Verkið sem átti frumsýna 14. mars slegið af vegna samkomubanns
Silja Hauksdóttir kvikmyndaleikstjóri þreytir frumraun sína í leikhúsi
Ilmur Kristjánsdóttir hreifst af bókinni og varð að láta verkið lifna við
Tónlistarmaðurinn Auður semur tónlistina í sýningunni
Daginn sem leikritið Kópavogskrónika var fullæft og leikarar, tæknifólk og listrænir stjórnendur voru að gera sig klár fyrir lokaæfingu var sett á samkombann á Íslandi. Nú, ríflega hálfu ári síðar, er loksins komið að frumsýningu. Kópavogskrónika byggir á samnefndri bók Kamillu Einarsdóttur sem sló í gegn árið 2018. Ilmur Kristjánsdóttir leikur aðalhlutverk og leikstjóri er Silja Hauksdóttir en Kópavogskrónika er fyrsta leikstjóraverkefni hennar á sviði. Silja hlaut mikið lof fyrir kvikmynd sína Agnes Joy sem frumsýnd var á síðasta ári. Hinn vinsæli tónlistarmaður Auður semur tónlistina í sýningunni.
Kópavogskrónika fjallar um unga, einstæða móður sem í kjölfar ástarsorgar dvelst langdvölum í Kópavogi, – bæ sem sagt er að sé slys og hefði aldrei átt að verða til! Ilmur Kristjánsdóttir og Silja Hauksdóttir skapa ögrandi og skemmtilega leiksýningu upp úr skáldsögu Kamillu Einarsdóttur, sem vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2018.
Kópavogskrónika er hispurslaus ástarsaga úr samtímanum en jafnframt opinskátt verk um samband móður og dóttur. Móðir talar til dóttur sinnar, gerir upp fortíðina og dregur ekkert undan í lýsingum á hömluleysi í drykkju, neyslu og samskiptum við karlmenn. Frásögnin er í senn kjaftfor, hjartaskerandi, kaldhæðin, fyndin og frelsandi.
“Fæst börn eru sérstaklega stolt yfir ríðiafrekum mæðra sinna. Ég get alveg skilið það. En elsku stelpa, þú verður nú að viðurkenna að listinn yfir bólfélaga mína er frekar tilkomumikill.” Skáldsagan hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina, verðlaun sem lestrarfélagið Krummi veitir fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins í íslenskum bókmenntum.
“Það eru alveg atriði sem passa en þetta er skáldskapur, ekki ævisaga. En ég á börn og hætti í menntaskóla til að vinna á strípibúllu, svona smáatriði sem passa. En þetta er ekki ég, og ekki mínar uppáferðir og fyllirí í þessari bók.“ Kamilla Einarsdóttir
Listafólk Leikverk eftir Ilmi Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur Byggt á skáldsögu eftir Kamillu Einarsdóttur Leikstjórn Silja Hauksdóttir Leikmynd og búningar Sigríður Sunna Reynisdóttir Tónlist Auður
Leikarar: Ilmur Kristjánsdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Þórey Birgisdóttir.
Ung námskona kemur í viðtalstíma til háskólakennara síns. Kennarinn nýtur mikillar velgengni í starfi og einkalífi, er að kaupa sér hús og á von á fastráðningu.
Það sem byrjar sem sjálfsögð hjálp við námið breytist í miskunnarlausa baráttu og óvænta atburðarás sem kollvarpar valdajafnvæginu á milli kennara og nemanda, karls og konu og lífi þeirra beggja í leiðinni.
Beitt og meistaralega vel skrifað leikrit sem slær okkur út af laginu og spyr óvæginna spurninga. Á tímum þegar umræður og deilur um skilgreiningarvald og ólíkar orðræður hafa magnast er þetta leikrit Mamets um vald og sannleika ofureldfimt.
Þjóðleikhúsið stendur fyrir spennandi námskeiði um ljósa- og hljóðhönnun. Námskeiðið er ætlað ljósa og hljóðmönnum áhugaleikhúsa / félagsmiðstöðva og þeirra sem vinna með ljós/hljóð á öðrum vettvangi. Þáttakendur þurfa að hafa náð 16-17 ára aldri og hafa eitthvað fengist við ljósa eða hljóðvinnu áður. (ekki byrjendanámskeið). Námskeiðið fer fram í Þjóðleikhúsinu og leiðbeinendur eru tæknimenn Þjóðleikhússins. Skráning er til og með mið. 16. september.
