september | 2022 | Leikhus.is

    Leikhúsleikurinn í boði Kol restaurant

    Nafn:

    Netfang:

    Fæðingarár:

    Símanúmer:

    Kyn:

    KarlKona

     
    Á hvaða tíma er leikhústilboð Kol? - Smellið hér til að finna svarið.

    Svar:

     
    Vinningurinn í leikhúsleiknum er:

    Gjafabréf í leikhús fyrir tvo og 20.000 kr. gjafabréf á Kol restaurant

    Drögum einn heppinn þann 22. apríl 2015. Þeir sem taka þátt í leikhúsleiknum eru sjálfkrafa skráðir sem vildarvinir leikhús.is og fá send fréttabréf með fréttum úr leikhúslífinu og ýmis tilboð.

     


    Archive from september, 2022

    Pínulitla Mjallhvít

    sep 25, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Leikhópurinn Lotta verður í Tjarnarbíói með Pínulitlu Mjallhvíti – aðeins tveir sýningardagar!

    Vart þarf að kynna Leikhópinn Lottu, sem hefur ferðast um landið í sextán ár með metnaðarfulla söngleiki fyrir börn á öllum aldri. Vegna Covid faraldursins þurfti hópurinn að draga seglin örlítið saman undanfarin tvö ár en sat þó ekki auðum höndum. Í sumar fóru þau um landið með þrjátíu mínútna sýningu unna upp úr sýningunni „Mjallhvít og dvergarnir sjö“ sem hópurinn setti upp fyrir ellefu árum við góðar viðtökur. Sagan hefur verið sett í glænýjan búning, henni breytt örlítið til að standast tímans tönn og bera út fallegan boðskap eins og Lottu er von og vísa.

    Nú gefst tækifæri til að sjá þessa bráðskemmtilegu sýningu á fjölum Tjarnarbíós.
    Pínulitla Mjallhvít var einungis sýnd á einkaviðburðum í sumar og því eru eflaust margir sem fagna því að geta fengið sinn árlega Lottuskammt.
    Sýningarfjöldi verður mjög takmarkaður svo það er um að gera að tryggja sér miða strax!

    Handrit og leikstjórn: Anna Bergljót Thorarensen
    Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Þórunn Lárusdóttir.

    Leikfélag Hveragerðis setur upp Benedikt búalf

    sep 24, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    Leikfélag Hveragerðis varð 75 ára fyrr á árinu, en félagið var stofnað 23 febrúar 1947 og í tilefni þessa stórafmælis var ákveðið að setja upp ævintýrið um Benedikt búálf hinn geðþekka og ævintýri hans. Leikritið er unnið upp úr fyrstu bókinni um Benedikt búálf en höfundur sögunnar er Ólafur Gunnar Guðlaugsson. Tónlistina samdi Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson en söngtextana sömdu þau Andrea Gylfadóttir og Karl Ágúst Úlfsson.
    Verkið hefst á því að Dídí mannabarn rekur augun í Benedikt, þar sem hann stendur nýkom úr baði með handklæði um sig miðjan í  baðherberginu hennar. Búálfar eru nefnilega aðeins sýnilegir mannabörnum þegar þeir eru blautir! Örlög búálfa eru með þeim ósköpum að þegar þeir verða mannabörnum sýnilegir, þá ráða mannabörnin hvað verður um þá.
    Benedikt og Dídi verða hinsvegar góðir vinir og lenda í miklum ævintýrum og mikilli hættu í Álfheimum. Allt fer þó vel að lokum eins og vera ber í góðum ævintýrum.

    Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Gunnsteinsson. Danshöfundar eru Maria Araceli og Baldvin Alan Torarensen. Frumsýning verður laugardaginn 24 sept. Sýningar eru svo áætlaðar í október og nóvember.

    Sýnt verður í Leikhúsinu Í Hveragerði að Austurmörk 23.

    Sem á himni

    sep 16, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Sem á himni er nýr söngleikur sem sýndur er í Þjóðleikhúsinu.

    Sem á himni er einstaklega heillandi, splunkunýr söngleikur sem leikur á allan tilfinningaskalann. Ægifögur tónlist, litríkar og skemmtilegar persónur og hrífandi saga hafa nú þegar heillað fjölda áhorfenda erlendis, og nýjar uppsetningar á verkinu eru væntanlegar víða.

    Söngeleikurinn er byggður á samnefndri sænskri bíómynd.

