Nýtt fjölbreytt leikár Þjóðleikhússins afhjúpað | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Nýtt fjölbreytt leikár Þjóðleikhússins afhjúpað

    74. leikár Þjóðleikhússins er hafið.

    Leikhúsveturinn verður fjölbreytt og spennandi blanda af sprúðlandi stórsýningum, íslenskum og erlendum kraftmiklum verkum og kynngi mögnuðum sýningum þar sem nándin við list leikarans verður allsráðandi. Heimsfrumsýningar, ný íslensk barnaverk, danssýningar, söngleikir og áleitnir einleikir. Nýtt og endurnýjað gestarými í Kassanum mun  mæta áhorfendum í haust og Kjallarinn festir sig enn betur í sessi sem klassabúlla.

    Stóra sviðið – söngleikir fyrir alla fjölskylduna, heimsfrumsýning á þríleik eftir eitt fremsta leikskáld samtímans, glænýtt íslenskt verk og verðlaunaverk síðasta árs

    Sem á himni er splunkunýr söngleikur sem leikur á allan tilfinningaskalann. Ægifögur tónlist, litríkar og skemmtilegar persónur og hrífandi saga hafa nú þegar heillað fjölda áhorfenda erlendis, og nýjar uppsetningar á verkinu eru væntanlegar víða. (Frumsýnt 16. september). Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir verkinu,  Jón Ólafsson er tónlistarstjóri, í helstu hlutverkum er einvala hópur leikara og söngvara og í gryfjunni er 13 manna hljómsveit.

    Þjóðleikhúsið stendur fyrir stórviðburði í íslensku leikhúslífi á Stóra sviðinu – heimsfrumsýningu á glænýjum þríleik eftir Marius von Mayenburg, sem talinn er eitt merkasta núlifandi leikskáld Evrópu. Hinn heimsþekkti leikstjóri Benedict Andrews leikstýrir tveimur verkanna, Ellen B. og Ex, á leikárinu 2022-23 og Marius von Mayenburg mun sjálfur leikstýra því þriðja, Alveg sama, haustið 2023. Nina Wetzel hannar leikmynd og búninga fyrir sýningarnar en hún er meðal eftirsóttustu leikhúshönnuða Evrópu og er m.a. einn helsti samverkamaður leikstjórans Thomasar Ostermeier.  Það er mikill fengur fyrir íslenska leikhúsgesti og listafólk að fá þetta virta leikhúslistafólk hingað til starfa. Leikritin eru afburðavel skrifuð og fjalla um ástina og valdið í samtímanum, nútímafólk og nándina, af nístandi hreinskilni og kolsvörtum húmor. Bitastæð hlutverkin eru öll í höndum stórleikara. Ellen B. verður frumsýnt 26. desember og Ex í lok janúar.

    Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason er glæný fjölskyldusýning sem byggir á geysivinsælli bók. Þar er á ferð æsispennandi þroskasaga, með litskrúðugum og skemmtilegum persónum, þar sem tekist er á við margt sem skiptir okkur svo miklu máli í dag! Frábær ný tónlist eftir Þorvald Bjarna, Stefán Jónsson leikstýrir og fjöldi leikara og dansara og hljómsveit taka þátt í sýningunni. (Frumsýnt í mars 2023).

    Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason fer á svið í Þjóðleikhúsinu í vetur

    Til hamingju með að vera mannleg er nýtt íslenskt verk byggt á ljóðabók Sigríðar Soffíu Níelsdóttur sem hún skrifaði þegar hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. Verkið fjallar um þrautseigju, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri. Ljóðin eru gædd lífi á sviðinu og hughrifin sem textarnir vekja túlkuð af hópi sjö kvenna með leik, upplestri, dansi, gríni og söng.  Sannkallaður lofsöngur til lífsins. Verðlaunasýningar halda áfram.  Sjö ævintýri um skömm, eftir Tyrfing Tyrfingsson, sópaði til sín Grímuverðlaunum síðasta vor, m.a. sem leikrit ársins. Sýningar halda áfram á Stóra sviðinu í október.  Vertu úlfur, sigurvegari Grímuhátíðarinnar 2021, hefur nú sitt þriðja leikár og verður sýnd í 100. sinn í haust. Sýningar hefjast að nýju í september.

