Guðrún vaknar í kistu í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla athöfnina. Kolsvartur tragískur gamanleikur um meðvirkni. Guðrúnarkviða er klukkutíma einleikur eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur sem einnig leikur öll hlutverk í sýningunni. Allir sem eiga eftir að deyja ættu að geta fundið eitthvað til að tengja við í Gaflaraleikhúsinu 31. mars og 1. apríl kl. 20.00. Verkið var upphaflega leikstýrt af Hildi Kristínu Thorstensen og er enduruppsett með aðstoð Bjarkar Jakobsdóttur.
Leikfélag Hofsóss frumsýnir Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson í Höfðaborg á Hofsósi laugardaginn 25. mars kl. 20:30. Leikstjóri er María Sigurðardóttir.
Saumastofan er leikrit með söngvum sem frumsýnt var árið 1975, í tilefni kvennaársins. Leikritið er skrifað sem ádeila á þjóðfélagið á sínum tíma og er staða konunnar miðpunktur ádeilunnar. Verkið segir frá degi í lífi starfsfólks á saumastofu en ein kvennanna á afmæli og slá þær upp veislu í tilefni þess. Velt er upp ýmsum spurningum um stöðu konunnar, svo sem launamismun kynjanna, feðraveldið, þriðju vaktina og annað sem enn er í brennidepli. Þannig á verkið, þrátt fyrir að það sé ekki alveg nýtt af nálinni, vel við enn í dag og hefur það ratað reglulega á fjalirnar hjá áhugaleikfélögum landsins. En þrátt fyrir að undirtónninn sé alvarlegur er ávallt stutt í gamanið svo heimsókn í Höfðaborg ætti að geta orðið hin besta skemmtun.
Sýningar verða sem hér segir: Frumsýning – laugardag 25. mars kl. 20:30 2. sýning – sunnudag 26. mars kl. 20:30 3. sýning – þriðjudag 28. mars kl. 20:30 4. sýning – laugardag 1. aprílkl. 20:30 5. sýning – mánudag 3. apríl kl. 20:30 6. sýning – fimmtudag 6. apríl, skírdag kl. 15:00 7. sýning – fimmtudag 6. apríl, skírdag kl. 22:00 8. sýning – laugardag 8. apríl kl. 20:30 Lokasýning – föstudag 14. apríl kl. 20:30
Miðaverð: Fullorðnir 3.500 kr. Ellilífeyrisþegar 3.000 kr. Börn 6-14 ára 2.500 kr. Miðapantanir eru í síma 834-6153
Ólafsdóttir er þekkt sem myndlistar- og gjörningalistakona en hér stígur
hún skref á ská í sýningu um rómantík. Rómantík er alls konar, hún getur verið
milli elskhuga, vina, með sjálfum manni, innan fjölskyldu eða með ókunnugum.
Rómantík sem tilfinning er sannkölluð joie de vivre, hún gerir lífið safaríkt og hjálpar okkur að njóta augnabliksins. Eða hvað? Neyslusamfélagið og dægurmenning hafa í áraraðir sagt okkur hvað við eigum að gera til að vera rómantísk, en hvað er rómantík í raun og veru? Í þessari sýningu verður gerð tilraun til að leiða áhorfendur í svokallað rómantískt skap á ferðalagi sínu um rýmið. Rómantík er partur af Umbúðalausu verkefni Borgarleikhússins þar sem markmiðið er að styrkja grasrótarstarf í íslensku sviðslistalífi og efla tengsl nýrra sviðshöfunda við áhorfendur .
Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir á sunnudaginn gamanleikinn Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backman. Leikstjóri er Skúli Gautason.
Fullorðin kona sest upp í Skódann sinn eftir að hafa farið í búið til að kaupa í matinn. Þá situr eldri maður í framsætinu sem er orðinn kaldur og aumur, veit ekki hvar hann er eða hver hann er. Konan tekur hann með sér heim og hlúir að honum, en brátt taka málin að flækjast. Konan, sem er ekkja og ósköp einmana, finnst ágætt að hafa einhvern til að hugsa um – en má þetta? Má hirða mann sem maður finnur úti á götu og láta engan vita?