    Verkið gerist í litlu samfélagi á landsbyggðinni þar sem allir þekkja alla, og hver hefur innsýn í annars gleði og sorgir. Þegar heimsfrægur hljómsveitarstjóri, á hátindi ferils síns, sest óvænt að í þorpinu til að draga sig út úr skarkala heimsins þykir ýmsum tilvalið að fá hann til að stýra kirkjukórnum. Þessi maður á sér sársaukaþrungin leyndarmál, en þegar tónlistin fer að óma af nýjum og áður óþekktum krafti í litla samfélaginu byrjar að losna um margt og lífið tekur óvænta stefnu. Hrífandi og átakamikil saga um hin sönnu verðmæti í lífinu, gildi vináttunnar og ástina.

    Gríðarstór hópur listafólks tekur þátt í uppsetningunni, alls um 40 manns, þar af tólf manna hljómsveit. Í aðalhlutverkum verða þau Elmar Gilbertsson, Salka Sól, Valgerður Guðnadóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hinrik Ólafsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir.

    Elmar Gilbertsson hefur sungið aðalhlutverk í virtum óperuhúsum og tónleikasölum víðs vegar um Evrópu, og hefur tvívegis hlotið Grímuverðlaunin og Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins. Meðal leikstjórnarverkefna Unnar Aspar eru hinar geysinsælu sýningar Vertu úlfur og söngleikurinn Mamma Mia!

    Söngleikurinn Sem á himni er byggður á geysivinsælli samnefndri sænskri bíómynd sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna árið 2004.

    Hið stórfenglega ævintýri um missi

    sep 13, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Hið stórfenglega ævintýri um missi verður frumsýnt 23. september í Tjarnarbíói

    Að missa ástvin er einhver sú erfiðasta, fallegasta og flóknasta lífsreynsla sem við göngum í gegnum. Hún er óumflýjanlegur hluti þess að lifa og elska. Flest munum við upplifa missi. Nema auðvitað ef við verðum svo heppin (eða óheppin) að vera fyrst til að fara. Þið vitið, því við munum auðvitað öll deyja. Ekkert okkar flýr köldu fjötra tímans.

    Hið stórfenglega ævintýri um missi er grátbrosleg, einlæg og drepfyndin sýning um það hvað það er sem við söknum þegar við missum ástvin. Við förum ósjálfrátt að líta til baka og gera upp fortíðina. Hverju viljum við muna eftir? Viljum við tala um hið sára og ljóta eða ætlum við bara að halda uppi fullkominni mynd af manneskjunni sem við misstum? Leikkonan Gríma og hennar besta vinkona, trúðurinn Jójó, eiga samtal um reynslu Grímu af missi og fara um víðan völl. Þær tala um fortíð, framtíð, foreldra, sorg og gleði. Um óttann við að allir komist að því að þau sem Gríma missti voru ekki fullkomin. Um það að gamlir menn eigi ekki að eignast börn. Um það ótrúlega augnablik þegar maður áttar sig á því að ekkert skiptir meira máli en fólk, tengsl og ást.

    „Það verður auðvitað að kíkja svo á eitthvað krassandi og dramatískt til að gera góða sýningu. Eins og þegar mamma þín bað læknana um að klippa á eggjastokkana um leið og þú varst tekin með keisara af því hún vildi alls ekki eignast fleiri börn. Segir ákveðna sögu“ – Jójó

    Aðstandendur sýningarinnar:

    Leikstjórn: Rafael Bianciotto
    Höfundur: Gríma Kristjánsdóttir og hópurinn
    Leikkona: Gríma Kristjánsdóttir
    Tónlist: Þórður Sigurðarson
    Leikmynda- og búningahönnun: Eva Björg Harðardóttir
    Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson
    Aðstoðarleikstjórn: Halldóra Markúsdóttir
    Ljósmyndun og grafísk hönnun: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
    Myndataka og klipping: Árni Beinteinn
    Markaðsstjórn: Martin L. Sörensen

    Bara smástund

    sep 13, 2022   //   by gunnarandri   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir
    Bara smástund er sprenghlægilegur gamanleikur sem er frumsýndur 23. sept.

    Michel sér fram á ljúfan laugardag í ró og næði og tækifæri til að hlusta á mjög sjaldgæfa og goðsagnakennda djassplötu sem hann hefur fundið á markaðnum, en það virðist ekki eiga að verða. Natalie, eiginkona hans vill ræða son þeirra, Sebastien, sem vill láta breyta nafni sínu í Fucking Rat, og henni finnst líka tími til kominn að horfast í augu við gamlar syndir úr sambandinu; hjákonan er þjökuð af samviskubiti og vill ljóstra upp um hliðarspor Michels, framkvæmdirnar á baðherberginu eru að fara úr böndunum, það lekur niður til nágrannans og iðnaðarmaðurinn reynist ekki allur þar sem hann er séður.

    Sprenghlægilegur gamanleikur eftir eitt þekktasta leikskáld Frakka, sem sópað hefur til sín verðlaunum að undanförnu fyrir handrit sitt að kvikmyndinni Faðirinn sem hann leikstýrði einnig.

