október | 2019 | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Archive from október, 2019

    Byrjendanámskeið í leiklist

    okt 30, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Leikfélag Hafnarfjarðar – Byrjendanámskeið í leiklist fyrir 18 ára og eldri
    Miðvikudaginn 6. nóvember hefst leiklistarnámskeið hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar fyrir fullorðna. Þetta námskeið er ætlað byrjendum í leiklist og er öllum opið sem eru félagar í Leikfélagi Hafnarfjarðar. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Gísli Björn Heimisson, Stefán H. Jóhannesson og Aðalsteinn Jóhannsson og á námskeiðinu verður leitast við að kynna fyrir nemendum hin ýmsu form leiklistar. Þetta er kvöld- og helgarnámskeið og er frá 6. – 17. nóvember.
    Skráning á námskeiðið er á netfang leikfélagsins: leikfelag@gmail.com, athugið að takmarkaður fjöldi er á námskeiðinu.
    Nánari upplýsingar hvernig gerast á félagi í LH.

    Eitur í Borgarleikhúsinu

    okt 30, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Hvað áttu eftir stærsta missi lífs þíns?

    Áfallið sem sprengdi hjónabandið eltir þau eins og skuggi. Hann fór til Frakklands og hóf nýtt líf. Hún var um kyrrt í húsinu þeirra og hefur reynt að aðlaga sig sorginni. Tíu árum eftir skilnað hittast þau aftur við óvæntar aðstæður. Fortíðin nagar og óuppgerðir hlutir líta dagsins ljós og sumum tilfinningum verður ekki lýst með orðum. Þau dansa á hárfínni línu afbrýðisemi, söknuðar, væntumþykju, biturðar og kraumandi ástríðna. Og í sameiningu þurfa þau nú að taka afdrifaríka ákvörðun.

    Hilmir Snær og Nína Dögg takast á við kyngimögnuð hlutverk í margverðlaunuðu leikriti um sorgina í ástinni í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Eitur er hollenskt leikrit sem hefur farið sigurför um heiminn undanfarinn áratug og verið þýtt á yfir tuttugu tungumál. Leikskáldið Lot Vekemans skrifar af óvenjulegri skarpskyggni um sameiginleg örlög tveggja einstaklinga sem gera úrslitatilraun til að sættast við fortíðina.

    Fló á skinni

    okt 29, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Leikfélag Keflavíkur setur upp sprenghlægilega farsann Fló á skinni.

    Fló á skinni er einn besti og eitraðasti farsi allra tíma eftir Georges Feydeau, en í ár fagnar hann 112 ára afmæli. Leikgerðin er eftir Gísla Rúnar Jónsson og er leikstjórn í höndum Karls Ágústs Úlfssonar.

    Fló á skinni er samansafn af framhjáhaldi, hótelsvítum og brjáluðum eltingarleik. Er Jóhannes að halda framhjá? Er Saga að halda framhjá? Er Miroslaw genginn af göflunum? Er Eiður með hárkollu? Og hver er þessi Klemens?

    Það kemur allt í ljós föstudaginn 25. október þegar leikfélagið frumsýnir þessa dásamlegu snilld.

    Leikfélag Keflavíkur hefur ekki svikið neinn áhorfanda síðustu misseri og er Fló á skinni alls engin undantekning. Hér er um að ræða magnaðan hóp áhugaleikara sem leggja allt í þessa frábæru leiksýningu og lofum við þér endalausri skemmtun.

    Blúndur og blásýra í Freyvangleikhúsinu

    okt 29, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Systurnar Abbý og Marta Brewster búa í ættarhúsinu ásamt bróðursyni sínum. Svarti sauðurinn í fjölskyldunni skýtur upp kollinum með miður göfug áform og fara þá myrk leyndarmál fjölskyldunnar að líta dagsins ljós.

    Sag­an er allsér­stök og hroll­vekj­andi en þar er fjallað um lækn­is­fræði, lýta­lækn­ing­ar, girnd­armorð og greftr­un­ar­sýki. Ótrú­legt en satt þá er leik­ritið hinn besti farsi um bæði elsku­leg­ar og hlý­leg­ar per­són­ur sem reynd­ar hafa brenglaða siðferðis­kennd. Þær systur leigja út her­bergi til ungra manna og hjálpa þeim gjarna yfir móðuna miklu ef þeim finnst þeir eiga eitt­hvað of bágt í líf­inu. Þannig hafa ófá lík­in verið graf­in í kjall­ara heim­il­is­ins.

    Atómstöðin – endurlit

    okt 29, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Eftir Halldór Laxness Halldórsson, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur, byggt á skáldsögu Halldórs Laxness  Leikstjórn Una Þorleifsdóttir. Frumsýnt 1. nóvember í Þjóðleikhúsinu.

