Eyja
Þrjú systkini koma saman við dánarbeð föður síns. Um leið og þau neyðast til að takast á við hina nýju stöðu reyna þau að gera upp gömul mál og berja í brestina sem komnir eru í fjölskyldutengslin. En það er hægara sagt en gert. Yngri bróðirinn Hrafn er heyrnarlaus, heyrandi tvíburasystir hans Ugla talar reiprennandi táknmál en það gera hvorki faðirinn né eldri bróðirinn Valdimar. Samband systkinanna við föður sinn er því gjörólíkt og viðbrögð þeirra nú þegar þau standa á þessum krossgötum ófyrirsjáanleg eftir því.
Og það er þá sem þau komast að dálitlu sem snýr lífi þeirra alveg á hvolf.
Áhrifamikið verk um tengsl og tengslaleysi, sorgarferli, samskipti og löngunina eftir því að öðlast hlutverk í lífi sinna nánustu.
O.N. sviðslistahópur, sem samanstendur af heyrnarlausu og heyrandi listafólki, setur upp tvítyngdar sýningar, jafn aðgengilegar fyrir þá sem hafa íslenska tungu og íslenskt táknmál að móðurmáli. Eyja er fyrsta leiksýning sinnar tegundar sem sýnd er í Þjóðleikhúsinu og brýtur þannig blað í sögu leikhússins.
Framleiðandi: MurMur Prodcutions – Kara Hergils
Sviðslistahópurinn O.N. í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið er styrkt af Menningarráðuneytinu úr Sviðslistasjóði, Launasjóði sviðslistafólks og Styrktarsjóði Bjargar Símonardóttur.