    Kassinn – þrjú íslensk verk, drepfyndinn Shakespeare í nýjum fötum og Jólaboðið

    Nokkur augnablik um nótt er glænýtt, kraftmikið verk eftir Adolf Smára Unnarsson en hann hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem rithöfundur, leikskáld og leikstjóri; hlaut meðal annars þrjár Grímutilnefningar árið 2021 fyrir óperuna Ekkert er sorglegra en manneskjan. Leikstjóri er Ólafur Egill Egilsson. (Frumsýnt 7. október í Kassanum). Þetta glænýja, kraftmikla verk er í senn vægðarlaus samtímaspegill og bráðfyndin en ógnvekjandi svipmynd af þeim sem eiga og þeim sem vilja, þeim sem sýnast og þeim sem eru. Þetta erum við – og þau.

    Hvað sem þið viljið er Shakespeare í splunkunýjum búningi, þar sem möguleikar leikhússins eru nýttir á frjóan og ævintýralegan hátt og list leikarans er í forgrunni. Verkið er byggt á skemmtilegasta gamanleik Shakespeares, As you like it en Karl Ágúst Úlfsson hefur endurort texta skáldsins á léttleikandi nútímamáli í nýrri leikgerð.  Ágústa Skúladóttir leikstjóri er þekkt fyrir fjörugar, litríkar og heillandi sýningar. Í helstu hlutverkum eru margir fremstu gamanleikarar  og tónlistarmenn landsins. (Frumsýnt í janúar í Kassanum).

    Jólaboðið er bráðfyndin, hlýleg og óvenjuleg sýning sem heillaði áhorfendur á aðventunni í fyrra! Við fylgjumst við með sögu íslenskrar fjölskyldu í leikandi sviðsetningu, eins og Gísla Erni Garðarssyni er einum lagið. Við gægjumst inn í stofu á aðfangadagskvöld, reglulega, á einnar aldar tímabili! (Sýningar hefjast í nóvember).

    Jóðboðið sló í gegn á síðasta leik´ári

    Leiksýningin Prinsinn var frumsýnd í Frystiklefanum á Rifi í apríl og hélt síðan í leikferð um landið. Nú er komið að sýningum í Þjóðleikhúsinu sjálfu. Hjartnæmt og fyndið nýtt íslenskt leikrit, byggt á sönnum atburðum, sem talar beint til okkar. María Reyndal leikstýrir verki sem hún skrifaði ásamt Kára Viðarssyni.

    Litla sviðið – tvær nýjar íslenskar barnasýningar og tvö áleitin ný verk fyrir fullorðna

    Umskiptingur er ævintýralega skemmtilegt barnaleikrit eftir einn af okkar ástsælustu höfundum, sem gerði mikla lukku á liðnu leikári! Umskiptingur hlaut tilnefningar til Grímunnar og Sagna á verðlaunahátíð barnanna sem barnasýning ársins. Sýningar hefjast strax í ágúst á Litla sviðinu. Höfundur: Sigrún Eldjárn, ný tónlist: Ragnhildur Gísladóttir, leikstjórn: Sara Martí Guðmundsdóttir.

    Sýningar á hugljúfu jólasögunni um Láru og Ljónsa seldust upp á augabragði í fyrra, enda njóta bækur Birgittu Haukdal um vinina góðu ómældra vinsælda hjá íslenskum börnum. Leikverkið hentar vel yngstu áhorfendunum og er tilvalin skemmtun í aðdraganda jólanna. Birgitta Haukdal samdi ný lög fyrir leiksýninguna en leikstjórn og handrit er eftir Góa.  Sýningar hefjast í nóvember á Litla sviðinu.

    Lára og Ljónsi snúa aftur

    Eyja er nýtt íslenskt leikrit um ólíka menningarheima undir einu þaki, þrána eftir því að brjóta múra, að tilheyra og mynda tengsl. Sviðslistahópurinn O.N., sem samanstendur af heyrnarlausu og heyrandi listafólki, setur upp tvítyngdar sýningar, jafn aðgengilegar fyrir þá sem hafa íslenskt raddmál og íslenskt táknmál að móðurmáli. Eyja er fyrsta leiksýning sinnar tegundar sem sýnd er í Þjóðleikhúsinu. Frumsýnt í nóvember í Kassanum. Leikstjórn: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir.