Nánari upplýsingar um námskeið
Ljósanámskeið Verkfærin / ljósin. Hverskonar ljós er maður að vinna með og hvernig notar maður þau. Ljósmagn, skerpa, vinklar, ofl. Litir og noktun þeirra: Hvaða hughrif þeir búa til ofl. varðandi litanoktum Noktun filtera. LED ljós / ekki LED ljós? Vinnuferlið: Á hverju byrjar maður? Grunnlýsing. Samstarf við listræna stjórnendur
Hljóðnámskeið: Hvað er hljóð, hvernig ferðast það um rými og hvernig getur maður nýtt sér það í praktík? Uppstilling hljóðkerfa, uppmögnun og þráðlaust hljóð. (Þráðlausir hljóðnemar og in-ear) Hljóðvinnsla fyrir lifandi viðburði, Q-lab, hljóðeffektar, forritun mixera og samtenging tækja (show control). Hvert sækir maður innblástur og hvernig styður maður við verkið og eykur áhrif til áhorfenda. Samstarf við listræna stjórnendur.
Kómedíuleikhúsið frumsýndi nýtt Beðið eftir Beckett vestur í Haukadal í ágúst og heldur nú suður til Höfuðborgarinnar, í Tjarnarbíó, með sýningar í September. Höfundur verksins og leikstjóri er Trausti Ólafsson en Elfar Logi Hannesson leikur aðalhlutverkið. Í þessu grátbroslega verki bíður Leikari nokkur eftir að írska leikskáldið Samuel Beckett skrifi verk fyrir sig. Leikarinn styttir sér stundir með því að máta sig við persónur úr eldri leikritum skáldsins og bregður fyrir sig ögn af Dante, Artaud og Hallgrími Péturssyni. Einsog í sönnum grískum harmleik á Leikarinn von á sendiboða guðanna.
Aðeins tvær sýningar í boði, 8. og 9. September. Miðasala á tix.is
Gestasýningar á milli leikhúsanna verða fastir árvissir viðburðir
Samstarf um uppsetningar sem sýndar verða á Akureyri og í Reykjavík
Aukið faglegt samstarfs á milli fagfólks meðal listamanna og tæknimanna
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri og Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, skrifuðu nýverið undir samkomulag um stóraukið samstarf menningarstofnananna tveggja. Samkomulagið kveður á um fjölgun gestasýninga, sameiginlegar uppsetningar og miðlun þekkingar á milli starfsfólks .
Þjóðleikhúsið og Leikfélag Akureyrar ætla á næstu árum að stórauka samstarf á milli stofnananna með það að markmiði að efla leiklist í landinu, stuðla að auknu flæði á milli landshluta, auka verðmætasköpun beggja stofnana, gera sýningar hvors leikhúss aðgengilegar stærri áhorfendahópi, miðla þekkingu og skapa fjölbreytni.
Samkomulagið er fjórþætt. Leikhúsin munu sýna gestasýningar a.m.k. einu sinni á ári hvort hjá öðru. Í öðru lagi munu þau sameinast um að framleiða eina sýningu sem verður sett upp á báðum stöðum. Í þriðja lagi felur samkomulagið í sér möguleika á láni á búningum, leikmunum og tæknibúnaði á milli húsanna eftir því sem aðstæður leyfa. En síðast en ekki síst munu verða aukin tækifæri fyrir starfsfólk húsanna til að auka samvinnu sín á milli og miðla þekkingu, og lista- og tæknifólk mun í einhverjum tilfellum geta starfað við verkefni í báðum leikhúsum.
Á leikárinu mun Þjóðleikhúsið sýna Upphaf eftir David Eldridge á Akureyri og stefnt er að sýningu á Vorið vaknar í uppsetningu LA á næsta ári. Þá munu leikhúsin vinna sameiginlega að uppsetningu á Krufning sjálfsmorðs eftir Alice Birch.
