Bíddu bara verður frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu þann 10. sept.
Gaflaraleikhúsið er einstaklega stolt af því að kynna BÍDDU BARA – hlátursprengju fyrir glaðsinna grindarbotna sem verður frumsýnt 10. september
BÍDDU BARA! er eftir stórstjörnurnar Sölku Sól Eyfeld, Selmu Björnsdóttur og Björk Jakobsdóttur sem leiða nú saman hryssur sínar í fyrsta sinn.
Þetta einlæga, beitta og drepfyndna verk fjallar um raunveruleika íslenskra kvenna; um vonir og drauma, biturleika og frú-strasjónir, uppeldi, kvíða og hvítvín. Þær Björk, Salka Sól og Selma byggja verkið á sinni eigin reynslu og draga ekkert undan en ljúga helling. Þetta er verk um íslenskar konur, samið af íslenskum konum og fyrir íslenskar konur, hinsegin, kynsegin og allar hinar (og fyrrverandi, núverandi og tilvonandi maka sem þora að koma). Það má segja að þetta sé olnboga-verk, því áhorfendur munu skjóta olnboga í sessunautana ótt og títt og hvísla: svona ert þú! Uppistand, leiksenur og söngur af bestu sort.
Allar eru þær Salka Sól, Selma og Björk þekktar fyrir störf sín í leikhúsi á síðustu árum.
Salka Sól sló fyrst í gegn sem söngkona og nú síðast sem Ronja ræningjadóttir. Hún er ein allra vinsælasta og hæfileikaríkasta listakona landsins um þessar mundir.
Selma Björns hefur verið ástmögur þjóðarinnar frá því hún var í Grease og svo stimplaði hún sig rækilega inn sem stórstjarna í Söngvakeppninni. Hún hefur leikstýrt stórsýningum á borð við Vesalingana á undanförnum árum og leikið á sviði og í sjónvarpsþáttum en leikur hér sitt stærsta hlutverk til þessa.
Björk Jakopsdóttir sló rækilega í gegn með einleik sínum Sellófon hér um árið sem var settur upp í 19 löndum víða um heim. Hún hefur síðan þá skrifað og leikstýrt stórsmellum á borð Blakkát og Mömmu klikk! auk þess að vera leikhússtýra Gaflaraleikhússins. Hún snýr loksins aftur á svið sem leikkona í Bíddu bara! Þetta er því alvöru stórstjörnu tríó!
Þær Salka Sól, Selma og Björk leika öll aðalhlutverk, aukahlutverk, kvíðaverk og smáhlutverk í sýningunni auk þess að flytja snilldarlega helling af frábærri, nýrri tónlist.
Það er nefnilega ekki nóg með að þær stallsystur skrifi og leiki í verkinu heldur hafa þær samið í félagi við Karl Olgeirsson gullfalleg og oft á tíðum bráðfyndin lög – og texta – sem bæta miklu við verkið. Þetta eru lög sem við í Gaflaraleikhúsinu spáum að muni lifa langt fram yfir líftíma sýningarinnar. Og auðvitað verður enginn svikinn af flutningi laganna í meðförum þessara söngkvenna.
Leikstjórn er í höndum fyndnasta leikstjóra landsins Ágústu Skúladóttur sem er sá leikstjóri á Íslandi sem hefur hlotið flestar Grímur.
Þórunn María Jónsdóttir sér um búninga og leikmynd hjá okkur í Gaflaraleikhúsinu í fyrsta sinn og Freyr Vilhjálmsson sér um ljósahönnun eins og hann hefur gert í undanförnum sýningum hjá okkur.
Lárus Vilhjálmsson framkvæmdastýrir sýnignunni og Gunnar Helgason hjálpar til með það sem til fellur eins og markaðsmál og smíðavinnu.
Selma Björns, Björk Jakobs og Salka Sól verða í Gaflaraleikhúsinu í vetur.
Leikárið hjá bæjarleikhúsi Hafnfirðinga Gaflaraleikhúsinu hefst með trukki 10. september með hinni glæsilegu uppistands og tónlistarsýningu Bíddu Bara eftir stjörnurnar Björk Jakobsdóttur, Sölku Sól Eyfeld og Selmu Björnsdóttur. Sýningin sem er sannkölluð hlátursprengja fyrir glaðsinna grindarbotna fjallar um raunveruleika íslenskra kvenna; um vonir og drauma, biturleika og frú-strasjónir, uppeldi, kvíða og hvítvín. Þær Björk, Salka Sól og Selma byggja verkið á sinni eigin reynslu og draga ekkert undan en ljúga helling.