    Íslandsklukkan birtist hér í áleitinni sviðsetningu sem Þjóðleikhúsið hefur þróað á síðustu tveimur árum með leikhópnum Elefant sem samanstendur af ungum íslenskum leikurum af blönduðum uppruna. Í gegnum skapandi vinnu með Íslandsklukkuna rannsaka þau stöðu sína í samfélaginu út frá Íslandssögunni, þjóðararfinum og menningarlegum uppruna sínum, í samvinnu við Þorleif Örn Arnarsson leikstjóra.

    Kjallarinn festir sig í sessi sem „klassabúlla“

    Kjallarinn birtist í nýjum búningi og með nýjum áherslum í fyrra og óhætt er að segja að þessi klassabúlla hafi vakið lukku. Sama stefna er áfram við lýði þar sem uppistand, kabarettar, drag-sýningar, sketsasýningar, hádegisleikhús og fleira gleður leikhúsgesti. 

    Kjallarinn mun breytast í kabarettklúbb á föstudagskvöldum í vetur. Ýmsir hópar taka yfir sviðið og leika á als oddi: Dömur og herrar, Reykjavík Kabarett, Coney Iceland, Sóðabrók og fleiri. Gógó Starr leiðir dragsýningar og Margrét Erla Maack býður upp á kabaretthlaðborð.  Þá mun okkar færasta draglistafólk í Drag-Súg syngja sinn Svanasöng nú í haust.  Kórinn Viðlag mun standa fyrir reglulegum tónleikum á þriðjudagskvöldum í allan vetur.

    Fullorðin er sprenghlægilegur gamanleikur um það hlutskipti að verða fullorðin og misheppnaðar tilraunir okkar til að sannfæra aðra um að við séum það. Sýningin gekk fyrir fullu húsi á Akureyri síðasta vetur. Improv Ísland hefur kitlað hláturtaugar áhorfenda í Kjallaranum um árabil og stór hluti áhorfenda kemur aftur og aftur, enda er engin sýning eins. Jakob Birgis fer með gamanmál á skotheldri kvöldstund í Kjallaranum. Leikhópurinn Kanarí vinnur glænýja og bráðfyndna sketsasýningu í Kjallaranum á vormisseri. Á síðasta ári frumflutti Sviðslistahópurinn Óður Ástardrykkinn – gamanóperu á íslensku í Þjóðleikhúskjallaranum við frábærar undirtektir. Nú snýr hópurinn aftur með Don Pasquale, í nýrri íslenskri þýðingu og með húmorinn að vopni. 

    Góðan daginn, faggi sló sannarlega í gegn í Kjallaranum á liðnu leikári, með yfir 40 uppseldum sýningum, einróma lofi gagnrýnenda og Grímutilnefningum. Sýningar halda áfram í Kjallaranum og auk þess fer sýningin í leikferð um landið þar sem verður bæði boðið upp á sýningar fyrir almenning og einnig verða sérstakar boðssýningar fyrir elstu bekki grunnskóla og yngstu bekki framhaldsskóla.

    Sýninginn Góðan daginn faggi hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda

    Hádegisleikhúsið í endurnýjuðum Leikhúskjallara vakti mikla ánægju leikhúsgesta á síðasta leikári og við höldum ótrauð áfram að bjóða upp á ný íslensk verk í hádeginu. Í Hádegisleikhúsinu sjá gestir leiksýningu yfir léttum og ljúffengum hádegismat.

    Erlent samstarf og leikhús í stórmarkaði

    Þjóðleikhúsið hefur stóraukið erlent samstarf með komu framúrskarandi erlendra listamanna til landsins og með gestasýningum og erlendum samstarfsverkefnum

    Complicité
    Fyrr á árinu var tilkynnt um viðamikið samstarf við Complicité, einn virtasta leikhóp heims á síðustu áratugum.  Complicité þróar nú í samstarfi við Þjóðleikhúsið og nokkur önnur virt evrópsk leikhús glænýja sýningu sem byggð er á magnaðri skáldsögu eftir pólska Nóbelsverðlaunahafann Olgu Tokarczuk, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu. Sýningin verður frumsýnd í Bretlandi í janúar 2023 en sýnd í Þjóðleikhúsinu í september sama ár eftir leikferð í mörg fremstu leikhús Evrópu.

