september | 2020 | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Archive from september, 2020

    20 þúsund miðar seldir á Kardemommubæinn

    sep 30, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Nýir miðar gefnir út á alla leikhúsgesti í samræmi við sóttvarnarreglur

    Nú þegar hafa 20 þúsund manns keypt miða á Kardemommubæinn og uppselt er á sýninguna út árið 2020. Þjóðleikhúsið leggur allt kapp á að standa fyrir ábyrgu sýningahaldi og tekur öryggismál og sóttvarnir alvarlega. Eftir óvissu undanfarinna mánaða hefur verið tekin ákvörðun um að fjölga sýningum á Kardemommubænum og endurraða gestum í sæti með færri í hverjum sal en venja er. Er þetta gert til þess að mæta samkomutakmörkunum og tilmælum frá sóttvarnaryfirvöldum. Allir keyptir miðar eru tryggir en núverandi miðar falla úr gildi og gefnir verða út nýir miðar og sendir miðaeigendum. Nýir miðar á nýjar dagsetningar og önnur sæti verða sendir miðaeigendum í tölvupósti á næstu vikum. Það þarf enginn að óttast að miðar glatist. Gera má ráð fyrir að allir hafi fengið nýja miða með tölvupósti í síðasta lagi 15. október.

    Nýjar sýningar í janúar eru nú þegar komnar í sölu.

    Dagbók Önnu Frank snýr aftur

    sep 28, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Freyvangsleikhúsið frumsýndi nýja leikgerð á Dagbók Önnu Frank í febrúar á þessu ári en þurfti að hætta sýningum vegna samkomubanns í Covid-19 faraldrinum. Leikfélagið er þó ekki tilbúið að kveðja verkið og býður því upp á nokkrar sýningar á nýju leikári. Verkið verður eingöngu sýnt í október.
    Jafnframt mun félagið fylgja settum reglum og gildandi takmörkunum varðandi samkomuhald og því er aðeins takmarkaður sætafjöldi í boði fyrir hverja sýningu.

    Miðapantanir eru í síma 857-5598 og á tix.is.

    Sýning Freyvangsleikhússins er ný leikgerð og þýðing sem hefur ekki verið sett upp áður hér á landi. Þessi nýja leikgerð inniheldur kafla sem voru ekki birtir í fyrstu útgáfu bókarinnar, Dagbók Önnu Frank, sem verkið er byggt á. Gefa þessir kaflar nánari innsýn inn í hugarheim stúlkunnar. Leikstjóri er Sigurður Líndal og þýðandi er Ingunn Snædal.
    Dagbók Önnu Frank er tvímælalaust eitt mikilvægasta bókmenntaverk tuttugustu aldarinnar. Þegar nasistar náðu völdum í Evrópu varð fjöldi gyðingafjölskyldna að yfirgefa heimaland sitt. Þau sem ekki fóru úr landi urðu að fela sig. Þau sem ekki földu sig enduðu í útrýmingarbúðum þar sem þau voru myrt á eins skilvirkan hátt og hægt var. Þessi voðaverk eiga fáa sína líka í mannkynssögunni. En úr þessum jarðvegi, þessu þjóðarmorði, sprettur ein magnaðasta saga sem sögð hefur verið úr nokkru stríði; saga Önnu.
    Fyrsta leikgerðin er eftir Albert Hackett og Frances Goodrich, kom út skömmu eftir að Dagbókin sjálf var gefin út og hefur verið leikin um heim allan síðan. Fyrir nokkrum árum var leikskáldið Wendy Kesselman fengin til að uppfæra leikgerð Hackett og Goodrich og var tilnefnd til Tony-verðlaunanna fyrir verkið
    Á tíunda áratugnum var Dagbókin sjálf endurútgefin, um þrjátíu prósentum lengri en hún var í upphaflegu útgáfunni sem ritstýrt var af Ottó Frank og útgefendum bókarinnar. Efnið sem upphaflega fékk ekki að vera með í útgáfu dagbókarinnar snerist fyrst og fremst um uppgötvun Önnu á sjálfri sér sem kynveru og um neikvæðar tilfinningar hennar í garð móður sinnar.