„Þjóðleikhúsið er leikhús allra landsmanna og við stefnum að því að fjölga leikferðum um landið. Samhliða viljum við auka enn samstarf við Leikfélag Akureyrar og auka sýningarhald á Akureyri. Það er trú okkar að þetta samkomulag muni verða til þess að efla leiklist í landinu öllu og við viljum gjarnan styðja við starfsemi leikhúss á Akureyri. Með þessu samkomulagi er opnað fyrir aukið samstarf, sýningarhald og þekkingarmiðlun. Það er líka tilhlökkunarefni að geta boðið höfuðborgarbúum upp á vönduðustu sýningarnar frá Akureyri. Þetta er mikið tilhlökkunarefni“ sagði Magnús Geir við þetta tækifæri.
„Við á Akureyri erum afar spennt fyrir auknu samstarfi við Þjóðleikhúsið og sjáum í því mikil tækifæri bæði varðandi miðlun þekkingar og samvinnu og líka að þarna fáum við tækifæri til að stækka okkar markað og ná til fleiri áhorfenda. Samstarf þessara stofnanna eykur slagkraft og stuðlar að fjölbreytni“ segir Marta Nordal.
Hamingjan, og fálmkennd leit manneskjunnar að henni, er viðfangsefni þessarar nýju íslensku óperu eftir tónskáldið Friðrik Margrétar-Guðmundsson, í leikstjórn Adolfs Smára Unnarssonar.
Ný kynslóð sviðslistafólks brýst fram á sjónarsviðið með gáskafullum leik að bæði efni og formi. Fjórar fígúrur ráfa um sviðið, þær leita að merkingu og velta því fyrir sér hvað færir þeim ánægju. Fátt virðist þó um svör, enda er ekkert sorglegra en manneskjan. Fígúrurnar beita öllum tiltækum ráðum en ekkert virðist virka. Þær eru eftir allt saman bara manneskjur – og ekkert er sorglegra en manneskjan. Lífið: Harmrænt en hryllilega fyndið ferðalag, ein stór vonbrigði. Þá þarf að meta stöðuna, koma með skapandi lausnir, straumlínulagaðar aðgerðaráætlanir. Og ef ekkert virkar? Koma sér bara þægilega fyrir, anda djúpt niður í þindina, fylla lungun af lofti og anda svo út með hvínandi hljóði – endurtaka þangað til að árangur næst. Þetta reddast allt saman á endanum. Það hlýtur að vera.
Aðstandendur: Tónskáld: Friðrik Margrétar-Guðmundsson Leikstjórn og texti: Adolf Smári Unnarsson Flytjendur: Dagur Þorgrímsson, Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, María Sól Ingólfsdóttir, Ólafur Freyr Birkisson Leikmynda- og búningahönnuður: Bryndís Ósk. Þ. Ingvarsdóttir Dramatúrg: Matthías Tryggvi Haraldsson Ljósahönnuður: Hafliði Emil Barðason Myndbandshönnuður: Elmar Þórarinsson Tónlistarstjórn: Pétur Björnsson Aðstoð við sýningu: Magnús Thorlacius Grafísk hönnun: Gréta Þorkelsdóttir Ljósmyndir: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
Leikarinn, leikstjórinn og CVT þjálfarinn Bjartmar Þórðarson mun bjóða upp á efnismikið og spennandi námskeið hjá Söngsteypunni í Reykjavík á þessari önn og hefst námskeiðið þann 14. september nk. Námskeiðið er ætlað 20 ára og eldri sem hafa brennandi áhuga á leiklist, vilja auka færni sína, styrkja sjálfstraust og kynnast mismunandi nálgunum í leiklistarsköpun. Námskeiðið hentar bæði þeim sem hafa reynslu af leiklist sem og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Um námið Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur fái fjölbreytta innsýn og þjálfun í sköpunarferli leikarans og kynnist betur styrkleikum sínum sem og veikleikum. Unnið er í litlum hóp þar sem andrúmsloft einkennist af trausti og hreinskilni. Þetta krefjandi námskeið gerir leikaranum kleift að nýta sér kunnáttu sína og leikni strax að því loknu.
