nóvember | 2017 | Leikhus.is

Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

Nafn:

Netfang:

Fæðingarár:

Símanúmer:

Kyn: KarlKona
 
Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

Svar:

 
Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015.

Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.
 

Archive from nóvember, 2017

50. sýningin af Bláa hnettinum

nóv 11, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Blái hnötturinn

Sunnudaginn 12. nóvember verður 50. sýningin af Bláa hnettinum. Borgarleikhúsið bauð einnig öllum 5. bekkingum í Reykjavík á sýninguna síðasta sýningin var fimmtudaginn 9. nóvember.

Lengst úti í geimnum búa ótal börn sem fullorðnast ekki. Enginn skipar þeim fyrir verkum. Þau sofa þegar þau eru þreytt, borða þegar þau eru svöng og leika sér þegar þeim dettur í hug. Kvöld eitt birtist stjarna á himnum sem fellur til „jarðar“ með miklum látum.

Í reyknum mótar fyrir skuggalegum verum og þá hefst hættulegt ævintýri sem leiðir börnin um dimma skóga, djúpa dali og loftin blá. Reynir þá á vináttu og ráðsnilld barnanna sem aldrei fyrr. Blái hnötturinn er mikilvægt og hugmyndaríkt ævintýri, þar sem brýnt er fyrir fólki að sýna réttlæti og mannúð og um leið er það viðvörun að hlaupa ekki eftir innantómu stuði. Síðast en ekki síst er það ábending um að varðveita æskuna í sjálfum sér og öðrum.

Leikritið hefur farið sigurför um heiminn frá því það var frumsýnt árið 2001 og unnið til fjölda verðlauna. Þau Bergur Þór og Kristjana Stefánsdóttir taka Bláa hnöttinn í faðminn, semja söngtexta og tónlist og hafa fundið tuttugu og þrjú hæfileikarík börn til að taka þátt í sýningunni.

Úr gagnrýni 

„Það er unun að horfa á Bláa hnöttinn í Borgarleikhúsinu!“ DK. Hugras.is

„Þetta var fögur upplifun. Og það er sérstakt fagnaðarefni hvað við eigum ólýsanlegan fjársjóð í börnunum okkar, svo óendanlega hæfileikaríkum og örlátum á þá hæfileika.“ SA. tmm.is 

„Björn Stefánsson leikur Gleði-Glaum af verulega óþægilegri innlifun. Látæði hans, fimi, lifandi svipbrigði og einstök snerpa gerðu hann ósjálfrátt að þeim senuþjófi sem hann á auðvitað að vera.“ SA. tmm.is

„Gunnar Hrafn og Guðríður voru dásamleg í aðalhlutverkunum“ SA. tmm.is

„Börnin voru öll ótrúlega góð.“ SA. tmm.is

„Einn af hápunktunum var söngatriði Björgvins Inga Ólafssonar í hlutverki Örvars, sem söng eins og engill um geisla sólarinnar“ SBH. Mbl ★ ★ ★ ★

Skemmtilegar, sorglegar og fyndnar kvennasögur

nóv 11, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
Vertu svona kona 2

Vertu svona kona (úr hugarsmiðju Margaret Atwood, Guðfinnu Gunnarsdóttur og leikhópsins)
Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir
Elín Gunnlaugsdóttir skrifar

Allir hafa sína sögu að segja, sérhver kona hefur sína sögu að segja. Þetta er útgangspunktur leikverksins Vertu svona kona sem Leikfélag Selfoss frumsýndi síðastliðinn föstudag. Leikverkið er byggt á textum eftir Margaret Atwood, Guðfinnu Gunnarsdóttur og leikhópsins. Í verkinu er raðað saman textum um konuna, sögu hennar, sögu margra kvenna. Einnig er velt upp hugtökum eins og ást og sýndar mismunandi myndir hennar sem stundum hverfast upp í andstæðu sína.