    Lalli og töframaðurinn í Tjarnarbíó

    sep 26, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Lalli hefur starfað í leikhúsinu um árabil en einn daginn verður honum á í messunni þegar hann mætir klukkutíma of seint í vinnuna. Áhorfendur eru allir mættir en hann á enn eftir að undirbúa sviðið fyrir töfrasýningu dagsins. Leikhúsgestir fá því ekki bara að upplifa töfrasýningu heldur fá þeir einnig að skyggnast á bakvið tjöldin við uppsetningu á töfrasýningu Lalla Töframanns og upplifa alla þá leikhústöfra og þær uppákomur sem eiga sér stað í því ferli.

    Lalli og töframaðurinn er fræðandi, töfrandi og um fram allt skemmtileg fjölskyldusýning sem veitir einstaka innsýn í leyndarmál og töfra leikhússins.

    Mamma klikk er mætt aftur!

    sep 25, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Mamma klikk er ein mest verðlaunaða barnabók síðari tíma.
    Sýningin um Mömmu Klikk sló svo sannarlega í gegn á síðasta leikári og þurfti eins og mörgum öðrum sýningum að fresta vegna covid en er nú snúin aftur á svið Gaflaraleikhússins.

    MAMMA KLIKK fjallar um hina 12 ára gömlu Stellu sem á alveg snarklikkaða mömmu sem er óperusöngkona og er endalaust að koma Stellu í vandræðalegar aðstæður. Eftir sérstaklega vandræðalega uppákomu ákveður Stella að nú sé nóg komið og setur í gang plan til að gera mömmu sína venjulega. Á ýmsu gengur og margir koma við sögu eins og bræður hennar, þeir Siggi og Palli, pabbi hennar prófessorinn, Hanni granni og auðvitað Amma snobb.

    Gunnar Helgason fékk Íslensku Bókmenntaverðlaunin árið 2015 fyrir Mömmu klikk auk þess sem hún fékk Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, Bókaverðlaun barnanna og var tilnefnd til Vestnorrænu Bókmenntaverðlaunanna. Hún hefur komið út í þremur löndum utan Íslands og sigurganga hennar er rétt að hefjast.

    Leikgerðin er unnin af Björk Jakobsdóttur sem jafnframt er leikstjóri. Stígur Steinþórsson gerir leikmynd, Freyr Vilhjálmsson hannar ljós og Hallur Ingólfsson sér um tónlistina. Söng- og leikdívan Valgerður Guðnadóttur er í hlutverki Mömmu klikk og Gríma Valsdóttur, sem sló í gegn í kvikmyndinni Svaninum, leikur aðalhlutverkið, hana Stellu. Meðal annara leikara eru gleðipinnarnir Gunni og Felix (já, Gunni leikur sjálfur í verkinu), hin fjölhæfa og skemmtilega Þórunn Lárusdóttir og Ásgrímur Gunnarsson sem kemur ferskur úr leiklistarnámi frá London auk frábærs hóps barna og unglinga.

    MAMMA KLIKK! er frábær fjölskyldusýning sem skartar stórskemmtilegri sögu Gunnars Helgasonar, afar hæfileikaríkum leikhópi og leikstjóra, dillandi skemmtilegri tónlist og síðast en ekki síst endalausri gleði og kærleika.

    Kardemommubærinn loksins kominn á svið

    sep 25, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Kardemommubærinn hefur loksins verið frumsýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins

    Meira en ár er frá því að undirbúningur hófst en tvisvar var frumsýningu frestað vegna covid faraldursins. Kardemommubærinn er ástsælasta barnaleikrit Íslandssögunnar. Ágústa Skúladóttir er leikstjóri verksins en fjórum sinnum hafa sýningar undir hennar stjórn hlotið Grímuverðlaun sem barnasýningar ársins. 

    Kardemommubær er yndislegur bær, fullur af skemmtilegum dýrum og litríkum íbúum. Þrennt ógnar þó friðsældinni í bænum, þrír kostulegir ræningjar, ógurlega ljónið þeirra sem elskar mjólkursúkkulaði og hin ráðríka og skapstygga Soffía frænka! Þegar ræningjarnir fá þá hugdettu að ræna sjálfri Soffíu frænku til að sjá um húsverkin fyrir sig færist heldur betur fjör í leikinn.

