Þjóðleikhúsið efnir til listamannaspjalls með leikaranum ástsæla Jonathan Pryce. Samtalið fer fram rafrænt, fimmtudaginn 17. desember kl. 13 og mun standa í u.þ.b. 90 mínútur. Jonathan Pryce hefur verið í hópi ástsælustu leikara heims um áratuga skeið. Hann er mikilsvirtur sviðsleikari auk þess sem hann hefur leikið í vinsælum stórmyndum. Hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir leik sinn. Á ferli sínum hefur hann unnið með mörgum af fremstu leikstjórum heims, þar á meðal með Peter Brook.
Meðal sviðsverka sem hann hefur verið í burðarhlutverkum í eru Hamlet, Comedians, Miss Saigon, Macbeth, Les Miserables, Oliver! og My Fair Lady. Hann hefur meðal annars leikið í Game of Thrones, The Two Popes, The Age of Innocence, Glengarry Glen Ross, Evita, Tomorrow Never Dies og nú nýlega var tilkynnt að hann tæki við hlutverki Filippus prins í síðustu tveimur þáttaröðunum af The Crown.
Gísli Örn Garðarsson leikstjóri mun stýra samtalinu við Pryce. Þjóðleikhúsið býður leikhúsáhugafólki sem hefur áhuga að taka þátt sér að kostnaðarlausu. Áhugasamir sendi beiðni um þátttöku á netfangið midasala@leikhusid.is og þar er einnig velkomið að senda inn tillögur að spurningum fyrir leikarann góðkunna. Þátttakendur fá svo senda rafræna slóð til að fylgja og taka þátt.
Í nóvember stóð Þjóðleikhúsið fyrir tveimur tveggja daga masterclass-námskeiðum fyrir leikstjóra með hinum heimsþekkta leikstjóra Yael Farber. Sem kunnugt er vinnur hún nú að uppsetningu á Framúrskarandi vinkona sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu á næsta ári. Þjóðleikhúsið vill stuðla að virkri umræðu um leikhúslistina sem og endurmenntun og fræðslu listamanna okkar.
Boðið verður upp á þrjár skemmtanir á dag næstu tvær helgar fram að jólum þar sem nokkrar ástsælustu persónur Kardemommubæjar ásamt Mikka ref, Ronju ræningjadóttur og Grýla færa gestum og gangandi jólaandann.
Næstu tvær helgar verður haldin aðventugleði á tröppum Þjóðleikhússins fyrir gesti og gangandi. Nokkrar ástsælar persónur úr Kardemommubænum, þau Bastían bæjarfógeti, Soffía frænka og yngsti ræninginn, hann Jónatan, bjóða leikhúsgestum að hitta sig á torginu framan við Þjóðleikhúsið, ásamt öðrum skemmtilegum leikpersónum eins og Mikka ref og Ronju ræningjadóttur. Og það er eins gott að hafa varann á, því hver veit nema sjálf Grýla láti sjá sig! Sýningar á aðventugleðinni eru margar yfir daginn til að stuðla að dreifingu áhorfenda og þeir hvattir til að fylgja gildandi nándartakmörkunum.
Fjörugar leikpersónur sem eru vanar að valsa um leiksvið Þjóðleikhússins, leika, dansa og syngja fyrir fullum sölum áhorfenda, eru farnar að finna til ákveðins einmanaleika í samkomubanninu! Nokkrar þeirra hafa því ákveðið að kíkja út á tröppur leikhússins við Hverfisgötu um helgar nú í desember, heilsa upp á gesti og gangandi og vekja hinn sanna jólaanda í brjóstum okkar.
Höfundur og leikstjóri gleðinnar er Guðjón Davíð Karlsson. Leikarar eru Örn Árnason, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Oddur Júlíusson, Hildur Vala Baldursdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Karl Olgeir Olgeirsson sér um tónlistarstjórn.
