndin er hinsvegar að enginn veit hvað hann er að gera og allir eru að þykjast. Það vekur upp stórar spurningar um það hvenær og hvort maður verði nokkurn tímann fullorðinn? Við leggjum upp í ferðalag um fullorðinsárin og restina af þessari afplánun sem flestir kalla mannsævi!

Leikstjórar Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir og Marta Nordal
Leikmynd Auður Ösp Guðmundsdóttir
Búningar Björg Marta Gunnarsdóttir
Hljóðmynd Gunnar Sigurbjörnsson
Ljósahönnuður Ólafur Ágúst Stefánsson
Aðstoð við leikmynd og búninga Jasmina Wojtyla

Höfundar
Vilhjálmur B Bragason, Birna Pétursdóttir, Árni Beinteinn og teymið

Leikarar
Vilhjálmur B Bragason
Birna Pétursdóttir
Árni Beinteinn Árnason

Hugmyndavinna og handrit sýningarinnar hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði SSNE

Ísafjarðarbær staðfestir samning við Kómedíuleikhúsið

feb 6, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Kómedíuleikhúsið hefur gert nýjan tveggja ára samning við ísafjarðarbæ

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar staðfesti á fundi sínum sl. fimmtudaginn tveggja ára samning við Kómedíuleikhúsið sem gildir fyrir árin 2021 og 2022.

Markmið samningsins mun vera að efla og glæða áhuga bæjarbúa á leiklist og auðga menningarlíf í Ísafjarðarbæ, auk þess að styrkja eina atvinnuleikhús Vestfjarða.

Ísafjarðarbær greiðir styrk til Kómedíuleikhússins að upphæð kr. 1.750.000 fyrir hvort ár.

Kómedíuleikhúsið er á móti skylt að setja upp og sýna leikverk, samkvæmt eftirgreindri dagskrá, í Ísafjarðarbæ:

  1. Kómedíuleikhúsið kemur að hátíðarhöldum 17. júní á gildistíma samningsins, með leikatriði sem skipulagt skal í samráði við upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar.
  2. Kómedíuleikhúsið tekur þátt í jólasveinadagskrá Safnahússins á Ísafirði – sem flutt verður tvívegis fyrir hvor jól, á gildistíma samningsins.
  3. Kómedíuleikhúsið sér til þess að grunn- og leikskólabörn í Ísafjarðarbæ fái eina leiksýningu eða menningardagskrá á hvoru ári, árin 2021 og 2022. Sýnt verður í skólunum sjálfum, alls eru þetta 9 viðburðir árlega. Heimilt er að samsýna/samkeyra sýningar í þeim bæjarkjörnum þar sem grunn- og leikskóli eru starfræktir í sama húsnæði, í samráði við
    forstöðumenn skólanna.
  4. Kómedíuleikhúsið býður eldri borgurum Ísafjarðarbæjar uppá menningardagskrá á Hlíf og/eða Eyri, eigi sjaldnar en tvær sýningar á hvoru ári, árin 2021 og 2022.

Sýningar á Kardemommubænum hefjast á nýjan leik

feb 6, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Soffía frænka er ekkert lamb að leika við!

Sýningar á Kardemommubænum hefjast aftur í Þjóðleikhúsinu um helgina. Alls eiga um 20 þúsund gestir miða og á næstu dögum og vikum munu þeir fá boð um nýja sýningardaga. Miðað við núverandi samkomutakmarkanir er aðeins gert ráð fyrir 150 fullorðnum í sóttvarnarhólf og ljóst er að dreifa verður gestum á mun fleiri sýningar en seldar voru í upphafi. Sérstakur þjónustuvefur, kardemommubaerinn.is, hefur verið settur í loftið til að einfalda miðaeigendum að tryggja sér nýja sýningardaga. Mikill áhugi fullorðinna gesta setur strik í reikninginn því gæta þarf meiri fjarlægðar á milli þeirra en barna.