Eins og fyrr segir er verkið byggt í kringum texta kanadíska rithöfundarins Margret Atwood (1939). Textarnir eru sóttir í smásagna- eða prósasafn hennar Good Bones (1992). Í safni þessu skoðar Atwood goðsögur og ævintýri með feminískum augum. Hún skoðar hlutverk vondu stjúpunnar, heimsku konunnar og litlu gulu hænunnar og hvernig þessar sögur og goðsagnir hafa mótað hugmyndir okkar um konuna. Textar þessir eru bráðsnjallir og lýsa á kaldhæðinn og fyndinn hátt hlutverki konunnar í gegnum aldirnar. Það er einmitt í þessum textum sem verkið Vertu svona kona rís hvað hæst.

Allur leikhópurinn hefur stóru hlutverki að gegna í sýningunni og eru margar hópsenur sem settar eru upp með góðri tilfinningu fyrir sviðinu, sviðshreyfingum og möguleikum textans sem stundum var settur fram á kakófónískan hátt (leikendur tala ofaní hvorn annan). Senur þessar eru svo brotnar upp með samtölum og mónólógum (einræðum).

Leikhópurinn í þessari sýningu samanstendur að mestu af ungum leikurum þó einnig séu þar reyndir leikarar. Ekki er getið í leikskrá um hlutverk einstakra leikara enda stendur og fellur verkið með öllum leikhópnum og verður ekki annað sagt en að hann standi sig vel. Þeir leikarar sem fluttu einræður voru einnig mjög sannfærandi og hvað eftirminnilegastar af þeim voru einræður litlu gulu hænunnar og heimsku konunnar.

Öll umgjörð verkins er úthugsuð, lungað úr sýningunni stendur rauður sófi á sviðinu og að baki honum upplýstur bakgrunnur sem skiptir um lit eftir því sem við á. Leikmunir eru á hillum sín hvoru megin við sviðið og bækur standa í stöflum bakatil á sviðinu. Bækurnar koma svo alltaf meira og meira við sögu eftir því sem líður á sýninguna. En eins og allir vita geyma bækurnar okkar sögu.

Búningarnir í sýningunni undirstrika að í verkinu er ekki verið að draga upp mynd af konum og körlum sem einstaklingum heldur sem hópi. Konurnar eru í hvítum kjólum, með rauða svuntu og karlarnir eru í svörtu. Þegar endalokin nálgast taka þær af sér svunturnar og verða þá berskjaldaðri. Það má í raun segja að rautt sé litur sýningarinnar því oft eru ljósin líka rauð. Ég læt aðra um að túlka það litaval.

Tónlistin skipar stóran sess í sýningunni og er hún valin eða samin af Kristjönu Stefánsdóttur. Í fyrstu er tónlistin einföld, en þegar líður á verður hún flóknari og margræðari og styður þannig vel við dramatíska uppbyggingu verksins. Einkar áhrifamikil var tónlistin í kaflanum um Dauðann en þar leikur Kristjana sér með þekkta aríu úr óperunni Dido og Aeneas eftir H. Purcell. Megin texti þessarar aríu er ,,Remember me…” og áttu þau orð einkar vel við á þessum stað.

Það verður því ekki annað sagt en að hér hafi verið vandað til allra verka og Vertu svona kona er metnaðarfull sýning um staðalmyndir og stöðu konunnar. Sýningin höfðar til allra skilningarvita og fær mann um fram allt til að hugsa.

Opið fyrir umsóknir á leikarabraut Listaháskóla Íslands

nóv 8, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

LHI_merki_2012_PRINT

Leikarabraut

Markmið leikarabrautar er að útskrifa víðsýna og skapandi listamenn, sem búa yfir þeirri tækni og þekkingu, sem sviðslistaumhverfi nútímans kallar á. Lögð er áhersla á að vekja með nemandanum forvitni og áræðni, til að takast á við hin margvíslegu viðfangsefni námsins.

Mikið er lagt uppúr því að nemandinn tileinki sér sjálfstæði, sjálfsaga og fagmennsku, hann geti unnið jafnt einn á báti, sem og í hóp, hann ögri sjálfum sér til að hugsa út fyrir ramman en hafi jafnframt fullt vald á þeirri leiktækni, sem lögð er til grundvallar í náminu.

