janúar | 2015 | Leikhus.is

Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

Nafn:

Netfang:

Fæðingarár:

Símanúmer:

Kyn: KarlKona
 
Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

Svar:

 
Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015.

Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.
 

Archive from janúar, 2015

Kuggur og leikhúsvélin í Þjóðleikhúsinu

jan 30, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

kuggur
 
„Jólastjarnan“ Gunnar Hrafn Kristjánsson leikur Kugg

Þjóðleikhúsið frumsýnir í Kúlunni í febrúar nýtt leikrit eftir Sigrúnu Eldjárn um gleðigjafann Kugg og félaga hans. Áður hefur Sigrún skrifað fjölmargar vinsælar bækur um Kugg, Mosa, Málfríði og mömmu hennar, en þetta er í fyrsta sinn sem þau stíga á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu.

Leikstjóri sýningarinnar er Þórhallur Sigurðsson en hann hefur leikstýrt um fjörutíu leiksýningum við Þjóðleikhúsið, þar af mörgum vinsælum barnasýningum, auk þess sem hann hefur sett upp fjölda sýninga í brúðuleikhúsi. Hann leikstýrði meðal annars Leitinni að jólunum og Góðu kvöldi, sem hlutu hvor um sig Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins.

Kuggur er klár strákur sem á frekar óvenjulega vini. Þeir eru Mosi sem er lítill og grænn og svo mæðgurnar Málfríður og mamma hennar. Málfríður er gömul kerling en mamma hennar er ennþá eldri! Þessar mæðgur eru svo sannarlega skemmtilegar og uppátækjasamar. Það er líf í tuskunum þegar þær fara í Þjóðleikhúsið!

Hinn ellefu ára gamli Gunnar Hrafn Kristjánsson leikur Kugg en Gunnar Hrafn hefur áður leikið í tveimur leikritum á Stóra sviði Þjóðleikhússins, í sjónvarpsþáttum og nú í desember sigraði hann söngkeppnina Jólastjörnuna á Stöð2.

Leikkonurnar Edda Arnljótsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir leika Málfríði og mömmu hennar.

Guðmundur Ingi Þorvaldsson ætlaði að verða rokkstjarna

jan 29, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Gudmundur-Ingi-minni1

VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN

Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
Framkvæmdarstjóri Tjarnarbíós, kennari og leikari.
 
Í hvaða stjörnumerki ertu?
Krabbi.
 
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
Rokkstjarna.
 
Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
Dugnaður og Innsæi. Óþolinmæði.
 
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Nautkjöt beint frá býli.
 
Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
Skepnu í Tjarnarbíó.
 
Hvaða áhugamál áttu þér?
Leiklist, hestar, skíði, glíma.
 
Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
Akkúrat núna rokk og ról frá sjötta áratugnum.
 
Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Óheiðarleiki og leti.
 
Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
Reykholtsdalurinn minn.
 
Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
Þykir alltaf vænt um London.
 

HRAÐASPURNINGAR

Flytja til London eða New York?
New York.
 
Eiga hund eða kött?
Hund.
 
Borða heima heima eða úti daglega?
Heima.
 
Finnst þér betra að vinna á morgnana eða kvöldin?
Morgnana.
 
Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
Hvorugt.
 
Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
Lesa.
 
Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
Andlit.
 
Veldu: Sturtu eða bað?
Bað.
 
Veldu: RÚV eða Stöð 2?
Rúv.
 
Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
Forvitinn.
 
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Lífið eilíft. Það er núna.
 

Inntökupróf í Reykjavík

jan 29, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Rose burfordAlþjóðlegur leiklistarháskóli í London Rose Bruford leiklistarháskólin mun halda inntökupróf og viðtöl fyrir allar deildir í Hinu Húsinu, Reykjavík dagana 21. og 22.mars 2015

Nánari upplýsingar og skráning með tölvupósti á: international@bruford.ac.uk og í síma: +44(0)20 8308 2638
Námið hefst í október 2015
Rose Bruford var valinn besti leiklistarháskóli Bretlands í skoðanakönnun
nemenda 2013 og 2014

bruford.ac.uk

Uppsprettan – skyndileikhús

jan 28, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

uppsprettanNæst sýning Uppsprettunnar – skyndileikhúss, verður mánudaginn 9. Febrúar. Uppsprettan, sem hefur verið að hasla sér völl í íslensku leihúslífi, hefur það að markmiði að kynna nýja íslenska höfunda og gefa leikurum og leikstjórum tækifæri á að sýna sig og hæfileika sína. Undanfarið höfum við haldið utan um æfða leiklestra á verkum í fullri lengd sem fluttir hafa verið á kaffhúsi Tjarnarbíós, en nú er komið að skyndileikhúsinu okkar.

