Tindátarnir marsera um landið
Í lok september frumsýndi Kómedíuleihúsið nýtt íslenskt barna- og fjölskylduleikverk, Tindátarnir. Leikurinn er byggður á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr með myndum eftir Nínu Tryggvadóttur. Kómedíuleikhúsið hefur allt frá upphafi haft að leiðarljósi að vinna með eigin sagnaarf að vestan. Steinn Steinarr hefur þar verið vinsæll til leikja og er þetta fjórði leikurinn sem unnin er uppúr hans magnaða sagnaarfi.
Strax að lokinni frumsýningu lagði Kómedíuleikhúsið í leikferð og er stefnan tekin á að fara hringinn. Þegar hafa Tindátarnir verið sýndir á Þingeyri, Flateyri, Patreksfirði og Bolungarvík. Nú skal marsera í norður og í þessari viku verða sýningar m.a. á Hvammstanga og Skagaströnd. Þegar líða tekur á næstu viku verða Tindátarnir mættir austur og verður sýning á Egilsstöðum laugardaginn 22. október. Miðasla á þá sýningu er hafin á tix.is Áfram verður svo marserað um austurland og svo loks til borgarinnar.
Langflestar sýningar á Tindátunum verða í skólum og er það vel því þá hafa allir jafnan aðgang að leikhúsinu. Einnig verða sýningar fyrir íbúa á dvalarheimilum m.a. í Mosfellsbæ. Loks má geta þess að Tindátarnir verða á fjölunum í Gaflaraleikhúsinu laugardagana 12. og 19. nóvember. Miðasala fer fram á tix.is og í leikhúsinu sjálfu.
Tindátarnir er barna- og fjölskyldu leikverk með mikilvægt erindi. Umfjöllunarefnið er sannlega eldfimt, nefnilega stríð með öllum sínum hörmungum og leiðu afleiðingum. Að viðbættum beittum einræðistilburðum sem sérlega auðvelt er að missa tökin á einsog verður reyndar reyndin. Leikurinn er settur upp sem skuggabrúðuleikhús sem er um margt lítt notað leikhúsform hér á landi. Leikstjóri er Þór Túlinius, leikari er Elfar Logi Hannesson og brúðumeistari er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Eru þau einnig höfundar leiksins. Soffía Björg Óðinsdóttir semur tónlist og hljóðmynd, Þ. Sunnefa Elfarsdóttir annast búningahönnun, Kristján Gunnarsson leikmyndahönnun og ljósameistari er Sigurvald Ívar Helgason.