Aðventugleðin verður sýnd á laugardögum og sunnudögum, kl. 14, 15 og 16, síðustu tvær helgarnar fyrir jól. Fyrsta sýningin verður laugardaginn 12. desember. Við alla framkvæmd er að sjálfsögðu gætt ýtrustu varúðarráðstafana, í samræmi við tilmæli sóttvarnaryfirvalda og stuðlað er að dreifingu áhorfenda á svæðinu framan við leikhúsið.
Aðventuvagn Þjóðleikhússins kemur með jólin til þín
Farandleikhópur Þjóðleikhússins ferðast með skemmtidagskrá í desember
Heimsækir dvalarheimili, heimili eldri borgara og aðra staði þar sem fólk er innilokað vegna kórónuveirufaraldursins
Eitt fjölmargra samfélagslegra verkefna Þjóðleikhússins til að gleðja og veita andlegan innblástur á tímum samkomutakmarkana
Þjóðleikhúsið bryddar upp á ýmsum skemmtilegum nýjum verkefnum á meðan sýningarhald liggur niðri vegna kórónuveirufaraldursins, til að gleðja landsmenn og stytta biðina þar til leikhúsið getur opnað á ný. Eitt þessara verkefna er „Samt koma jólin“, aðventuvagn Þjóðleikhússins sem ferðast um og færir fólki jólaandann.
Hópur listamanna Þjóðleikhússins keyrir um á sérútbúnum bíl og heimsækir staði þar sem fólk býr við einangrun vegna faraldursins. Fyrir utan húsin er flutt tuttugu mínútna skemmtidagskrá sem yljar og hlýjar á erfiðum tímum. Sungin eru jólalög úr ýmsum áttum, flutt eru jólakvæði og stuttur leikþáttur. Dagskrárinnar má njóta utan húss, á svölum og úr gluggum, en henni verður jafnframt streymt fyrir þá sem ekki geta komið út, og geta þeir þá notið hennar af skjám innan dyra um leið og hún fer fram.
Listrænn stjórnandi verkefnisins er Örn Árnason og með honum í för eru leikararnir Baldur Trausti Hreinsson, Bjarni Snæbjörnsson, Gunnar Smári Jóhannesson, Hákon Jóhannesson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Tónlistarflutningur er í höndum Karls Olgeirs Olgeirssonar. Guðmundur Erlingsson er umsjónarmaður verkefnisins.
Leikhúsbíllinn heimsækir meðal annars dvalarheimili, hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir og félagsmiðstöðvar aldraðra. Meðal þeirra staða sem þegar hafa þegið boð um heimsókn eru Eir, Hrafnista í Hafnarfirði, dvalarheimilið við Norðurbrún, Seltjörn á Seltjarnarnesi, Seljahlíð í Breiðholti, Skógarbær í Árskógum, Hamrar í Mosfellsbæ, Sléttan, Droplaugarstaðir, Borgir í Spönginni og Gerðuberg. Velkomið er að senda óskir um heimsókn á netfangið gudmundure@leikhusid.is og Þjóðleikhúsið reynir eftir föngum að verða við þeim. Stálsmiðjan-Framtak og Jón Snorrason bílstjóri leggja Þjóðleikhúsinu lið við að flytja jólaskemmtunina á milli staða.
Alla fimmtudaga á aðventunni mun Þjóðleikhúsið vera með beinar útsendingar í nýstofnuðu Hljóðleikhúsi og flytja landsmönnum þekktar perlar leiklistarsögunnar í bland við verk sem lítið hafa verið leikin. Útsendingarnar verða í anda hins klassíska útvarpsleikhúss sem Íslendingar þekkja flestir all vel. Dagskráin er klár fram að jólum en alls verða fimm verk leikin. Sem kunnugt er liggur hefðbundið sýningarhald niðri í Þjóðleikhúsinu eins og öðrum sviðslistastofnunum í landinu vegna Covid-19. Þjóðleikhúsið hefur hins vegar efnt til fjölda verkefna á meðan og er hljóðleikhúsið hið nýjasta sem kynnt er. Fyrir jólin verður leik- og grunnskólabörnum boðið á leiksýningar á virkum dögum um leið og aðstæður leyfa – en fleiri ný verkefni verða kynnt á næstunni.
