Hlíðaskóli stóð uppi sem sigurvegari á úrslitakvöldi Skrekks sem fram fór í Borgarleikhúsinu í kvöld. Skrekkur er hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs og voru úrslitin sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Atriði Hlíðaskóla bar titilinn Þið eruð ekki ein.
Átta grunnskólar tóku þátt í úrslitunum að þessu sinni; Árbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Hagaskóli, Háteigsskóli, Hlíðaskóli, Laugalækjarskóli, Réttarholtsskóli og Seljaskóli.
Árbæjarskóli hafnaði í öðru sæti og Hagaskóli í því þriðja. Atriðin voru hvert öðru glæsilegri og ljóst að framtíðin í lista- og menningarlífi okkar er björt. Leikhus.is óskar Hlíðaskóla innilega til hamingju með sigurinn og öllum þátttakendum fyrir frábæra skemmtun og hlökkum til keppninnar að ári.
Dómnefndina skipuðu: Elísabet Indra Ragnarsdóttir, fulltrúi Hörpu tónlistarhúss, Halla Björg Randversdóttir, fulltrúi Borgarleikhúss, Gréta Kristín Ómarsdóttir, fulltrúi Þjóðleikhúss, Lóa Kolbrá Friðriksdóttir, fulltrúi Íslenska dansflokksins og Sigfríður Björnsdóttir deildarstjóri listfræðslu sjá Skóla og frístundasviðs.
Ísey Heiðarsdóttir leikur óþekktarorminn hana Línu Langsokk. Hún segir að Lína sé draumahlutverkið hennar enda nokkuð lík Línu með rautt hár og stríðnispúkaglott. Ísey er með góðan fimleikagrunn sem kemur sér vel í þessu hlutverki þar sem hún skoppar og hoppar um sviðið í heljarstökkum og handahlaupum. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson.
Skoppa og Skrítla snúa loksins aftur á leiksviðið!
Í ár fagna þær vinkonur fimmtán ára starfsafmæli og af því tilefni blása þær til stórrar leikhúsveislu með öllu tilheyrandi. Á Eldborgarsviði Hörpu munu ævintýri sl. 15 ára lifna við og leikhústöfrarnir færa yngstu áhorfendurna um framandi lönd í dansi og söng.
Næstu sýningar: 03. nóv 2019 – kl. 11, 13 og 15 09. nóv 2019 – kl. 11, 13 og 15 28. des 20190 – kl. 11, 13 og 15
Skoppa og Skrítla verða að sjálfsögðu í fylgd bestu vina sinna, þeirra Lúsíar, Bakara Svakara, Zúmma, Loppa, rassálfa og allra hinna en stór hópur ungra og hæfileikaríkra barna mun bregða sér í hin ýmsu hlutverk og láta ljós sitt skína.
Sannkölluð gleðihátíð fyrir alla fjölskylduna.
Með helstu hlutverk fara: Linda Ásgeirsdóttir, Hrefna Hallgrímsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Vigdís Gunnarsdóttir
Litla Hryllingsbúðin verður frumsýnt í Bíóhöllinni á Akranesi Föstudaginn – 8. nóvember. Stórglæsileg sýning í vændum, þar sem hæfileika og reynlsufólk er í öllum hornum.
Skagaleikflokkurinn frumsýnir hinn sívinsæla söngleik Litlu Hryllingsbúðina eftir Howard Ashman og Alan Menken þann 8. nóvember. Allt síðan söngleikurinn var fyrst settur á svið árið 1982 hefur hann farið sigurför um heiminn og verið settur upp í fjölmörgum löndum ár hvert. Sagan segir frá ungum blómasala sem dag einn finnur undarlega plöntu sem á eftir að hafa stórkostleg áhrif á líf hans og allra sem hann þekkir.
Litla Hryllingsbúðin er grátbroslegur söngleikur sem svíkur engan.
Howard Ashman er höfundur samnefndrar bókar og texta en tónlistin er eftir Alan Menken. Þýðandi óbundins máls er Gísli Rúnar en bundins máls er Magnús Þór Jónsson (Megas).
Mennta og menningamálaráðuneytið hefur staðfest að Magnús Geir Þórðarsson verði ráðin nýr Þjóðleikhússtjóri frá og með næstu áramótum.
Ráðuneytið sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að skipa Magnús Geir Þórðarson í embætti þjóðleikhússtjóra. Skipanin gildir í fimm ár, frá og með 1. janúar 2020.
Magnús Geir stundaði leikstjórnarnám við Bristol Old Vic Theater School (1994) og lauk M.A. gráðu í leikhúsfræðum frá University of Wales (2003). Magnús Geir hefur jafnframt lokið MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík (2005). Hann hefur langa og víðtæka stjórnunarreynslu og áratuga reynslu af leikhússtörfum. Áður en hann tók við starfi útvarpsstjóra RÚV fyrir tæpum sex árum var hann leikhússtjóri Borgarleikhússins og þar áður var hann leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Jafnframt hefur Magnús Geir mikla leikstjórnarreynslu.
Sjö umsóknir bárust um embætti þjóðleikhússtjóra. Þjóðleikhúsráð veitti umsögn, í samræmi við ákvæði leiklistarlaga, og skipaði ráðherra í kjölfarið hæfnisnefnd til að meta hæfi umsækjenda nánar. Nefndin framkvæmdi mat á umsækjendum á grundvelli umsóknargagna og viðtala og skilaði niðurstöðu til ráðherra þar sem fjórir umsækjendur voru metnir hæfastir. Ráðherra boðaði þá í viðtal í kjölfarið þar sem áhersla var lögð á stjórnunar- og leiðtogahæfileika til viðbótar og stuðnings við það mat sem þegar hafði farið fram.
