Kardemommubærinn á 70 ára afmælisári Þjóðleikhússins | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Kardemommubærinn á 70 ára afmælisári Þjóðleikhússins

     

     

     

     

     

     

     

    Þjóðleikhúsið sýnir Kardemommubæinn á 70 ára afmælisári.

    Þjóðleikhúsið mun fagna 70 ára afmæli sínu á næsta leikári og af því tilefni verður Kardemommubærinn, eftirlætisleikrit íslenskra barna, settur á svið. Miðasala hefst í haust. Aðsókn í Þjóðleikhúsið á síðasta ári var sú mesta í 40 ár og það sem af er árinu 2019 hefur gestafjöldi aukist enn meira.

    Verk norska listamannsins Thorbjörns Egners hafa verið samofin starfi Þjóðleikhússins allt frá því að Kardemommubærinn var frumsýndur hér árið 1960. Skáldskapur Egners rataði beint að hjarta íslenskra barna og Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi hafa verið sett á svið á Stóra sviði Þjóðleikhússins reglulega allar götur síðan, enda verður hver kynslóð að fá að sjá sinn Kardemommubæ! Verkið er nú sett upp í Þjóðleikhúsinu í sjötta sinn, og er við hæfi að það sé afmælissýning Þjóðleikhússins á 70 ára afmæli þess, enda hefur Þjóðleikhúsið alla tíð lagt sérstaka áherslu á veglegar barnasýningar. Er þar skemmst að minnast hinnar geysivinsælu sýningar Ronju ræningjadóttur, sem var sýnd nær 100 sinnum á þessu leikári, og verður aftur tekin til sýninga í haust og hinnar nýstárlegu sýningar Þitt eigið leikrit I – Goðsaga, en báðar hafa þær verið tilnefndar til Grímunnar 2019 sem barnasýning ársins.

    Kardemommubær er hreint indæll bær, fullur af skemmtilegum dýrum og litríkum íbúum. En þrennt ógnar þó friðsældinni í bænum, þrír kostulegir ræningjar, ógurlega ljónið þeirra sem elskar mjólkursúkkulaði og hin ráðríka og skapstygga Soffía frænka! Þegar ræningjarnir láta sér detta í hug að ræna sjálfri Soffíu frænku til sjá um húsverkin færist nú heldur betur fjör í leikinn. Fjöldi leikara, barna og tónlistarmanna tekur þátt í þessari bráðskemmtilegu og kraftmiklu sýningu, þar sem yndislegu sönglögin hans Egners gleðja jafnt ung og gömul hjörtu!

    Örn Árnason fer með hlutverk Bastíans bæjarfógeta. Hann leikur nú í sjöunda sinn í leikriti eftir Egner í Þjóðleikhúsinu og hefur áður leikið alla ræningjana þrjá! Faðir hans, Árni Tryggvason, lék Bastían bæjarfógeta árið 1974, en Árni lék í alls sex Egner-sýningum á leikferli sínum, og var hinn eini sanni Lilli klifurmús í augum margra kynslóða.

    Höfundur: Thorbjörn Egner. Þýðandi : Hulda Valtýsdóttir. Þýðing söngtexta: Kristján frá Djúpalæk. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Leikmynd: Högni Sigurþórsson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Tónlistarstjórn: Karl Olgeirsson

    Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson og Oddur Júlíusson (ræningjarnir), Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir (Soffía frænka), Örn Árnason (Bastían bæjarfógeti), Þórhallur Sigurðsson (Tobías í turninum) og fleiri.



    loading

    Takk fyrir að skrá þig!