20 þúsund manns bíða eftir því að komast á Kardemommubæinn
Samkomubann og fjöldatakmarkanir settu stórt strik í sýningaáætlun Þjóðleikhússins eins og gefur að skilja. Tugþúsundir gesta sem áttu miða á sýningar hafa beðið þess með óþreyju að komast aftur í leikhúsið og nú er loksins komið að því að þeir sem náðu ekki að sjá Kardemommubæinn vegna samkomubanns býðst að festa sér nýja sýningardaga. Áætlanir leikhússins miða við að hægt verði að bjóða öllum hópnum upp á sýningar í síðasta lagi í september. Verði frekari tilslakanir á fjöldatakmörkunum eru líkur á því að hægt verði að bjóða öllum sem nú eiga miða að komast fyrr í leikhúsið.

Sýnt verður eins oft og hægt er
Sýnt verður þétt, allt að 12 – 15 sýningar á mánuði. Verði frekari tilslakanir á næstunni er mögulegt að fjölga gestum í sal og þá er hugsanlegt að nýir sýningardagar verði settir í sölu fyrir vorið. Opnuð hefur verið sérstök upplýsingasíða: kardemommubaerinn.is, þar sem miðaeigendum er boðið að finna sér nýja sýningardaga. Allir miðaeigendur eiga von á tölvupósti með nýju bókunarnúmeri til að geta valið sér nýja sýningardaga, en póstarnir verða sendir út smám saman, og þannig komast þeir sem fyrst keyptu miða að fyrst og svo koll af kolli.

Fullorðnir ekki síður spenntir fyrir Kardemommubænum
Starfsfólks miðasölu bíður mikil áskorun, því handraða þarf gestum í salinn til að tryggja fjarlægðarmörk á meðan aðeins er leyfi fyrir 100 fullorðnum gestum í sóttvarnarhólfi. Nauðsynlegt er að kalla eftir samsetningu gestahópsins og sjá fjölda fullorðinna og barna í hverri bókun svo hægt sé að raða í sal.

Sérstök upplýsingasíða hefur verið opnuð fyrir miðaeigendur þar sem þeir geta séð hvenær þeir eiga von á því að fá nýtt bókunarnúmer sent.

Leikfélag Keflavíkur sýnir Beint í æð

feb 5, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Hvað gerir taugaskurðlæknir þegar gömul hjásvæfa hans mætir, óumbeðin, rétt áður en hann á að flytja mikilvægasta fyrirlestur ferilsins og tilkynnir honum það að hann eigi fullvaxta son? Af hverju er löggan komin í málið? Af hverju grettir Grettir Sig sig? Hvað ætli Súsanna, konan hans, segi? Hvað er Páll Óskar að gera þarna? Hver er Loftur? Hvað er málið með Mannfreð og Gróu? Hvar er yfirdeildarhjúkrunarfræðingurinn?

Leikfélag Keflavíkur setur upp sprenghlægilega gamanleikinn Beint í æð í leikstjórn Jóels Sæmundssonar í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Frumsýning er föstudagskvöldið 5. febrúar í Frumleikhúsinu við Vesturbraut.

Vegna aðstæðna og sóttvarnarreglna í samfélaginu eru aðeins 100 miðar í boði á hverja sýningu og þurfa gestir að sitja í númeruðum sætum. Leikfélagið mun sjá til þess að tveir metrar séu á milli allra hópa og því vill leikfélagið hvetja hópa til að panta miða saman svo hægt sé að tryggja að allir fái sæti saman.

Æfingar á farsanum hófust í haust og hafa æfingar gengið vel þrátt fyrir allt. Um tíma var æft í gegnum netið en um leið og slakað var á tíu manna samkomubanni og fólki í sviðslistum gefið tækifæri á æfingum fór verkefnið á fullt að nýju.

Beint í æð er önnur uppfærsla leikstjórans Jóels Sæmundssonar fyrir Leikfélag Keflavíkur. Síðasta verk var Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson sem fór alla leið á fjalir Þjóðleikhússins sem áhugaleiksýning ársins 2017–2018.