1001 skór er stórskemmtilegur og ljúfur barnasöngleikur sem leikfélagið Verðandi setur upp. Þetta er glænýr söngleikur unninn af núverandi og fyrrverandi nemendum af listadeild Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Leikverkið fjallar um íbúa Skjófjarðar, en öllum skónum í bænum hefur verið stolið. Stúlkan Hanna leggur af stað í ferðalag til að finna sökudólginn. Á leið sinni kynnist hún nýju fólki, táknmálströllum, vatnadísum og öðrum kynjaverum, sumar vinveittari en aðrar. Boðskapur leikritsins fjallar fyrst og fremst um að slæmt sé að stela og að ekki skal dæma bókina eftir kápunni.
Þetta er langstærsta barnaleikrit sem leikfélagið hefur nokkurn tímann sett upp, með stærstu sviðsmyndina, vel unnin lög, flotta dansa, óaðfinnanlega leikstjórn og stórbrotna leikinn. En Verðandi hefur sett upp frumsamin barnaleikrit síðan 2015. Allir peningar renna til sýningarinnar Reimt sem er söngleikur eftir Karl Ágúst Úlfsson og Þorvald Bjarna Þorvaldsson, sem settur verður upp í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ næsta vor.
Leikfélag Hafnarfjarðar – Byrjendanámskeið í leiklist fyrir 18 ára og eldri Miðvikudaginn 6. nóvember hefst leiklistarnámskeið hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar fyrir fullorðna. Þetta námskeið er ætlað byrjendum í leiklist og er öllum opið sem eru félagar í Leikfélagi Hafnarfjarðar. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Gísli Björn Heimisson, Stefán H. Jóhannesson og Aðalsteinn Jóhannsson og á námskeiðinu verður leitast við að kynna fyrir nemendum hin ýmsu form leiklistar. Þetta er kvöld- og helgarnámskeið og er frá 6. – 17. nóvember. Skráning á námskeiðið er á netfang leikfélagsins: leikfelag@gmail.com, athugið að takmarkaður fjöldi er á námskeiðinu. Nánari upplýsingar hvernig gerast á félagi í LH.
Áfallið sem sprengdi hjónabandið eltir þau eins og skuggi. Hann fór til Frakklands og hóf nýtt líf. Hún var um kyrrt í húsinu þeirra og hefur reynt að aðlaga sig sorginni. Tíu árum eftir skilnað hittast þau aftur við óvæntar aðstæður. Fortíðin nagar og óuppgerðir hlutir líta dagsins ljós og sumum tilfinningum verður ekki lýst með orðum. Þau dansa á hárfínni línu afbrýðisemi, söknuðar, væntumþykju, biturðar og kraumandi ástríðna. Og í sameiningu þurfa þau nú að taka afdrifaríka ákvörðun.
Hilmir Snær og Nína Dögg takast á við kyngimögnuð hlutverk í margverðlaunuðu leikriti um sorgina í ástinni í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Eitur er hollenskt leikrit sem hefur farið sigurför um heiminn undanfarinn áratug og verið þýtt á yfir tuttugu tungumál. Leikskáldið Lot Vekemans skrifar af óvenjulegri skarpskyggni um sameiginleg örlög tveggja einstaklinga sem gera úrslitatilraun til að sættast við fortíðina.
Leikfélag Keflavíkur setur upp sprenghlægilega farsann Fló á skinni.
Fló á skinni er einn besti og eitraðasti farsi allra tíma eftir Georges Feydeau, en í ár fagnar hann 112 ára afmæli. Leikgerðin er eftir Gísla Rúnar Jónsson og er leikstjórn í höndum Karls Ágústs Úlfssonar.
Fló á skinni er samansafn af framhjáhaldi, hótelsvítum og brjáluðum eltingarleik. Er Jóhannes að halda framhjá? Er Saga að halda framhjá? Er Miroslaw genginn af göflunum? Er Eiður með hárkollu? Og hver er þessi Klemens?
Það kemur allt í ljós föstudaginn 25. október þegar leikfélagið frumsýnir þessa dásamlegu snilld.
Leikfélag Keflavíkur hefur ekki svikið neinn áhorfanda síðustu misseri og er Fló á skinni alls engin undantekning. Hér er um að ræða magnaðan hóp áhugaleikara sem leggja allt í þessa frábæru leiksýningu og lofum við þér endalausri skemmtun.
Systurnar Abbý og Marta Brewster búa í ættarhúsinu ásamt bróðursyni sínum. Svarti sauðurinn í fjölskyldunni skýtur upp kollinum með miður göfug áform og fara þá myrk leyndarmál fjölskyldunnar að líta dagsins ljós.
Sagan er allsérstök og hrollvekjandi en þar er fjallað um læknisfræði, lýtalækningar, girndarmorð og greftrunarsýki. Ótrúlegt en satt þá er leikritið hinn besti farsi um bæði elskulegar og hlýlegar persónur sem reyndar hafa brenglaða siðferðiskennd. Þær systur leigja út herbergi til ungra manna og hjálpa þeim gjarna yfir móðuna miklu ef þeim finnst þeir eiga eitthvað of bágt í lífinu. Þannig hafa ófá líkin verið grafin í kjallara heimilisins.