september | 2017 | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Archive from september, 2017

    Oddur og Siggi – Frumsýning á Ísafirði og svo ferðast þeir um landið.

    sep 30, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Oddur og Siggi 1

    Leikararnir Oddur og Siggi segja okkur á sinn einstaka og skemmtilega hátt persónulega sögu sem kannski fjallar um þá, kannski einhverja aðra, kannski um einhvern sem þú þekkir, kannski um þig.

    Oddur og Siggi hafa verið bestu vinir í 10 ár og bjóða okkur í veislu þar sem þeir fagna áratuga vinskap sínum og skemmta okkur eins og þeim einum er lagið. Þeir rifja upp ýmislegt úr sinni vinskapartíð.

    Grunnskólaárin eiga að vera skemmtilegur tími, ekki satt? En það getur orðið flókið að eiga vini. Stundum verulega flókið. Þá getur verið gott að búa sér til sinn eigin draumaheim, til að komast burt úr veruleikanum. En maður getur víst ekki alltaf verið þar, eða hvað?

    Oddur og Siggi er skemmtileg og hjartnæm sýning, sem getur aukið meðlíðan og skilning, þar sem er fjallað af einlægni og húmor um flókin samskipti í heimi skólabarna.

    Aldurshópur: 10-12 ára.

    Frumsýning á Ísafirði 3. október.

    Aðstandendur

    • Leikarar: Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson
    • Leikstjórn Björn Ingi Hilmarsson
    • Tónlist: Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson
    • Leikmynd: Högni Sigurþórsson
    • Höfundar: Björn Ingi Hilmarsson og leikhópurinn
    • Búningadeild: Berglind Einarsdóttir (deildarstjóri), Ásdís Guðný Guðmundsdóttir (yfirumsjón sýningar), Hjördís Sigurbjörnsdóttir, Leila Arge, Ingveldur E. Breiðfjörð (búningaumsjón)

    Tröll fara á svið í aðeins eitt skipti í viðbót!

    sep 29, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Tröll 2
    Brúðuleiksýningin Tröll, sem er ljóðrænt og heillandi brúðuleikhús fyrir börn, verður sýnt í Tjarnarbíó laugardaginn 30. september. Það er brúðuleikhúsið Handbendi, sem er atvinnuleikhús á Hvammstanga, sem setur upp sýninguna.

    ,,Ég trúi á Truntum Runtum og tröllin mín í klettunum.“

    Tröll er frumsamin sýning fyrir fjölskyldur, innblásin af íslensku þjóðsögunum. Leikstjóri er Sigurður Líndal Þórisson, leikskáld og hönnuður er Greta Clough og tónskáld er Paul Mosely. Sýningin er 55 mínútur og hentar öllum þriggja ára og eldri.

    Í 17 milljón ár (gæti skeikað um öld eða tvær) hafa tröllin átt þessa eyju alveg fyrir sig. Þau grófu gljúfur, gerðu sér heimilislega skúta, og nutu kyrrðar og friðar miðnætursólarinnar. Tröllin voru glöð. En núna… Núna er allt breytt. Mannfólkið er komið. Það byggir hús. Leggur vegi. Hefur hátt… Svo óskaplega hátt. Geta þessar ólíku verur búið saman?

    Tröll er endurtúlkun á sumum vinsælustu tröllasögum landsins, sögð með sjónarhorni lítillar telpu og óvanalega vininum hennar úr fjöllunum. Brúðurnar eru handgerðar, og hljóðmyndin er samin af hinu virta breska tónskáldi Paul Mosley, en söngurinn er í höndum heimamanna í Húnaþingi vestra. Þetta er svolítil þjóðsaga, smá draugasaga, eintómir töfrar. Tröll eru ógleymanleg leikhúsupplifun fyrir alla fjölskylduna.

     

    Leikfélag Akureyrar sýnir Kvenfólk

    sep 27, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

     Kvenfolk 4

    Kvennasagan á hundavaði-drepfyndin sagnfræði með söngvum! -Leikfélag Akureyrar sýnir

    Kvennalistinn 1908 var róttækasta bylting Íslandssögunnar – Pussy Riot í peysufötum

    HUNDUR Í ÓSKILUM er margrómaður og verðlaunaður dúett sem er leikhúsgestum hér og sunnan heiða góðu kunnur fyrir leiksýningar sínar Sögu þjóðar sem hlaut Grímuverðlaunin árið 2012 og Öldina okkar sem gekk fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu og svo í Borgarleikhúsinu í kjölfarið. Hér leiða þeir aftur saman hunda sína undir stjórn Ágústu Skúladóttur leikstjóra.

