Skemmtilegar, sorglegar og fyndnar kvennasögur | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Skemmtilegar, sorglegar og fyndnar kvennasögur

    Vertu svona kona 2

    Vertu svona kona (úr hugarsmiðju Margaret Atwood, Guðfinnu Gunnarsdóttur og leikhópsins)
    Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir
    Elín Gunnlaugsdóttir skrifar

    Allir hafa sína sögu að segja, sérhver kona hefur sína sögu að segja. Þetta er útgangspunktur leikverksins Vertu svona kona sem Leikfélag Selfoss frumsýndi síðastliðinn föstudag. Leikverkið er byggt á textum eftir Margaret Atwood, Guðfinnu Gunnarsdóttur og leikhópsins. Í verkinu er raðað saman textum um konuna, sögu hennar, sögu margra kvenna. Einnig er velt upp hugtökum eins og ást og sýndar mismunandi myndir hennar sem stundum hverfast upp í andstæðu sína.

    Eins og fyrr segir er verkið byggt í kringum texta kanadíska rithöfundarins Margret Atwood (1939). Textarnir eru sóttir í smásagna- eða prósasafn hennar Good Bones (1992). Í safni þessu skoðar Atwood goðsögur og ævintýri með feminískum augum. Hún skoðar hlutverk vondu stjúpunnar, heimsku konunnar og litlu gulu hænunnar og hvernig þessar sögur og goðsagnir hafa mótað hugmyndir okkar um konuna. Textar þessir eru bráðsnjallir og lýsa á kaldhæðinn og fyndinn hátt hlutverki konunnar í gegnum aldirnar. Það er einmitt í þessum textum sem verkið Vertu svona kona rís hvað hæst.

    Allur leikhópurinn hefur stóru hlutverki að gegna í sýningunni og eru margar hópsenur sem settar eru upp með góðri tilfinningu fyrir sviðinu, sviðshreyfingum og möguleikum textans sem stundum var settur fram á kakófónískan hátt (leikendur tala ofaní hvorn annan). Senur þessar eru svo brotnar upp með samtölum og mónólógum (einræðum).

    Leikhópurinn í þessari sýningu samanstendur að mestu af ungum leikurum þó einnig séu þar reyndir leikarar. Ekki er getið í leikskrá um hlutverk einstakra leikara enda stendur og fellur verkið með öllum leikhópnum og verður ekki annað sagt en að hann standi sig vel. Þeir leikarar sem fluttu einræður voru einnig mjög sannfærandi og hvað eftirminnilegastar af þeim voru einræður litlu gulu hænunnar og heimsku konunnar.

    Öll umgjörð verkins er úthugsuð, lungað úr sýningunni stendur rauður sófi á sviðinu og að baki honum upplýstur bakgrunnur sem skiptir um lit eftir því sem við á. Leikmunir eru á hillum sín hvoru megin við sviðið og bækur standa í stöflum bakatil á sviðinu. Bækurnar koma svo alltaf meira og meira við sögu eftir því sem líður á sýninguna. En eins og allir vita geyma bækurnar okkar sögu.

    Búningarnir í sýningunni undirstrika að í verkinu er ekki verið að draga upp mynd af konum og körlum sem einstaklingum heldur sem hópi. Konurnar eru í hvítum kjólum, með rauða svuntu og karlarnir eru í svörtu. Þegar endalokin nálgast taka þær af sér svunturnar og verða þá berskjaldaðri. Það má í raun segja að rautt sé litur sýningarinnar því oft eru ljósin líka rauð. Ég læt aðra um að túlka það litaval.

    Tónlistin skipar stóran sess í sýningunni og er hún valin eða samin af Kristjönu Stefánsdóttur. Í fyrstu er tónlistin einföld, en þegar líður á verður hún flóknari og margræðari og styður þannig vel við dramatíska uppbyggingu verksins. Einkar áhrifamikil var tónlistin í kaflanum um Dauðann en þar leikur Kristjana sér með þekkta aríu úr óperunni Dido og Aeneas eftir H. Purcell. Megin texti þessarar aríu er ,,Remember me…” og áttu þau orð einkar vel við á þessum stað.

    Það verður því ekki annað sagt en að hér hafi verið vandað til allra verka og Vertu svona kona er metnaðarfull sýning um staðalmyndir og stöðu konunnar. Sýningin höfðar til allra skilningarvita og fær mann um fram allt til að hugsa.



    loading

    Takk fyrir að skrá þig!