Þjálfun í líkamsbeitingu og leiktækni.
Complete Vocal raddtæknin kynnt og farið yfir hvernig hún getur gagnast leikurum sem og söngvurum.
Farið verður yfir muninn á mismunandi stílum, leikhúsi, kvikmyndum, söngleikjum.
Rýnt í uppsetningarferli leiksýninga frá ýmsum hliðum.
NÁNARI UPPLÝSINGAR OG VERÐ Upphaf náms: 1. september 2020
Dagsetningar: Kennt annan hvern mánudag og fimmtudag (í sömu viku) í 4 tíma í senn frá kl.18:00 – 22:00, samtals 48 kennslustundir. Fjöldi Þátttakenda: 8 – 10 í hverjum hóp
Kennari námskeiðsins, Bjartmar Þórðarson, er útskrifaður leikari frá The Webber Douglas Academy of Dramatic Art, leikstjóri frá Rose Bruford College – MA Advanced Theatre Practices, CVT söngkennari frá Complete Vocal Institute og bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands.
Verð og greiðslutilhögun Námið kostar 79.900 kr. Við bókun greiðist 15.000 kr. í staðfestingargjald sem er óendurkræft. Semja þarf um greiðslur á eftirstöðvum áður en námið hefst! Hægt að skipta í 2-3 greiðslur eftir að staðfestingargjald er greitt Ath. styrkveitingar hjá verkalýðs- og starfsmannafélögum.
ALLAR ÍTARLEGRI UPPLÝSINGAR Í SÍMA 699-4463 EÐA EMAIL: INFO@SONGSTEYPAN.IS
Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Senuþjófinn frumsýnir 30. ágúst leikverkið Beðið eftir Beckett. Frumsýnt verður í leikhúsi Kómedíuleikhússins í Haukadal Dýrafirði. Höfundur verksins er Trausti Ólafsson sem jafnframt leikstýrir.
Beðið eftir Beckett er guðdómleg kómedía sem fjallar um leikara nokkurn sem bíður eftir að Samuel Beckett skrifi fyrir sig nýtt leikrit. Á meðan á biðinni stendur styttir hann sér stundir með því að máta sig við persónur úr eldri leikritum skáldsins og bregður fyrir sig ögn af Dante, Artaud og Hallgrími Péturssyni. Einsog í sönnum grískum harmleik á leikarinn von á sendiboða guðanna.
Leikari er Elfar Logi Hannesson og einnig kemur ungur dýrfirskur leikari við sögu í leiknum, Þrymur Rafn Andersen. Leikmynd og búninga hannar Marsibil G. Kristjánsdóttir, höfundur tónlistar er Hjörleifur Valsson og Sigurvald Ívar Helgason hannar lýsingu.
Frumsýning Fyrstu þrjár sýningar á Beðið eftir Beckett verða sýndar Í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal, Dýrafirði. Vegna Kóvítans verður takmarkaður sætafjöldi í boði.
Miðasala er aðeins í síma: 891 7025.
Frumsýning … sunnudaginn 30. ágúst kl. 20:01 UPPSELT 2. sýning ……… mánudaginn 31. ágúst kl. 20:02 3. sýning ……… þriðjudaginn 1. september kl. 20:03
Aðrar sýningar Stefnt er að því að sýna Beðið eftir Beckett víðar á landinu í vetur, m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar í Hofi og í Tjarnarbíói í Reykjavík. Nánari upplýsingar um sýningar á verkinu má finna á fésbókarsíðu Kómedíuleikhússins og á komedia.is
Gísli Rúnar Jónsson lést þann 28. júlí síðastliðinn og mun útför hans fara fram þann 20 ágúst nk.
Vegna ástandsins í heiminum munu aðeins nánustu aðstandendur og vinir Gísla Rúnars Jónssonar geta komið saman í kirkjunni en útförinni verður sjónvarpað beint í Sjónvarpi Símans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu Gísla Rúnars.
„Okkar elskaði Gísli Rúnar Jónson, leikari, leikstjóri, rithöfundur, þýðandi og einstakur fjölskyldufaðir verður jarðsunginn fimmtudaginn 20. ágúst næstkomandi kl. 15:00.
