Archive from apríl, 2016
Nemendur í lokaáfanga á leiklistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, sýna fjórar sýningar af lokaverkefni sínu.
Verkin eru samin og leikin af nemendum og öll listræn vinna er í þeirra höndum og byggist á öllu því námi sem farið hefur fram á brautinni síðustu ár.
Verkin eru fjögur samtals og eru um 15 mínútur að lengd hvert og eitt. Öll verkin sameinast í eina sýningu sem að tekur um klukkustund.
Sýningar eru:
Mánudaginn 2. maí kl 18:00
Mánudaginn 2. maí kl. 20:00
Þriðjudaginn 3. maí kl. 18:00
Þriðjudaginn 3. maí kl. 20:00 – LOKASÝNING!
Frír aðgangur!
Nemendur eru:
Helga Margrét Höskuldsdóttir
Hrafnhildur Ólafsdóttir
Íris Heiða Jónsdóttir
Karítas Sif Bjarkadóttir
Patrekur Ísak Steinarsson
Rakel Ýr Stefánsdóttir
Reginn Tumi Kolbeinsson
Selma Rán Lima
Sigríður Margrét Ágústsdóttir
Urður Bergsdóttir
Örn Gauti Jóhannsson
Kennari er Vigdís Gunnarsdóttir
Við mælum með að panta miða hjá henni þar sem miðafjöldi er takmarkaður, netfangið er: vigdisg@fg.is
Jörðin er að deyja. Til að bjarga mannkyninu eru spandex-geimfararnir Ísak og Vilhjálmur sendir í könnunarleiðangur til KOI. Þar á að byggja mannkyninu nýtt heimili, nýja framtíð. En á leiðinni er bankað og einhver í neyð vill komast inn í geimskipið.
Könnunarleiðangur til KOI er sjálfstætt framhald af leikverkinu MP5 sem vakti mikla athygli í Tjarnarbíói á síðasta leikári.
Sviðslistamennirnir Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson reyna á þolmörk leikhússins með því að fjalla hratt um pólitískt málefni líðandi stundar. Þeir skrifa handrit, æfa, smíða leikmynd og frumsýna á innan við einum mánuði.
Frumsýning – 29. apríl kl. 20:30
2. sýning – 5. maí kl. 20:30
3. sýning – 10. maí kl. 20:30
Miðaverð er 3.900 kr.
Miðasala á Midi.is og miðapantanir á midasala@tjarnarbio.is.
Í MP5 tóku Hilmir og Tryggvi fyrir byssumálið svolkallaða, er vopnvæða átti almenna lögreglu á Íslandi, en núna taka þeir fyrir flóttamannavandann og viðbrögð okkar við honum.
Umsagnir um MP5:
„Hilmir og Tryggvi hafa þróað með sér virkilega skemmtilegt samband á sviðinu sem einkennist af leikgleði og einlægni. Þeir hafa fundið skemmtilegan leiktaktsem á vel við sviðssetninguna og skapar þar af leiðandi gott jafnvægi sín á milli. (MP5) er spennandi og bráðnauðsynlegt innslag í íslenskt samtímaleikhús…“ – Sigríður Jónsdóttir, Fréttablaðið
„…frábærir leikarar og frábært handrit…“ – Djöflaeyjan / RÚV
„Rífandi skemmtileg leiksýning…“ – TMM.is
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri færir ykkur söng- og dansleikinn Konung ljónanna, sem byggður er á samnefndri kvikmynd frá árinu 1994.
Aðalpersónan í söngleiknum er Simbi, fjörugur ljónsungi, sem einn daginn á að taka við hlutverki föður síns sem konungur ljónanna. En valdagræðgi föðurbróður hans veldur því að Simbi hrökklast burt frá heimaslóðunum, tekur upp kæruleysislegan lífsstíl og gleymir framtíðarhlutverki sínu. Sýningin er fyrir alla aldurshópa enda er þetta saga og tónlist sem flestir þekkja. Leikfélag Menntaskólans á Akureyri hefur undanfarin ár sett upp stórar leiksýningar sem hafa slegið hvert aðsóknarmetið á fætur öðru. Þetta er ein stærsta uppsetning leikfélagsins frá upphafi. Föngulegur hópur menntskælinga hefur lagt allt sitt í að gera sýninguna að veruleika.
Leikstjóri er Vala Fannell en hún kemur alla leið frá London til að stjórna uppsetningu á þessu skemmtilega verki. Sýningin einkennist af söngi og dansi ásamt mikilli ástríðu og leikgleði.
Sýningin hefur hlotið góðar viðtökur á Akureyri og nú hyggst leikfélagið setja sýningu upp í Reykjavík, í fyrsta sinn í langan tíma.