Sýnt verður í félagsheimilinu Sævangi. Hægt er að panta súpu fyrir sýningar. Miðasölusíminn er 693 3474. Sýningardagar eru sunnudagurinn 26. mars kl.16, laugardaginn 1.apríl kl 20, sunnudaginn 2. apríl kl 20, skírdag kl 20 og lokasýning 8.apríl kl 20.
Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og sjötta sinn. Skólinn blómstar sem aldrei fyrr og við sjáum fram á mikla sköpun, metnað og gleði í sumar.
Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði. Árni Pétur Guðjónsson mun endurnýja kynni sín við skólann og kenna Leiklist II sem er framhald af Leiklist I sem Ólafur Ásgeirsson kenndi í fyrra. Einnig mætir Jenný Lára Arnórsdóttir til okkar aftur og kennir Leikstjórn III sem er þriðji áfangi í framhaldsseríu hennar og systur hennar Völu Fannell í leikstjórn sem hófst 2021. Við bjóðum svo velkominn í kennarahópinn í fyrsta sinn, Björn Inga Hilmarsson. Hann mun kenna sérnámskeið fyrir leikara undir heitinu Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri (Ex Uno Pluris).
Þá bjóðum við höfundum í heimsókn til að skerpa stílvopnið! Við vonum að sem flestir eigi þess kost að koma, nema og njóta.
Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju, Elli, Jónheiður, Hrefna, Dýrleif og Gísli Björn.
LEIKLIST II Kennari er Árni Pétur Guðjónsson Þátttökugjald: 109.000 kr.
Forkröfur: Leiklist I.
Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu.
Námskeiðslýsing:
Leiklist II er grunnnámskeið fyrir leikara, ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I eða eiga að baki sambærilegt nám eða reynslu.
LEIKSTJÓRN III – Framhald af Leikstjórn II
Kennari: Jenný Lára Arnórsdóttir
Þátttökugjald: 109.000 kr.
Forkröfur: Leikstjórn I og II.
Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu. Námskeiðið er framhald af Leikstjórn II sem Jenný Lára kenndi 2022. Þeir ganga fyrir sem sóttu það námskeið eða hafa sótt önnur sambærileg námskeið í leikstjórn
SÉRNÁMSKEIÐ FYRIR LEIKARA – Ex Uno Plures – Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri
Kennari: Björn Ingi Hilmarsson
Þátttökugjald: 109.000 kr.
Forkröfur: Leiklist I og II eða sambærileg menntun og umtalsverð leikreynsla.
Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu.
Sérnámskeið fyrir leikara – Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri (Ex Uno Plures)
Höfundur í heimsókn
Þátttökugjald: 87.000 kr.
Blundar í þér skáld? Ertu að burðast með hugmynd? Áttu hálfskrifað handrit? Vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?
Skólinn býður höfundum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif eins og svo oft áður. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.
Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.
Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!
Þegar Þyrnirós vaknar af aldarlöngum svefni horfist hún í augu við mann sem hún hefur aldrei séð en veit að hún á að elska. Eða hvað? Hver er hún án prinsins? Þarf Mjallhvít að deyja til að verða “hamingjusöm upp frá því” með sínum prinsi – sem hún hefur heldur aldrei séð? Þarf aðeins einn koss til að skapa prinsessu? Er það Chanel dragtin sem gerir Jackie að prinsessu?
Með beittu háði og skörpu innsæi nálgast Nóbelskáldið Elfriede Jelinek goðsagnir og ævintýri um ólíkar prinsessur, tengsl þeirra við prinsa og eigin sjálfsmynd, fordóma og fegurð, dauða og frelsi. Þrír þættir sem tefla fram ólíkum prinsessum: Mjallhvíti, Þyrnirós og Jackie Kennedy.
Una Þorleifsdóttir leikstýrir þremur stórleikkonum, þeim Birgittu Birgisdóttur, Völu Kristínu Eiríksdóttur og Sólveigu Arnarsdóttur, í gegnum skógarþykkni og rósagerði í leit að prinsessunni í okkur sjálfum.
Nýtt leikverk eftir leikhópinn Elefant byggt á einni ástsælustu skáldsögu þjóðarinnar, Íslandsklukku Halldórs Laxness. Í þessari sýningu birtast samskipti og átök aðalpersónanna Snæfríðar Íslandssólar, Arnasar Arnæus, Jóns Hreggviðssonar og Magnúsar í Bræðratungu okkur á nýjan og óvæntan hátt.