Dagskrá Hljóðleikhússins á aðventu 2020
Fim 19. nóv. kl. 20.00 Valin brot úr Skugga-Sveini, eftir Matthías Jochumsson í leikstjórn Benedikts Erlingssonar Skugga-Sveinn eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson var fyrst sett á svið í Reykjavík árið 1862 og varla hefur nokkurt íslenskt leikrit verið leikið oftar hér á landi. Verkið er alþýðlegur gamanleikur með söngvum og efnið hjátrú, ótti við hið ókunna, ást og hatur. Benedikt Erlingsson gerir hér eigin atlögu að verkinu og Karl Olgeir Olgeirsson sér um tónlistarstjórn. Ólafía Hrönn Jónsdóttir mun leika Skugga Svein og Hilmir Snær mun leika Grasa Guddu. Þess má geta að í undirbúningi er sviðsuppsetning á verkinu á næsta leikári í uppsetningu Leikfélags Akureyrar í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Marta Nordal leikstýrir henni en þar mun Ólafía Hrönn einnig leika Skugga Svein.
Fim. 26. nóv. kl. 20.00 Rung læknir, eftir Jóhann Sigurjónsson í leikstjórn Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur í þýðingu Bjarna Jónssonar. Rung læknir var samið á dönsku árið 1905. Það fjallar um tilraunir Rungs læknis til að finna mótefni gegn berklum og um ástina í lífi hans. Verkið talar sterkt inn í samtímann nú þegar faraldur geisar og vísindamenn eru í óða önn við að þróa bóluefni. Rung læknir hefur aldrei verið sett upp á sviði hér á landi en er af mörgum talið með athyglisverðustu verkum Jóhanns Sigurjónssonar. Vigdís Hrefna Pálsdóttir er nýkomin heim úr meistaranámi í leikstjórn frá Bretlandi og leikstýrir hér sínu fyrsta verki.
Fim. 3. des. kl. 20.00 Nýársnóttin, eftir Indriða Einarsson í leikstjórn Hörpu Arnardóttur Nýársnóttin var fyrst frumsýnd á annan í jólum árið 1907 hjá Leikfélagi Reykjavíkur og var síðar opnunarsýning Þjóðleikhússins árið 1950. Þar segir frá baráttu manna og álfa og er undra- og kynjaveröld verksins mörgum í fersku minni. Hér tekst Harpa Arnardóttir leikstjóri á við verk sem á sértakan stað í hjarta hennar.
Fim. 12. des. kl. 20.00 Dóttir Faraós eftir Jón Trausta í leikstjórn Önnu Maríu Tómasdóttur Jón Trausti er best þekktur fyrir skáldsögur sínar, t.d. Heiðarbýlið og Önnu frá Stóruborg en skrifaði leikritið Dóttir faraós árið 1914. Verkið hefur aldrei verið sett upp en er um margt forvitnilegt verk. Þar segir blind eldri kona barnabörnum sínum sögu um dóttur faraós sem kemur til Íslands í líki sels, Íslendingur verður ástfanginn af henni, stelur hamnum og kyrrsetur hana hjá sér. Verk um manninn í dýrinu og dýrið í manninum. Anna María Tómasdóttir lærði leikstjórn í New York og leikstýrir hér sínu fyrsta verki í Þjóðleikhúsinu.
