„Gosi er allt í senn falleg, fyndin og töfrandi sýning sem enginn leikhúsunnandi ætti að láta framhjá sér fara.“
Trésmiðurinn Jafet kemst yfir talandi viðardrumb og fær þá hugmynd að smíða úr honum brúðu. Til verður spýtustrákurinn Gosi; forvitinn prakkari sem á erfitt með að feta hinn rétta veg. Í stað þess að hlýða föður sínum heldur hann á vit vafasamra ævintýra, kynnist talandi kribbu sem reynir að koma fyrir hann vitinu, lætur undirförulan kött og ref snúa á sig og þarf að ganga í gegnum alls konar hremmingar áður en hann kemst til þroska með dyggri hjálp bláhærðu dísarinnar.
Leikarar og tónlistarmenn sýna okkur þetta sígilda og ástsæla ævintýri um spýtustrákinn í nýjum og litríkum búningi. Leikstjóri sýningarinnar, Ágústa Skúladóttir, hefur leikstýrt fjölda barna og fjölskyldusýninga sem ávallt hafa notið mikilla vinsælda.
Boðið er upp á alla sunnudaga að hafa sýninguna textaða á ensku, íslensku og pólsku. Þeir sem vilja nýta sér þessa þjónustu standa til boða að sækja smáforrit fyrir snjallsíma og valið á milli þess að fylgjast með textanum á meðan á sýningu stendur.
Kæru vinir, fylgjendur og allir sem bíða spenntir eftir upplýsingum frá Leikhópnum Lottu um sumarið 2021.
Á þessum fordæmalausu tímum höfum við öll þurft að hugsa út fyrir kassann og haga lífi okkar í samræmi við þær reglur sem gilda á hverjum tíma.
Við í Leikhópnum Lottu leggjum mikið upp úr því að framleiða og setja upp vandaðar sýningar og skemmtiatriði sem henta við öll tækifæri. Sýningar sem við ferðumst með um allt land, allt árið um kring. Covid hefur sett stórt strik í reikninginn hjá okkur síðasta árið, eins og hjá flestum öðrum, og mun því miður halda áfram að gera það eitthvað lengur.
Í vetur neyddumst við til að fella niður okkar árlegu vetrarsýningu sem stefnt var á að sýna í Tjarnarbíói og ferðast með um landið. Sýningin um Mjallhvíti og dvergana sjö hefði orðið fjórða vetrarsýning Lottu en á veturna höfum við gert það að hefð að endurgera eldri sumarsýningarnar okkar 10 árum seinna og klætt þær í glænýjan búning innandyra. Covid hefur ákveðið að fresta þessum áformum okkar og stefnir allt í að Mjallhvít fari á fjalirnar í janúar 2022, 11 árum eftir að við frumsýndum hana fyrst.
Við höfum einnig þurft að taka aðra erfiða ákvörðun varðandi sumarið. Með sorg í hjarta neyðumst við til að tilkynna að í sumar munum við ekki setja upp nýja sýningu eins og við höfum gert með stolti síðastliðin 14 ár. Ákvörðunin var tekin fyrst og fremst til að vernda Lottuna okkar og passa að hún fari hreinlega ekki á hausinn sökum kostnaðar við uppsetningu og óvissu með leyfi til sýninga og fjöldatakmarkanir sökum Covid.
Sannleikurinn er sá að kostnaðurinn við sýningu af þessari stærðargráðu er gríðarlega hár. Handrit, lagasmíð, söngtextar, leikstjórn, leikarar, tónlistarupptaka, danshöfundur, búningahönnuður, ljósmyndir, auglýsingar, grafík, leikmynd, leikmunir, gisting, bíll, kerra og svo mætti lengi telja. Á hverju ári tökum við áhættu á þessum kostnaðarliðum öllum og vinnum hörðum höndum að því að ná þeim kostnaði inn yfir sumarið með seldum sýningum, ferðastyrkjum og miðasölu.