    Nýtt og framsækið leikverk byggt á skáldsögu Nóbelskáldsins Halldórs Laxness

    Skáldsaga Nóbelskáldsins Halldórs Laxness Atómstöðin var afar umdeild þegar hún kom út árið 1948, enda fjallaði hún um mikið hitamál í íslensku samfélagi, herstöðvarmálið, sem snerist um „sölu landsins“ eða „þátttöku þjóðarinnar í vestrænu varnarsamstarfi“, eftir því hvar fólk skipaði sér í fylkingar. Verkið er þó ekki síður ástarsaga Uglu, bóndadóttur að norðan sem kemur til Reykjavíkur til að læra á orgel, og Búa Árlands, þingmanns og heildsala.

    Í þessari leiksýningu skoðar ný kynslóð leikhúslistafólks verkið í sögulegu samhengi og skapar krassandi og ögrandi sýningu, fulla af húmor.

    Halldór Laxness Halldórsson semur nýtt leikverk, í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, þar sem þau nálgast skáldsögu Halldórs Laxness á ferskan og óvæntan hátt. Brugðið er nýju ljósi á umrót eftirstríðsáranna þar sem þjóð í litlu landi, mitt á milli Washington og Moskvu, stóð frammi fyrir stórum spurningum um framtíð sína. Í brennidepli í verkinu eru þjóðernisvitund og sjálfsmynd, tengsl litlu eyþjóðarinnar við umheiminn og hin eilífu átök auðstéttar og alþýðu.

    Halldór Laxness Halldórsson hefur getið sér gott orð sem uppistandari, handritshöfundur og ljóðskáld, en skrifar nú í fyrsta sinn leikverk fyrir Þjóðleikhúsið.

    Boðið verður upp á 20 mín. umræður eftir 6. sýningu á Atómstöðinni fimmtudagskvöldið  21. nóvember.

    Opin Samlestur hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar

    okt 25, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Í vetur ætlar Leikfélag Hafnarfjarðar að bjóða upp á mánaðarlega leiklestra í Kapellunni.
    Föstudaginn 25. október verðuð boðið upp á verkið Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backman. Félagar í Leikfélagi Hafnarfjarðar munu leiklesa verkið og er húsið opið almenningi.

    Ef þig hefur langað að starfa með áhugaleikhúsi að þá er tilvalið að kíkja og hitta meðlimi LH og fræðast um starfið.

    Aðgangur er ókeypis.

    LUNCH í Tjarnarbíó

    okt 25, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    LUNCH / HÁDEGISVERÐUR er gjörningur í eðli sínu, sýning sem sköpuð var í samvinnu við 8 listamenn víðsvegar að úr hánorðri. Til samstarfsins var stofnað í litlu þorpi, Kaukonen í finnska Lapplandi, með tilraunakenndri, flatri aðferð sem leggur áherslu á mikilvægi fundarins.

    Sýningin varð til úr ljósunum, hljóðunum, hreyfingunni og auðvitað – matnum. Hún dregur innblástur sinn frá sköpunarstað og einnig þeim stað þar sem hún verður sýnd hverju sinni.

    Aðferðin byggir á því sem gerist þegar 8 mismunandi listamenn úr ýmsum listgreinum í hánorðri hittast í fyrsta skipti og hefja sköpun á nýju performansverki? Það er lagt á borð, boðið er upp á góðan mat, tungumál menningu. Þannig byrjaði þetta, með samtali og endurtekinni athöfn, hádegismaturinn varð gjörninga- og æfingarými. Reglur voru settar og hin ýmsu listform tengjast í sameiginlegum vefnaði póla á milli. Mannleg og líkamleg tenging með því að gefa, þjóna og deila við borðið. Svona hittumst við.

    Hér er að ferð frumgerð einskonar samkomustaðs fyrir listamenn í hánorðri til að deila list sinni, skiptast á sjónarhornum og vinnuaðferðum, enn fremur vettvangur til að vinna saman að því að skapa eitthvað nýtt.

    Listafólkið á bak við sýninguna eru Erlend Auestad Danielsen (NO), Sophie Fetokaki (CY), Anni-Kristiina Juuso (Sápmi), Mari Keski-Korsu (FIN), Emma Langmoen (NO), Júlía Mogensen (IS) Riikka Vuorenmaa (FIN) og Jacob Zimmer (CAN / WHITEHORSE).

    Listform þeirra spanna allt frá umhverfislist, gjörningum, innsetningum, dansi, leiklist, tónlist, hljóðlist, ljóðlist, dramatúrgíu, myndlist, náttúruaktífisma, ljósahönnun að sirkuslistum. Listamennirnir eiga það sameiginlegt að starfa eða búa í hánorðri, allt frá Lapplandi, Rússlandi, Norðurlöndum til Kanada.

    Hádegisverður er framreiddur á vegum Northern Network for Performing Arts. Í gegnum verkefnið styður netverkið við listastörf í hánorðri, eflir ný byggðatengsl innan sviðslista og byggir brýr milli listasamfélaga.

    Netverkið er samræmt af fjórum stofnunum sem hver leggur sitt af mörkum: Cycle listahátíð (IS), Nuuk Nordisk Kulturfestival (GL), RadArt – nettverk for fri scenekunst (NO) og Silence Festival / Hiljaisuus-festivaali (FIN). Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og Nordisk Kulturfond.

