febrúar | 2020 | Leikhus.is

  Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

  Nafn:

  Netfang:

  Fæðingarár:

  Símanúmer:

  Kyn:

  KarlKona

   
  Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

  Svar:

   
  Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

  Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

  Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

   


  Archive from febrúar, 2020

  Benedikt búálfur hjá Leikfélagi Keflavíkur

  feb 28, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Leikfélag Keflavíkur sýnir nú hinn vinsæla fjölskyldusöngleik Benedikt búálf.
  Benedikt búálfur er skemmtilegt og fjörugt leikrit eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson með hressandi og vel gerðum lögum eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson.
  Leikritið fjallar um Dídí mannabarn og Benedikt búálf sem leggja af stað í hættuför að bjarga Tóta tannálfi, en hvað gerist í álfheimum ef tannálfurinn er ekki þar? Jú, þá fá allir álfarnir tannpínu og þá er illt í efni.
  Sýningin var fyrst sett upp á Íslandi árið 2002 í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar. Nú er það Ingrid Jónsdóttir sem leikstýrir þessari uppfærslu á Benedikt, en hún hefur komið víða við sem leikstjóri og leikkona.

  Barnasýningum Leikfélags Keflavíkur hefur ávallt verið vel tekið og Benedikt búálfur verður þar sennilega undantekning. Leikhópurinn samanstendur af reyndum leikurum í bland við nokkra sem eru að stíga sín fyrstu skref.

  Leiklistarskóli BÍL 2020

  feb 28, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga verður settur í tuttugasta og fjórða sinn í Reykjaskóla í sumar. Starfstími skólans er frá 13. – 21. júní. Að þessu sinni verður boðið upp á 4 námskeið: 

  Leiklist II – kennari Hannes Óli Ágústsson
  Leikstjórn I – kennari Árni Kristjánsson
  Leikarinn sem skapandi listamaður – kennari Rúnar Guðbrandsson
  Tjöldin frá – kennarar Eva Björg Harðardóttir og Ingvar Guðni Brynjólfsson. Síðastnefnda námskeiðið er framhald á námskeiðinu Bak við tjöldin sem haldið var sumarið 2018.

  Allir á svið í Biskupstungum

  feb 27, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Leidkeild UMF Biskupstungna sýnir um þessar mundir hinn kunna farsa Allir á svið eftir Michael Frayn. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson og sýnt er í Aratungu.

  Leikritið sem er eftir Michael Frayn í þýðingu og staðfærslu Gísla Rúnars Jónssonar fjallar um leikhóp sem stendur að æfingum og sýningum á leikritinu Nakin á svið. Í fyrsta þætti kynnumst við hópnum þar sem fram fer lokaæfing á verkinu. Í öðrum þætti er búið að sýna í mánuð og ferðast með verkið um landið. Leikhópurinn er þá staddur á Akureyri og síðdegissýning að hefjast. Margt getur gerst á heilum mánuði í lífi fólks og það á ekki síður við hjá leikhóp sem þarf að vinna náið saman og umbera hvert annað. Í þriðja þætti er hópurinn kominn á lokasýningu í Aratungu og það má glöggt merkja að umburðalyndi er nú af skornum skammti og leikhópurinn orðinn tættur og lúinn á samstarfinu.
  Miðapantanir eru í síma 896-7003. Allar sýningar hefjast kl. 20.00. 

  Grís í Borgó

  feb 24, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Leikfélag Borgarholtsskóla setur upp söngleikinn Grís í Hlöðunni, Gufunesbæ. Í þessari bráðfyndnu útgáfu af söngleiknum förum við með ykkur í gegnum sögu Danna og Söndru eftir að Sandra flytur í bæinn og byrjar í Borgó. Við lofum ómótstæðilegri skemmtun og þú munt alveg pottþétt syngja með!


  Tryggið ykkur miða á þessa frábæru skemmtun sem fyrst því þetta verður SOLD OUT show!