Á fyrsta ári leikarabrautar fær nemandinn góða undirstöðu í tæknigreinum. Kennd er raddbeiting, hreyfing og leiktúlkun, auk sviðslistasögu og söngs, þar sem stuðst er við svokallaða Complete Vocal Technique. Kenningar sem stuðst er við í leiktúlkun taka í megin dráttum mið af fræðum Konstantíns Stanislavski og arfleið hans, þótt önnur aðferðafræði komi einnig við sögu. Sameiginleg námskeið allra brauta deildarinnar eru mikilvægur þáttur námsins á þessu tímabili.

Á öðru ári er haldið áfram að dýpka tæknikunnáttu nemandans á öllum sviðum. Fræðakennsla tekur að mestu mið af leiktúlkunarnámskeiðum hverju sinni. Meðfram tímum í söng, rödd og hreyfingu, er áherslan í leiktúlkun á senuvinnu úr verkum Forn Grikkja og Shakespeare. Nemendur fá einnig þjálfun í aðferðum leikhúss líkamans (Physical Theatre) og vinna auk þess sjálfstætt að stuttu einstaklingsverkefni. Á öðru ári fær nemandinn einnig kennslu í kvikmyndaleik og þeim vinnuaðferðum sem sá miðill kallar á.

Þriðja árið er ár úrvinnslu. Lögð er áhersla á að efla skilning nemandans á ólíkum aðferðum leikhússins. Nemandinn nýtur enn kennslu í fræðum og tæknigreinum s.s rödd, hreyfingu og söng, en stefnumótið við áhorfandann fær nú síaukið vægi. Stórum námskeiðum, þar sem tekist er á við leikverk frá 20.öld, samsettar aðferðir,(devised) og umfangsmikið einstaklingsverkefni, lýkur öllum með sýningum fyrir áhorfendur. Nemendur ljúka söngnáminu með sviðsettum tónleikum og vinna einnig að útvarpsverkefni. Lokaárinu lýkur svo með fullbúinni leiksýningu, sem er hið formlega útskriftarverkefni.

Umsóknarferli

Umsókn um nám í Listaháskóla Íslands er á stöðluðu rafrænu formi.
Umsóknarferlið er í þremur skrefum, fyrst er sótt um rafrænt, síðan er umsóknargjald borgað og þriðja skrefið er að prenta út umsóknina. Síðan þarf að skila umsókninni á skrifstofu viðkomandi deildar auk annarra umsóknargagna sem viðkomandi deild óskar eftir.
Athugið að ljósmynd þarf að fylgja rafrænni umsókn. Umsóknir sem sendar eru í pósti skulu póstlagðar eigi síðar en auglýstur frestur rennur út. Umsóknargjald er 5.000 kr. Hægt er að vista umsókn á meðan verið er að vinna í henni.

Umsóknin

Til að umsókn sé fullgild þarf að borga umsóknargjald og eftirfarandi gögn þurfa að berast Listaháskólanum:
1. Rafræn umsókn
2. Prentuð og undirrituð umsókn
3. Staðfest afrit af prófskírteinum (ljósrit gildir ekki)

Inntökuferli

Við inntöku í leikaranámið er skipuð sérstök inntökunefnd sem velur umsækjendur í nám, valið byggir á inntökuprófum og viðtölum.
Inntökunefnd hefur eftirfarandi þætti til viðmiðunar við mat á umsækjendum: Hugmyndaauðgi, líkamsbeiting, rýmisskynjun, raddbeiting, textavinna, samvinna, tjáning og gagnrýnin hugsun og samsömunarhæfni.
Ferlið er eftirfarandi:
  • Mat á umsóknum með tilliti til formlegra skilyrða
  • Inntökupróf 1. þrep (skipt í hópa, 1/2 dagur hver hópur)
  • Inntökupróf 2. þrep úrtakshópar (1/2 dagur hver hópur)
  • Inntökupróf 3. þrep, úrtakshópur (3 dagar)
Umsækjendur skulu undirbúa 3 verkefni sem samanlagt mega ekki taka meira en 6 mínútur í flutningi. Tvö þeirra skulu vera eintöl. Annað eintalið skal vera í bundnu máli (leiktexti, ekki ljóð). Hitt eintalið skal vera leiktexti í óbundnu máli. Þriðja verkefnið skal vera eintal, atriði eða gjörningur, sem umsækjandi telur að endurspegli hann og hans hugðarefni. Þessi þáttur má taka það form sem umsækjandi telur við hæfi.
Við undirbúning er umsækjendum bent á að velta fyrir sér þeim þáttum sem dómnefnd hefur til viðmiðunar um mat á framlagi þeirra. Áhersla er lögð á að verkefnin séu ólík.
Umsækjendur sem fara áfram í úrtökuhóp á 2. og 3. þrepi munu fá sendar upplýsingar um frekari undirbúning. Prófið samanstendur af mörgum ólíkum þáttum t.a.m dans- og líkamsæfingum og er mælst er til að umsækjendur komi í hentugum fatnaði.