    HUNDUR Í ÓSKILUM  heldur hér áfram að varpa óvæntu ljósi á Íslandssöguna með húmorinn að vopni. Nú er komið að sögu kvenna og kvennabaráttu.

    Frá því að konan kom til landsins í lok nítjándu aldar hafa íslenskir karlmenn gert sitt besta til að laga sig að breyttum aðstæðum. En hefur okkur tekist sem skyldi? Sagan greinir frá örfáum konum – raunar svo fáum að það er búið að skíra rakettur í höfuðið á þeim öllum.

    HUNDUR Í ÓSKILUM veltir við hverjum steini og grefur upp ýmislegt óvænt og skemmtilegt í sögu jafnréttisbaráttunnar.

    Úr gagnrýni  um Öldina okkar

    „Sum þessara atriða voru svo fyndin að ég fékk magakrampa.“ – SA.Tmm

    „Áhorfendur eiga eftir að veltast um úr hlátri. Stórskemmtileg sýning þar sem hugmyndaauðgi, einlægni og beittur húmor ráða ríkjum.“ – SJ. Fbl

    Kvenfólk er 323 sviðsetning Leikfélags Akureyrar.

    Aldurshópur 12+

    Höfundar og flytjendur: Eiríkur G. Stephensen og  Hjörleifur Hjartarson

    Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir

    Ljósahönnun; Lárus Heiðar Sveinsson

    Myndbandshönnun; Jón Páll Eyjólfsson

    Leikmynd, búningar og leikmunir:  Íris Eggertsdóttir

    Tónlist: Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson

    Hljóðhönnun: Gunnar Sigurbjörnsson

    Sýningastjóri: Þórhildur Gísladóttir

    Sviðs- og leikmyndavinna: Bjarki Árnason, Magnús Viðar Arnarsson og Jón Birkir Lúðvíksson

    Ljósmyndir: Auðunn Níelsson

    Akureyri – Leikfélag Akureyrar frumsýnir þann 29. september 323. sviðsetningu félagsins. Verkið er nýtt íslenskt sviðsverk eftir Hund í óskilum sem ber titilinn Kvenfólk. Dúettinn Hund í óskilum skipa þeir  Hjörleifur Hjartarsson og Eiríkur Stephensen, en þeir eru bæði höfundar og flytjendur verksins, þeir eru þó ekki alveg einir á báti heldur njóta fulltingis  kvennahljómsveitar í sýningunni. Í Kvenfólk fara þeir Hjörleifur og Eiríkur  á hundavaði yfir kvennasöguna undir leikstjórn Ágústu Skúladóttur.  Sýningin verður sýnd  í október og nóvember í Samkomuhúsinu.

    Um Hund í Óskilum

    Hundur í óskilum er margrómaður og verðlaunaður dúett sem er leikhúsgestum að góðu kunnur fyrir leiksýningar sínar Sögu þjóðar sem hlaut Grímuverðlaunin árið 2012 og Öldina okkar sem gekk fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu og svo í Borgarleikhúsinu í kjölfarið. En Öldina okkar unnu þeir einnig með Agústu Skúladóttur.

    Um Kvenfólk 

    Kvenfólk – Kvennasagan á hundavaði er drepfyndin sagnfræði með söngvum. Hundur í óskilum heldur hér áfram að varpa óvæntu ljósi á Íslandssöguna með húmorinn að vopni. Nú er komið að sögu kvenna og kvennabaráttu. Frá því að konan kom til landsins í lok nítjándu aldar hafa íslenskir karlmenn gert sitt besta til að laga sig að breyttum aðstæðum. En hefur okkur tekist sem skyldi? Sagan greinir frá örfáum konum – raunar svo fáum að það er búið að skíra rakettur í höfuðið á þeim öllum.  Hundur í óskilum veltir við hverjum steini og grefur upp ýmislegt óvænt og skemmtilegt í sögu jafnréttisbaráttunnar.

    Um Leikfélag Akureyrar

    Leikfélag Akureyrar varð hundrað ára þann 19. apríl þessa árs og er því sprellfjörugur öldungur. Kvenfólk er 323 sviðsetning Leikfélags Akureyrar og er ein af þremur leiksýningum sem LA setur upp leikárið 2017-2018. Saga félagsins er algerlega samofin sögu þess samfélags sem það sprettur úr fyrst sem áhugaleikhús og svo sem atvinnuleikhús. Leiksýningar félagsins hafa orðið að segul fyrir áhorfendur heima og handan heiða. Auk þess hefur félagið gert strandhögg með sínar leiksýningar í höfuðborginni við frábæran orðstí.