Höfundar hafa sent inn handrit og vinnur nú sérskipuð dómnefnd að því að velja þau þrjú bestu. Sólarhring fyrir sýningu fá svo leikhóparnir þrír verkin í hendur en mega ekki byrja að æfa fyrr en kl. 18:00 á sýningardegi. Sýningin byrjar kl. 21:00 en öllum er frjálst að mæta og kíkja á æfingarnar. Einnig verður hægt að lesa verkin á hinu notalega kaffihúsi Tjarnarbíós og kynna sér þau áður en skoðað er hvernig leikhóparnir eru að vinna með þau.

Þetta er í fjórða sinn sem Uppsprettan er haldin, en sú fyrsta var keyrð á Menningarnótt 2013. Síðan þá hefur Uppsprettan átt heima í Tjarnarbíói og hefur smám saman verið að vaxa ásmegin. Fjöldi höfunda hefur tekið þátt, þar á meðal Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þór Tulinius, Árni Kristjánsson, Bjargey Ólafsdóttir og Oddný Sv. Björgvinsdóttir.

Eldbarnið, söfnun á Karolina fund

jan 27, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

eldbarnidSkaftáreldar eru sögusvið Möguleikhússins í nýju barnaleikriti, þar sem þessir afdrifaríku atburðir Íslandssögunnar eru séðir frá sjónarhóli barns. Lítil stúlka virðist mega sín lítils þegar veröldin tekur hamskiptum og hætturnar virðast búa við hvert fótmál. En hugrekki og hjartahlýja reynast tryggir förunautar á óvissutímum.

Eldbarnið verður frumsýnt í Tjarnarbíói laugardaginn 7. febrúar.

Hér er slóð á söfnunina https://www.karolinafund.com/project/view/735

Sólveig er söguhetjan í þessu nýja leikriti Möguleikhússins. Eftir gríðarlega jarðskjálfta verður stórt eldgos og skömmu seinna steypist hraunstraumur ofan af hálendinu. Sólveig og móðir hennar verða að flýja upp í fjallshlíð, þaðan sem þær horfa á bæinn sinn fara undir hraun. Við tekur ný og gjörbreytt tilvera, flótti og leit að húsaskjóli. Sólveig lendir í ævintýralegum aðstæðum sem hljóma fjarstæðukenndar fyrir íslensk börn í dag en voru raunverulegar á þessum tímum.

Hér heldur Möguleikhúsið áfram umfjöllun um mannlíf í kjölfar Skaftárelda og Móðuharðinda, en síðasta vetur frumsýndi það einleikinn Eldklerkinn sem hlaut afburðagóðar viðtökur. Að þessu sinni eru atburðirnir skoðaðir frá sjónarhóli ungrar stúlku í nýju barnaleikriti sem ætlað er áhorfendum frá 9 ára aldri.

Frumsýning verður í Tjarnarbíói 7. febrúar.

Höfundur: Pétur Eggerz
Leikstjóri: Sigrún Valbergsdóttir
Leikmynd og búningar: Guðrún Øyahals
Tónlist: Kristján Guðjónsson
Leikarar: Alda Arnardóttir, Andrea Ösp Karlsdóttir og Pétur Eggerz
Sérlegur ráðgjafi við handritsgerð: Kristín Helga Gunnarsdóttir

Danssýning í Frystiklefanum á Rifi

jan 27, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

martrodFöstudaginn 30. janúar verður haldin opin sýning á verkinu sem Oupa Sibeko hefur þróað og æft upp í Frystiklefanum. Verkið ber heitið Martröð.
 
Sýningin hefst klukkan 20.00 og tekur um 20 mínútur í flutningi.
 
Ókeypis aðgangur.

Regndropar falla

jan 24, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

Skepna
 
Sérhver atburður dregur dilk á eftir sér. Jafnvel ómerkilegustu atburðir geta haft langvinn áhrif. Morð, aftur á móti, getur slegið varanlega dæld inn í tilvist fólks og sogað alla þess orku inn í hið tilfinningalega svarthol sem umlykur minninguna.

Áhorfandinn dreginn á asnaeyrunum

Hvað eiga Alli og Nína, Pamela og Joe, og sögumaðurinn Adam sameiginlegt — hvað rekur þann síðastnefnda til að segja sögu þeirra, hvernig tengjast eiginlega þræðirnir og hvað fær hann út úr því að draga upp mynd af óhamingjusömu lífi þeirra? Leikverkið Skepna hefst á frásögn af glæp en fer fljótlega út í aðra sálma.