Að inntökuferli loknu er allt að 10 umsækjendum boðin skólavist.

Inntökuskilyrði

Miðað er við að umsækjendur hafi lokið  stúdentsprófi eða sambærilegu námi.

Undanþágur vegna inntöku

Listaháskólanum er heimilt að veita inngöngu í skólann umsækjendum sem búa yfir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur til bakkalárnáms við skólann. Þó er við það miðað að umsækjendur hafi lokið eigi færri en 105 einingum úr eldra kerfi framhaldsskólastigsins eða 150 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja kerfinu.

Faðirinn fær góða dóma – hægt að sjá það á Akureyri 9. og 10. nóvember

nóv 8, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Faðirinn 1

Faðirinn verður sýndur í Hofi/Hamraborg fimmtudaginn 9. nóvember og föstudaginn 10. nóvember.

Sýning sem enginn má missa af eða gengur út af ósnortinn

FBL. S.J.

Harmrænn farsi eftir eitt þekktasta samtímaleikskáld Frakka.

André er tekinn að eldast. Á árum áður starfaði hann sem verkfræðingur. Eða var hann kannski steppdansari? Bláókunnugt fólk birtist á heimili hans og segist vera dóttir hans og maður hennar. Hver dirfist að halda því fram að hann geti ekki séð um sig sjálfur? Er verið að spila með hann? Getur verið að hann sé farinn að tapa áttum? Er heilinn farinn að gefa sig? Eða er heimurinn sjálfur genginn af göflunum?

Óvenjulegt og áhrifamikið verk um viðkvæmt málefni, fullt af sársauka og húmor.

 

★★★★

 

Fátt er eins æsandi í leikhúsi og stjörnuleikur í þessum gæðaflokki.

Mbl. Þ.T.

Frábær er eina orðið yfir Eggert Þorleifsson í þessari sýningu. Ég hef aldrei séð hann svona góðan.

Sjónvarpið, Menningin, M.K.

 

undursamleg sýning sem fær mann til þess að hlæja og gráta …

 

Víðsjá, RÚV, G.B.

Allur leikhópurinn var frábær.

 Hugrás, D.K.

 

Ove snýr aftur

nóv 5, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Ove 1

Einleikur Sigga Sigurjóns gekk fyrir fullu húsi allan síðasta vetur, fór í leikför og var sýndur víða um land. Nú gefast örfá tækifæri til að sjá þessa skemmtilegu og hrífandi sýningu.

Hinn 59 ára gamli Ove er reglufastur nákvæmnismaður sem að mati annarra íbúa úthverfisins er óþolandi smámunasamur og skapillur. En að mati hans sjálfs eiga hlutirnir einfaldlega að vera eins og þeir eiga að vera. Þegar ólétt kona að nafni Parvaneh flytur með fjölskyldu sína í götuna er eins og Ove byrji að missa tökin á öllu. Einleikurinn Maður sem heitir Ove er byggður á samnefndri skáldsögu sem notið hefur mikilla vinsælda.

Sigurður Sigurjónsson er einn af albestu leikurum þjóðarinnar. Í hlutverki Ove sýnir hann fádæma tækni og lipra tímasetningu

FBL. S. J.