Fim. 17. des. kl. 20.00 Ævintýri á gönguför eftir Hostrup í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar Þó að alþýðukómedían Ævintýri á gönguför sé dönsk þá er hún hluti af menningarsögu okkar því verkið hefur verið sett upp á Íslandi reglulega í gegnum tíðina við fádæma vinsældir. Það var frumflutt árið 1882 og er eitt mest uppsetta verk íslenskrar leiklistarsögu. Þjóðleikhúsið býður landsmönnum upp á þennan ástsæla gamanleik rétt fyrir jól. Lögin úr verkinu eru landsmönnum mörgum að góðu kunn og er lagið Ég vil fá mér kærustu þeirra þekktast. Karl Olgeir Olgeirsson hefur umsjón með tónlistarflutningnum og fjöldi leikara Þjóðleikhússins tekur þátt í uppfærslunni í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar.
Umsjónarmaður Hljóðleikhússins er Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir, listrænn ráðunautur Þjóðleikhússins.
Þjóðleikhúsið ætlar að galopna dyrnar fyrir börnum og færir þeim jólaandann meðan almennt sýningarhald er takmarkað.
Grunnskólabörnum boðið á Leitina að jólunum Leikskólabörnum boðið á Ég get
Nú næstu vikur verður sýningarhald takmarkað í Þjóðleikhúsinu eins og öðrum sviðslistastofnunum. Þjóðleikhúsið nýtir tímann og galopnar dyrnar fyrir börnum og ungmennum sem geta notið leikhússins með skólum sínum. Sýnt verður á virkum dögum í nóvember og desember í nánu samráði við skólana og að sjálfsögðu með öllum ýtrustu varúðarráðstöfunum í samræmi við tilmæli yfirvalda.
Aðventusýning Þjóðleikhússins Leitin að jólunum hefur notið mikilla vinsælda síðastliðin fimmtán ár, en nú er orðið ljóst að ekki getur orðið af hefðbundnu sýningarhaldi á þessari skemmtilegu sýningu vegna kórónuveirufaraldursins. Í stað þess að fella niður sýningar hefur Þjóðleikhúsið ákveðið að sníða sýninguna sérstaklega að grunnskólahópum, fjölga fyrirhuguðum sýningum umtalsvert og bjóða börnum í 2. bekk grunnskóla á sýninguna.
Leitin að jólunum eftir Þorvald Þorsteinsson var frumsýnd á aðventunni 2005 og hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins. Sýningin hefur unnið sér sess sem ómissandi undirbúningur jólanna í hugum margra, og hefur nú verið sýnd fyrir fullu húsi í 15 ár. Sýningar eru orðnar yfir 370 talsins. Nú verður sýningin sýnd á virkum dögum fyrir grunnskólahópa.
Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar ásamt hljóðfæraleikara leiða börnin inn í ævintýraveröld jólanna, og þau sjá leikþætti um jólin í gamla daga og á okkar tímum. Sönglög Árna Egilssonar við Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum fléttast inn í ævintýrið. Leikstjóri sýningarinnar er Þórhallur Sigurðsson. Ýmsir leikarar hafa farið með hlutverk í Leitinni að jólunum frá upphafi, en að þessu sinni skipta með sér hlutverkum jólaálfanna þau Hallgrímur Ólafsson, Valgerður Guðnadóttir, Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Karl Olgeir Olgeirsson spilar á harmonikku, og fleiri leikarar munu taka þátt í sýningunni.
Elstu deildum leikskóla boðið á Ég get
Ég get er ljóðræn leiksýning, sem fjallar um það sem er mitt, þitt og okkar. Hér kynnumst við tveimur litlum manneskjum sem eru að æfa sig í því að vinna saman. Þær leika sér saman, prófa sig áfram og komast að því hvað gerist þegar forsendum í leiknum er breytt. Stórskemmtileg leikhúsupplifun fyrir börn sem eru að læra á heiminn en sýningin var tilnefnd til Grímuverðlauna árið 2018. Höfundur er Peter Engkvist, leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson og leikarar eru Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Þórey Birgisdóttir.