    Fjöldi leikara, barna og tónlistarmanna tekur þátt í þessari bráðskemmtilegu og kraftmiklu sýningu á ástsælasta barnaleikriti íslenskrar leikhússögu, þar sem yndislegu sönglögin hans Egners gleðja jafnt unga sem aldna!

    Kardemommubærinn var fyrst sýndur í Þjóðleikhúsinu árið 1960 og er nú settur á svið í sjötta sinn. Hver kynslóð verður að fá að kynnast töfraheimi Thorbjörns Egner!

    Þjóðleikhúsið og Thorbjörn Egner tengjast sérstökum böndum. Verk hans hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins í um sex áratugi, eða allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Egner gerði leikmynd og búninga þegar Kardemommubærinn , Dýrin í Hálsaskógi og Síglaðir söngvarar voru fyrst sýnd hér í Þjóðleikhúsinu. Egner kom einnig til landsins árið 1965 þegar frumuppfærslan var tekin til sýninga að nýju. Egner var mjög ánægður með sýninguna og svo vænt þótti honum um viðtökur verka sinna á Íslandi að hann gaf Þjóðleikhúsinu höfundarréttartekjur af þeim í hundrað ár. Þær tekjur hafa verið nýttar til að efla leikhúsmenningu fyrir börn á Íslandi.

    Loksins er komið að frumsýningu á Kópavogskróniku

    sep 21, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    • Verkið sem átti frumsýna 14. mars slegið af vegna samkomubanns 
    • Silja Hauksdóttir kvikmyndaleikstjóri þreytir frumraun sína í leikhúsi
    • Ilmur Kristjánsdóttir hreifst af bókinni og varð að láta verkið lifna við
    • Tónlistarmaðurinn Auður semur tónlistina í sýningunni 

    Daginn sem leikritið Kópavogskrónika var fullæft og leikarar, tæknifólk og listrænir stjórnendur voru að gera sig klár fyrir lokaæfingu var sett á samkombann á Íslandi. Nú, ríflega hálfu ári síðar, er loksins komið að frumsýningu. Kópavogskrónika byggir á samnefndri bók Kamillu Einarsdóttur sem sló í gegn árið 2018. Ilmur Kristjánsdóttir leikur aðalhlutverk og leikstjóri er Silja Hauksdóttir en Kópavogskrónika er fyrsta leikstjóraverkefni hennar á sviði. Silja hlaut mikið lof fyrir kvikmynd sína Agnes Joy sem frumsýnd var á síðasta ári. Hinn vinsæli tónlistarmaður Auður semur tónlistina í sýningunni. 

    Kópavogskrónika fjallar um unga, einstæða móður sem í kjölfar ástarsorgar dvelst langdvölum í Kópavogi, – bæ sem sagt er að sé slys og hefði aldrei átt að verða til! Ilmur Kristjánsdóttir og Silja Hauksdóttir skapa ögrandi og skemmtilega leiksýningu upp úr skáldsögu Kamillu Einarsdóttur, sem vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2018. 

    Kópavogskrónika er hispurslaus ástarsaga úr samtímanum en jafnframt opinskátt verk um samband móður og dóttur. Móðir talar til dóttur sinnar, gerir upp fortíðina og dregur ekkert undan í lýsingum á hömluleysi í drykkju, neyslu og samskiptum við karlmenn. Frásögnin er í senn kjaftfor, hjartaskerandi, kaldhæðin, fyndin og frelsandi. 

    “Fæst börn eru sérstaklega stolt yfir ríðiafrekum mæðra sinna. Ég get alveg skilið það. En elsku stelpa, þú verður nú að viðurkenna að listinn yfir bólfélaga mína er frekar tilkomumikill.” Skáldsagan hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina, verðlaun sem lestrarfélagið Krummi veitir fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins í íslenskum bókmenntum. 