    Umbúðalaust – Kartöflur

    okt 24, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Frá gullauga til froðusnakks

    Kartaflan fjölgar sér með spírum í móðurlegg og er ófær um að tjá sig. Hún er stolt jarða sinna, hún er kölluð Keisari eða Blálandsdrottning, Premiere eða Eyvindur nú eða einfaldlega Helga, eftir ræktunarkonu sinni Helgu Gísladóttur frá Unnarsholtskoti í Hrunamannahreppi. Komin frá frönskum sjómönnum sem skildu eftir sig blátt kartöfluútsæði og brún augu austur á Berufirði. Fyrir norðan er hún rauð og harðger og vel fallin til suðu eða í salat. Sviðslistahópurinn CGFC leggur af stað í ferðalag með kartöfluna sem leiðarvísi í tilraunakenndu sviðsverki. Hvað gerist þegar hópurinn sendir óvæntan tölvupóst til Þykkvabæjar? Stuðluðu kartöflurnar í Bæjargili Akureyrar að sjálfstæði Íslands? Hvað er uppáhalds naslið þitt? 

    Höfundar verksins og flytjendur eru Ýr Jóhannsdóttir, Hallveig Kristín Eiríksdóttir, Halldór Eldjárn, Birnir Jón Sigurðsson og Arnar Geir Gústafsson

    Stórskáldið

    okt 22, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    „Sönn saga? Hvað er það? Sannleikurinn er róf!“

    Heimildamyndagerðarkonan Rakel er stödd í niðurníddum iðnaðarbæ, djúpt í Amazon-frumskóginum, ásamt Andra, tökumanni sínum og elskhuga. Þau eru að gera heimildamynd um föður Rakelar, sérvitra Nóbelskáldið Benedikt, sem er dauðvona. En feðginin hafa ekki hist í áratugi og geta ómögulega komið sér saman um hvernig Benedikt á að birtast í heimildamyndinni. Óuppgerð fjölskyldumál og framandi hitasótt blandast sjálfu höfundarverki Benedikts í draumkenndri og ærslafullri atburðarás þar sem áreiðanleiki heimsins fellur í sundur.

    Verkið er spennandi könnunarleiðangur um hinar mörgu hliðar sannleikans og þrá mannsins eftir því að skilja eitthvað eftir sig. Er hægt að gera hlutlausa heimildamynd? Er hægt að vita og miðla sannleikanum? Hvað þá sannleikanum um sjálfan sig?

    Björn Leó Brynjarsson er einn af mest spennandi höfundum ungu kynslóðarinnar. Hann var leikskáld Borgarleikhússins leikárið 2017/18 og Stórskáldið er afrakstur vinnu hans.

    Mamma Klikk í Gaflaraleikhúsinu

    okt 18, 2019   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Gunnar Helgason fékk Íslensku Bókmenntaverðlaunin árið 2015 fyrir Mömmu klikk auk þess sem hún fékk Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, Bókaverðlaun barnanna og var tilnefnd til Vestnorrænu Bókmenntaverðlaunanna. Hún hefur komið út í þremur löndum utan Íslands og sigurganga hennar er rétt að hefjast.

    MAMMA KLIKK fer á svið í Gaflaraleikhúsinu!
    Mamma klikk er ein mest verðlaunaða barnabók síðari tíma og nú fer þessi fáránlega skemmtilega saga á svið í Gaflaraleikhúsinu.
    MAMMA KLIKK fjallar um hina 12 ára gömlu Stellu sem á alveg snarklikkaða mömmu sem er óperusöngkona og er endalaust að koma Stellu í vandræðalegar aðstæður. Eftir sérstaklega vandræðalega uppákomu ákveður Stella að nú sé nóg komið og setur í gang plan til að gera mömmu sína venjulega. Á ýmsu gengur og margir koma við sögu eins og bræður hennar, þeir Siggi og Palli, pabbi hennar prófessorinn, Hanni granni og auðvitað Amma snobb.

    Leikgerðin er unnin af Björk Jakobsdóttur sem jafnframt er leikstjóri. Stígur Steinþórsson gerir leikmynd, Freyr Vilhjálmsson hannar ljós og Hallur Ingólfsson sér um tónlistina. Söng- og leikdívan Valgerður Guðnadóttur er í hlutverki Mömmu klikk og Gríma Valsdóttur, sem sló í gegn í kvikmyndinni Svaninum, leikur aðalhlutverkið, hana Stellu. Meðal annara leikara eru gleðipinnarnir Gunni og Felix (já, Gunni leikur sjálfur í verkinu), hin fjölhæfa og skemmtilega Þórunn Lárusdóttir og Ásgrímur Gunnarsson sem kemur ferskur úr leiklistarnámi frá London auk frábærs hóps barna og unglinga.

    MAMMA KLIKK! er frábær fjölskyldusýning sem skartar stórskemmtilegri sögu Gunnars Helgasonar, afar hæfileikaríkum leikhópi og leikstjóra, dillandi skemmtilegri tónlist og síðast en ekki síst endalausri gleði og kærleika.

    Síður:12»
    loading

    Takk fyrir að skrá þig!