Leikhópurinn Elefant samanstendur af ungum íslenskum leikurum af blönduðum uppruna. Í gegnum skapandi vinnu með Íslandsklukkuna rannsaka þau stöðu sína í samfélaginu út frá Íslandssögunni, þjóðararfinum og menningarlegum uppruna sínum, í samvinnu við Þorleif Örn Arnarsson, einn af helstu leikstjórum Þjóðleikhússins. Hver erum við, hvaðan komum við og hvert stefnum við?
Leikararnir Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson leiða nú saman hesta sína að nýju. Samstarf þeirra ættu flestir Íslendingar að þekkja því þúsundir hafa í gegnum tíðina séð uppsetningar þeirra og kvikmynd. Nú hins vegar standa þeir saman á sviði í fyrsta skiptið.
PABBINN FINNUR AFANN er að nokkru leiti vísun í leikverkin PABBINN, sem frumsýnt var í Iðnó 2007 og sýnt rúmlega hundrað sinnum um land allt, og AFINN sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu 2011 og einnig sýnt rúmlega hundrað sinnum um landið þvert og endilangt. Í báðum sýningunum sem voru einleikir, ásamt HELLISBÚINN, HOW TO BECOME ICELANDIC og MAÐUR SEM HEITIR OVE sem og kvikmyndinni AFINN skiptu þeir félagar ávallt með sér verkum; á meðan annar lék, leikstýrði hinn. Nú í fyrsta skiptið standa þeir á saman á sviði. Sér til halds og trausts hafa þeir fengið góðvin sinn og vítamínsprautuna Guðjón Davíð Karlsson í leikstjórastólinn. Fyrir utan miklar vinsældir á Íslandi hafa sýningarnar PABBINN og AFINN verið sýndar í yfir tuttugu löndum á undanförnum árum og notið mikilla vinsælda.
PABBINN FINNUR AFANN er glænýtt íslenskt verk sem er í senn mjög fyndið og hjartnæmt. Verkið segir frá tveimur mönnum (pabba og afa) á leið í golf til Tenerife, en vegna seinkunar þurfa þeir að hanga í marga klukkutíma á Keflavíkurflugvelli. Gríðarleg flughræðsla afans og erfiðleikar í hjónabandi pabbans, ásamt áskorunum í barnauppeldi, endalausum tækninýjungum og óumflýjanlegum eftirlaunaaldri eru aðeins nokkur af þeim krefjandi málum sem þeir félagar þurfa að kljást við á vellinum. Eins og við er að búast munu þeir félagar spretta úr spori (ekki síst í hlutverkum töframannanna Siegfried & Roy) og líklegt að áhorfendur munu tárast, af bæði hlátri og gráti.
Höfundur: Bjarni Haukur Þórsson Leikarar: Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson Leikstjóri: Guðjón Davíð Karlsson Tónlist og leikhljóð: Frank Hall Ljósahönnun: Kjartan Darri Kristjánssson Hreyfimyndahönnun: Steinar Júlíusson Aðstoð við myndskreytingu: Natalia Bucior og Júlía Ósk Steinarsdóttir Leikmunir: Eva Björg Harðardóttir Tæknistjórn: Óðinn Eldon Framleiðsla: Íslenska leikhúsgrúppan ehf.
Sérstakar þakkir: RÚV, Þjóðleikhúsið og Jón Þorgeir Kristjánsson
Sigurður Sigurjónsson og Guðjón Davíð Karlsson taka þátt í uppfærslunni með góðfúslegu leyfi Þjóðleikhússins
Leikfélag Hörgdæla setur nú upp gamanleikritið Stelpuhelgi eftir Karen Schaeffer í þýðingu Harðar Sigurðarsonar. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi gamanleikur er settur á svið á Íslandi en verkinu hefur gengið vel víða erlendis. Stelpuhelgi er stórskemmtilegur farsi þar sem vinkonurnar Meg, Carol og Dot ásamt Ellie dóttur Megs hittast í bústað eina helgi til að brjóta upp hversdagsleikann.