    “Það eru alveg atriði sem passa en þetta er skáldskapur, ekki ævisaga. En ég á börn og hætti í menntaskóla til að vinna á strípibúllu, svona smáatriði sem passa. En þetta er ekki ég, og ekki mínar uppáferðir og fyllirí í þessari bók.“ Kamilla Einarsdóttir 

    „Óþægilega þægileg, sorglega fyndin, átakanlega ljúf og lygilega heiðarleg – svolítið vont-gott.“ Ilmur Kristjánsdóttir 

    Listafólk 
    Leikverk eftir Ilmi Kristjánsdóttur og Silju Hauksdóttur
    Byggt á skáldsögu eftir Kamillu Einarsdóttur
    Leikstjórn Silja Hauksdóttir 
    Leikmynd og búningar Sigríður Sunna Reynisdóttir
    Tónlist Auður 

    Leikarar: 
    Ilmur Kristjánsdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Þórey Birgisdóttir.

    Oleanna í Borgarleikhúsinu

    sep 17, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Borgarleikhúsið frumsýnir Oleönnu eft­ir banda­ríska leik­skáldið Dav­id Mamet

    Ung námskona kemur í viðtalstíma til háskólakennara síns. Kennarinn nýtur mikillar velgengni í starfi og einkalífi, er að kaupa sér hús og á von á fastráðningu.

    Það sem byrjar sem sjálfsögð hjálp við námið breytist í miskunnarlausa baráttu og óvænta atburðarás sem kollvarpar valdajafnvæginu á milli kennara og nemanda, karls og konu og lífi þeirra beggja í leiðinni.

    Beitt og meistaralega vel skrifað leikrit sem slær okkur út af laginu og spyr óvæginna spurninga. Á tímum þegar umræður og deilur um skilgreiningarvald og ólíkar orðræður hafa magnast er þetta leikrit Mamets um vald og sannleika ofureldfimt.

    Námskeið í ljósa- og hljóðhönnun hjá Þjóðleikhúsinu

    sep 12, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Þjóðleikhúsið stendur fyrir spennandi námskeiði um ljósa- og hljóðhönnun. Námskeiðið er ætlað ljósa og hljóðmönnum áhugaleikhúsa / félagsmiðstöðva og þeirra sem vinna með ljós/hljóð á öðrum vettvangi. Þáttakendur þurfa að hafa náð 16-17 ára aldri og hafa eitthvað fengist við ljósa eða hljóðvinnu áður. (ekki byrjendanámskeið). Námskeiðið fer fram í Þjóðleikhúsinu og leiðbeinendur eru tæknimenn Þjóðleikhússins. Skráning er til og með mið. 16. september.

    Nánari upplýsingar um námskeið

    Ljósanámskeið 
    Verkfærin / ljósin. Hverskonar ljós er maður að vinna með og hvernig notar maður þau. Ljósmagn, skerpa, vinklar, ofl. Litir og noktun þeirra: Hvaða hughrif þeir búa til ofl. varðandi litanoktum Noktun filtera. LED ljós / ekki LED ljós? Vinnuferlið: Á hverju byrjar maður? Grunnlýsing. Samstarf við listræna stjórnendur

    Hljóðnámskeið:
    Hvað er hljóð, hvernig ferðast það um rými og hvernig getur maður nýtt sér það í praktík? Uppstilling hljóðkerfa, uppmögnun og þráðlaust hljóð. (Þráðlausir hljóðnemar og in-ear) Hljóðvinnsla fyrir lifandi viðburði, Q-lab, hljóðeffektar, forritun mixera og samtenging tækja (show control). Hvert sækir maður innblástur og hvernig styður maður við verkið og eykur áhrif til áhorfenda. Samstarf við listræna stjórnendur.

    Dagskrá:

    Hljóðnámskeið:
    Fös 18. sept – Málarasalur – kl. 17.30 -19.00
    Lau 19. sept – Stóra svið – kl. 11.00 -14.00
    Sun 20. sept – Stóra svið – kl. 13-14.30

    Ljósanámskeið:
    Fös 18. sept – Málarasalur – kl. 20 – 21.30
    Lau 19. sept – Stóra svið – kl. 15 -18.00
    Sun 20. sept – Stóra svið – kl. 15 -16.30
    Skráningarfrestur rennur út miðv. 16 sept.