Öllum gestum, sem og starfsfólki, er skylt að vera með andlitsgrímu. Gestir mæta með eigin grímu ef kostur gefst en ef ekki þá verða grímur útvegaðar á staðnum. Engin veitingasala er á staðnum.

Oleanna snýr aftur á svið í Borgarleikhúsinu

feb 2, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Hilmir Snær og Vala Kristín í hlutverkum sínum í Oleanna í Borgarleikhúsinu

Leikritið Oleanna snýr aftur á svið Borgarleikhússins eftir að sýningum var hætt vegna Covid faraldursins.

Ung námskona kemur í viðtalstíma til háskólakennara síns. Kennarinn nýtur mikillar velgengni í starfi og einkalífi, er að kaupa sér hús og á von á fastráðningu.

Það sem byrjar sem sjálfsögð hjálp við námið breytist í miskunnarlausa baráttu og óvænta atburðarás sem kollvarpar valdajafnvæginu á milli kennara og nemanda, karls og konu og lífi þeirra beggja í leiðinni.

Beitt og meistaralega vel skrifað leikrit sem slær okkur út af laginu og spyr óvæginna spurninga. Á tímum þegar umræður og deilur um skilgreiningarvald og ólíkar orðræður hafa magnast er þetta leikrit Mamets um vald og sannleika ofureldfimt.

Vínylplata með tónlist úr sýningunni Vertu úlfur seld til styrktar Geðhjálp

feb 1, 2021   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Unnur Ösp Stefánsdóttir, Emilíana Torrini og Héðinn Unnsteinsson.
Ljósmynd: Jorri
  • Tónlist eftir Emilíönu Torrini, Markéta Irglová, Valgeir Sigurðsson og Prins Póló.
  • Platan verður aðeins framleidd í 39 eintökum og hvert eintak selt á 39.000 krónur, með vísan í átakið 39.is
  • Verður einstakur safngripur og merkileg heimild um sýningu sem á fáa sína líka

Sýningin Vertu úlfur sem frumsýnd var fyrir skemmstu í Þjóðleikhúsinu hefur fengið frábærar viðtökur. Í tengslum við hana var gefin út vínylplata í takmörkuðu upplagi með tónlist úr sýningunni. Platan er til sölu í Þjóðleikhúsinu og ágóðinn mun renna óskiptur til Geðhjálpar. 

Þjóðleikhúsið hóf sýningar á Stóra sviðinu að nýju eftir nær fjögurra mánaða samfellt hlé vegna samkomubanns með frumsýningu á einleiknum Vertu úlfur. Verkið er eftir Unni Ösp Stefánsdóttur sem einnig leikstýrir, og er byggt á bók Héðins Unnsteinssonar sem vakti verðskuldaða athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Fjallað er hispurslaust um baráttuna við geðsjúkdóma út frá sjónarhóli manns sem í senn glímir við geðraskanir og starfar innan stjórnsýslunnar á sviði geðheilbrigðismála. 

Í tengslum við sýninguna er nú hægt að kaupa plötu með tónlist Valgeirs Sigurðssonar úr sýningunni, og titillögum eftir annars vegar Emilíönu Torrini og Markétu Irglová, og hins vegar Prins Póló. Einnig les Héðinn Unnsteinsson Lífsorðin 14 inn á plötuna. Platan er einungis framleidd í 39 eintökum og er seld á 39 þúsund krónur, með vísan í átakið 39.is

Segja má að titillög sýningarinnar endurspegli ólíkar hliðar geðhvarfa. Lag Emilíönu og Markétu fangar hinar dekkri og viðkvæmari hliðar á meðan lag Prinsins endurspeglar oflætið. Þetta er í fyrsta sinn sem Emilíana Torrini semur lag á íslensku og texti hennar er einnig notaður í lagi Prins Póló.

loading