Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Senuþjófinn frumsýnir 30. ágúst leikverkið Beðið eftir Beckett. Frumsýnt verður í leikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal Dýrafirði. Höfundur verksins er Trausti Ólafsson sem jafnframt leikstýrir.
Beðið eftir Beckett er guðdómleg kómedía sem fjallar um leikara nokkurn sem bíður eftir að Samuel Beckett skrifi fyrir sig nýtt leikrit. Á meðan á biðinni stendur styttir hann sér stundir með því að máta sig við persónur úr eldri leikritum skáldsins og bregður fyrir sig ögn af Dante, Artaud og Hallgrími Péturssyni. Einsog í sönnum grískum harmleik á leikarinn von á sendiboða guðanna.
Leikari er Elfar Logi Hannesson og einnig kemur ungur dýrfirskur leikari við sögu í leiknum, Þrymur Rafn Andersen. Leikmynd og búninga hannar Marsibil G. Kristjánsdóttir, höfundur tónlistar er Hjörleifur Valsson og Sigurvald Ívar Helgason hannar lýsingu.
Frumsýning Fyrstu þrjár sýningar á Beðið eftir Beckett verða sýndar Í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal, Dýrafirði. Vegna Kóvítans verður takmarkaður sætafjöldi í boði.
Miðasala er aðeins í síma: 891 7025.
Frumsýning … sunnudaginn 30. ágúst kl. 20:01 UPPSELT 2. sýning ……… mánudaginn 31. ágúst kl. 20:02 3. sýning ……… þriðjudaginn 1. september kl. 20:03
Aðrar sýningar Stefnt er að því að sýna Beðið eftir Beckett víðar á landinu í vetur, m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar í Hofi og í Tjarnarbíói í Reykjavík. Nánari upplýsingar um sýningar á verkinu má finna á fésbókarsíðu Kómedíuleikhússins og á komedia.is
Gísli Rúnar Jónsson lést þann 28. júlí síðastliðinn og mun útför hans fara fram þann 20 ágúst nk.
Vegna ástandsins í heiminum munu aðeins nánustu aðstandendur og vinir Gísla Rúnars Jónssonar geta komið saman í kirkjunni en útförinni verður sjónvarpað beint í Sjónvarpi Símans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu Gísla Rúnars.
„Okkar elskaði Gísli Rúnar Jónson, leikari, leikstjóri, rithöfundur, þýðandi og einstakur fjölskyldufaðir verður jarðsunginn fimmtudaginn 20. ágúst næstkomandi kl. 15:00.
Vegna ástandsins í heiminum munu aðeins hans nánustu aðstandendur og vinir geta komið saman í kirkjunni, en útförinni verður sjónvarpað beint í Sjónvarpi Símans og auk þess verður aðgengilegt streymi á netinu.
Aðstandendur þakka allan kærleika, hlýhug og fallegar kveðjur sem borist hafa á þessum erfiðu tímum.
Fjölskyldan hvetur alla þá sem elskuðu þennan mikla listamann til að eiga fallega stund, kveikja á kertum og vera með okkur í anda og fylgjast með jarðarförinni á netinu.“
Gísli Rúnar varð fyrst þjóðkunnur fyrir hlutverk sitt í Kaffibrúsakörlunum ásamt Júlíusi Brjánssyni. Þetta voru stutt gamanatriði í skemmtiþáttum í Sjónvarpinu haustið 1972. Næstu tvö árin skemmtu þeir félagar víðsvegar um landið og gáfu út plötu með efni þeirra 1973 við miklar vinsældir. Kaffibrúsakarlarnir voru fyrsta gamantvíeykið í íslensku sjónvarpi og skipa þannig sérstakan sess, en um svipað leyti komu bræðurnir Halli og Laddi einnig fram.
Nokkrum árum síðar gerðu Halli, Laddi og Gísli Rúnar grínplötuna Látum sem ekkert c (1976), sem óneitanlega hlýtur að teljast stór minnisvarði í íslensku gríni. Þar er meðal annars að finna lagið Tygg-Igg-Úmmí.
Sjálfur gerði hann plötuna Algjör Sveppur sama ár og 1977 var hann meðal fjölda listamanna sem kom að hljómplötunni Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka. 1980 kom út platan Úllen Dúllen Doff þar sem finna mátti úrval efnis úr samnefndum skemmtiþáttum Útvarpsins. Auk Gísla Rúnars komu þar fram Randver Þorláksson, Jónas Jónasson, Sigurður Sigurjónsson, Árni Tryggvason og Hanna María Karlsdóttir auk Eddu Björgvinsdóttur, en þau Gísli Rúnar kynntust í leiklistarskóla á áttunda áratuginum og giftu sig síðar. Þau eignuðust tvö börn, Björgvin Franz og Róbert Óliver. Þau skildu árið 2000.
Gísli Rúnar kom að fjölda Áramótaskaupa, ýmist sem leikari, handritshöfundur eða leikstjóri, allt frá 1981 til 1994. Þá skrifaði hann handrit og leikstýrði nokkrum gamanþáttaröðum. Fastir liðir eins og venjulega voru sýndir 1985 í Sjónvarpinu og ári síðar Heilsubælið í Gervahverfi sem var fyrsta gamanþáttaröð Stöðvar 2. Hann fór einnig með aðalhlutverk í þeim þáttum. Bæði verkin slógu hressilega í gegn. Áður hafði hann leikið aðalhlutverk í þáttunum Þættir úr Félagsheimili (1982, RÚV). Hann var einnig meðal handritshöfunda gamanþáttanna Búbbarnir, sem sýndir voru á Stöð 2, 2006.
Gísli Rúnar kom fram í mörgum kvikmyndum, má þar nefna Hvíta máva (1985), Stellu í orlofi (1986), Stuttan Frakka (1993), Blossa (1997), Magnús (1989) og Stellu í framboði (2002). Síðasta hlutverk hans á þeim vettvangi var í Ömmu Hófí sem frumsýnd var í júlí 2020.
Gísli Rúnar átti einnig langan feril í leikhúsi, sem leikari, leikstjóri, leikskáld og þýðandi. Þá skrifaði hann ævisögu Björgvins Halldórssonar, Bó & Co, sem kom út 2001 og nokkru síðar bókina Ég drepst þar sem mér sýnist þar sem hann tíndi til skrautlegar gamansögur frá löngum ferli sínum.
Við hjá leikhus.is vottum fjölskyldu og aðstandendum okkar dýpstu samúð um leið og við þökkum Gísla Rúnari fyrir allar þær gæðastundir sem hann hefur fært okkur í gegnum tíðina.
Í ljósi aðstæðna og tilmæla sóttvarnaryfirvalda hafa Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið frestað sýningum sem áttu að hefjast nú í byrjun ágúst.
Þjóðleikhúsið hefur ákveðið að fresta sýningum á Kardemommubænum til 12. september og Framúrskarandi vinkonu til 17. október.
Borgarleikhúsið hefur ekki gefið upp nýjar dagsetningar á sýnum sýningum en hvetur alla til að fylgjast með sínum miðlum ásamt því að haft verður samband við alla þá sem þegar hafa keypt miða á sýningar.