  Leikstjóri og handritshöfundur: Ingi Hrafn Hilmarsson
  Danshöfundur: Magnús Eðvald Halldórsson
  Aðstoðardanshöfundur: Kristófer Ingi Sigurðsson
  Söngstjóri: Guðbjörg Hilmarsdóttir
  Uppsetning: Leikfélag Borgarholtsskóla

  Gosi í Borgarleikhúsinu

  feb 22, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Eitt ástsælasta ævintýri allra tíma

  Trésmiðurinn Jafet kemst yfir talandi viðardrumb og fær þá hugmynd að smíða úr honum brúðu. Til verður spýtustrákurinn Gosi; forvitinn prakkari sem á erfitt með að feta hinn rétta veg. Í stað þess að hlýða föður sínum heldur hann á vit vafasamra ævintýra, kynnist talandi kribbu sem reynir að koma fyrir hann vitinu, lætur undirförulan kött og ref snúa á sig og þarf að ganga í gegnum alls konar hremmingar áður en hann kemst til þroska með dyggri hjálp bláhærðu dísarinnar.

  Leikarar og tónlistarmenn sýna okkur þetta sígilda og ástsæla ævintýri um spýtustrákinn í nýjum og litríkum búningi. Leikstjóri sýningarinnar, Ágústa Skúladóttir, hefur leikstýrt fjölda barna og fjölskyldusýninga sem ávallt hafa notið mikilla vinsælda.

  Freyvangsleikhúsið sýnir Dagbók Önnu Frank

  feb 21, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Um er að ræða uppfærða leikgerð og nýja þýðingu sem hefur aldrei verið sýnd hér á landi. Þessi nýja leikgerð inniheldur kafla sem voru ekki birtir í fyrstu útgáfu bókarinnar, Dagbók Önnu Frank, sem verkið er byggt á. Gefa þessir kaflar nánari innsýn inn í hugarheim stúlkunnar.

  Dagbók Önnu Frank er tvímælalaust eitt mikilvægasta bókmenntaverk tuttugustu aldarinnar. Þegar nasistar náðu völdum í Evrópu varð fjöldi gyðingafjölskyldna að yfirgefa heimaland sitt. Þau sem ekki fóru úr landi urðu að fela sig. Þau sem ekki földu sig enduðu í útrýmingarbúðum þar sem þau voru myrt á eins skilvirkan hátt og hægt var. Þessi voðaverk eiga fáa sína líka í mannkynssögunni. En úr þessum jarðvegi, þessu þjóðarmorði, sprettur ein magnaðasta saga sem sögð hefur verið úr nokkru stríði; saga Önnu.

  Fyrsta leikgerðin er eftir Albert Hackett og Frances Goodrich, kom út skömmu eftir að Dagbókin sjálf var gefin út og hefur verið leikin um heim allan síðan. Fyrir nokkrum árum var leikskáldið Wendy Kesselman fengin til að uppfæra leikgerð Hackett og Goodrich og var tilnefnd til Tony-verðlaunanna fyrir verkið

  Á tíunda áratugnum var Dagbókin sjálf endurútgefin, um þrjátíu prósentum lengri en hún var í upphaflegu útgáfunni sem ritstýrt var af Ottó Frank og útgefendum bókarinnar. Efnið sem upphaflega fékk ekki að vera með í útgáfu dagbókarinnar snerist fyrst og fremst um uppgötvun Önnu á sjálfri sér sem kynveru, og um neikvæðar tilfinningar hennar í garð móður sinnar

  Frumsýnt verður 21. febrúar og sýningar verða í Freyvangi föstudags- og laugardagskvöld fram á vor.

  Leikstjóri er Sigurður Líndal og þýðandi er Ingunn Snædal.
  Hægt er að panta miða í s. 857-5598

  Karíus og Baktus í Hörpu

  feb 18, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Tanntröllin Karíus og Baktus lifa sannkölluðu sældarlífi í munninum á drengnum Jens. Enda notar hann tannburstann lítið sem ekkert og vill helst gæða sér á allskyns sætindum sem Karíus og Baktus kunna svo sannarlega að meta. Félagarnir hreiðra um sig í tönnunum og ræða framtíðardrauma um byggingaframkvæmdir í munninum. En þegar þeir gerast of aðgangsharðir verður Jens að fara til tannlæknis sem setur framkvæmdirnar í uppnám og félagarnir þurfa að leita á nýjar slóðir.

  Karíus og Baktus er sígilt ævintýri eftir Thorbjörn Egner. Sagan kom fyrst út á bók árið 1949 og síðan þá hafa þessir litlu prakkarar notið mikilla vinsælda meðal barna víða um heiminn.