Áhorfandinn skilur ekki alltaf hvert hann er leiddur en eitt er ljóst að þangað er hann leiddur af fullkomnu öryggi þess sem segir frá. Adam togar í spottana og sýnir aðeins það sem hann vill hverju sinni, og hann gerir það ekki aðeins á áhugaverðan hátt heldur einnig skemmtilegan. Hann er fyndinn og svartur í senn. Við sitjum á valdi hans en við viljum jafnframt vita meira. Og einmitt þegar útlit er fyrir að farið sé nokkuð að fjara undan stjórn sögumannsins, að öll sýningin hafi jafnvel verið til þess eins að draga mann á asnaeyrunum, þá gerist það sem ég get ekki sagt frá. Sögumaður sýnir það hinsta sinni að sagan var sögð á hans forsendum og það er áhorfandans að gera upp við sig hvort hann samþykkir málalok.

Bjartmar hver?

Hver er Bjartmar Þórðarson og af hverju er hann ekki fastráðinn við eitt af stóru leikhúsunum? Ég hef ekki tölu á persónunum sem hann lék, en fyrir utan þær fimm sem nefndar eru að ofan lék hann kvikmyndaframleiðanda, leikstjóra, alkóhólískan handritshöfund og kókaínsnortandi konu hans, dverg og AA-fundarstjóra. Og hver einasta persóna var alveg einstök svo aldrei fór á milli mála í hvaða hlutverki hann var hverju sinni. Ekki einasta voru hlutverkin og skiptingar þeirra á milli vel útfærðar, heldur hefur Bjartmar tileinkað sér þau gamalreyndu sannindi að dýptina má sjá af yfirborðinu og að minna er meira hvað sviðsframkomu snertir. Það var næstum eins og hann hefði ekkert fyrir þessu. Hann lék öll hlutverkin af einstakri og fágaðri yfirvegun sem er eftirtektarverð í íslensku leikhúsi sem stundum getur verið flaumósa og yfirdrifið. Það þarf ekki alltaf að apa handapatið eftir Mússólíni enda fer Bjartmar þveröfuga leið og færir sinn eigin einstaka stíl inn á sviðið. Bravó! Bjartmar þýðir einnig verkið úr frummálinu og textinn í þýðingu er lipur, tilgerðarlaus og virkar vel.

Tónlist, leikstjórn og lýsing er í höndum Guðjóns Þorsteins Pálmarssonar og ekki koma fleiri að sýningunni svo gefið sé upp; það er enginn skráður fyrir búningum (búningnum, réttar sagt) og engin sviðsmynd er notuð. Allt virkar þetta vel saman, sviðsmyndarleysið og þar með tómið sem birtist í myrkrinu aftan við sögumann sem jafnan er aðeins lýstur upp með stakri ljósaperu, og svo skiptingar á milli staða sem gefnar eru til kynna með breytingu á ljósum og lipurri umbreytingu Bjartmars yfir í viðeigandi persónu þar fylgjandi. Tónlistin er lágstemmd, einkum angurvær útsetning á Raindrops Keep Fallin’ On My Head eftir David og Bacharach, og aldrei áður á ævinni hef ég fengið hroll við að heyra það lag — ekki síður sakir samhengis þess í sýningunni fremur en fegurðar.

Falleg og hrollvekjandi sýning

Ef lesandi nú spyr sig hvort hann eigi að sjá þessa sýningu þá segi ég hiklaust já. Hún er í senn falleg og hrollvekjandi en fyrst og fremst er hún til þess fallin að vekja spurningar, um þetta líf sem er svo mikil gjöf en samt svo óyfirstíganlega erfitt á köflum, um rétt og rangt og eðlishyggju þar að lútandi — eru ómenni, ef þau eru yfirleitt til, fædd sem slík eða verða þau þannig sakir félagsmótunar, eða geta þau breyst aftur, orðið „gott“ eða „eðlilegt“ fólk? Hvað ræður því hvernig við erum? Býr einhver vilji þar að baki eða erum við öll fædd skepnur sem þrífast eingöngu sakir óstjórnlegra, meðfæddra hvata?

Það eru engin svör veitt við þessum spurningum, en væntanlegir áhorfendur mega vænta þess að sitja uppi með einhverjar þeirra að sýningu lokinni. Það er helsti styrkleiki verksins: Það er enginn boðskapur í því. Allar siðferðislegar spurningar verða til með áhorfandanum. Og það er þannig sem gott leikhús skal gera.

Arngrímur Vídalín

Bót og betrun hjá Leikfélagi Selfoss

jan 23, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

leikhsiLeikfélag Selfoss hefur hafið æfingar á farsanum Bót og Betrun eftir enska leikskáldið Michael Cooney í þýðingu Harðar Sigurðarsonar. Verkið segir frá Eric Swan sem grípur til bótasvika þegar hann missir vinnuna. Hins vegar fer svindlið úr böndunum og kemst Eric að því að stundum er auðveldara að komast á bætur en af þeim þegar boltinn er einu sinni farinn að rúlla.