    Gestaleikur frá Póllandi
    Samstarfsleikhús Þjóðleikhússins í Póllandi, Stefan Żeromski leikhúsið, færir okkur eina af sínum rómuðustu leiksýningum, Splendor in the Grass í gestaleik sem sýndur verður í júní 2023. Gestaleikurinn er hluti af viðamiklu listrænu samstarfi Þjóðleikhússins og Stefan Żeromski leikhússins í Kielce í Póllandi. Sýnt verður á pólsku, með enskum texta.

    Pussy Riot sýnir í Þjóðleikhúsinu
    Gjörningar Pussy Riot eru án efa einhver mikilvægustu pólitísku listaverk 21. aldarinnar. Ef einhverjir listamenn hafa gefið allt fyrir listina þá eru það þessir töffarar. Þungamiðjan í sýningunni er saga Möshu og lýsing hennar á helvítinu sem Rússland Pútins er. Glerhörð kvöldstund sem kýlir beint í magann og á sér í alvöru talað engan sinn líka.“

    Pussy Riot hafa gefið allt fyrir list sína

    Ragnar Kjartansson
    Þessi sýning Pussy Rioter sambland af tónleikum, gjörningalist og pólitískum viðburði. Sýningin var að hluta til æfð og þróuð í Þjóðleikhúsinu nú á vordögum rétt eftir að Masha Alyokhina forsprakki hópsins kom sér hingað undan klóm rússnesks óréttlætis. Sýningin er skipulögð í samhengi við fyrstu yfirlitssýningu Pussy Riot sem opnar í Kling & Bang í lok nóvember.

    Aspas er nýlegt verk eftir Gianina Cărbunariu í leikstjórn Guðrúnar S. Gísladóttur. Verkið verður sviðsett í stórmarkaði og aðgangur verður ókeypis. Mörkin milli flytjenda og áhorfenda, leikhúsgesta og neytenda verða óljós og útkoman er leikhús þar sem allt getur gerst!  Listrænn stjórnandi með Guðrúnu er Filippía I. Elísdóttir.

    Viðamikil önnur starfsemi, fræðslustarf og þróun

    Til viðbótar við hið fjölbreytta úrval leiksýninga stendur Þjóðleikhúsið fyrir viðamikilli annarri starfsemi. Fræðslu- og barnastarf Þjóðleikhússins er viðamikið en leikhúsið býður ólíkum skólahópum í heimsókn í leikhúsið og fer í skóla víða um land með sýningar og til að kynna töfraheim leikhússins. Jafnframt tekur leikhúsið þrátt í þróun kennsluefnis, stendur fyrir námskeiðahaldi, styður við áhugahreyfingu leikhúsfólks og stendur fyrir Þjóðleik í samstarfi við fjölda skóla, leikfélaga og landshlutasamtaka.  Þjóðleikhúsið stendur fyrir námskeiðum og umræðum eftir sýningar, á eigin vegum og í samstarfi við aðra. Fjölbreytt samstarf við Endurmenntun HÍ hefur skilað áhugaverðum námskeiðum sem njóta vinsælda. Þjóðleikhúsið stendur að viðburðum í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í tengslum við 400 ára afmæli Molières.  Þjóðleikhúsið stendur fyrir markvissri þróun leikverka og vinnustofa þar sem hugmyndir eru þróaðar.

    Græn stefna Þjóðleikhússins

    Þjóðleikhúsið leggur áherslu á umhverfisvernd og loftslagsmál í starfsemi sinni og hefur markað sér græna stefnu sem felst í því að minnka kolefnisspor leikhússins. Af þeim sökum er Þjóðleikhúsblaðið nú prentað í mun minna upplagi en áður á sama tíma og tryggt er að allir áhugasamir geti fengið blaðið á því formi sem þeir kjósa. Á leikhusid.is er hægt að óska eftir að fá blaðið sent rafrænt eða í pósti. Jafnframt er öll prentun okkar með umhverfisvænum hætti og Svansvottuð.



    loading

    Takk fyrir að skrá þig!