HLEYPTU ÞEIM RÉTTA INN eftir Jack Thorne, byggt á bók og kvikmynd eftir John Ajvide Lindqvist
Hrífandi verk um einelti, einsemd og óvenjulega vináttu.
Unglingsstrákurinn Óskar er einmana og vinalaus, og lagður í gróft einelti í skóla. Þegar hin dularfulla Elí flytur inn í íbúðina við hliðina á honum, þar sem hann býr einn með móður sinni, umturnast tilvera hans.
Þegar undarlegir og óhugnanlegir atburðir fara að eiga sér stað á svæðinu, áttar Óskar sig smám saman á því hvert leyndarmál Elí er. Hún er vampíra, sem verður að nærast á blóði fólks til að komast af. En hún er líka einstaklingur sem er einmana og utangarðs, rétt eins og Óskar sjálfur. Smám saman þróast á milli Óskars og Elís vinátta sem hvorugt þeirra átti von á eða gat látið sig dreyma um.
Hvað myndir þú taka til bragðs ef nýi nágranninn þinn væri vampíra?
Leikritið Hleyptu þeim rétta inn er byggt á metsölubók sænska rithöfundarins Johns Ajvides Lindqvists. Sænsk kvikmynd byggð á verkinu hefur notið mikillar hylli og var endurgerð í Hollywood undir nafninu Let the Right One In. Leikritið hefur verið sýnt við miklar vinsældir í Royal Court leikhúsinu í London, Skoska þjóðleikhúsinu, St. Ann’s Warehouse í New York og á Norðurlöndunum.
Hrollvekjandi fantasía sem hreyfir við þér, og hefur gagntekið áhorfendur víða um heim.
Verkið er sýnt samkvæmt samkomulagi við Marla Rubin Productions Ltd.
Hvítt er leikandi létt og afar sjónræn sýning fyrir börn frá 1 til 5 ára og fullkomin sem fyrsta reynslan af leikhúsinu. Hún er lærdómur um litina fyrir börnin en áminning um litróf mannlífsins og fjölmenningarsamfélagið fyrir okkur foreldrana.
Hvítt (White) var frumsýnd á Edinborg Fringe leiklistarhátíðinni árið 2010 af Catherine Wheels leikhúsinu og fékk gagnrýnendaverðlaun hátíðarinnar. Árið eftir var hún sýnd á alþjóðlegri leiklistarhátíð Assitej í Kaupmannahöfn og Malmö og var einnig tekin til sýninga á West End í London, á Broadway í New York og í Los Angeles. Verkiðhefur verið sýnt um allan heim og farið til Norður og Suður Ameríku, Evrópu, Asíu og Ástralíu og er núna í sýningum í Skotlandi, Frakklandi, Mexíkó og Bandaríkjunum. Leikritið hefur fengið fjölda viðurkenninga.
Hvítt er framleidd í samstarfi við Catherine Wheels leikhúsið í Skotlandi, Góða Gesti, Hafnarfjarðarbæ og Mennta og Menningarmálaráðuneytið.
Áhorfendur er boðnir velkomnir á stað þar sem allt er hvítt. Þetta er heimur sem glitrar, glansar og skín á nóttunni og er fullur af fuglasöng og fuglahúsum. Heimurinn er bjartur, skipulagður og hvítur, En uppi í trjánum er ekki allt hvítt. Litirnir birtast. Fyrst rauður….svo gulur …svo blár.
Leikstjóri er Gunnar Helgason og leikarar eru María Pálsdóttir og Virginia Gillard.
Þriggja daga dansnámskeið með danshöfundi og aðstoðardanshöfundi sýningarinnar MAMMA MIA! Kennd verða dansspor úr sýningunni. Námskeiðið er ætlað 20 ára (og eldri) og verður haldið laugardaginn 7., sunnudaginn 8. og laugardaginn 14. maí 2016, 2 klst. í senn.
6 klst dansnámskeið og miði á sýninguna MAMMA MIA! þann 14. maí.
Verð: 20.000 kr.
Skráning fer fram hjá miðasölu Borgarleikhússins í síma 568-8000 eða með því að senda tölvupóst á midasala@borgarleikhus.is
Allar frekari upplýsingar má nálgast með því að senda tölvupóst á mammamia@borgarleikhus.is.
Kennarar: Lee Proud og Chantelle Carey
Námskeiðið er haldið í Borgarleikhúsinu.
Leikhúslistakonur 50+ kynna leiklestur á nýsamda leikritinu Fyrirgefningin í Iðnó þann 17. apríl kl. 16 og 18. apríl kl. 20.