    Fyrstir koma, fyrstir fá!
    Þáttökugjald er 22.000 fyrir hvort námskeið.
    Skráning og nánari upplýsingar:
    bjorningi@leikhusid.is
    Björn Ingi Hilmarsson

    Beðið eftir Becket í borginni

    sep 7, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Kómedíuleikhúsið frumsýndi nýtt Beðið eftir Beckett vestur í Haukadal í ágúst og heldur nú suður til Höfuðborgarinnar, í Tjarnarbíó, með sýningar í September. Höfundur verksins og leikstjóri er Trausti Ólafsson en Elfar Logi Hannesson leikur aðalhlutverkið. Í þessu grátbroslega verki bíður Leikari nokkur eftir að írska leikskáldið Samuel Beckett skrifi verk fyrir sig. Leikarinn styttir sér stundir með því að máta sig við persónur úr eldri leikritum skáldsins og bregður fyrir sig ögn af Dante, Artaud og Hallgrími Péturssyni. Einsog í sönnum grískum harmleik á Leikarinn von á sendiboða guðanna. 

    Aðeins tvær sýningar í boði, 8. og 9. September. Miðasala á tix.is

    Stóraukið samstarf Þjóðleikhússins og Leikfélags Akureyrar

    sep 6, 2020   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    • Gestasýningar á milli leikhúsanna verða fastir árvissir viðburðir
    • Samstarf um uppsetningar sem sýndar verða á Akureyri og í Reykjavík
    • Aukið faglegt samstarfs á milli fagfólks meðal listamanna og tæknimanna

    Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri og Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, skrifuðu nýverið undir samkomulag um stóraukið samstarf menningarstofnananna tveggja. Samkomulagið kveður á um fjölgun gestasýninga, sameiginlegar uppsetningar og  miðlun þekkingar á milli starfsfólks .

    Þjóðleikhúsið og Leikfélag Akureyrar ætla á næstu árum að stórauka samstarf á milli stofnananna með það að markmiði að efla leiklist í landinu, stuðla að auknu flæði á milli landshluta, auka verðmætasköpun beggja stofnana, gera sýningar hvors leikhúss aðgengilegar stærri áhorfendahópi, miðla þekkingu og skapa fjölbreytni.

    Samkomulagið er fjórþætt. Leikhúsin munu sýna gestasýningar a.m.k. einu sinni á ári hvort hjá öðru. Í öðru lagi munu þau sameinast um að framleiða eina sýningu sem verður sett upp á báðum stöðum. Í þriðja lagi felur samkomulagið í sér möguleika á láni á búningum, leikmunum og tæknibúnaði á milli húsanna eftir því sem aðstæður leyfa. En síðast en ekki síst munu verða aukin tækifæri fyrir starfsfólk húsanna til að auka samvinnu sín á milli og miðla þekkingu, og lista- og tæknifólk mun í einhverjum tilfellum geta starfað við verkefni í báðum leikhúsum.

    Á leikárinu mun Þjóðleikhúsið sýna Upphaf eftir David Eldridge á Akureyri og stefnt er að sýningu á Vorið vaknar í uppsetningu LA á næsta ári. Þá munu leikhúsin vinna sameiginlega að uppsetningu á Krufning sjálfsmorðs eftir Alice Birch.

    „Þjóðleikhúsið er leikhús allra landsmanna og við stefnum að því að fjölga leikferðum um landið. Samhliða viljum við auka enn samstarf við Leikfélag Akureyrar og auka sýningarhald á Akureyri. Það er trú okkar að þetta samkomulag muni verða til þess að efla leiklist í landinu öllu og við viljum gjarnan styðja við starfsemi leikhúss á Akureyri. Með þessu samkomulagi er opnað fyrir aukið samstarf, sýningarhald og þekkingarmiðlun. Það er líka tilhlökkunarefni að geta boðið höfuðborgarbúum upp á vönduðustu sýningarnar frá Akureyri.  Þetta er mikið tilhlökkunarefni“ sagði Magnús Geir við þetta tækifæri.

    „Við á Akureyri erum afar spennt fyrir auknu samstarfi við Þjóðleikhúsið og sjáum í því mikil tækifæri bæði varðandi miðlun þekkingar og samvinnu og líka að þarna fáum við tækifæri til að stækka okkar markað og ná til fleiri áhorfenda. Samstarf þessara stofnanna eykur slagkraft og stuðlar að fjölbreytni“ segir Marta Nordal.

    Síður:12»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!