Bót og betrun er gamanleikur eins og þeir gerast bestir, hefðbundinn farsi með misskilningi, flækjum og pínlegum aðstæðum af öllu tagi eins og efnið ber með sér. Verkið á erindi við alla sem vilja upplifa gleði og glaum og gera vel við hláturtaugarnar.

Alls taka 10 leikarar þátt í sýningunni en með aðalhlutverk fara þeir Stefán Ólafsson og Guðmundur Karl Sigurdórsson, báðir þrautreyndir á leiksviðinu. Leikstjóri er Jón St. Kristjánsson en þetta er í fimmta sinn sem hann leikstýrir hjá Leikfélagi Selfoss. Stefnt er að frumsýningu í lok febrúar.

Leiklestur á nýju verki eftir Birgi Sigurðsson

jan 20, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

er_ekki_nog_ad_elska• Er ekki nóg að elska?
• Nýtt verk frá höfundi Dags vonar
• Kristbjörg Kjeld fer með aðalhlutverk

Verkið Er ekki nóg að elska? eftir Birgi Sigurðsson verður leiklesið á morgun þriðjudaginn 20.janúar kl 10. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni. Allir velkomnir og heitt kaffi verður á könnunni.

SUM SVIK ERU SVO STÓR AÐ ÞAU VERÐA EKKI GRAFIN
Er ekki nóg að elska? er raunsæisleg og kraftmikil fjölskyldusaga sem lýsir fjölskylduátökum um leyndarmál sem ekki mega koma upp á yfirborðið því þau sverta þar með minningu mektarmanns. Jarðarför hans stendur fyrir dyrum og ekkjan berst hetjulega fyrir sóma hússins og minningu mikils stjórnmálamanns og hreinskiptins eiginmanns sem hefur gert afar óvenjulega kröfu í erfðaskránni.

Birgir Sigurðsson er eitt fremsta núlifandi leikskáld okkar. Fyrsta leikrit hans, Pétur og Rúna, var sett á svið árið 1973. Leikritið vann til fyrstu verðlauna, ásamt Kertalogi Jökuls Jakobssonar, í leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur í tilefni af 75 ára afmæli félagsins árið 1972.

Dagur vonar var frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1987 og 2007 og naut gífurlegra vinsælda í bæði skiptin. Leikritið var einnig tekið upp fyrir sjónvarp og tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1989.

Aðstandendur Höfundur: Birgir Sigurðsson | leikstjóri: Hilmir Snær Guðnason |Tónlist: Björn Jörundur Friðbjörnsson | Leikmynd: Vytautas Narbutas | búningar: Stefanía Adolfsdóttir | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson | Leikarar: Kristbjörg Kjeld, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Guðjón Davíð Karlsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson.

Konubörn: Harðar en mjúkar, sætar en klárar

jan 19, 2015   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

konubörn
 
„Við eigum að vera sætar og skemmtilegar fínar og flottar en samt vera feminískt rétthugsandi, duglegar, harðar af okkur, en samt viðkvæmar. Það er alltaf verið að segja okkur hvernig við eigum að vera,“ segir Eygló Hilmarsdóttir leikkona, handritshöfundur og hluti hóps að baki verkinu Konubörn.

Leikritið fjallar um vandkvæðin sem fylgja því að vera hvorki barn né fullorðinn, hvorki stelpa né kona. Björk Jakobsdóttir leikstýrir verkinu sem verður frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu í dag. Það er eftir sex stelpur um tvítugt sem allar leika jafnframt allar í verkinu. Það eru þær Ásthildur Sigurðardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir

Sigurlaug Sara segir vinnsluferlið hafa gengið vel fyrir sig. „Við vorum bara að tala saman um sögur af einhverju sem við höfum lent í, og þá kom í ljós að við höfum lent í mörgu fyndnu að það dugði í heilt leikrit,“ segir hún.

Handritið er byggt á sönnum atburðum. „Þetta eru mikið til hugleiðingar, ekki endilega sögur með upphaf, miðju og endi, heldur tökum við eitthvað viðfangsefni og búum til einhvers konar skets út frá því. Dæmi um það er spurningin hvenær verður maður fullorðin?,“ segir Eygló.

Aðspurð hvort einhvern boðskap sé að finna í sýningunni segir hún: „Kannski bara, látið okkur í friði. Hættið að gera svona miklar kröfur, við erum bara eins og við erum og við erum frábærar þannig,“ segir hún.

Síður:123»
loading