     

    Áhrifamikið innlegg inn í samtímann

    sep 25, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    1984 - 3

    Leikritið 1984 var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 15. september og var jafnframt fyrsta frumsýning leikársins. Sagan er byggð á skáldsögu George Orwell sem hann skrifaði árið 1948, leikgerðin er nýleg eftir þá Duncan Macmillan og Robert Icke. Eiríkur Örn Norðdahl þýddi verkið yfir á íslensku og leikstjóri þess er Bergur Þór Ingólfsson.

    Leikarar eru Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Jóhann Sigurðarson, Hannes Óli Ágústsson, Haraldur Ari Stefánsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Erlen Ísabella Einarsdóttir.

    Hér má sjá brot úr þeirri gagnrýni sem verkið hefur fengið:

    Leikhópurinn stendur sig með mikilli prýði og samleikurinn er góður. – SBH. Morgunblaðið ★ ★ ★ ★

    Valur Freyr Einarsson gerir sér lítið fyrir og stelur sýningunni. – SJ. Fréttablaðið ★ ★ ★ 

    Ísköld nálgun hans (Vals) var hárrétt, æsingarlausar pyntingar, unnar eins og hversdagslegt eldhúsverk, engin gleði, engin ást, aðeins nautnin að viðhalda valdinu. – BL. DV.

    Leikmyndin hjá Sigríði Sunnu Reynisdóttur og náttúrlega hljóðmyndin hjá Garðari Borgþórssyni eru svo stórir þættir í þessari leiksýningu og hljóðmyndin er bara eins og hluti af leikmyndinni og hljóðskúlptúr sem hjálpar til við að skapa þessa hryllingstilfinningu. – HA. Kastljós.

    Hannesi Óla Ágústssyni og nýliðanum Haraldi Ara Stefánssyni tekst báðum að skapa heilsteyptar persónur byggðar á örfáum atriðum. – SJ. Fréttablaðið ★ ★ ★ 

    Uppfærsla Borgarleikhússins á 1984 er áhrifamikið innleg inn í samtímann. Umfjöllunarefnið er drungalegt, en myndirnar sem dregnar eru upp lifa lengi með áhorfendum.
    – SBH. Morgunblaðið ★ ★ ★ ★

     

    Kartöfluæturnar – frumsýning í kvöld

    sep 22, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Kartöfluæturnar 1

     

    Í kvöld varð önnur frumsýning vetrarins í Borgarleikhúsinu þegar að nýtt íslenskt verk, Kartöfluæturnar, var frumsýnt á Litla sviðinu. Höfundur verksins er Tyrfingur Tyrfingsson og leikstjóri er Ólafur Egill Egilsson.

    Tyrfingur Tyrfingsson vakti fyrst athygli fyrir skáldskap sinn með leikverkinu Grande sem var lokaverkefni hans við Listaháskóla Íslands árið 2011. Tveimur árum síðar sýndi Borgarleikhúsið einþáttung hans, Skúrinn á sléttunni og árið 2014 var leikritið Bláskjár frumsýnt þar í húsi í samstarfi við leikhópinn Óskabörn ógæfunnar.  Um skeið var Tyrfingur hússkáld Borgarleikhússins og samdi þá Auglýsingu ársins.

    Kartöfluæturnar fjallar um ofurvenjulega margbrotna íslenska fjölskyldu sem keppir í meðvirkni og stjórnsemi innanhúss. Lísa er hjúkrunarfræðingur sem lifði af fjölskylduharmleik og flúði land. Nú er hún komin heim til að takast á við fortíðina, dóttur sína og stjúpson – og innrétta æskuheimilið alveg upp á nýtt.

    Leikarar í sýningunni eru Atli Rafn Sigurðarson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Sigrún Edda Björnsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir.