Í október hefjast svo æfingar á leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur á hinni frábæru bók Bergrúnar Íris Sævarsdóttur Langelstur að eilífu sem fjallar um Eyju sem er 6 ára og er að byrja í 1 bekk og besta vin hennar og bekkjarfélaga Rögnvald sem er 96 ára. Einstaklega skemmtileg og falleg saga um vináttu, gleði og sorg. Með hlutverk Rögnvaldar fer Sigurður Sigurjónsson sem er án efa einn af ástsælustu gamanleikurum Íslands og Hafnfirðingur að auki. Í lok september fara síðan fram prufur í Gaflaraleikhúsinu til að finna sex 7-10 ára snillinga til að leika börnin í verkinu. Prufur verða auglýstar beru síðar og skráning fer fram á gaflarar@gaflaraleikhusid.is. Fylgist með. Áætluð frumsýning á verkinu er í byrjun árs 2022.
Í janúar 2022 hefjast síðan æfingar á nýju verki eftir Gunnar Helgason sem heitir Drottningin sem kunni allt nema að… . Þar fær Gunnar í lið með sér snillingana Bernd Ogrodnik og Rán Flygenring til að skapa ógleymanlega veröld fyrir yngstu áhorfendurna. Fyrirhugað er að frumsýna verkið í byrjun mars.
Gaflaraleikhúsið hefur staðið fyrir öflugu sviðslistar og höfundanámi fyrir ungt fólk um árabil.
Nú í haust fer Gaflaraleikhúsið inn á nýjar lendur í þeim efnum og mun bjóða upp á undirbúningsnám fyrir ungt sviðslistafólk sem stefnir á framhaldsnám í listum
Kennarar verða Björk Jakobsdóttur leikkona,höfundurog leikstjóri.. Chantelle Carey danshöfundurog Guðlaug Ólafsdóttir söngkennari. Bæði Guðlaug og Chantelle hafa unnið með fjölda ungmenna í hinum ýmsu söngleikjum í Borgar- og Þjóðleikhúsinu. Björk hefur undanfarin 10 ár sett á svið og samið fjölda verka og söngleikja í höfundasmiðju með ungmennum sem að notið hafa mikilli vinsælda Kennt verður í tveim önnum í vetur og seinni önn lýkur með glæsilegum söngleik sem verður frumsýndur í júní .
Einungis verður pláss fyrir 24 nemendur. Inntökupróf í skólann fara fram um miðjan september og verða auglýst fljótlega
Covid19 faraldurinn hefur reynst Gaflaraleikhúsinu erfiður eins og öllum öðrum leikhópum og leikhúsum vegna harðra samkomutakmarkana og það var afar sárt að þurfa hætta sýningum á vinsælasta sýningu leikhússins til þessa, Mömmu Klikk. Leikhúsið lenti utan þeirra stuðningsaðgerða sem ríkið veitti atvinnulífinu í landinu vegna þess að það er óhagnaðardrifið en Sviðslistarráð kom til leihúsinu til bjargar með myndarlegum fjárstuðningi til tveggja ára.
Þetta hleypti nýju lífi í starf leikhússins á þessu ári og í framhaldinu var ákveðið að æfa upp á ensku hina gríðarvinsælu sýningu Fyrsta Skiptið sem sannarlega náði til ungs fólks þegar hún var sýnd 2017-18 og halda í útrás. Sýningin var síðan sýnd undir nafninu My First í Unicorn leikhúsinu í London við frábærar viðtökur og er nú í sýningum á Edinburgh Fringe hátíðinni sem er núna á netinu vegna Covid. Í september er My First boðið að vera opnunarsýningin á Alþjóðlegri leiklistarhátíð Assitej í Kristiansand í Noregi en hún var valin úr hópi 80 alþjóðlegra sýninga.
Gaflaraleikhúsið reynir á meðan húsrúm leyfir að vera í góðu samstarfi við aðra sjálfstætt starfandi leikhópa og nú í september verður sýnd bráðfjörug brúðusýning um Bakkabræður í leikstjórn Sigurþórs Heimissonar og leik og brúðustjórn Elfars Loga Hannessonar, með fallegri tónlist Björns Thoroddsen sem er flutt af Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Þetta er samstarfsverkefni Gaflaraleikhússins og Kómedíuleikhússins á Vestfjörðum fyrir börn á öllum aldri.
Leikárið hjá Gaflaraleikhúsinu sýnir að leikhúsið ætlar sér að vera áfram í fremstu röð leikhúsa fyrir unga áhorfendur á Íslandi. Þökk sé Hafnarfjarðarbæ og Sviðslistaráði og okkar ástkæru áhorfendum lítum við björtum augum til framtíðar.
Rómeó og Júlíu-hátíðin stendur yfir dagana 4. – 10. september
Þjóðleikhúsið mun standa fyrir einstakri leikhúshátíð
fyrir unga fólkið í tengslum við frumsýningu á Rómeó og Júlíu í leikstjórn
Þorleifs Arnar Arnarssonar á Stóra sviðinu þann 4. september. Ungu fólki á
menntaskólaaldri, sem er fætt 2002-2005, verður boðið á fyrstu sýningar
verksins. Sigurbjartur Sturla Atlason, einnig þekktur sem tónlistarmaðurinn
Sturla Atlas, og Ebba Katrín Finnsdóttir fara með hlutverk elskendanna frægu og
tónlistarkonurnar Salka Valsdóttir og Bríet Ísis Elfar sjá um lifandi tónlistarflutning
í sýningunni.
Nú styttist í
frumsýningu Þjóðleikhússins á frægustu ástarsögu allra tíma, Rómeó og Júlíu.
Verkið birtist hér í nýrri þýðingu og með grípandi tónlist, í útfærslu sem
hrífur áhorfandann með inn í heillandi og hættulegan heim. Þjóðleikhúsið mun
bjóða ungu fólk á menntaskólaaldri á fimm fyrstu sýningarnar. Hér er hægt að
tryggja sér miða. Fyrstir koma fyrstir fá.
Auk
sýninganna verða viðburðir á Stóra sviðinu og plötusnúðarnir Young Nasareth,
Dóra Júlía og Unnur Birna munu sjá um fjörið í forsal fyrir og eftir sýningar.
Rómeó
og Júlíu-hátíðin stendur yfir dagana 4. – 10. september og er fyrir gesti sem
fæddir eru 2002-2005. Hægt verður að tryggja sér miða á sýningar eftirfarandi
daga:
lau 4. sept kl. 18:30
sun 5. sep.t kl. 18:30
mið 8. sept. kl. 18:30
fim 9. sept. kl. 18:30
fös 10. sept. kl. 18.30
Vinir og vinahópar, geta skráð sig saman, allt að 10 manns í hóp.
Rómeó
og Júlía er saga af sannri ást en um leið ástsýki og ungæðishætti. Í forgrunni
verður mögnuð barátta ungrar konu gegn yfirþyrmandi feðraveldi. Fegurstu
sögurnar geta sprottið upp úr hræðilegustu aðstæðunum. Þorleifur Örn Arnarsson
er einn fremsti leikstjóri Evrópu og einn listrænna stjórnenda hins virta
leikhúss Volksbühne. Hann á að baki geysivinsælar sýningar á Íslandi á borð
við Engla alheimsins og Njálu. Nú hefur hann gengið til liðs við nýtt listrænt
teymi Þjóðleikhússins þar sem hann mun starfa á næstu árum.
Dagskrá alla þessa daga verður með svipuðum hætti:
Sýningin er unnin upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar sem hann hefur haldið frá æsku til dagsins í dag.
Sjálfsævisögulegi heimildasöngleikurinn Góðan daginn faggi verður frumsýndur í nýuppgerðum Þjóðleikhúskjallara föstudaginn 13. ágúst kl. 21.00. Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og leikhópsins Stertabendu og eru höfundar og aðstandendur verksins Bjarni Snæbjörnsson leikari, Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri og Axel Ingi Árnason tónskáld.
Góðan daginn faggi er einleikur þar sem fertugur söngleikjahommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasaman leiðangur um innra líf sitt, fortíð og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað.
Sýningin er berskjaldandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að tilheyra. Sýningin er unnin upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar sem hann hefur haldið frá æsku til dagsins í dag. Sýningin skartar glænýrri íslenskri söngleikjatónlist eftir Axel Inga Árnason og verður titillag sýningarinnar gefið út á næstu dögum.