Skammarþríhyrningurinn

Frá þeim sem færðu okkur stórverkið Góðan daginn faggi, kynnir Stertabenda Skammarþríhyrninginn – óþægilegasta en jafnframt fyndnasta verk ársins.
„Hinsegin fólk er bara brand, ekki manneskja. Eins og Coca Cola. Við myndum aldrei segja að Coca Cola ætti að hafa tjáningarfrelsi.“
Woke er dautt og pólitískur réttrúnaður heyrir sögunni til. Skammarþríhryrningurinn, sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu 4. október, er nýtt verk eftir leikhópinn Stertabendu. Verkið gerist við opnun sögusafns í fjarlægri framtíð þar sem við fylgjumst með hópi sérfræðinga reyna að púsla saman mynd af mannréttindaparadísinni sem eitt sinn var á Íslandi. Verkefni þeirra er afar flókið því bækurnar hafa allar verið brenndar, heimildirnar eru horfnar og mannlegur fjölbreytileiki utan strangrar tvíhyggju hefur verið bannaður og ritskoðaður úr sögunni. Þau reyna þó eftir bestu getu að svara aðkallandi spurningum: Hvað í ósköpunum var Pride? Hvers konar te drukku svokallaðar dragdrottningar? Hvar fór innræting barna fram? Hver var þessi Hán?
Skammarþríhyrningurinn sýnir heiminn sem er handan bakslagsins, heim án hinseginleikans, þar sem hann er framandi hugmynd sem tilheyrir fortíðinni. Við skrif á verkinu lagðist leikhópurinn m.a. í djúpa rannsóknarvinnu á umræðum og orðræðu um mannréttindi trans fólks og hinsegins samfélagsins. Sumar senur verksins eru hreinlega orðréttar upp úr athugasemdum á samfélagsmiðlum og viðtölum síðustu mánaða. Leikhópurinn Stertabenda hefur sérhæft sig í að sviðsetja hinsegin fagurfræði þar sem húmor og leikur ráða för í vægðarlausri krufningu á samtímanum. Forsprakkar hópsins, þau Gréta Kristín Ómarsdóttir og Bjarni Snæbjörnsson, hafa sérhæft sig í listrænum verkefnum sem auka sýnileika hinsegin fólks, spyrja krefjandi spurninga og stuðla að umræðu og fræðslu um málefni hinsegin fólks. Síðasta sýning hópsins, Góðan daginn faggi, var sýnd í tvö ár og vakti mikla athygli fyrir afhjúpandi innsýn inn í hinseginleikann.
Aðstandendur:
Höfundur: Leikhópurinn Stertabenda Leikstjóri: Gréta Kristín Ómarsdóttir Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger Dramatúrg: Egill Andrason Tónlist: Axel Ingi Árnason í samstarfi við Egil Andrason Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson Dans- og sviðshreyfingar: Cameron Corbett Leikgervi: Ray Milano Leikarar: Árni Pétur Guðjónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Embla Guðrúnar-Ágústsdóttir, Fannar Arnarsson, Kristrún Kolbrúnardóttir og Sindri Sparkle. Framleiðendur: Davíð Freyr Þórunnarson og Ragnheiður Maísól Sturludóttir