Þegar fyrsta samkomubannið var sett á síðasta vetur vorum við á sýningarferðalagi með Hans klaufa, vetrarsýninguna okkar 2020. Vegna sóttvarnaraðgerða þurftum við að fella niður fjölda sýninga og hætta sýningum á verkinu mun fyrr en áætlað var. Stór hluti af innkomu sýningarinnar fór því út um gluggann og varð Lotta fyrir miklu fjárhagslegu tapi vegna þess.
Við héldum þó bjartsýn af stað inn í síðasta sumar og gerðum það algjörlega með trompi. Bakkabræður sumarið 2020 var frábær sýning sem við erum mjög stolt af og hlaut hún mikið lof áhorfenda. Við nutum þess virkilega að sýna sýninguna um allt land, finna upp ýmsar lausnir til að geta fylgt öllum sóttvarnarreglum til hins ýtrasta og geta boðið upp á frábæra leikhúsupplifun á slíkum tímum. En þó sumarið hafi verið algjörlega dásamlegt fengum við helmingi færri áhorfendur en á venjulegu sumri og verður að viðurkennast að Lotta hefði líklega farið á hausinn í haust ef ekki hefði verið fyrir verkefnastyrk sem við hlutum en hann rétt hélt verkefninu á floti. Þrátt fyrir styrkinn kom Lottan okkar virkilega illa út úr sumrinu og árinu öllu. Þess má geta að engin úrræði stjórnvalda (lokunarstyrkir, hlutabótaleiðin…) hafa verið í boði fyrir félög eins og Lottu og engir styrkir verið veittir fyrir verkefni og vinnu sem þegar hefur verið unnin að fullu en ekki hefur verið hægt að sýna áhorfendum. Styrkirnir sem hafa verið veittir til leikfélaga eru fyrir nýjar sýningar sem á eftir að setja upp dekka nýjan kostnað en ekki skuldir sem hafa orðið til vegna Covid 19.
Þegar kom í ljós við veitingu listamannalauna og verkefnastyrkja fyrir árið 2021 að Lotta fengi enga úthlutun fyrir sumarið hreinlega neyddumst við til þess að taka þá mjög erfiðu ákvörðun að fara ekki af stað í nýja sumarsýningu eins og við höfum gert síðastliðin 14 ár. Okkur þykir það svakalega sárt, en við ráðum víst lítið við ástandið og þessar aðstæður sem við erum öll í. Þetta sumar hefði verið 15. starfssumar Leikhópsins Lottu, en 15. sumarsýningin verður að bíða betri tíma.
SITJUM EKKI AÐGERÐALAUS
Við munum þó aldeilis ekki sitja aðgerðalaus í sumar. Það verður annar bragur á okkur þetta árið en við stefnum á að ferðast um landið allt og heimsækja alla sem við mögulega getum.
ÞAÐ SEM VERÐUR Í BOÐI Í SUMAR
Pínu litla gula hænan – söngvasyrpa Í sumar ferðumst við um allt land með skemmtilegt atriði unnið upp úr Litlu gulu hænunni, verki sem við sýndum árið 2015. Atriðið verður um 25 mínútur að lengd, stútfullt af söng, sprelli og fjöri fyrir allan aldur. Fjórir þekktir Lottu leikarar mæta á svæðið með frábært skemmtiatriði sem hentar vel við öll tækifæri.
Pínu litla gula hænan – söngvasyrpa verður eingöngu í boði fyrir þá sem kaupa hana í heilu lagi og þó einstaklingar og fjölskyldur landsins geti ekki tryggt sér miða á glænýjan íslenskan Lottusöngleik þetta árið – þá er möguleiki fyrir bæjarfélög, hátíðir, fyrirtæki, hópa, skóla, leikskóla, frístundaheimili og bara hvern sem er að bóka Pínu litlu gulu hænuna og bjóða uppá, að sjálfsögðu miðað við þær samkomutakmarkanir sem eru í gildi hverju sinni.
Við mætum þá á svæðið með frábært atriði sem auðvelt er að laga að hvaða aðstæðum sem er! Sýninguna er hægt að setja upp utandyra sem er einstaklega sóttvarnavænt en svo er lítið mál að færa hænuna inn á þeim stöðum sem það hentar betur. Við höldum fjarlægð við áhorfendur, mætum sprittuð frá toppi til táar, bjóðum upp á wi-five í stað high five, myndir með fjarlægð í stað knúsa og að sjálfsögðu risastórt bros á vör!
Frumsýning á Árar, Álfar og Tröll verður í Sólheimaleikhúsinu á sumardaginn fyrsta, þann 22. apríl og verða 5 sýningar talsins.
Verkið er ævintýri sem fjallar um baráttukonuna Sesselju sem á sér þann draum að opna barnaheimili þar sem allir geta lifað í sátt og samlyndi en þarf til þess fyrst að takast á við konungsríkið og alls kyns verur, svo sem tröll og álfa.
Verkið er skrifað af Hannesi Blandon og Guðmundi Lúðvík Þorvaldssyni en Lárus Sigurðsson gerði tónlistina. Guðmundur leikstýrir einnig verkinu. Leikfélag Sólheima var stofnað 1931 og á því 90 ára afmæli í ár. Leikfélagið frumsýnir alla jafna alltaf á sumardaginn fyrsta en engin sýning var árið 2020 vegna heimsfaraldursins, það er því sérstök eftirvænting í ár að sjá leikrit aftur á Sólheimum.
Sýningardagar:
Fimmtud. 22. apríl kl 14:00 – Frumsýning
Laugard. 24. apríl kl 14:00
Sunnud. 25. apríl kl 14:00
Laugard. 1. maí kl 14:00
Sunnud. 2. maí kl 14:00
Miðasala fer eingöngu fram í vefverslun Sólheima en nánari upplýsingar og fyrirspurnir eru í síma 847-5323.
ATH: Ef sýning fellur niður eða samkomutakmarkanir breytast eitthvað munum við bjóða upp á annan sýningartíma eða endurgreiðslu
Í ljósi nýrra tilslakana á sóttvarnarreglum munu sýningar hefjast að nýju á næstu dögum. Það er stöðugt verið að endurmeta stöðuna og allir miðaeigendur verða upplýstir um leið og nýjar ákvarðanir verða teknar.
Þjóðleikhúsið
Nashyrningarnir – Frumsýningar verða tvær. Sú fyrri verður sumardaginn fyrsta, 22. apríl og sú seinni 23. apríl. Allir sýningardagar færast til og miðaeigendur fá nýja miða senda í tölvupósti.
Vertu úlfur – sýningar hefjast á nýjan leik 17. apríl. Allir sýningardagar færast til og miðaeigendur fá nýja miða senda í tölvupósti.
Kardemommubærinn – því miður verður ekki hægt að hefja sýningar á Kardemommubænumn að sinni en von er á nýjum upplýsingum í byrjun maí.
Kópavogskrónika – sýningar hefjast á nýjan leik 30. apríl. Allir sýningardagar færast til og miðaeigendur fá nýja miða senda í tölvupósti.
Kafbátur – sýningar hefjast á nýjan leik 24. apríl. Allir sýningardagar færast til og miðaeigendur fá nýja miða senda í tölvupósti.
Borgarleikhúsið
Gildandi sóttvarnarreglur og óvissa um framhaldið setja okkur enn nokkrar skorður. Óvissan gerir það að verkum að við getum sýnt minni sýningar en þær sem stærri eru og með fleiri þátttakendum verða enn að bíða. Gosi heldur áfram á Stóra sviðinu og síðustu sýningar verða á Sölumaður deyr og Oleanna. Stefnt er að frumsýna svo Veislu í maí! Í ljósi aðstæðna hefur ákvörðun verið tekin um að risa bomban okkar Níu líf kemur aftur á svið á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst.