Browsing "Uncategorized"

Matthildur er nýr söngleikur sem byggir á hinni rómuðu skáldsögu Roalds Dahl. Litla stúlkan Matthildur er óvenjulega gáfuð, tilfinninganæm og bókelsk og líklega þess vegna með sérlega ríkt ímyndunarafl. Foreldrar hennar eru þó af öðru sauðahúsi, fáfróð og óhefluð, og skólastjórinn Karítas Mínherfa er hreinasta martröð. Matthildur lumar þó á ýmsum ráðum gegn heimsku fólksins og með styrk sínum og hugrekki tekst henni að vinna sér sess í veröldinni. Þetta er fræg saga um litla stúlku sem þróar með sér ofurkrafta í baráttunni við ranglæti heimsins.
Söngleikurinn var frumsýndur hjá Royal Shakespeare Company í Stratford-upon-Avon, fæðingarbæ Shakespeares árið 2010. Þaðan var hann fluttur á West End og Broadway og hefur víða slegið aðsóknarmet enda einstaklega glæsilegur söngleikur sem heillar unga sem aldna. Þá hefur Matthildur hlotið hátt í hundrað verðlaun af ýmsu tagi og þar af sextán verðlaun sem besti söngleikurinn. Handritshöfundur er leikskáldið Dennis Kelly sem hefur samið fjölda framúrskarandi leikrita, meðal annars Elsku barn sem Borgarleikhúsið sýndi árið 2011. Ástralinn Tim Minchin, höfundur tónlistarinnar, er einn fremsti söngleikjatónsmiður nú um stundir og hefur fengið fjölda verðlauna, nú síðast Olivier-verðlaunin fyrir söngleikinn Groundhog Day sem sýndur var í Old Vic í London og á Broadway í fyrra og hitteðfyrra.

Bækur Ævars Þórs Benediktssonar, þar sem lesandinn ræður því hvað gerist næst, hafa notið gífurlegra vinsælda meðal yngri lesenda. Nú er komið að þér að stjórna framvindunni í þínu eigin leikriti!
Söguheimurinn er norræna goðafræðin, full af hrikalegum hetjum og stórhættulegum skrímslum. Engar tvær sýningar verða eins, því áhorfendur ráða því hvað gerist! Muntu sigra Miðgarðsorminn eða gleypir hinn hræðilegi Fenrisúlfur þig? Ætlarðu að gerast barnapía fyrir Loka eða líst þér betur á að verja sjálfa Valhöll fyrir jötnum og hrímþursum?
Ævintýraleg og spennandi sýning, þar sem allt getur gerst!
Aldursviðmið: 6-12 ára.
Ódýrara í annað sinn.
Ef þú vilt freista þess að sjá aðra útgáfu af sýningunni, mundu þá að þú færð þúsund króna afslátt ef þú kemur aftur. Þá þarftu bara að framvísa miða á sýninguna í miðasölu

Hópur kraftmikilla og sjarmerandi nemenda kemur óvænt í heimsókn til umsjónarkennara síns með vín og gjafir undir því yfirskini að óska henni til hamingju með afmælið. Þau standa öll á tímamótum, eru að klára menntaskólann og í þann mund að taka stóra skrefið út í lífið. En fljótlega komumst við að því að raunverulegi tilgangurinn er allt annar en að gleðja kennarann sinn. Við tekur hrikaleg atburðarás þar sem hlutirnir fara gjörsamlega úr böndunum. Í Kæru Jelenu takast á kynslóðir í verki sem spyr stórra spurninga um siðferðisleg mörk, einstaklingshyggju og hugsjónir.
Hvar liggja mörk okkar frá því að vera framagjörn og metnaðar-full yfir í að vera yfirgangssöm, ofbeldisfull og siðblind?
Ljúdmíla Razumovskaja skrifaði Kæru Jelenu árið 1980 og hófst þá sigurför um heiminn. Verkið sló rækilega í gegn í Þjóðleikhúsinu fyrir tæpum 30 árum í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur sem Kristín Eiríksdóttir hefur yfirfarið til að færa það nær okkur bæði í stað og tíma.
Athugið að sýningin er ekki æskileg fyrir börn yngri en 12 ára.

Bjössi og Gugga eru hjón utan af landi. Guðrún og Einar eru ung hjón úr Reykjavík. Í versluninni Súper hitta þau Hannes sem hefur misst föður sinn. Eða er faðir hans kannski enn á lífi?
Aðdráttarafl Súper er ótvírætt í hugum fólksins sem þar verslar. Verslun þar sem allt fæst. Glænýr lax úr 100% lífrænu svínakjöti, ferskir kjúklingastrumpar úr nýslátruðu grísakjöti og hinir sívinsælu hunangsmarineruðu og hægsvæfðu spenagrísir á teini.
Súper – þar sem kjöt snýst um fólk.
Eftir: Jón Gnarr
Leikstjórn: Benedikt Erlingsson

Gleðileikur um depurð
Allt sem er frábært fær fólk til að hlæja þar til það skilur loks hvers vegna það grætur! Hvernig bregst ungur sonur við myrkum hugsunum móður sinnar? Hann býr auðvitað til lista yfir allt sem er frábært í heiminum og gerir lífið þess virði að lifa því: Rjómaís, guli liturinn, kung fu-myndir, vatnsslagur, mega horfa fram eftir á sjónvarpið, fólk að detta, rússíbani … Tuttugu árum síðar er listi unga drengsins í fullu gildi og hefur lengst svo um munar – í ævilanga áminningu um það að gleði er ekki síst að finna í hlutum sem virðast léttvægir.
Valur Freyr Einarsson stendur einn á sviðinu í hlutverki manns sem gerir atlögu að depurðinni og lífsleiðanum, með aðstoð áhorfenda og listann góða að vopni, og segir í leiðinni hrífandi sögu af ást, sorg og ís með dýfu. Höfundur er Duncan Macmillan, sá hinn sami og skrifaði verkin Andaðu og Fólk, staðir og hlutir sem sló í gegn í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári. Þetta einfalda en snjalla verk hefur verið sett á svið víða um heim og hlotið gríðarlega góðar viðtökur gagnrýnenda jafnt sem áhorfenda og birtist hér í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur.

Þetta byrjar allt með myndaalbúmi sem sviðslistamaðurinn Friðgeir Einarsson keypti á flóamarkaði í Belgíu. Við þekkjum ekki fólkið á myndunum og það er ráðgáta af hverju albúmið var til sölu. Var því stolið? Týndist það? Var því kannski hent? Það eina sem við vitum er að belgísk kona fór í frí til Mallorca fyrir 40 árum, drakk sangría, fór á ströndina, sigldi á hjólabát og tók myndir af sér og vinkonu sinni.
Eftir tíu ára umhugsun hefur Friðgeir loks ákveðið að reyna að hafa uppi á réttmætum eiganda albúmsins og skila því. En þá þarf hann að leggjast í umfangsmikla rannsóknarvinnu, átta sig á tengslum persónanna á myndunum og hugsanlegum örlögum þeirra.
Í Club Romantica kynnir Friðgeir fólkið á myndunum fyrir áhorfendum, segir sögu þess og sviptir hulunni af því hvað varð um þessa belgísku konu. Í leiðinni veltir hann fyrir sér hvað verður um myndaalbúm og minningar okkar þegar við hverfum af sjónarsviðinu. Hver mun segja okkar sögu? Mun einhver muna eftir okkur eftir 40 ár? Með Friðgeiri á sviðinu verður tónlistarmaðurinn Snorri Helgason sem semur tónlist sérstaklega fyrir verkið.
Friðgeir Einarsson hefur starfað með hópum á borð við Kriðpleir, Sextán elskendur og Íslenska dansflokkinn. Hann hefur einnig gefið út tvær bækur, smásagnasafnið „Takk fyrir að láta mig vita“ og skáldsöguna „Formaður húsfélagsins.“
Í samstarfi við leikhópinn Abendshow.
Verkefnið er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneyti – Leiklistarráði.

Hundur í óskilum heldur hér áfram að varpa óvæntu ljósi á Íslandssöguna með húmorinn að vopni. Nú er komið að sögu kvenna og kvennabaráttunni. Frá því að konan kom til landsins í lok nítjándu aldar hafa íslenskir karlmenn gert sitt besta til að laga sig að breyttum aðstæðum. En hefur okkur tekist sem skyldi? Sagan greinir frá örfáum konum – raunar svo fáum að það er búið að skíra rakettur í höfuðið á þeim öllum. Hundur í óskilum veltir við hverjum steini og grefur upp ýmislegt óvænt og skemmtilegt í sögu jafnréttisbaráttunnar. Búðu þig undir drepfyndna sagnfræði með söngvum. Kvenfólk sló í gegn hjá Leikfélagi Akureyrar s.l. vetur og var tilnefnd til þrennra grímuverðlauna.
Hundur í óskilum er margrómaður og verðlaunaður dúett sem er leikhúsgestum að góðu kunnur fyrir leiksýningar sínar Sögu þjóðar sem hlaut Grímuverðlaun árið 2012 og Öldina okkar sem gekk fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu á Akureyri og svo í Borgarleikhúsinu í kjölfarið.
Gestasýning frá Leikfélagi Akureyrar.