Höfundur: Sella Páls
Leikstjóri: Þórunn Magnea Magnúsdóttir
Leikarar: Ragnheiður Steindórsdóttir, Rósa Guðný Þórsdóttir og Haukur Valdimar Pálsson
Sjáum við fortíðina í raunsæju ljósi?
Á dánarbeðinu ætlast eiginmaðurinn til þess að konan sem ætíð hefur verið honum svo góð fyrirgefi sér. En þegar hún kemst að því hvað það er sem hún á að fyrirgefa er það ekki sjálfgefið…
Umræður fylgja eftir leiklesturinn.
Aðgangseyrir: 1500 kr.
Gaflaraleikhúsið frumsýndi þann 10. apríl nýtt leikrit eftir Karl Ágúst Úlfsson sem hann nefnir Góði dátinn Svejk og Hasek, vinur hans. Verkið fjallar um tékkneska rithöfundinn Jaroslav Hasek, sem skrifaði bækurnar um Svejk, og konu hans Shuru. Við sögu kemur fjöldi af persónum úr Góða dátanum auk þess sem Svejk sjálfur er aldrei langt undan.
Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir sem leikstýrði nú síðast „Umhverfis jörðina á 80 dögum“ hjá Þjóðleikhúsinu. Karl Ágúst ,sem leikur Jaroslav Hasek,þarf vart að kynna en hann hefur um árabil verið ein aðalsprautan í Spaugstofunni auk þess að skrifa fjölda leikverka og leika í sjónvarpi og kvikmyndum.
Auk Karls leika í sýningunnni Hannes Óli Ágústsson, sem leikur Svejk og Þórunn Lárusdóttir sem leikur Shuru auk fjölda annara persóna. Eyvindur Karlsson er höfundur tónlistar í verkinu auk þess að taka að sér nokkrar persónur í verkinu. Guðrún Öyahals sér um hönnun búninga og leikmyndar og Hermann Björnsson um lýsingu.
Leikfélag Hafnarfjarðar sýnir leikverkið Ekkert að óttast í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Lokasýning í kvöld.
Ekkert að óttast (Gunnar á Leiðarenda) er gamanleikur eftir 12 höfunda úr höfundasmiðju LH. Leikritunarferlið tók um tvær vikur þar sem hver höfundur byrjaði á að skila inn einni persónu í persónubanka sem undirritaður skar síðan niður í sjö. Hver höfundur dró Tarot spil og saman mynduðu þau vísi að framvindu og áherslur sem reynt var að hafa til viðmiðs við skriftirnar. Dregið var um röð höfunda og í hvaða tímaröð þeir myndu skrifa. Hver höfundur hafði síðan 24 tíma til að skrifa sinn kafla í stykkið og sendi hann áfram á þann næsta í röðinni og svo koll af kolli. Út úr þessari vinnu fengum við handrit sem virkaði merkilega vel en sérvaldir höfundar úr hópnum eyddu síðan helgi við að umskrifa og samræma textann. Það var gert til að persónueinkenni héldu sér og eins til að fækka baksögum og slíkt.
Verkið fjallar um peninga, græðgi og svik, já og humar. En það fjallar líka um ást af ýmsum toga og það sem við erum tilbúin að gera eða ekki gera í nafni ástarinnar. Það fjallar um mikilvægi þess að hafa ást í hjartanu eða þykjast hafa ást í hjartanu. Að vera heiðarlegur og einbeittur og að horfast í þriðja augað við sig. Annars endar allt með ósköpum.
Miðasala fer fram á ekkertadottast@gmail.com.
Borgarleikhúsið frumsýnir í kvöld leikverkið Auglýsing ársins eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar.
Auglýsingastofa er á barmi gjaldþrots þegar loksins birtist kúnni með fulla vasa fjár. Eigandinn og hans teymi taka til óspilltra málanna og leggja allt í sölurnar til að mæta óskum þessa leyndardómsfulla viðskiptavinar. Þau taka sköpunarstarfið föstum tökum en skyndilega harðnar á dalnum – gömul og dramatísk stjarna snýr aftur og listakonan María fer að sjá líf nöfnu sinnar Poppins í hillingum. Stórkostlegt lið leikara í flugbeittu leikriti sem sviptir hulunni af markaðshyggju Íslendinga.
Tyrfingur Tyrfingsson (f. 1986) er með áhugaverðustu leikskáldum landsins af yngstu kynslóð höfunda. Auglýsing ársins er annað verk hans í fullri lengd en áður hafa verið sýnd í Borgarleikhúsinu Skúrinn á sléttunni og Bláskjár sem hlutu á sínum tíma mikið lof.