  Nú má sjá þessa sígildu prakkara í fallegu leikhúsi sem sett hefur verið upp í Kaldalóni í Hörpu en það er miklu skemmtilegra að kíkja á þá þar en að hafa þá í munninum á sér. Karíus og Baktus er hress og skemmtileg sýning fyrir alla aldurshópa og er tilvalin fyrir unga krakka sem eru að kynnast töfrum leikhússins í fyrsta skipti.

  Sýningin er um 45 mínútur að lengd.

  Leikarar: Elísabet Skagfjörð og Kjartan Darri Kristjánsson
  Leikstjórn: Agnes Wild og Sara Marti Guðmundsdóttir
  Leikmynd og búningar: Steinunn Marta Önnudóttir
  Tónlist og hljóðmynd: Stefán Örn Gunnlaugsson
  Myndbandsvinnsla: Steinar Júlíusson

  Framleiðsla: Daldrandi ehf
  Sýningarréttur: Teaterförlag Songbird AS Bergen/Norge

  Barnasýningar í Þjóðleikhúsinu vegna fyrirhugaðs verkfalls

  feb 17, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  „Auðvitað vonum við að þessi deila leysist sem allra fyrst,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri, „en við ákváðum að vera tilbúin ef til verkfalls kemur, og bjóða upp á sýningar fyrir börn með lækkuðu miðaverði. Það getur verið dýrmætt að fá tækifæri til að gera eitthvað óvenjulegt og skemmtilegt með börnunum á svona tímum, og því ákváðum við að taka til sýninga eina af barnasýningunum okkar, Ómar Orðabelg. Sýnt verður í Kúlunni kl. 13:00 alla næstu viku, frá og með þriðjudegi, ef af verkfalli verður. Vegna aðstæðna lækkum við miðaverð og kostar miðinn aðeins 1.000 kr.“  

  Ómar Orðabelgur er nýtt, íslenskt barnaleikrit eftir Gunnar Smára Jóhannesson í leikstjórn Björns Inga Hilmarssonar, sem Þjóðleikhúsið sýndi síðastliðið haust. Í sýningunni sláumst við í för með Ómari Orðabelg í leit að uppruna orðanna. Hvaðan kemur orðið fíll? Afhverju segjum við fægiskófla? Er appelsína epli frá Kína? Ómar Orðabelgur ferðast um heim orðanna og kynnist allskonar skrýtnum orðum, en eitt orð mun hann kannski aldrei skilja til fulls. Dauðinn. Hvað er að deyja? Dauðinn er orð sem allir þekkja en veit einhver hvað það þýðir í raun?

  Ómar Orðabelgur er í senn hjartnæm, fyndin og fjörug sýning, sem tekur um 40 mínútur í flutningi.   Sem fyrr segir munu sýningar hefjast þriðjudaginn 18. febrúar kl. 13, ef að verkfallsaðgerðir standa enn. Ef deilan leysist verða sýningar felldar niður, og gestir fá ónotaða miða endurgreidda eða geta nýtt þá sem inneign á aðrar sýningar á tíma sem hentar. Áhugasamir geta nálgast nánari upplýsingar á vef Þjóðleikhússins, leikhusid.is.

  Útsending í Þjóðleikhúsinu

  feb 15, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Eftir Lee Hall, byggt á kvikmyndahandriti eftir Paddy Chayefsky  Leikstjórn Guðjón Davíð Karlsson

  Magnað verk um átök innan fjölmiðlaheimsins og vald fjölmiðlanna, sem hefur slegið rækilega í gegn í London og New York

  Fréttamanninum Howard Beale er sagt upp eftir tuttugu og fimm ára starf hjá sömu bandarísku sjónvarpsstöðvakeðjunni. Áhorfið þykir of lítið. Hann tilkynnir áhorfendum að eftir viku muni hann svipta sig lífi í beinni útsendingu og skyndilega er fréttaþátturinn hans orðinn miðpunktur athyglinnar. Sjónvarpsstöðin þarf á auknu áhorfi að halda og Howard er leyft að halda áfram á skjánum. Hann fer að tjá sig reglulega í beinni útsendingu um grimmdina í heiminum, hræsnina og blekkingarnar í þjóðfélaginu og hvetur fólk til að rísa upp.