Vegna ástandsins í heiminum munu aðeins hans nánustu aðstandendur og vinir geta komið saman í kirkjunni, en útförinni verður sjónvarpað beint í Sjónvarpi Símans og auk þess verður aðgengilegt streymi á netinu.
Aðstandendur þakka allan kærleika, hlýhug og fallegar kveðjur sem borist hafa á þessum erfiðu tímum.
Fjölskyldan hvetur alla þá sem elskuðu þennan mikla listamann til að eiga fallega stund, kveikja á kertum og vera með okkur í anda og fylgjast með jarðarförinni á netinu.“
Gísli Rúnar varð fyrst þjóðkunnur fyrir hlutverk sitt í Kaffibrúsakörlunum ásamt Júlíusi Brjánssyni. Þetta voru stutt gamanatriði í skemmtiþáttum í Sjónvarpinu haustið 1972. Næstu tvö árin skemmtu þeir félagar víðsvegar um landið og gáfu út plötu með efni þeirra 1973 við miklar vinsældir. Kaffibrúsakarlarnir voru fyrsta gamantvíeykið í íslensku sjónvarpi og skipa þannig sérstakan sess, en um svipað leyti komu bræðurnir Halli og Laddi einnig fram.
Nokkrum árum síðar gerðu Halli, Laddi og Gísli Rúnar grínplötuna Látum sem ekkert c (1976), sem óneitanlega hlýtur að teljast stór minnisvarði í íslensku gríni. Þar er meðal annars að finna lagið Tygg-Igg-Úmmí.
Sjálfur gerði hann plötuna Algjör Sveppur sama ár og 1977 var hann meðal fjölda listamanna sem kom að hljómplötunni Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka. 1980 kom út platan Úllen Dúllen Doff þar sem finna mátti úrval efnis úr samnefndum skemmtiþáttum Útvarpsins. Auk Gísla Rúnars komu þar fram Randver Þorláksson, Jónas Jónasson, Sigurður Sigurjónsson, Árni Tryggvason og Hanna María Karlsdóttir auk Eddu Björgvinsdóttur, en þau Gísli Rúnar kynntust í leiklistarskóla á áttunda áratuginum og giftu sig síðar. Þau eignuðust tvö börn, Björgvin Franz og Róbert Óliver. Þau skildu árið 2000.
Gísli Rúnar kom að fjölda Áramótaskaupa, ýmist sem leikari, handritshöfundur eða leikstjóri, allt frá 1981 til 1994. Þá skrifaði hann handrit og leikstýrði nokkrum gamanþáttaröðum. Fastir liðir eins og venjulega voru sýndir 1985 í Sjónvarpinu og ári síðar Heilsubælið í Gervahverfi sem var fyrsta gamanþáttaröð Stöðvar 2. Hann fór einnig með aðalhlutverk í þeim þáttum. Bæði verkin slógu hressilega í gegn. Áður hafði hann leikið aðalhlutverk í þáttunum Þættir úr Félagsheimili (1982, RÚV). Hann var einnig meðal handritshöfunda gamanþáttanna Búbbarnir, sem sýndir voru á Stöð 2, 2006.
Gísli Rúnar kom fram í mörgum kvikmyndum, má þar nefna Hvíta máva (1985), Stellu í orlofi (1986), Stuttan Frakka (1993), Blossa (1997), Magnús (1989) og Stellu í framboði (2002). Síðasta hlutverk hans á þeim vettvangi var í Ömmu Hófí sem frumsýnd var í júlí 2020.
Gísli Rúnar átti einnig langan feril í leikhúsi, sem leikari, leikstjóri, leikskáld og þýðandi. Þá skrifaði hann ævisögu Björgvins Halldórssonar, Bó & Co, sem kom út 2001 og nokkru síðar bókina Ég drepst þar sem mér sýnist þar sem hann tíndi til skrautlegar gamansögur frá löngum ferli sínum.
Við hjá leikhus.is vottum fjölskyldu og aðstandendum okkar dýpstu samúð um leið og við þökkum Gísla Rúnari fyrir allar þær gæðastundir sem hann hefur fært okkur í gegnum tíðina.