     

    Sigurður Pálsson, rithöfundur og leikskáld, er látinn 69 ára að aldri

    sep 21, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Sigurður Pálsson 1

    Sigurður Pálsson fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í Norður-Þingeyjarsýslu, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, stundaði frönskunám í Toulouse og París í Frakklandi og nam leikhúsfræði og bókmenntir við Sorbonne háskóla. Þá lauk hann einnig námi í kvikmyndaleikstjórn. Hann skrifaði jöfnum höndum ljóð og sögur en varð einnig atkvæðamikið leikskáld og eftir hann liggja m.a. verkin Hlaupvídd sex, Miðjarðarför, Hótel Þingvellir, Tattú, Edith Piaf, Einhver í dyrunum og Utan gátta sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu 2008 en fyrir það hlaut hann Grímuverðlaunin sem Leikskáld ársins – var það jafnframt síðasta verkið sem sett var upp eftir hann.

    Hér fylgja brot úr viðtali við Sigurð eftir Magnús Þór Þorbergsson sem birtist í leikskrá að verki hans Einhver í dyrunum, sviðsett í Borgarleikhúsinu árið 2001.

    Leikskáld= skáld + verkfræðingur

    -Ætli öll leikskáld séu ekki búin til úr þessu tvennu, skáldi og verkfræðingi. Dramatúrgurinn í mér er eins konar verkfræðingur eða skipuleggjandi verksins. Í fyrstu leyfi ég skáldinu að flæða eins og mögulegt er og satt að segja kemst ég ekkert af stað fyrr en ég sendi verkfræðinginn undir þiljur og leyfi skáldinu að stýra skipinu út á reginhaf. Þegar skáldið getur ekki gefið upp neina staðarákvörðun á þessu hafi þá leyfi ég dramatúrginum að reikna út hvernig hægt væri að koma skipinu í heila höfn. Kannski ekki þá höfn sem skáldið hafði hugsað sér en höfn samt…

    -Leikrit er texti í biðstöðu. Texti sem bíður eftir leiksýningu og er ætlað að vera undirstaða leiksýningar. Þetta eru mjög skringilegir eiginleikar sem eru gjörólíkir t.d. ljóðabók eða skáldsögu, þar sem maður gengur endanlega frá verkinu…

    -Ég held að leikhúsið hljóti að einbeita sér að því sem skapar því sérstöðu gagnvart öðrum miðlum leikins efnis, t.d. sjónvarpi, kvikmyndum o.s.frv. Leiksögur sem byggja á einfaldri eftirlíkingu á raunveruleikanum eiga t.d. oft betur heima í sjónvarpi. Staðreyndin er sú að kannski erum við einangraðri hér á landi en við höldum. Það er alltaf verið að tala um grósku, þennan gríðarlega fjölda leiksýninga, endalaust miðað við höfðatölu. Að stórum hluta er þetta því miður ekkert annað en óþolandi sjálfumgleði og barnaskapur. Raunveruleg gróska er ekki magn heldur gæði. Magnhyggjan er alls staðar komin í öndvegi. Hinn eini mælikvarði á hugverk er hins vegar gæði…

    -Hættum að leita að töfralausnum. Svo sem eins og dauðaleitinni að fullskapaða leikritahöfundinum, unga fullskapaða leikritahöfundinum. Leikrit er það listform sem menn ná yfirleitt síðast tökum á því það er á margan hátt erfiðasta form skáldskapar. Menn ná oft góðum tökum á ljóðinu um tvítugt og skáldsögunni um þrítugt, en menn eru alltaf komnir um eða yfir fertugt þegar þeir fara að skrifa leikrit að einhverju viti. Við verðum að finna farveg fyrir tilraunir, ekki bara í ritun heldur einnig í sviðsetningu. Það verður engin þróun í leikritun án þess að til komi sviðsetning, það nægir engan veginn að afgreiða leikritið með leiklestri. Þróunarstarf verður að vinna. Tilraunastofa leikhúss getur hvergi verið nema í leikhúsi. Og það þarf að rækta leikritahöfunda, þ.e. skáld sem eru verkfræðingar og verkfræðinga sem eru skáld…

    -Leikhús er heillandi, þegar best lætur. Mér finnst mjög forvitnilegt að rannsaka í hverju þessir töfrar eru fólgnir. En leikhúsið er ekki alltaf heillandi, leikhúsið er stundum ömurlegt og hvergi er þjáning eins óbærileg og í leikhússal þegar manni leiðist (bók getur maður lagt frá sér). En hvergi er nokkur listræn upplifun jafn djúpgefandi og töfrandi og í þessum sama leikhússal þegar vel tekst til. Að átta sig á þessu listformi finnst mér alltaf jafn spennandi…

    Starfsfólk Borgarleikhússins vottar Kristínu Jóhannesdóttur og öðrum aðstandendum innilega samúð.

