Galdrakarlinn í Oz

Ungir sem aldnir hafa um langa hríð látið heillast af frásögninni af stúlkunni Dóróteu sem, ásamt hundinum Tótó, hringsnýst fyrir tilviljun inn í ævintýralegt land Oz. Þar mætir hún ótrúlegum fyrirbærum: talandi fuglahræðum, fljúgandi öpum og galdranornum sem stjórna ríkjum. Einu leiðina heim finnur Dórótea með því að feta gula veginn að hinum dularfulla galdrakarli í Oz, þeim eina sem getur veitt henni hjálp. Ferðin reynist þó bæði erfið og hættuleg, en á leiðinni eignast hún óvænta félaga sem standa henni við hlið.
Sagan á rætur sínar að rekja til samnefndrar bókar Frank Baums og öðlaðist heimsfrægð með kvikmyndagerðinni frá árinu 1939, þar sem Judy Garland túlkaði Dóróteu. Síðan þá hafa fjölmargar sviðs- og kvikmyndaútgáfur litið dagsins ljós og vinsældir söngleiksins virðast óþrjótandi. Þar á tónlistin stóran þátt, með ódauðlegum lögum á borð við Somewhere Over the Rainbow og We’re Off to See the Wizard.
Leikstjórinn Þórunn Arna Kristjánsdóttir er leikhúsgestum vel kunn, enda hefur hún áður staðið að baki afar vinsælum barnasýningum á borð við Emil í Kattholti og Fíasól gefst aldrei upp. Í þessari uppfærslu leiðir hún glæsilegan hóp leikara og listrænna stjórnenda sem saman skapa bæði ógnir og töfra Oz-landsins í eftirminnilegri og áhrifaríkri sýningu.