Þjóðleikhúsið hyggst bjóða upp á fleiri verkefni á næstu vikum meðan á samkomubanni stendur og verða þau kynnt bráðlega. Jafnframt standa yfir æfingar á nokkrum sýningum og starfsfólk leikhússins hlakkar til að geta hafið sýningar á nýjan leik á Kardemommubænum, Upphafi, Kópavogskróniku og Þínu eigin leikriti – Tímaferðalagi.
Leikfélag Fljótsdalshéraðs ákvað síðla sumars að taka áhættu og hefja æfingar á leikriti í miðju veirufári. Fyrir valinu varð hinn vinsæli farsi Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon. Hinn margreyndi Guðjón Sigvaldason var ráðinn sem leikstjóri. Guðjón kom austur í september og hafa æfingar gengið vel og Covid-19 ekki truflað þær. Æfingar eru nú á lokametrunum og frumsýnt verður laugardaginn 31. október á Iðavöllum. Aðeins verða 20 áhorfendur í salnum á hverri sýningu vegna sóttvarnareglna. Áhorfendarými er aðskilið frá rými leikara og tæknihóps í samræmi við sóttvarnareglur. Grímur hafa tengst leiksviðinu í gegnum tíðina en að þessu sinni verða allir áhorfendur í leikhúsinu með grímur og á barnum verður boðið upp á spritt með kaffinu. Sýningar verða með takmörkuðum fjölda áhorfenda í sal og óvíst hvað tekst að sýna margar sýningar. Í ráði er hinsvegar að sýningin verði einnig í boði í stofum landsmanna, þar sem hægt verður að kaupa aðgang að sýningunni á netinu. Þeir sem vilja sjá leikritið á netinu geta sent póst á leikfelagfljotsdalsherads@gmail.com til að panta sér aðgang.
Þrátt fyrir mikla óvissu með leikstarf á yfirstandandi leikári, stefnir Þjóðleikhúsið á val á Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins næsta vor. Þjóðleikhúsið hefir verið í samstarfi við Bandalagið í rúma tvo áratugi með vali á leiksýningu úr smiðju áhugaleikfélaganna sem sérstaka athygli vekur. Í kjölfarið hefur viðkomandi félagi verið boðið að sýna í Þjóðleikhúsinu en síðasta vor kom Covid í veg fyrir valið. Í þeirri von að rofa fari til í kófinu er kemur fram á næsta ár er stefnt á að velja sýningu á vori komanda. Að þessu sinni verður hægt að sækja um fyrir sýningar sem frumsýndar voru í maí 2019 fram til loka umsóknarfrests sem er 20. apríl 2021. Sótt er um á Leiklistarvefnum. Dómnefnd á vegum Þjóðleikhússins mun velja þá sýningu sem nefndin telur sérstaklega athyglinnar virði og verður valið samkvæmt venju tilkynnt á aðalfundi BÍL í byrjun maí.
Í kjölfar þess að samkomubann hefur verið hert hefur Borgarleikhúsið sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu.
Kæru áhorfendur og aðrir velunnarar Borgarleikhússins,
Í ljósi nýjustu frétta og samkvæmt tilmælum frá yfirvöldum hefur Borgarleikhúsið ákveðið að fresta öllum sýningum og viðburðum næstu tvær vikurnar. Þetta á bæði við um þau verk sem þegar eru í sýningum sem og þau sem til stóð að frumsýna á tímabilinu.
Við viljum ítreka að allir miðar eru tryggðir og enginn gestur missir sinn miða. Hér er aðeins um að ræða tímabundna frestun í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Upplýsingar um nýja sýningartíma verða sendar út til allra miðahafa eins fljótt og auðið er.
Við erum öll almannavarnir og Borgarleikhúsið leggur sitt af mörkum í þeirri von að við getum hist aftur í leikhúsinu sem allra fyrst. Við hlökkum til að sjá ykkur.