    Óvinur fólksins frumsýnt 22. september í Þjóðleikhúsinu

    sep 19, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Óvinur fólksins 1

    Eftir Henrik Ibsen

    Leikstjórn Una Þorleifsdóttir

    Áleitið verk um grimmilega valdabaráttu, græðgi og þöggun. Á sannleikurinn alltaf rétt á sér?

    Eitt frægasta leikverk Henriks Ibsens í nýrri leikgerð.

    Lýðræði snýst ekki um upplýstar ákvarðanir heldur vinsælar skoðanir.

    Það eru uppgangstímar í bænum, ný og glæsileg heilsuböð laða að fjölda ferðamanna og efnahagur bæjarbúa blómstrar sem aldrei fyrr. Þegar Stokkmann læknir uppgötvar að það sem öll velmegunin grundvallast á felur í raun í sér dulda en stórhættulega meinsemd ákveður systir hans, Petra Stokkmann bæjarstjóri, að mæta honum af fullri hörku. Átök systkinanna skekja innviði samfélagsins og brátt logar allur bærinn í illdeilum.

    Áleitið verk um grimmilega valdabaráttu, græðgi og þöggun, rödd samviskunnar, rétt náttúrunnar og samfélagslega ábyrgð. Á sannleikurinn alltaf rétt á sér?

    Verið velkomin á „heilnæmasta áfangastað landsins“!

     

    Persónur og leikendur

    Björn Hlynur Haraldsson: Tómas Stokkmann, læknir og eftirlitsmaður baðanna

    Sólveig Arnarsdóttir: Petra Stokkmann, systir Tómasar, bæjarstjóri og formaður í baðstjórn

    Lilja Nótt Þórarinsdóttir: Katrín Stokkmann, eiginkona Tómasar, verslunareigandi

    Snæfríður Ingvarsdóttir: Petra Stokkmann yngri, dóttir Tómasar og Petru, barnakennari

    Sigurður Sigurjónsson: Marteinn Kíl, fósturfaðir Katrínar, verksmiðjueigandi

    Guðrún S. Gísladóttir: Ásláksen, meðeigandi Blaðsins og formaður félags atvinnurekenda

    Snorri Engilbertsson: Hofstad, ritstjóri Blaðsins

    Lára Jóhanna Jónsdóttir: Billing, blaðamaður á Blaðinu

    Baldur Trausti Hreinsson: Jóhann Horster, skipstjóri

    Vera Stefánsdóttir og Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir / Árni Arnarson og Júlía Guðrún Lovisa Henje: börn Tómasar og Katrínar

     

    Leikfélag Akureyrar auglýsir eftir fósturverkefnum

    sep 19, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Menningarfélag Akureyrar 1

    Leikfélag Akureyrar auglýsir nú eftir verkefnum frá sviðslistafólki til að verða fósturverkefni Leikfélags Akureyrar. Þau sviðslistaverkefni sem verða fyrir valinu, munu verða hluti leikársins 2018-2019.

    Aðspurður segir Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri LA að: “eitt af markmiðum LA er að rækta hæfileika ungs sviðslistafólks í frumsköpun, að vera gróðurhús fyrir hugmyndir, staður þar sem draumar rætast. Rödd ungs fólks er mikilvæg og skapa þarf tækifæri fyrir unga listamenn til að eiga stefnumót við áhorfendur”.  Hann sagði ennfremur að LA vilji að spurningum og rannsóknum borgaranna sé veittur skapandi vettvangur í leikhúsinu og að þeim markmiðum vilji leikfélagið ná með Gróðurhúsi LA. Umsóknir um fósturverkefni þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Verkefnið verður að vera  frumsamið sviðslistaverkefni og umsækjendur eða efnistök skulu hafa sterka tengingu við Norðurland.

    Umsækjendur verða að vera atvinnumenn í sviðslistum og auk  þess er listrænum stjórnendum falið að gæta umhverfissjónarmiða við sviðsetningu. Kynjahlutöll skulu vera sem jöfnust innan verkefnisins.  Aðstandendur þeirra verkefna sem veljast í Gróðurhús LA fá aðstoð við skipulagningu og verkefnastjórnun. Þeir fá aðstoð við kynningu á verkefninu og veitir MAk því sýningar og æfingaraðstöðu í Samkomuhúsinu.  Jafnframt er veittur aðgangur að tæknibúnaði, leikmuna- og búningasafni og aðstoð frá miðasölu, framhúsi og tæknideildum.

