febrúar | 2017 | Leikhus.is

  Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

  Nafn:

  Netfang:

  Fæðingarár:

  Símanúmer:

  Kyn:

  KarlKona

   
  Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

  Svar:

   
  Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

  Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

  Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

   


  Archive from febrúar, 2017

  Lokasýning á Sölku Völku

  feb 26, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  salkavalka stor

  Í kvöld, 26. febrúar er lokasýning á Sölku Völku í Borgarleikhúsinu. Salka Valka er ein þekktasta saga Halldórs Laxness og sú sem ruddi braut hans til alþjóðlegra vinsælda. Hún er hetjusaga ungrar stúlku sem brýst úr fátækt og fáfræði og nær að verða mikils metinn þjóðfélagsþegn af eigin rammleik með seiglu og einbeittum vilja.

  Sagan gerist á Óseyri við Axlarfjörð en þangað flytja mæðgurnar Sigurlína og Salka. Salka litla er stolt og sterk en Sigurlína móðir hennar treystir alfarið á himnaföðurinn og Hjálpræðisherinn. Örlög fólksins á Óseyri eru að mestu á valdi kaupmannsins Jóhanns Bogesen en átakatímar fara í hönd og nýir vindar blása um þjóðfélagið. Áhrifavaldar í lífi mæðgnanna eru aðallega hinn ungi og mælski Arnaldur ásamt Steinþóri sem er alger andstæða hans; uppfullur af frumkrafti sem bæði skelfir og heillar.

  Uppfærsla Yönu Ross varpar nýju og óvæntu ljósi á eina af þekktustu sögum Halldórs Laxness. Úr verður spennandi ferðalag á vit Sölku Völku í fortíð og nútíð. Yana Ross leikstýrði rómaðri sýningu á Mávinum á síðasta leikári og er að verða með eftirsóttari leikstjórum í Evrópu – Salka Guðmundsdóttir er eitt efnilegasta leikskáld þjóðarinnar. Þær leiða saman hesta sína í nýrri leikgerð að Sölku Völku.

  Úr gagnrýni

  „Þvílíkur leikur!“   MK – Víðsjá

  „Þetta er sýning sem vekur upp hlátur, sterkar tilfinningar og fleiri spurningar  en hún svarar.” MK – Víðsjá

  „Gáta sem vekur upp sterkar tilfinningar” MK – Víðsjá

  „Gríðarlega vel leikið”  BL. Kastljós

  „Skilur áhorfandann reyndar eftir með mesta hroll og gæsahúð leikársins áður en yfir lýkur.“ ÞT. Mbl

  „Útkoman hreyfir við vitsmunum, tilfinningalífi, gæsahúðkirtlum og jafnvel augnkrókunum.” Þt. Mbl

  „Listræn vinna er til fyrirmyndar og það er meira að segja boðið upp á eitt fegursta andartak sem sjá má á fjölum leikhúsanna nú um mundir”  JJ. Kvennablaðið

  Óþelló – aukasýning

  feb 9, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  othello-stor

  Aukasýning 9. febrúar. Gísli Örn og Vesturport takast á nýjan leik á við Shakespeare, í fyrsta sinn frá hinni feykivinsælu sýningu Rómeó og Júlía. Ný þýðing Hallgríms Helgasonar í uppfærslu þar sem samkeppni, metorðagirnd, slagsmál og ástir skapa kraftmikla leikhúspplifun.

  Vesturport hefur nú fengið Hallgrím Helgason aftur til liðs við sig og leggur til atlögu við eitt tilfinningaþrungnasta verk Shakespeares. Eldheitt ástarsamband Óþellós við Desdemónu gerir hann varnarlausan gegn nístandi afbrýðisemi.

  Ný uppfærsla þar sem samkeppni, metorðagirnd, slagsmál og ástir skapa kraftmikla leikhúsupplifun í anda hinna vinsælu sýninga Vesturports.

  Leikritið er sett upp á 400 ára ártíð Shakespeares.

  Höfundur: William Shakespeare
  Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson
  Leikmynd: Börkur Jónsson
  Leikarar: Nína Dögg Filippusdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Aldís Amah Hamilton, Arnmundur Ernst Backman, Björn Hlynur Haraldsson, Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Egill Egilsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og fleiri.

  Sýnt á Stóra sviðinu

  Hallgrímur Ólafsson

  feb 7, 2017   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN

  Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
  Ég er leikari í Þjóðleikhúsinu, unnusti og svo á ég 3 börn. Þessa dagana er ég að leika Gretti í Djöflaeyjunni og álfinn Númenór í Fjarskalandi. Ásamt því að undirbúa verkefni sem eru á döfinni á næstu misserum.

  Í hvaða stjörnumerki ertu?
  Einhverstaðar las ég að ég væri eitthvað sem heitir tvíburi. Hvað svo sem það nú þýðir.

  Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
  Fyrsta minningin um hvað ég ætlaði að verða var að vinna á gröfu. Það þótti mér ferlega töff og hver veit, kannski fer ég í það einhverntíma.

  Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
  Kosti mína vil ég að aðrir meti en gallarnir eru óteljandi.

  Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
  Saltkjöt og baunir.

  Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
  Síðast sá ég „Gott fólk í Þjóðleikhúsinu“ og þótti mikið til koma. Ákaflega þörf umræða og virkilega vel útfærð á margan hátt.