Með kærri kveðju og þökk fyrir skilninginn, Borgarleikhúsið
Nýir miðar gefnir út á alla leikhúsgesti í samræmi við sóttvarnarreglur
Nú þegar hafa 20 þúsund manns keypt miða á Kardemommubæinn og uppselt er á sýninguna út árið 2020. Þjóðleikhúsið leggur allt kapp á að standa fyrir ábyrgu sýningahaldi og tekur öryggismál og sóttvarnir alvarlega. Eftir óvissu undanfarinna mánaða hefur verið tekin ákvörðun um að fjölga sýningum á Kardemommubænum og endurraða gestum í sæti með færri í hverjum sal en venja er. Er þetta gert til þess að mæta samkomutakmörkunum og tilmælum frá sóttvarnaryfirvöldum. Allir keyptir miðar eru tryggir en núverandi miðar falla úr gildi og gefnir verða út nýir miðar og sendir miðaeigendum. Nýir miðar á nýjar dagsetningar og önnur sæti verða sendir miðaeigendum í tölvupósti á næstu vikum. Það þarf enginn að óttast að miðar glatist. Gera má ráð fyrir að allir hafi fengið nýja miða með tölvupósti í síðasta lagi 15. október.
Nýjar sýningar í janúar eru nú þegar komnar í sölu.
Freyvangsleikhúsið frumsýndi nýja leikgerð á Dagbók Önnu Frank í febrúar á þessu ári en þurfti að hætta sýningum vegna samkomubanns í Covid-19 faraldrinum. Leikfélagið er þó ekki tilbúið að kveðja verkið og býður því upp á nokkrar sýningar á nýju leikári. Verkið verður eingöngu sýnt í október.
Jafnframt mun félagið fylgja settum reglum og gildandi takmörkunum varðandi samkomuhald og því er aðeins takmarkaður sætafjöldi í boði fyrir hverja sýningu.
Miðapantanir eru í síma 857-5598 og á tix.is.
Sýning Freyvangsleikhússins er ný leikgerð og þýðing sem hefur ekki verið sett upp áður hér á landi. Þessi nýja leikgerð inniheldur kafla sem voru ekki birtir í fyrstu útgáfu bókarinnar, Dagbók Önnu Frank, sem verkið er byggt á. Gefa þessir kaflar nánari innsýn inn í hugarheim stúlkunnar. Leikstjóri er Sigurður Líndal og þýðandi er Ingunn Snædal.
Dagbók Önnu Frank er tvímælalaust eitt mikilvægasta bókmenntaverk tuttugustu aldarinnar. Þegar nasistar náðu völdum í Evrópu varð fjöldi gyðingafjölskyldna að yfirgefa heimaland sitt. Þau sem ekki fóru úr landi urðu að fela sig. Þau sem ekki földu sig enduðu í útrýmingarbúðum þar sem þau voru myrt á eins skilvirkan hátt og hægt var. Þessi voðaverk eiga fáa sína líka í mannkynssögunni. En úr þessum jarðvegi, þessu þjóðarmorði, sprettur ein magnaðasta saga sem sögð hefur verið úr nokkru stríði; saga Önnu.
Fyrsta leikgerðin er eftir Albert Hackett og Frances Goodrich, kom út skömmu eftir að Dagbókin sjálf var gefin út og hefur verið leikin um heim allan síðan. Fyrir nokkrum árum var leikskáldið Wendy Kesselman fengin til að uppfæra leikgerð Hackett og Goodrich og var tilnefnd til Tony-verðlaunanna fyrir verkið
Á tíunda áratugnum var Dagbókin sjálf endurútgefin, um þrjátíu prósentum lengri en hún var í upphaflegu útgáfunni sem ritstýrt var af Ottó Frank og útgefendum bókarinnar. Efnið sem upphaflega fékk ekki að vera með í útgáfu dagbókarinnar snerist fyrst og fremst um uppgötvun Önnu á sjálfri sér sem kynveru og um neikvæðar tilfinningar hennar í garð móður sinnar.