    Elfar Logi Hannesson

    sep 13, 2022   //   by admin   //   Uncategorized  //  Engar athugasemdir

    VIÐTALIÐ: BAK VIÐ TJÖLDIN


    Hver ert þú og hvað ertu að gera í dag?
    Sitt af hvoru kómískt. Aðalverkið er uppsetning á nýrri kómedíu, Tindátarnir, sem er byggt á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Hér erum við að feta nýjar slóðir í okkar kómedíu því þetta er skuggabrúðuleiksýning, það höfum við ekki fengist við áður. Leikstjóri er Þór Tuliníus og frumsýnt
    verður 30. september í Kómedíuleikhúsinu Haukadal.

    Í hvaða stjörnumerki ertu?
    Vatnsberi einsog Alice Cooper erum meira að segja fæddir sama dag þó ekki
    ár þar skeikar nokkrum.

    Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?
    Kúreki enda er ég alinn upp í vestrinu eina. Þegar ég var sex vetra lék ég eitt af Grýlubörnunum á Þrettándagleði Leikfélagsins Baldurs á Bíldudal þá lagði ég kaboj vestið á hilluna og hef síðan bara leikið mér.

    Hver er þinn helsti kostur og helsti galli?
    Vá örugglega heill hellingur. Ég er alinn þannig upp að betra sé að segja já en nei við vanda hverjum. Held það geti verið meiri kostur en galli enda er ekki vandamál heldur bara lausnir að huxa með opinn haus finnst mér gaman. Einsog flestir Arnfirðingar þá er ég þrjóskur það getur verið galli á stundum. En stærsti gallinn er líklega að ég framkvæmi oft áður en ég huxa.

    Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
    Sushi sérlega hið vestfirska frá Jötunn átvagni.

    Hvaða sýningu sástu síðast í leikhúsi?
    Síðast sá ég slatta af sýningum á þremur dögum það var á Act alone
    leiklistarhátíðinni á Suðureyri. Allar voru þær einstakar og erfitt að gera uppá milli. Stutta svarið er að þær fengu mann allar til að huxa hver á sinn hátt, stundum leiklega séð, stundum tæknilega séð og þetta var bara hin frábæra endurmenntun.

    Hvaða áhugamál áttu þér?
    Er svo einfaldur að það er bara vinnan, leikhúsið. Að viðbættum listum og þá sérlega myndlist. Í dag sæki ég mikið í myndlistarsýningar sem kveikja ávallt hressilega uppí sköpunarkollinum. Síðast en ekki síst er það lestur fer aldrei að sofa nema lesa fyrst og allra best finnst mér að lesa nokkrar bækur í einu.

    Hvernig tónlist hlustar þú mest á?
    Nokk fjölbreytt þegar þetta er párað er ég að hlusta á Hörð Torfa á vinyl. Á vinnustofunni er ég nánast alltaf með einhverja músík á. Svo er bara spurning hvað er undir nálinni eða á Spottifæinu eftir því hvað maður er að gera. Ef ég er að skrifa t.d. þá er ekki séns að ég geti hlustað á Tom Waits, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Nei, þá verð ég bara að hlusta á eitthvað eitís helst hina norsku A-ha. Þegar ég er að lesa þá finnst mér best að hlusta á klassíska músík og þá helst Mahler.

    Hvað fer mest í taugarnar á þér?
    Tuð og neikvæðni. Þegar þannig stemmari er einhversstaðar þá fer ég bara í göngutúr.

    Hver er þinn uppáhaldsstaður á Íslandi?
    Haukadalur í Dýrafirði. Þar er engin klukka og einstök kyrrð.

    Hver er þinn uppáhaldsstaður erlendis?
    Freðriksberg í Danmörku. Við hjónin bjuggum þar þegar ég var að mennta
    mig til leikara. Ætlum að vera með annan fótinn þar í einhverri framtíð.

    Flytja til London eða New York?
    London.

    Eiga hund eða kött?
    Kött.

    Borða heima heima eða úti daglega?
    Heima.

    Finnst þér betra að vinna á morgnanna eða kvöldin?
    Morgnana.

    Hvort drekkurðu bjór eða vín með matnum?
    Vín.

    Hvort finnst þér skemmtilegra að lesa eða horfa á sjónvarp?
    Lesa.

    Hvort manstu betur: Nöfn eða andlit?
    Andlit.

    Veldu: Sturtu eða bað?
    Sturtu.

    Veldu: RÚV eða Stöð 2?
    Rúv.

    Ef þú ættir að lýsa þér í einu orði – hvaða orð væri það?
    Fallegaljótur.

    Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
    Lífið er bjútífúl einsog ítalski snillingurinn Roberto Benigni sagði svo sannlega.

    loading

    Takk fyrir að skrá þig!