  Hvaða áhugamál áttu þér?
  Ég spila golf á sumrin og reyni að fara í einhverja veiðitúra.

  Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
  Ég hlusta í rauninni afar lítið á tónlist en í uppáhaldi eru nú sennilega Bítlarnir.

  Hvað fer mest í taugarnar á þér?
  Misrétti, dómharka, kynþáttafordómar, spilling, hroki, stjórnsemi……

  Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
  Hérna verð ég að nefna fæðingarstaðinn Akranes en þar sleit ég barnaskónum, einnig þykir mér alltaf gaman að koma upp í Húsafell. Við fjölskyldan reynum að fara þangað minnst einu sinni á sumri.

  Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
  Berlín kemur upp í hugann og svo er alltaf gaman að koma til London. En hugsanlega á ég eftir að finna mér uppáhaldsstað. Er ekki það vel sigldur sjáðu til.

  HRAÐASPURNINGAR

  Flytja til London eða New York?
  London.

  Eiga hund eða kött?
  Hvorugt.

  Borða heima heima eða úti daglega?
  Heima.

  Finnst þér betra að vinna á morgnanna eða kvöldin?
  Kvöldin.

  Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
  Bjór.

  Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
  Sjónvarp.

  Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
  Andlit.

  Veldu: Sturtu eða bað?
  Bað.

  Veldu: RÚV eða Stöð 2?
  Get ekki gert upp á milli.

  Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
  Hress.

  Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
  Allir í bátana, líf og fjör!

  Hún pabbi – tvær sýningar eftir

  feb 7, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  hunpabbi-stor

  Borgarleikhúsið sýnir nýtt íslenskt verk á Litla sviðinu – Hún pabbi. Í nútímasamfélagi eru fjölmörg tækifæri til þess að framleiða „hina fullkomnu“ útgáfu af sjálfum þér. Í veröld internets og samfélagsmiðla er auðvelt að stilla upp glansmynd af eigin sjálfi, laust við erfiðleika, skömm og – kannski sannleika. En það er líka til fólk sem þorir ekki að lifa eftir sannfæringu sinni og framleiðir ímynd sína alla ævi. Ástæður geta verið margar; skömm, ótti eða jafnvel einhvers konar „tillitssemi“ í garð sinna nánustu. Óttinn við að særa og verða öðrum til skammar.

  Hannes Óli Ágústsson, leikari, upplifði aldrei nánd við föður sinn. Í æsku öfundaði hann leikfélagana af sambandi þeirra við feður sína. Hannes vildi bara „venjulegan pabba“ en faðir hans var fjarlægur þrátt fyrir að vera til staðar. Innst inni vissi Hannes að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Dag einn breyttist allt. Pabbi hans lét sig einfaldlega hverfa og varð Anna Margrét Grétarsdóttir, þá 57 ára gömul. Hún tilkynnti eiginkonu sinni til 30 ára og börnum sínum tveimur að hún væri í raun ekki sá sem þau héldu öll þessi ár. Hún var ekki Ágúst Már, heldur Anna Margrét. Missir, sorg og söknuður blöstu við. Líf þeirra var lygi. Á sama tíma krefst samfélagið þess að aðstandendur styðji ástvini sína, styðji hann – styðji hana – og hjálpi henni að takast á við lífið á nýjan leik.

  Borgarleikhúsið í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning.

  Improv Ísland snýr aftur

  feb 1, 2017   //   by test   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  improvisland stór

  Á síðasta leikári var fullt á nær allar spunasýningar Improv Ísland í Þjóðleikhúskjallaranum og stór hluti áhorfenda kom aftur og aftur enda eru engar tvær sýningar eins og engum leiðist að hlæja!

  Í febrúar býður hópurinn upp á fjölbreyttar og ófyrirsjáanlegar grín-spunasýningar í Þjóðleikhúskjallaranum á hverju miðvikudagskvöldi. Hópurinn sýnir ólík spunaform og fær til sín ýmsa þjóðþekkta gesti. Í leikhópnum eru rúmlega 30 spunaleikarar sem skiptast á að sýna í hverri viku.

  Dóra Jóhannsdóttir er listrænn stjórnandi Improv Ísland. Undirleikarar með spunnum söngleikjum eru Pálmi Sigurhjartarson og Karl Olgeirsson. Frekari upplýsingar um hópinn er að finna á improviceland.com

  Umsagnir gesta eftir sýningar síðasta vetrar:

  „Þið sem ekki hafið séð sýningu @improviceland drífið yður. Þetta er ó svo gott!“ – Helgi Seljan

  „Ohmygod hvað þetta var gott stöff. Mæli innilega með #improvisland sýningunum. Ég ætla aftur.“ – Emmsjé Gauti:

  „Ég fór með háaldraðan föður minn á Improv ísland í Þjóðleikhúskjallaranum og það var ugeðslega gaman. Bjóðið foreldrum ykkar á deit!“ – Berglind Festival

  „Allir á @improviceland. Það fyndnasta og ferskasta sem þú sérð í dag! #staðfest“ – Auðunn Blöndal

  „@improviceland breytti lífi mínu í kvöld.“ – Ásrún Magnúsdóttir danshöfundur

  loading

  Takk fyrir að skrá þig!