Nánar um verkið

Skáldsagan Maður sem heitir Ove (En man som heter Ove) eftir Fredrik Backman kom út í Svíþjóð árið 2012. Hún varð strax metsölubók, var þýdd yfir á fjölmörg tungumál og hefur komið út í yfir tuttugu löndum. Leikgerð skáldsögunnar var frumsýnd í ársbyrjun 2015 í Stokkhólmi í flutningi leikarans Johans Rheborgs og naut mikilla vinsælda. Fyrirhugaðar eru fleiri uppsetningar á verkinu í nokkrum löndum á vegum sænska
fyrirtækisins Thorsson Produktion AB og er sú næsta ráðgerð hjá Oslo Nye Teater í Noregi.

Sænsk kvikmynd byggð á verkinu var frumsýnd í árslok 2015 með Rolf Lassgård í aðalhlutverki. Kvikmyndin var tilnefnd til sex Guldbagge-verðlauna, meðal annars í flokknum mynd ársins, og hlaut Lassgård verðlaunin sem besti leikari í aðalhlutverki.

Höfundur verksins, Fredrik Backman, er fæddur árið 1981. Hann vakti fyrst athygli sem bloggari og dálkahöfundur. Fyrstu skáldsögur hans komu út samtímis árið 2012, Maður sem heitir Ove og Saker min son behöver veta om världen.

Á næstu tveimur árum komu út skáldsögurnar Min mormor hälsar och säger förlåt og Britt-Marie var här. Skáldsögur Backmans hafa notið mikillar hylli í Svíþjóð og hafa verið gefnar út á meira en tuttugu og fimm tungumálum. Nýjasta skáldsaga hans, Björnstad, kemur út nú í haust.

★★★★ „Þetta gengur allt upp …. þjóðargersemi fagnar fjörutíu árum á sviðinu“ Mbl.

★★★★ „túlkar Ove með framúrskarandi hætti … full ástæða til þess að hvetja leikhúsáhorfendur til þess að sjá þennan vel heppnaða einleik“ DV

Leiklistarhópur Halldóru æfir Matilda

nóv 2, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Matilda

Söngleikurinn Matilda verður sýndur í Félagsheimili Bolungarvíkur í lok nóvember. Það er Halldóra Jónasdóttir sem stendur að sýningunni en hún bæði leikstýrir verkinu og hefur þýtt leiktextann og alla söngtextana. Agnes Eva 11 ára og Friðmey Hekla 9 ára deila aðalhlutverkinu en hvor þeirra sýnir tvær sýningar. Auk þeirra leika 25 krakkar frá Vestfjörðum, á aldrinum 8 – 15 ára. Stundum þarf bara lítinn snilling til að gera kraftaverk.

Sýningin er stútfull af gleði, drama, tónlist og sprelli en hún fjallar um lítinn snilling að nafni Matilda, hún er ekki metin að verðleikum heima hjá sér og í skólanum þarf hún að horfa upp á mikið óréttlæti. Matilda reynir að berjast gegn öllu óréttlætinu og segir að stundum sé í lagi að gera það sem er bannað.

Höfundur sögunnar er Roald Dahl en Dennis Kelly samdi söngleikinn með tónlist Tim Minchen.

Miðaverð er 1.000 krónur

Fjórar sýningar verða á söngleiknum en verkið nýtir stóran hluta salarins í félagsheimilinu og því eru sýningarnar fjórar.

  • 25. nóvember kl. 13 og kl. 16.
  • 26. nóvember kl. 13 og kl. 16.

Aðalfundur Leikfélags Reykjavíkur

nóv 2, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Borgarleikhúsið

 

Aðalfundur Leikfélags Reykjavíkur, rekstraraðila Borgarleikhússins, var haldinn 30. október 2017. Í ársreikningi fyrir leikárið 2016-2017 kemur fram að heildarvelta félagsins jókst úr 1.454 mkr. í 1.659 mkr. eða um 14%.  Á sama tíma varð 7% hækkun á rekstrargjöldum þess.

loading