Einn vinsælasti gamanleikur Shakespeares, þar sem draumur og veruleiki mætast. Ímyndunarafl, erótík og spenna…!
Hermía og Lísander elska hvort annað út af lífinu. En Demetríus elskar líka Hermíu, og Helena elskar Demetríus… Og faðir Hermíu hótar að taka hana af lífi, ef hún giftist ekki þeim manni sem hann hefur valið henni. Ungu elskendurnir flýja út í skóg, en það er Jónsmessunótt og nú ráða töfrarnir ríkjum.
Eldfjörugur gamanleikur í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns. Yngsta kynslóð leikara lætur til sín taka ásamt nokkrum af okkar helstu gamanleikurum!
Boðið verður upp á umræður eftir 6. sýningu, 30 mars. Umræðurnar taka um 20 mínútur.

Lífið er ekki nógu ávanabindandi
Búðu þig undir að verða kippt með í ferðalag þar sem engin leið er að átta sig á hvað er satt og hvað logið. Þessi magnaða sýning hlaut frábæra dóma á síðasta leikári og snýr nú aftur á Litla sviðið í takmarkaðan tíma.
Leikkonan Emma er alkóhólisti og lyfjafíkill sem fellst loks á að fara í afvötnun á meðferðar-stofnun eftir klúður á sviði. Þótt hún virðist öll af vilja gerð til að takast á við vandamálið kraumar harðsvíraður fíkill undir niðri – sem ekkert er heilagt. Emma er heillandi, klár og meinfyndin og velgir því meðferðarfulltrúum sínum verulega undir uggum enda er fíkillinn meistari í lygum.
Fólk, staðir, hlutir er eftir breska leikskáldið og leikstjórann Duncan Macmillan og gekk fyrir fullu húsi á West End í London árið 2015. Það er nístandi lýsing á meðferð frá upphafi til enda þar sem aðalpersónan gengur í gegnum allar þær vítiskvalir sem slíkri meðferð fylgja. Efniviðurinn er áleitinn enda stendur hann mörgum nærri þar sem fjallað er um fíknimeðferð á nýstárlegan, áhrifamikinn en um leið grátbroslegan hátt. Um leið er þessari áleitnu spurningu varpað fram: Komumst við vímulaus af í þessum geggjaða heimi?
Í samstarfi við Vesturport og Þjóðleikhúsið í Osló.

Ég býð mig fram / Sería 2 er listahátíð yfir eina kvöldstund þar sem listamenn þvert yfir listsviðið skapa sér hver sitt örverk. Í ár eru fjórtán höfundar. Listsviðið er breitt en listahátíðin er tilraun til að færa listsköpunina nær almenningi með suðupotti hugmynda úr ólíkum áttum, eins konar smáréttahlaðborði.
„Það er gjöfult að vinna þvert á listgreinar. Ég hef komist að því að rithöfunda dreymir á laun um að semja dansverk, myndlistarfólk vill búa til lifandi performans og dansarar þrá að fá að japla á góðum texta. Í raun hafa samræður mínar við listamennina snúist um hugmyndi rsem geta tekið á sig alls kyns myndir ef við leifum okkur að afmá mörk milli skapandi greina. Þannig hefur verkefnið ekki bara opnað heim minn og huga heldur hafa gestalistamennirnir komið sjálfum sér á óvart með því að láta gamla eða nýja drauma rætast.“
Ég býð mig fram / Sería 2 snýst um að brjóta niður veggi. Kasta sér út í alheiminn, sjá hvort hann grípur, kastar þér til baka eða fer með þig í rússíbanareið. Listahátíðin snýst um að koma saman, án fordóma, án landamæra, bara fólk að vinna saman. Hittast í miðju, teygjast, kuðlast eða móta hvort annað í stuttum þremur mínútum hvort sem þær verða enn fleiri í framtíðinni eða fyrstu og síðustu mínútur samvinnu þessara tveggja aðila.
Listrænn stjórnandi og leikstjóri listahátíðarinnar: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir. Framkvæmdastjóri: Álfrún Helga Örnólfsdóttir. Ljósahönnuður og hljóðmaður: Hafliði Emil Barðason Ljósmyndari: Saga Sigurðardóttir Grafískur Hönnuður: Sveinbjörg Jónsdóttir Flytjandi: Unnur Elísabet Gunnarsdóttir Höfundar listahátíðar 2019: Almar Steinn Atlason, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Frank Fannar Petersen, Friðgeir Einarsson, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Helgi Björnsson, Ilmur Stefánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Kitty von Sometime, Kristinn Arnar Sigurðsson, Steinar Júlíusson, Ólafur Darri Ólafsson, Ólöf Kristín Helgadóttir, Urður Hákonardóttir.
Listahátíðin hlaut styrki frá Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.