    “Það er okkar von að Gróðurhús LA verði til þess að búa frumsköpuðum sviðlistaverkefnum vettvang til þess að verða að veruleika og listamönnum að eiga stefnumót við áhorfendur.  Þannig styðjum við  sviðslistahópa og einstaklinga á svæðinu með því að gefa þeim tækifæri á að koma frumsköpun sinni á framfæri án þess að greiða aðstöðuleigu.” segir Jón Páll. Hann telur að þannig  stuðli Leikfélag Akureyrar að uppbyggingu öflugrar sviðslistamenningar og rækti samband sitt við grasrótarstarf á starfssvæðinu.

    Tekið er á móti umsóknum á vef MAk til 31. október.

    1984 Frumsýnt í Borgarleikhúsinu í kvöld

    sep 15, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    imageedit__2716339703

    Verkið er 1984 sem er unnið upp úr samnefndri metsölubók eftir George Orwell. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson og leikarar eru Erlen Ísabella Einarsdóttir, Hannes Óli Ágústsson, Haraldur Ari Stefánsson, Jóhann Sigurðarson, Valur Freyr Einarsson, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

    Algert eftirlit er markmiðið í eftirlitssamfélagi Orwells í skáldsögunni 1984. Winston er starfsmaður Sannleiksráðs en hann sér um að breyta upplýsingum og staðreyndum í blöðum og kennslubókum eftir skipunum Flokksins. Svonefndum hliðstæðum staðreyndum eða öllu heldur skaðreyndum er óspart plantað til að draga úr gagnrýni og sjálfstæðri hugsun almennings. Winston skrifar leynilega dagbók sem einskonar heimild fyrir framtíðina. Skilaboð til komandi kynslóða og uppreisnaráskorun. Eða bara huglæg lýsing á heimi þar sem stríð er friður, þrældómur er frelsi og fáfræði er styrkur.

    Í magnaðri leikgerð skáldsögunnar eru áhorfendur dregnir inn í þetta framtíðarsamfélag. Ágengum spurningum er varpað fram: Hvernig vitum við að veröld okkar er raunveruleg? Hvað er sannleikur og hvað sannlíki í yfirþyrmandi eftirlitssamfélagi nútímans þar sem hvert okkar spor er rakið af stórfyrirtækjum á netinu, með símtækjum, öryggismyndavélum og rafrænum skilríkjum?  Hver er staða einstaklingsins í þessum ósköpum og yfirgangi og hvernig getur hann varðveitt sjálfan sig?

    George Orwell samdi þessa dystópíu í skugga síðari heimsstyrjaldarinnar. Hún er fyrir löngu orðin hluti af sígildum bókmenntum og án efa ein merkasta saga síðari tíma.

    Smán frumsýnt í Þjóðleikhúsinu

    sep 12, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Smán

    Margverðlaunað átakaverk um sjálfsmynd og sjálfsvitund okkar í fjölmenningarsamfélagi nútímans frumsýnt í Þjóðleikhúsinu.

    Framtíðin brosir við viðskiptalögfræðingnum Amir Kapoor. Hann er yfir sig ástfanginn af eiginkonu sinni, listakonunni Emily, og hefur af harðfylgni og eljusemi náð að vinna sig upp innan lögfræðifyrirtækisins. En velgengnin hefur kostað sitt og fortíðin bankar upp á þegar síst skyldi.

    Amir og Emily bjóða vinahjónum heim. Fram að þessu hefur ólíkur bakgrunnur og uppruni þessara fjögurra einstaklinga ekki virst skipta neinu máli, en þegar samræðurnar berast skyndilega inn á óvænta braut er fjandinn laus.

    Hvaða áhrif hefur uppruni, kyn og kynþáttur á það hvernig við skilgreinum okkur sjálf? Er hugsanlegt að við séum haldin fordómum sem við viljum ekki kannast við?

    Leikritið var frumflutt í Bandaríkjunum árið 2012 og vakti strax gífurlega athygli. Það hlaut Pulitzer-verðlaunin og Obie-verðlaunin, var tilnefnt til Tony-verðlaunanna og hefur farið sigurför um heiminn.

    Í samstarfi við leikhópinn Elefant.

    Styrkt af Reykjavíkurborg og og Mennta- og menningarmálaráðuneyti – leiklistarráði.

    Í samstarfi við Rauða krossinn.

    Síður:123»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!