Vinkonurnar Dot og Meg, báðar nýlega fráskildar, stofna bókaklúbb til þess að kynnast fólki. Þegar þær auglýsa eftir fleiri meðlimum er Carol sú eina sem sækir um og fær inngöngu. Bókaklúbburinn ákveður eina vetrarhelgina að fara í bústað. Markmið helgarinnar er að skemmta sér, skiptast á sögum, drekka áfengi, borða góðan mat og fara yfir næstu bók í bókaklúbbnum, lausar við alla karlmenn. Plönin fara út um gluggann þegar gengur á áfengið og vinkonurnar eru allar búnar að bjóða hver sínum karlmanninum til sín í bústaðinn, hvert á hugmyndir gestgjafans. Hasarinn verður yfirgengilegur þegar óveður, áfengi, lögreglan, stigi, eiturlyf og graðir makar flækjast inn í söguna.
Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Björn Guðmundsson. Hann er margreyndur leikstjóri sem hefur leikstýrt á fjórða tug leiksýninga víða um land. Eins hefur hann verið iðinn við kvikmyndagerð en hann leikstýrði Áramótaskaupinu árin 2009-2012. Ásamt því leikstýrði hann kvikmyndunum Astrópíu, Gauragangi og Ömmu Hófí. Gunnar Björn hefur aðallega fengist við grín og barnaefni á sínum langa leikstjóraferli.
Leikfélag Hördæla var stofnað árið 1997. Saga leiklistar í Hörgárdal er þó mun lengri. Bindindisfélagið Vakandi og leikdeild Ungmennafélags Skriðuhrepps höfðu staðið fyrir leiksýningum allt frá 1928. Leikfélag Hörgdæla og fyrirrennarar þess setja reglulega upp leiksýningar á félagsheimilinu Melum í Hörgárdal sem er lítið en hlýlegt hús sem var byggt árið 1934 og tekur rúmlega 100 manns í sæti og hafa þær sýningar getið sér gott orð til að mynda Með fullri reisn sem var sett upp árið 2011 og síðan í fyrra Í fylgd með fullorðnum þannig að það verður enginn svikinn af heimsókn á Mela.
Melar eru rúma 20 km frá Akureyri. Húsið opnar hálftíma fyrir sýningu og er sýningin sjálf um það bil tvær klukkustundir.
Þorleifur Aron, kallaður Doddi, fráskilinn karlmaður á fimmtugsaldri og Óli Gunnar, yngri bróðir hans hittast til að horfa á alla leiki Manchester United saman í sófanum. Leikir enska liðsins er fastinn sem gefur lífi þeirra lit en einnig sá tími sem þeir geta eytt saman og fengið frið frá amstri dagsins. Yfir leiknum fá tilfinningar þeirra lausan tauminn og í gegnum leikinn fá þeir útrás auk þess sem óhófleg drykkja þeirra er réttlætanleg.
Þennan tiltekna laugardag sem verkið gerist bregður út af vananum er Benedikt Hafberg, hinn nýji kærasti barnsmóður Dodda ásamt söngvaranum Valdimar bætast óvænt við hópinn að horfa á leikinn. Spennan innan sem utan vallar eykst sem því nemur og úr verður óútreiknanleg atburðarás sem spannar 90 mínútur. Því líkt utan vallar sem innan þá getur allt gerst í heimi knattspyrnunnar.
Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar er sýning fyrir alla sem elska og hata fótbolta.
Leikstjóri: Viktoría Blöndal
Leikarar: Albert Halldórsson, Ólafur Ásgeirsson, Starkaður Pétursson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Valdimar Guðmundsson.
Tónlist: Valdimar Guðmundsson
Handrit: Sveinn Ólafur Gunnarsson & Ólafur Ásgeirsson
Hugmynd: Albert Halldórsson, Ólafur Ásgeirsson, Viktoría Blöndal.
Aðstoð við handrit: Sviðslistahópurinn Alltaf í boltanum
Sviðsmynd & búningar: Sólbjört Vera Ómarsdóttir
Lýsing Ásta Jónína Arnardóttir og Juliette Louste
Myndbönd: Ásta Jónína Arnardóttir
Dramatúrg: Lóa Björk Björnsdóttir
Sviðshreyfingar: Erna Guðrún Fritzdóttir
Starfsnemi: Ragnhildur Birta.
Leikarar á upptöku: Birgitta Birgisdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson.