mars | 2020 | Leikhus.is

Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

Nafn:

Netfang:

Fæðingarár:

Símanúmer:

Kyn: KarlKona
 
Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

Svar:

 
Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015.

Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.
 

Archive from mars, 2020

Samkomubann

mar 13, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Eins og allir hafa tekið eftir hefur samkomubann verið sett á frá og með miðnætti aðfaranótt mánudags. Þetta mun eðlilega hafa mikil áhrif á leikhúslíf landsins og fjölmargar sýningar falla niður af þeim sökum.

Við hjá leikhus.is hvetjum ykkur til að fylgjast með upplýsingum frá leikhúsunum til að fá nánari upplýsingar um þær sýningar sem falla niður en þetta nær til allra samkoma sem telja 100 manns eða fleiri og á viðburðum þar sem færri koma sam­an er gert ráð fyr­ir því að tveir metr­ar séu á milli fólks.

Þjóðleikhúsið hefur ákveðið að fresta strax öllum sýningum og hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Þar sem samkomubann hefur verið sett á í landinu þarf Þjóðleikhúsið, eins og aðrar sviðslistastofnanir, að fresta sýningum um óákveðinn tíma. Helstu sviðslistastofnanir þjóðarinnar, þar á meðal Þjóðleikhúsið, eru í samstarfi um viðbrögð vegna Covid-19 veirunnar. Þó samkomubannið bresti ekki á með formlegum hætti fyrr en á sunnudag, þá hefur leikhúsið ákveðið að fella niður sýningar helgarinnar þegar í stað í varúðarskyni.

Um leið og nýjar dagsetningar verða ákveðnar verður send út tilkynning. Sú regla gildir um miðakaup, að ef dagsetningu viðburðar er breytt, þá færast miðarnir sjálfkrafa á nýja dagsetningu. Ef ný dagsetning hentar ekki hafa stofnanirnar ákveðið að veita kaupanda rétt á endurgreiðslu, að því tilskildu að ósk um endurgreiðslu berist stofnuninni innan 7 daga frá tilkynningu um nýja dagsetningu.

Starfsfólk Þjóðleikhússins mun halda áfram að undirbúa næstu sýningar og næsta leikár. Við leggjum allt kapp á að viðhalda sköpunargleðinni í leikhúsinu, og hlökkum til að taka á móti ykkur í Þjóðleikhúsinu um leið og aðstæður leyfa.

Níu líf

mar 12, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Við erum öll, við erum öll, við erum öll; Bubbi.

Bubbi Morthens er samofinn þjóðarsálinni í öllum sínum birtingarmyndum: Stjarnan sem rís úr slorinu; fyrst sem málsvari verkalýðsins, svo alþýðusöngvari þjóðarinnar, þá atómpönkari og gúanórokkari sem breytist í ballöðu-poppara sem syngur með stórsveitum. Skoðanaglaði gasprarinn, skrifblinda ljóðskáldið, fíkilinn sem reis upp, kvennamaðurinn og sá sem elskar aðeins eina konu, Kúbverjinn og Hollywood-víkingurinn, veiðimaðurinn, friðarsinninn og boxarinn. Sögur Bubba Mortens eru sögur okkar allra; sögur Íslands. En hver er hann í raun og veru? Og hver erum við?

Í þessari stórsýningu munu leikarar, dansarar, tónlistarmenn og fleiri góðir gestir, leggja allt í sölurnar við leitina að Bubbanum í okkur öllum og fylla sviðið með sögum, lögum, ljóðum og litum þessa elskaða og umdeilda listamanns.

Nashyrningarnir í MH

mar 11, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð setur upp leiksýninguna Nashyrningarnir sem byggt er á verkinu Rhinocéros eftir Eugène Ionesco. Þetta verk var einnig sett upp af leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1989. Leikhópurinn ásamt leikstjóra unnu mikið í verkinu og aðlöguðu það að sínum samtíma en það var skrifað árið 1959 og var mikið ádeiluverk. Verkið fjallar um Birgittu, sem er fremur venjuleg manneskja sem vinnur á skrifstofu. Lífið hennar Birgittu umturnast þegar nashyrningar koma á kreik og valda usla.

Leikstjóri verksins er Júlíana Kristín Liborius og aðstoðarleikstjóri er Anna Kristín og verkið er sýnt í Undirheimum í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Brúðumeistarinn í Þjóðleikhúsinu

mar 8, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Átakamikil og nýstárleg sýning um uppgjör brúðumeistara við fortíðina

Bernd Ogrodnik er heimskunnur brúðumeistari sem hefur gert Ísland að heimalandi sínu, og er þekktur fyrir einstakt næmi og listfengi. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir brúðusýningar sínar fyrir börn og fullorðna. Hér fetar hann ótroðnar slóðir og stefnir saman leikhúsforminu og brúðulistinni í nýrri sýningu fyrir fullorðna, þar sem hann leikur sjálfur brúðumeistara sem tekst á við líf sitt og fortíð.

Leikverkið fjallar um þýska brúðumeistarann Günther sem hefur leitað skjóls frá umheiminum í bráðabirgðahúsnæði í Reykjavík, þar sem hann vinnur að nýrri brúðusýningu. En um leið og hann tekst á við flóknar áskoranir í brúðugerðarlistinni leita á hann knýjandi spurningar um fortíðina og sögu heimalands hans, og harmræna atburði sem hafa mótað foreldra hans og hann sjálfan.

Er mögulegt að flýja fortíðina eða leitar hún okkur alltaf uppi á endanum og krefur okkur svara?

Sýningin er í samstarfi við Brúðuheima.

Bót og betrun í Lyngbrekku

mar 8, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Sunnudaginn 8. mars frumsýnir Leikdeild Skallagríms breska farsann Bót og betrun eftir Michael Cooney í félagsheimilinu Lyngbrekku. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson en Hörður Sigurðarson þýddi verkið.

Bót og betrun fjallar um Eric Swan sem missti vinnuna fyrir tveimur árum en hefur enn ekki haft kjark til að segja eiginkonu sinni frá atvinnumissinum. Til að afla sér tekna tekur hann upp á því að svindla á félagsmálakerfinu af einstakri útsjónasemi. En þegar eftirlitsmaður frá sjúkdóma-og fötlunarsviði mætir einn morguninn vandast málið og allt lagt í sölurnar til að reyna að ljúga sig út úr vandanum.

 • Sýningar verða:
 • Frumsýning sunnnudaginn 8. mars
 • 2. sýning fimmmtudaginn 12. mars
 • 3. sýning föstudaginn 13. mars
 • 4. sýning sunnnudaginn 15. mars
 • 5. sýning fimmmtudaginn 19. mars
 • 6 sýning föstudaginn 20. mars
 • 7 sýning laugardaginn 21. mars
 • 8. og jafnframt lokasýning sunnnudaginn 22. Mars

Miðasala í síma 846 2293 og á leikdeildskalla@gmail.com
Sýnt er í Lyngbrekku og hefjast sýningar klukkan 20:30

Mamma Mía í Bæjarbíó

mar 8, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði kynnir með stolti söngleikinn Mamma Mía!

Undanfarin ár hefur leikfélag skólans staðið fyrir uppsetningum á glæsilegum söngleikjum og er engin undantekning á því í ár. Sýningin er byggð á samnefndri kvikmynd og er sýnd í hjarta Hafnarfjarðar, Bæjarbíói. Við lofum mikilli skemmtun og glæsilegum söngatriðum!

Tryggið ykkur miða sem fyrst, þið viljið ekki missa af þessu
Leikstjóri og handritshöfundur: Júlíana Sara Gunnarsdótti
Söngstjóri: Helga Margrét Marzellíusardótti
Danshöfundur: Sara Dís Gunnarsdótti
Uppsetning: Leikfélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði

Djöflaeyjan rís á Selfossi

mar 6, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Leikfélag Selfoss hefur ákveðið að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því DJÖFLAEYJAN, í öllu sínu veldi, hefur risið nokkuð örugglega síðustu vikur í húsakynnum Leikfélags Selfoss. Margir þekkja vel þessa stóru fjölskyldusögu um fólkið í Thulekampi eftir Einar Kárason, en þessi sýning byggir á skáldsögunum Þar sem Djöflaeyjan rís og Gulleyjunni og þá einnig eldri leikgerðum.

Leiðsögumaður okkar um Djöflaeyjuna heitir Rúnar Guðbrandsson og starfar hann nú í þriðja sinn með Leikfélagi Selfoss því hann leikstýrði einnig Sólarferð 2012 og Kirsuberjagarðinum 2016.

Sýningin er viðamikil í allri sinni dýrð, um 50 manns koma að sýningunni og hvorki meir né minna en 24 leikarar stíga á svið þegar mest lætur. Það er sérstaklega skemmtilegt að segja frá að fimm fyrrverandi og núverandi formenn leikfélagsins koma að sýningunni í ár. Tónlist er einnig áberandi í verkinu og getum við státað okkur af einvalaliði tónlistarfólks sem bæði leikur og syngur af hjartans list. Hópurinn í heild samanstendur af reynsluboltum til margra ára en einnig er að finna minna slípaða demanta sem eru að stíga sín fyrstu skref innan Leikhússins. Saman galdrar þessi hæfileikaríki hópur fram Djöflaeyjuna á áhrifaríkan hátt sem þú áhorfandi góður hefur ekki séð áður.

Athugið að við teljum að sýningin sé ekki við hæfi barna yngri en 12 ára. 

Frumsýning er 6. mars en miðabókun fer fram á vefsíðunni okkar
og einnig má senda póst á midasala@leikfelagselfoss.is
eða hringja í síma 482-2787. 

Ekki er þó hægt að bóka miða á frumsýninguna. 

 • Almennt miðaverð er 2.500 kr
 • Hópaverð fyrir 10+ er 2.000 kr
 • Allur salurinn 100.000 kr (80 sæti)

Inn í skóginn

mar 6, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri setur upp sína 71. sýningu, Sondheim-verkið þekkta, Inn í skóginn (Into The Woods). Verkið tekur fyrir þekktar persónur úr Grimms ævintýrum eins og Öskubusku og Rauðhettu og kannar siðferði sagna þessa í sambandi við daglegt líf okkar.

Inn í skóginn var tilnefnt til tíu Tony-verðlauna og hlaut þar af þrjú, meðal annars fyrir bestu upprunalegu tónlist.

Sýningin Inn í skóginn er nokkurs konar ádeila sem er lögð fram gegn þeirri hugmynd að allir lifi alltaf hamingjusamir til æviloka. Inn í skóginn sýnir dimmari og drungalegri hlið ævintýranna og seinni hluti sýningarinnar getur vakið óhug á meðal barna af ungum aldri.

Tónlist og söngtextar eftir Stephen Sondheim
Handrit eftir James Lapine
Upprunaleg uppsetning leikstýrð af James Lapine á Broadway
Upprunaleg útsetning tónlistar eftir Jonathan Tunick

Þessi áhugaleiksýning er sett upp í samkomulagi við Music Theatre Internation (Europe)
Allt efni tengt verkinu er útvegað af MTI Europe
www.mtishows.co.uk.

Leikstjórn: Vala Fannell

REIMT í FG

mar 5, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Tveir landsfrægir skemmtikraftar láta plata sig til að fjárfesta í gömlu sveitahóteli, sem má muna fífil sinn fegri. Á sama tíma finnst eldgömul beinagrind í grennd við hótelið, en hauskúpuna vantar. Í kjölfarið gerast rosalegir atburðir og það er deginum ljósara að á hótelinu í Botni er … jú, reimt. En þegar allt virðist vonlaust kemur hins vegar í ljós að reimleikar geta haft vissa kosti í för með sér, sérstaklega á tímum harðnandi samkeppni í ferðaþjónustu.

Þetta er saga um ástir og örlög, græðgi og örlæti, fjandskap og vináttu, spikk og span, listir og snobb, tímann og vatnið. En líka um gauksklukku.

Þeir Karl Ágúst Úlfsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hafa unnið að gerð þessa söngleikjar í meira en áratug, en hann er saminn í Þrastaskógi, Reykjavík, Colorado, Flórens, sveitum Toscana, á Akureyri, í Hrísey, Bárðardal, á Gran Canaria, í Garðabæ, Kópavogi, Róm og á Sikiley. Það hefur því farið í hann blóð, sviti og tár. Og dass af rauðvíni. Nú leikstýrir Karl Ágúst verkinu í FG, en Þorvaldur annast tónlistarstjórn. Og svo er það Brynhildur Karlsdóttir sem er danshöfundur sýningarinnar.

Arnfinnur Daníelsson

mar 5, 2020   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN

Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Ég er fullorðinn unglingur og er að læra leiklist.

Í hvaða stjörnumerki ertu?
Gullfiskur 🙂

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Leikari en þorði því ekki fyrr.

Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Minni helsti kostur er að mér finnst fólk skemmtilegt og minn helsti galli er að ég segi alltof sjaldan nei.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Þessu er fljótsvarað, hamborgari. Lífið væri ekki eins án hans.

Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Kabarett hjá Leikfélagi Akureyrar, algjörlega heillandi sýning og vel gerð.

Hvaða áhugamál áttu þér?
Það er bara leiklistinn og leiklistinn fæ bara ekki nóg.

Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Kántrý elska það og soul.

Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Mjög fátt en helst ef það er eitthvað tengt mat er matsár.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Ásbyrgi.

Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Króatía.

HRAÐASPURNINGAR

Flytja til London eða New York?
Hvorugt.

Eiga hund eða kött?
Hund.

Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.

Finnst þér betra að vinna á morgnanna eða kvöldin?
Morgnana.

Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Bjór.

Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.

Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.

Veldu: Sturtu eða bað?
Bað.

Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.

Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Skemmtilegur.

Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Þetta var gaman, já flottur vefur.

Síður:12»
loading