  Spennandi leikrit sem vekur fjölda spurninga um vald fjölmiðla og áhrif þeirra á líf fólks. Nýta fjölmiðlar sér skeytingarlaust mannlega harmleiki og andlegt ójafnvægi fólks í samkeppni sinni um æsilegasta efnið? Eða er einmitt mikilvægt að raddir reiðinnar og sársaukans fái að hljóma hindrunarlaust?

  Sýning Breska þjóðleikhússins, sem var á fjölunum bæði í London (2017-18) og New York (2018-19), sló rækilega í gegn og var tilnefnd til fjölda verðlauna. Bryan Cranston (Breaking Bad) hlaut fimm virt leiklistarverðlaun fyrir leik sinn í aðalhlutverkinu, meðal annars Laurence Olivier og Tony verðlaunin.

  Leikrit Lee Halls er byggt á Óskarsverðlaunamyndinni Network (leikstjórn: Sidney Lumet, handrit: Paddy Chayefsky).

  Boðið verður upp á 20 mín. umræður með þátttöku listamanna eftir 6. sýningu á verkinu.

  Brynhildur Guðjónsdóttir er nýr leikhússtjóri Borgarleikhússins.

  feb 14, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

  Brynhildur Guðjónsdóttir hefur verið ráðin leikhússtjóri Borgarleikhússins. Brynhildur er í hópi fremstu leikhúslistamanna á Íslandi um þessar mundir. Hún hefur yfir tuttugu ára reynslu sem leikari, höfundur, listrænn ráðunautur og leikstjóri. 

  Hún hefur starfað við Borgarleikhúsið síðastliðin átta ár en hún er leikstjóri sýninganna Ríkharður III, sem var valin leiksýning árins 2019, og Vanja frændi, sem enn er í sýningu. Brynhildur hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna og hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir framlag sitt til lista. Hún hefur sjö sinnum tekið á móti Grímunni – Íslensku leiklistarverðlaununum, ýmist fyrir leik í aðal- og aukahlutverkum, leikstjórn eða fyrir leikritun. Þá var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu íslenskrar leiklistar.

  Brynhildur lauk BA námi í leiklist frá Guildhall School of Music and Drama í Englandi en áður hafði hún lokið BA gráðu í frönsku frá Háskóla Íslands. Einnig nam hún leikritun við Yale School of Drama í Bandaríkjunum.

  Stjórn Leikfélags Reykjavíkur fagnar ráðningu Brynhildar og býður hana velkomna til forystu í Borgarleikhúsinu. Hún hefur störf á næstu dögum.

  Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnar Leikfélags Reykjavíkur:

  „Það hefur verið stórkostlegt að vinna með Brynhildi í Borgarleikhúsinu undanfarin ár. Nýlegar sýningar í leikstjórn hennar, s.s. Ríkharður þriðji og Vanja frændi, hafa borið listrænum hæfileikum hennar glöggt vitni. Þar hafa forystuhæfileikar hennar og framsýni einnig komið skýrt í ljós. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur hlakkar til samstarfsins og að sjá Brynhildi í nýju hlutverki næstu árin.”

  Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins:

  „Á þessum vatnaskilum í mínu lífi þakka ég af auðmýkt það traust sem stjórn Leikfélags Reykjavíkur nú sýnir mér. Það er með gleði sem ég tek við keflinu af Kristínu Eysteinsdóttur, sem hin síðustu ár hefur stýrt Borgarleikhúsinu af kjarki, hlustun og sínu einstaka listræna innsæi. Það eru stórar breytingar í íslensku leikhúslífi um þessar mundir og ég lít á það sem gríðarmikið og gott tækifæri fyrir leikhúsið til að spyrna sér af krafti inn í nýja og gróskumikla tíma, þar sem gæði og gjöfult samtal verða leiðarljósið. Það er mín von að Borgarleikhúsið verði áfram sjálfsagður viðkomustaður allra landsmanna, kröftug listastofnun sem nærir, miðlar og gleður. Að þessu sögðu hlakka ég til að setja upp skipstjórahúfuna og, ásamt hinum öfluga, samstillta og flinka hópi starfsmanna leikhússins, setja á fullt stím inn í nýja framtíð.”

  Síður:123»
  loading

  Takk fyrir að skrá þig!